Þjóðin þarf mömmu
25.2.2007 | 18:37
Á laugardaginn sótti ég ársfund kvennarhreyfingar Samfylkingarinnar sem haldinn var á hótel Loftleiðum. Margar konur mættar til leiks, góð stemning og fjörlegar umræður. Um kvöldið gerðum við okkur glaðan dag yfir kvöldverði ég í hlutverki veislustjóra að þessu sinni - enn meira fjör og enn fjörlegri umræður.
Það er endurnærandi að hitta gáfaðar og skemmtilegar konur víðsvegar að og eiga með þeim stund í glaðværum hópi. Ræða stjórnmál, kvenréttindi, velferðarmál, þjóðfélagsþróun gera saklaust grín að sjálfum sér og öðrum, skiptast á skoðunum og reynslusögum, hlæja. Svona trúnó stemning án þess þó að mærðin eða værðin fari úr hófi. Eftir situr góð tilfinning ýmsu ólokið og mörg vígi að vinna, vissulega en aukið baráttuþrek og skýrari sýn á verkefnin framundan. Þannig er það bara.
Þarf þjóðin landsfeður?
Ég fór að hugsa um það eftir þessa ánægjulegu samveru með samfylkingarkonunum á laugardagskvöldið hvers þjóðin þyrfti við um þessar mundir. Hugurinn reikaði ósjálfrátt aftur í stjórnmálasöguna, til allra landsfeðranna sem við sjáum á svarthvítum myndum í Íslandssögubókum.
Af lestri þeirra bóka má ýmislegt læra um þróun samfélagsins undanfarnar aldir. Þó rúma þær engan veginn allar breytingarnar sem orðið hafa á íslenskum þjóðfélagsháttum, svo ör sem þróunin hefur verið. Ekki er saman að jafna lífskjörum og tækifærum fólks í dag eða við upphaf síðustu aldar. Hinsvegar hafa þjóðfélagsbreytingarnar líka tekið sinn toll. Tæknidýrkun, neysluhyggja, skeytingarleysi markaðsafla fyrir samfélagslegum gildum, náttúruauðlindum og mannauði, eru bara örfá dæmi um þær vár verjast þarf.
Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og barátturþek
til þess að vinna Íslandi allt eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir eru komnir til starfa í stórfyrirækjum og farnir í úrásir erlendis og þeim fækkar stöðugt sem horfa umhyggjuaugum á landið sitt.
Ég held satt að segja að tími landsfeðranna sé liðinn þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig en hver ætlar að sjá um fólkið?
Þjóðin þarf mömmu.
Það er tími til kominn að leiða umhyggjuna til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin þarf ekki fleiri landsfeður. Þjóðin þarf mömmu, svo ég vitni til orða flokksbróður míns, Guðmundar Steingrímssonar sem hann lét falla á fundi hér fyrir vestan nýlega. Mæli hann manna heilastur. Það sem íslensk þjóð þarf sárlega á að halda um þessar mundir er einmitt umhyggja.
Þau vita það sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma, áfalla, vanrækslu, ellihrörnunar, fátæktar eða atvinnuleysis svo dæmi séu tekin. Þau vita það sem standa frammi fyrir kerfinu og bíða úrlausnar mánuðum, jafnvel árum saman. Við vitum það sem fylgjumst með fréttum af málefnum öryrkja, lesum um hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu, verðum vitni að ráðaleysi í skólakerfinu, misréttinu á vinnumarkaðnum eða arðsemisákvörðunum stórfyrirtækja svo einungis fátt eitt sé upp talið af öllu því sem aflaga hefur farið í samfélagi okkar.
Nú er verk að vinna
Í fyrsta skipti frá upphafi lýðveldis stöndum við frammi fyrir því sögulega tækifæri að geta leitt konu til valda sem forsætisráðherra. Sú kona hefur sýnt og sannað við ótal tækifæri að hún hefur bæði hugrekki og heiðarleika til þess að vinna þau verk sem vinna þarf. Hún talar hreint út, hún stendur við orð sín og hún hikar ekki við að skoða hluti í nýju ljósi ef aðstæður breytast. Hvers vegna? Vegna þess að Ingibjörg Sólrún ber umhyggju fyrir landi sínu og þjóð hún er nefnilega kona sem gegnt hefur bæði móðurhlutverki á heimili og forystuhlutverki í opinberu lífi. Hún býr yfir þeim samþætta streng sem góður stjórnmálaleiðtogi þarf að hafa.
Við megum ekki láta þetta tækifæri úr greipum renna.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:40 | Facebook
Athugasemdir
Þjóðin þarf EKKI ,,mömmu" til að ofurselja sig erlendu valdi. Ingibjörg Sólurún
virðist tilbúin til að slaka verulega á íslenzku fullveldi og sjálfstæði með því að
TROÐA Íslandi inn í Evrópusambandið. Nei, slíkan þjóðarleigtoga þarf Ísland
ekki!
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 25.2.2007 kl. 20:25
Kæra Ólína.
Það er alveg rétt hjá þér að tími landsfeðranna er liðinn og það má vel halda því fram að tími mæðranna sé runninn upp, en Ingibjörg Sólrún nei takk.
"Arfek" Ingibjargar í borginni gerðu það að verkum að fólk glataði trúnni á hana. Síðan þá hefur álit fólks á henni ekki aukist eins og kemur fram í skoðanakönnunum og ræðan hjá LíÚ var nú ekki til að auka hróður hennar, síður en svo.
Mér hefur alltaf þótt þú frekar skynsöm og þess vegna er ég mjög hissa að þú skulir tala svona.
Ég verð hins vegar að játa það að eins og er kem ég ekki auga á neinn hvorki "föður" né "móður" sem væri þess megnugur veita næstu ríkistjórn forstöðu, því miður.
Þóra Guðmundsdóttir, 25.2.2007 kl. 21:09
Vaá! Þetta er eimitt það sem vantar á Íslandi, konu til að stjórna, breyta landslaginu og engin er betri til þess um þessar mundir en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. þar er ég fullkomlega sammála. Víst þurfum við mömmu frekar en pabba, pabbar eru búnir að vera í bili, þeir mega taka sér leyfi og mömmurnar geta komið í þeirra stað og pabbarnir mega vera með í næsta leik. Nú á mömmuleikurinn að vera alvöru!
Edda Agnarsdóttir, 25.2.2007 kl. 22:16
Ég er eiginlega sammála Guðmundi hér að ofan. Verði Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra getum við kysst sjálfstæði Íslands endanlega bless. Við erum mörg sem viljum ekki fara í svo náin tengsl við ESB þó við viljum eiga mikil og góð samskipti og viðskipti við bandalagið.
Haukur Nikulásson, 25.2.2007 kl. 22:46
Það keppast allir við að gefa Ingibjörgu einhver auka stig fyrir það eitt að vera kona - það að vera kona gerir hana sko sannarlega ekki að góðum leiðtoga og hún hefur á ferli sínum sínt fram á að henni er alls ekki treystandi til að stjórna landinu og hefur valdahroki hennar verið mjög áberandi í hennar samskiptum og framkomu. Allir þurfa að eiga góða móður en við þurfum alls ekki á Ingibjörgu að halda sem forsætisráðherra
Harpa (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 00:04
Þeir sem eru að tala um að Ísland missi sjálfstæði sitt ættu nú að kynna sér málin betur. Veit ekki til þess að nein þjóð í Evrópu hafi misst sjálfstæði sitt við að ganga í ESB. Sé ekki að Svíþjóð eða Finnland séu ekki sjálfstæð. Maður er nú að verða þreyttur á þessari vitleysu.
Magnús Helgi Björgvinsson, 26.2.2007 kl. 00:12
er hjartanlega sammála því að Ingibjörg verður góð landmóðir okkar.
Kolbrún Jóns (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 00:25
Eftir því sem ég hlusta og horfi á Ingibjörgu Sólrúnu lengur því sannfærðari er ég um að hún er ekki besti kosturinn sem við eigum til þess að stýra næstu ríkisstjórn. Það er lítið að marka hana og þegar menn og konur tala um stórkostlegan stjórnmálamann þá bara átta ég mig ekki á þessu? Frá mínum bæjardyrum séð þá finnst mér hún stórlega ofmetin.
klakinn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 00:45
Ingibjörg Sólrún er fín og hefur staðið sig vel, bæði í landsmálum og sem borgarstjóri. Og hvað varðar Evrópumálum þá skil ég ekki þessa hysteríu. Það er eins og það megi ekki ræða ESB-aðild á þessu landi. Svo er það auðvitað þannig að það yrði aldrei gengið í ESB nema að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ef þetta er svona slæmt fyrir þjóðina, þá verður málið bara fellt og er þar með dautt.
Ingibjörg Stefánsdóttir, 26.2.2007 kl. 09:48
Vá, gaman að fá lífleg skoðanaskipti inná bloggsíðuna.
Það er ljóst að Ingibjörg Sólrún vekur sterk viðbrögð, eins og vera ber með sterka leiðtoga, það er allt í lagi, hún stendur vel undir því.
En þessar athugasemdir sem nú eru komnar rifjuðu upp fyrir mér tilsvar Davíðs Oddssonar, þess umdeilda manns, þegar hann einhvern tíma sá ástæðu til þess að vitna í þekkta vísu: Því miður veit ég ekki eftir hvern hún er, en vísan er svona:
Takk fyrir líflegar umræður.
Takk fyrir
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.2.2007 kl. 10:42
Það er líka gaman að fá þig "á bloggið" Ég vænti þess að þú leggir þitt af mörkum í líflegar umræður.
Þóra Guðmundsdóttir, 26.2.2007 kl. 10:54
Mér finnst þetta landsforeldra tal dálítið sérstakt svo ekki sé meira sagt!
Kolgrima, 26.2.2007 kl. 11:08
Kæra Ólína.
Mér sýnist þú vera hér að ýta undir notkun á úreltum staðímyndum sem hafa staðið í vegi fyrir frama kvenna í stjórnmálum og viðskiptalífinu. Af orðum þínum má þannig ráða að konur geti tekið að sér umhyggju en karlar ekki. Er þetta ekki einmitt það sem haldið hefur konum niðri í gegnum árin? Sú hugsun að konur séu sérhannaðar fyrir umhyggju er gamaldags og kvenfjandsamleg, ekki síður en hún er karlfjandsamleg.
Ég held að körlum sé eins lagið að sýna umhyggju og konum og víst að þeir vildu fjölmargir hafa fleiri tækifæri til þess. Um leið og þú beitir þeim rökum að Ingbjörn Sólrún sé sérstaklega hæf til að leiða ríkisstjórn vegna þess að hún sé móðir þá gengisfellir þú alla pólitíska umræðu. Hvernig mælum við slíkt til að mynda? Er hugsanlegt að til sé önnur kona móðurlegri sem henta myndi betur? Hver er umhyggjustuðull Sivjar Friðleifsdóttur til að mynda? En Steingríms Sigfússonar?
Árni Matthíasson , 26.2.2007 kl. 12:22
Þið virðist flest hafa Ingibjörgu á heilanum. Ég hef fulla trú á henni að leiða gott fólk til góðra verka. Tími er kominn til að breyta úr þeirri spillingu sem við höfum verið í síðustu á undir forustu íhalds og framsókanar. Þar hafa karlar af verstu sort leitt vagninn með þeim afleiðingum sem alli sjá. En Ólína, ég hefði viljað sjá þig inn á þingi.
Sveinn Árnason, 26.2.2007 kl. 16:52
Það gengur nú svona og svona
en sannlega trúi ég og vona
að þjóð hafi þor
og að seinna í vor
verði forsætisráðherrann kona.
Kristín Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.