Þjóðkirkjan okkar
13.11.2012 | 22:18
Í dag ræddum við í þinginu um stöðu Þjóðkirkjunnar.
Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi: Íslendingar vilja þjóðkirkju.
Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagin okkar. Hún hefur lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar. Kirkjan hefur verið það skjól sem tugþúsundir Íslendinga hafa leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, t.d. þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.
Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi ekki síst fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur þjóðkirkjan tekist á við mikinn niðurskurð, sem þegar grannt er skoðað virðist umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað.
Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem Þjóðkirkjan afsalaði til ríkissjóðs 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts.
Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa báðir ofangreindir tekjustofnar þjóðkirkjunnar verið skertir umtalsvert.
Að teknu tilliti til verðþróunar, nemur skerðing sóknargjalda um 20% . Við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar því hún hefur mátt sæta umtalsverðri skerðingu á lögbundnum og samningsbundnum framlögum. Þá hefur einnig orðið tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land, þar á meðal grunnþjónustuna - sjálft helgihaldið, sálgæsluna, æskulýðsstarfið og líknarmálin. Það er mikið áhyggjuefni.
Fjárhagsstaða margra kirkna úti á landi er þannig að hún rétt nægir til að greiða hita, rafmagn og önnur lögbundin útgjöld, fjármunir til safnaðarstarfs eru ekki til staðar. Guðsþjónustum er því fækkað og fjármunir til venjulegs viðhalds eigna er ekki fyrir hendi. Þeir varasjóðir sem til voru eru víða þurrausnir og komið að enn frekari niðurskurði.
Í stærri sóknum í þéttbýli er barna- og æskulýðsstarf í hættu vegna þess að sóknir geta ekki greitt fyrir það, en það er það starf sem víðast hvar var reynt að hlífa. Sömu sögu er að segja um eldriborgarastarf, fullorðinsfræðslu, kærleiksþjónustu og líknarmál.
Við svo búið má ekki standa. Á meðan við höfum þjóðkirkju í landinu, verðum við að búa svo að henni að hún geti sinn lögbundnu hlutverki sínu og skyldum.
Andleg umönnun er allt eins mikilvægt og önnur umönnun ekki síst á erfiðum tímum líkum þeim sem við höfum upplifað undanfarin ár. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.