Færsluflokkur: Fjölmiðlar
Óbundin til kosninga?
15.3.2009 | 18:24
Gamla viðkvæðið um að flokkar gangi "að sjálfsögðu óbundnir til kosninga" er farið að heyrast enn á ný. Ég vil taka fram að ég er því algjörlega ósammála og sé ekkert "sjálfsagt" við það að ganga óbundin til kosninga.
Sérstaklega finnst mér að Samfylkingin eigi ekki að veifa þessu viðkvæði núna. Eftir allt sem gerst hefur undanfarna mánuði - og þann mikla trúnaðarbrest sem orðinn er milli þings og þjóðar - er það minnsta sem við frambjóðendur getum gert fyrir kjósendur í landinu að segja þeim hug okkar til stjórnarmynsturs eftir kosningar.
Ég vil meira að segja ganga lengra: Mér finnst að Samfylkingin og VG eigi að lýsa yfir vilja til áframhaldandi samstarfs og birta fyrir kosningar drög að málefnasamningi þessara tveggja flokka sem þau vilja vinna með eftir kosningar. Ég vil með öðrum orðum að fólk fái að vita hvað þessir flokkar hyggjast fyrir. Já, að fólk geti kosið um stjórnarmynstur.
Venjan hefur verið sú að fólk á þess kost að kjósa flokka, en ekki ríkisstjórnir. Þess vegna veit fólk aldrei hvað það er að kjósa yfir sig. En þessi venja þarf ekki að vera neitt lögmál. Þetta er bara spurning um að vera heiðarlegur og hreinskiptinn gagnvart kjósendum.
Kallið mig barnalega - allt í lagi. En klækjapólitík er ekki það sem fólk hefur áhuga fyrir um þessar mundir. Almenningur vill heiðarleika og hreinar línur. Almenningur á rétt á því að vita hug flokkanna til stjórnarmynsturs eftir kosningar.
Fjölmiðlar | Breytt 16.3.2009 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Kastljósið í kvöld - ÍNN á mánudagskvöld.
31.1.2009 | 00:10
Í kvöld mætti ég þeim Þorbjörgu Helgu Vigfússdóttur og Ómari R Valdimarssyni í Kastljósi vikunnar. Við tókumst á um atburði líðandi viku, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan. Það glóði svolítið á okkur Þorbjörgu Helgu sá ég þegar ég kíkti á þáttinn á netinu. Hún er ung og glæsileg kona með ákveðnar skoðanir og mjög ákveðna framkomu - en auðvitað vorum við ekki sammála um margt frekar en við mátti búast.
Þeir sem áhuga hafa geta horft á þetta spjall okkar HÉR.
Fyrr um daginn gerði ég hálftíma þátt á ÍNN sem verður víst ekki sendur út fyrr en á mánudagskvöld kl. 21.30. En sá þáttur fjallar um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing. Ég fékk til liðs við mig Gísla Tryggvason, talsmann neytenda. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur látið sig þessi mál varða ekki síst á bloggsíðu sinni (sjá hér).
Þið fylgist vonandi með þessu þegar þar að kemur.
Fjölmiðlar | Breytt 11.2.2009 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Á leið í framboð?
30.1.2009 | 16:23
Ég hef lesið það á netinu - haft eftir DV - að ég sé á leið í framboð fyrir nýtt stjórnmálaafl. Þegar nánar er rýnt í þessar fréttir sem m.a. hafa birst á bb.is og visir.is má sjá að þetta eru getgátur sem hver hefur eftir öðrum. Ég sé ekki betur en fréttin sé sú mest lesna á bb.is þennan sólarhringinn.
Það er einmitt.
Enginn þessara ágætu fjölmiðla hafa séð ástæðu til að spyrja mig sjálfa um þetta mál. Er ég þó skilmerkilega skráð í símaskrá með bæði heimsíma og gsm númer.
Því er til að svara að ég stend ásamt fleirum að þverpólitískri undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is ásamt fleiri góðum Íslendingum. Sá hópur er ekki stjórnmálaafl og er ótengdur öllum hagsmunaöflum og stjórnmálaframboðum.
Ég er því ekki á leið í þingframboð fyrir nýtt stjórnmálaafl sem stofnað kann að verða um þessa einu kröfu: Nýtt lýðveldi.
Ég sé heldur enga þörf á slíku stjórnmálaafli um þessar mundir þar sem svo virðist sem sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum hafi tekið þetta mál upp á sína arma.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Krafan um nýtt lýðveldi er ennþá brýn!
28.1.2009 | 11:34
Ég verð þess vör, nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar, að það er eins og spennufall hafi orðið meðal almennings. Samfélagið heldur niðri í sér andanum og bíður þess sem verða vill. Ég sé þetta m.a. á því að nú hefur hægt á hraða undirskriftanna á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is
Ekki veit ég hvort fólk heldur að krafan um boðun stjórnlagaþings og nýja stjórnarskrá standi og falli með nýrri ríkisstjórn. Sannleikurinn er sá að svo er ekki. Áskorun okkar á alþingi og forseta að boða til stjórnlagaþings er jafn brýn eftir sem áður - án tillits til þess hvaða stjórnarmynstur verður ofan á. Hinsvegar virðist sem óskin um utanþingsstjórn sé ósk gærdagsins, ef svo fer sem horfir að ný ríkisstjórn verði mynduð í dag. Gott og vel, þá leggjum við þann lið áskorunarinnar til hliðar verði það niðurstaðan.
En krafan um Nýtt lýðveldi er enn brýnni en nokkru sinni - og betur má ef duga skal við að koma þeirri kröfu almennilega til skila. Hér er vefsíðan.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Forseti útilokar ekki utanþingsstjórn
26.1.2009 | 18:08
Forseti Íslands útilokar ekki utanþingsstjórn - það fannst mér vera það athyglisverðasta sem kom fram í hans máli í dag. Sömuleiðis sú áhersla sem hann kveðst leggja á að sátt ríki í samfélaginu um stjórnarformið. Sú yfirlýsing finnst mér frekar ýta undir þennan skilning minn.
Þá gat ég ekki betur heyrt en að krafan um stjórnlagaþing eigi sér samhljóm í hugmyndum forseta sem hann færði m.a. í tal í sínu áramótaávarpi og áréttaði á blaðamannafundinum í dag.
En hvað segið þið lesendur góðir. Væri það ekki bara kærkomið fyrir þjóðina að fá einhverja við stjórnvölinn sem ekki eru á sama tíma að vasast í kosningabaráttunni.
Væri það ekki bara góð hvíld fyrir langhrjáða þjóð og langþreytta stjórnmálamenn að skilja nú landsstjórnina frá kosningabaráttunni ?
Eða svo ég orði þetta nú enn skýrar: Er óhætt að setja við þessa aðstæður menn í landstjórnina sem á sama tíma eru að kljást í kosningabaráttu? Er ekki nóg komið?
En við spyrjum að leikslokum - það verður spennandi að fylgjast með þessu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Nýtt lýðveldi er ekki stjórnmálaframboð
25.1.2009 | 23:13
Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni um Nýtt lýðveldi á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is erum ekki stjórnmálaframboð. Best að þetta sé alveg á hreinu - því það er einhver misskilningur í gangi núna. Í kvöld fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sem vildi ræða við mig um framboðsmál af því hann taldi að Nýtt lýðveldi og Lýðveldisbyltingin sem rekur vefsíðuna www.lydveldisbyltingin.is væri sami hópur. Svo er ekki. Báðir hópar styðja þó sama málstað að því er virðist og það er ágætt.
Þetta er meðal þess sem bar á góma í þættinum "Í býtið" í morgun, en þangað mætti ég í spjall við Kollu og Heimi (hlusta hér).
Allmargir hafa spurt mig hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa tvo hópa og sameina þar með kraftana. Um það vil ég segja þetta:
Ein krafa - ólíkir hópar:
Krafan um utanþingsstjórn (eða einhverskonar þjóðstjórn), stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkunum og meðal fjölda fólks sem stendur utan við alla pólitík. Það er margt sem skilur þetta fólk að, en eitt sem sameinar það: Nefnilega krafan um nýtt lýðveldi.
Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnmálaafls sé ekki besta leiðin til að ná þessu markmiði. Það segi ég með fullri virðingu fyrir því stjórnmálaafli sem nú er verið að stofna utan um þessa kröfu. Það stjórnmálaafl mun etja kapps við hina flokkana fyrir næstu kosningar, eftir gömlu leikreglunum, og kannski fá atkvæðamagn sem einhverju nemur. En í kosningum er spurt um stjórnmálaskoðanir fólks og afstöðu til ótal margra mála sem varða landshagi. Að fara fram meið eitt mál í kosningar, og láta allt annað liggja á milli hluta - það getur orðið erfitt þegar til kastanna kemur, því vitanlega verða alþingismenn að hafa stefnu í flestum málaflokkum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað framboðin standa í veigamiklum atriðum. Hver er stefnan í umhverfismálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, utanríkismálum, virkjunarmálum o.s. frv.
Horfum á það sem sameinar, ekki það sem sundrar
Við sem stöndum að vefsíðunni Nýtt lýðveldi, tókum afdráttarlausa afstöðu til þess að við værum óháð öllum stjórnmálaframboðum. Við teljum það fljótvirkari og árangursríkari leið að sameina Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, um þessa einu kröfu.
Við fögnum því ef stjórnmálaflokkarnir taka undir með okkur, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir. En ef undirskriftasöfnunin tekst vel - segjum að það safnist tugþúsundir undirskrifta - þá gæti hún orðið nokkurskonar þjóðarátak á fáum vikum. Krafa sem stjórnvöld hefðu ekki stöðu til að horfa framhjá við núverandi aðstæður.
Að því sögðu skal upplýst að nú rétt fyrir kl 23:00 höfðu 4.868 skrifað undir kröfuna um utanþingsstjórn, stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Ekki amalegt á aðeins þremur dögum.
Fjölmiðlar | Breytt 26.1.2009 kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Hörður á að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar
23.1.2009 | 23:34
Ég held að Hörður Torfason hljóti að vera orðinn eitthvað þreyttur. Hann hefur staðið sig mjög vel fram að þessu - en nú varð honum á í messunni. Þeir sem ganga hart fram í gagnrýni á aðra verða að geta horfst í augu við eigin mistök. Hörður á að biðjast afsökunar á ummælum sínum um veikindi Geirs H. Haarde.
Raunar finnst mér að það mætti að ósekju fara að sýna fleiri andlit og tala við fleiri málsvara þessara mótmæla heldur en Hörð Torfason. Með fullri virðingu fyrir honum. Mótmælin hafa verið persónugerð full mikið í honum einum, þó hann eigi að sjálfsögðu að njóta þess hróss sem hann á skilið. En hann er ekki undanþegin gagnrýni heldur.
Ég vona að fólk haldi áfram að mæta á Austurvöll og berja búsáhöld. Hugmyndin með appelsínugulu borðana finnst mér góð, þ.e. að auðkenna þannig þá sem fara með friði.
Það kæmi mér ekki á óvart þó að hvítir borðar sæjust líka á stöku stað í borginni á morgun. Hvítt er litur friðarins.
2.319 undirskriftir komnar við áskorunina um stjórnlagaþing og utanþingsstjórn á www.nyttlydveldi.is
![]() |
Hænuskref í rétta átt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |