Til varnar mávinum

JonatanLivingstone  Sjáið nú þennan fallega fugl. Þetta er mávur. Fáir fuglar hafa fegurra flug eða hreinni liti. Hann er augnayndi hvort sem er á flugi eða fæti. 

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að útrýma honum.

Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna borgaryfirvöld hafa lagst í þann víking -- en skýringin er sögð sú að öndum hafi fækkað á Reykjavíkurtjörn og nú þurfi að grípa til róttækra aðgerða. Einmitt það já.

Hvers vegna ættu endur að vera rétthærri íbúar við Reykjavíkurtjörn en mávar? Er skíturinn úr þeim eitthvað heilnæmari en skarnið úr mávinum?

andamamma  Auðvitað er voða gaman að sjá litla sæta andarunga synda á eftir andamömmu á góðum dögum. En mávurinn á líka unga, þó þeir syndi ekki á Tjörninni.

Reykjavíkurtjörn er orðin að brauðsúpu - og matarleifar og brauðmengun í tjörninni er að verða heilbrigðisvandamál. Ekki mávurinn.

Ég lýsi hér með andúð minni á því að útrýma einni fuglategund til þess að verja aðra.

mávar

 


Af hverju biðjast Keflvíkingar ekki afsökunar?

Keflvíkingar eiga bara að biðjast afsökunar - segja sem er að þeir hlupu á sig, misstu sig í hita leiksins. Það er ekki gott fyrir unga knattspyrnuaðdáendur að fylgjast með þessu orðaskaki öllu lengur.

Leikurinn fór úr böndum - menn misstu sig. Bjarni, Guðjón og rekstrarfélag ÍA hafa beðist afsökunar á þessu marki - gott hjá þeim. Nú verða Keflvíkingar að sýna að þeir hafi manndóm til að sættast - a.m.k. að þeir hafi hlaupið á sig gagnvart Bjarna.

Mistök eru bara mistök, og þau mega ekki verða aðalmálið. Það skiptir meiru hvernig menn taka á mistökum sínum og vinna úr þeim.Cool


mbl.is Yfirlýsing frá ÍA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólík viðbrögð við slysamarki

Það er fróðlegt að bera viðbrögð Keflvíkinga við marki Bjarna Guðjónssonar leikmanns ÍA, saman við framkomu leikmanna í hollenska boltanum þegar einn þeirra skoraði sambærilegt slysamark, eins og við sjáum í þessu myndbroti hér

Af þessu má margt læra um drengilega framgöngu á íþróttvelli.

Bjarni Guðjónsson hefur útskýrt að þetta var óviljaverk - hann þurfti því ekki að biðjast afsökunar á því sem þarna gerðist. Hann gerði það hinsvegar - og af því mættu Keflvíkingar líka læra.

Nú verður að fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Keflvíkinga.


mbl.is Bjarni þurfti lögreglufylgd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég játa: Get ekki hugsað mér olíuhreinsunarstöð!

oliuhreinsun oliuhreinsun2

Nú er bóndi minn staddur úti í Rotterdam ásamt bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar og einhverjum fleirum að skoða olíuhreinsunarstöðvar. Úr því að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er í umræðunni taldi hann rétt að berja eina slíka augum áður en hann tæki afstöðu til framhaldsins. Það er virðingarverð afstaða.

En eftir því sem menn ganga lengra í því að "hugsa" þetta mál með "opnum huga" - því áhyggjufyllri verð ég yfir því að kannski séu þeir að láta draga sig út í að samþykkja eitthvað sem þeir munu sjá eftir síðar. Rétt eins og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - sem skyndilega var orðin margfalt meira gímald en nokkurn hafði órað fyrir; aðstæður starfsmanna og vinnusiðferði allt annað en Íslendingar hafa átt að venjast; hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi - Jökla þögnuð - og fórnirnar meiri þegar til kastanna kom en menn höfðu gert ráð fyrir.

Ég óttast sumsé að áður en menn ná almennilegum áttum verði komið eitthvert reykspúandi ferlíki ofan í annan af tveim fegurstu fjörðum Vestfjarðakjálkans, Arnarfjörðinn eða Dýrafjörð - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið. Kannski skorti þá sýn á framtíðarmöguleika svæðisins.

Það er svo margt sem mér finnst athugavert við þetta mál. En það sem ég held að hver einasti Vestfirðingur verði að byrja á að spyrja sjálfan sig að er þetta:

  1. Vil ég þetta fyrir mig sjálfa(n)? 
  2. Er þetta framtíðartækifæri fyrir börnin mín? 
  3. Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu? 
  4. Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
  5. Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
  6. Mun hún fegra umhverfið?  
  7. Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu? 
  8. Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur: 

  1. Ég þekki engan sem sér tækifæri fyrir sjálfan sig í þessari olíuhreinsunarstöð.
  2. Hvorki ég sjálf, né nokkur sem ég þekki, sér þetta sem framtíðarmöguleika fyrir börn sín.
  3. Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
  4. Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum. 
  5. Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
  6. Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
  7. Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika.  
  8. Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Niðurstaða: Við eigum að hætta að hugsa um þetta og snúa okkur að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér; framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.

 


Þetta er nú Saga mín

saga-dansarSaga

Þessi kattliðuga stúlka heitir Saga Sigurðardóttir. Hún er nýútskrifaður danshöfundur frá nútímadansdeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi. Ekki alls fyrir löngu sigraði hún í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest, og hefur síðan verið á ferð um heiminn að sýna dansverk sín og annarra samstarfsmanna og samnemenda frá Arnhem. Þau hafa m.a. komið til Íslands og sett hér upp verkið Víkingar og Gyðingar sem sýnt var í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og vakti verðskuldaða athygli.  Nú er hún á leið til Ísrael að sýna sólóverk eftir sjálfa sig - hún nefnir það Rite.

Ég er afskaplega stolt af þessari stelpu - eins og reyndar börnunum mínum öllum Smile Segi kannski meira frá þeim síðar.

 


Vísan bara braust fram

 

  • Leikar æsast meir og meir,
  • margt er lífsins tálið,
  • bréfið samdi Geir frá Geir
  • en Geir veit fátt um málið

                           Bandit

  • Já, bréfið samdi Geir frá Geir,
  • glæstu lofi þrungið
  • vegna þess að greyið Geir
  • getur ekki sungið
  •                            ...... tja, nema Nancy aðstoði hann Wink

mbl.is Geir Ólafs hafnar ásökunum um falsað bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brunninn kórbúningur

Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn. Blush

Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.

Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi Bandit. Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis  InLove Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:

  • Með aldri funann finna menn
  • fölskvast í sér,
  • en Siggi kátur kann vel enn
  • að kveikja í mér.

Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt. Whistling

En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.                         


Kvalafullt hláturskast í beinni

Fyrst ég er farin að skemmta mér yfir sjónvarpsuppákomum þá get ég ekki stillt mig um að slaka þessari inn á síðuna. Þetta er sko martröð sjónvarpsmannsins. Hann hefur örugglega misst vinnuna fyrir frammistöðu sína þessi.

Þetta rifjaði upp fyrir mér ýmsar uppákomur sem stundum urðu í beinni á sjónvarpsárunum mínum í den - ekkert þó í líkingu við þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=fl6jfOEPJGk


Frábært!

Þetta er hreint út sagt frábært - þessi fréttakona ætti að fá alþjóðleg blaðamannaverðlaun. Það var tími til kominn að einhver fréttamaður með sjálfsvirðingu segði eða gerði eitthvað gagnvart þessari alheimsmúgsefjun um persónu Parisar Hilton. 

Ég tek ofan fyrir þessari fréttakonu - vil fá hana sem fyrirlesarar á málþing um blaðamennsku og fréttasiðferði sem er löngu tímabært að halda. Væri verðugt verkefni fyrir blaðamannafélag Íslands.


mbl.is Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúkas litli píslarvottur

kertafleyting  Síðustu daga hefur borið á gagnrýni vegna þess að hópar fólks sáu ástæðu til þess að minnast Lúkasar litla - hundsins sem hlaut skelfilegan dauðdaga á Akureyri fyrir skömmu. Ýmsir hafa orðið til þess að hrista höfuðið yfir því að fólk skuli hafa komið saman og kveikt á kertum "til minningar" um hund sem það "þekkti ekki neitt" svo notuð séu orð þeirra sem hafa tjáð sig um þetta. Einn pistlahöfunda spyr sig hvort það "skorti harm" í líf þess fólks sem grætur ókunnugan hund. Á blogginu hafa aðrir skemmt sér við að segja ófagrar sögur af misþyrmingum heimsþekktra manna á dýrum, og rekja matgæði og matreiðsluaðferðir hundakjöts svona eins og til að undirstrika fáránleika þess að minnast hunds.

Vissulega hefur Lúkas litli fengið meiri athygli liðinn enn hann gerði nokkurn tíma lífs. Og ef maður ætti að trúa því að þessar athafnirnar hafi snúist um hann sem einstakling,  þá mætti segja að sitthvað væri bogið við það. En ég held að málið sé ekki þannig vaxið, það er margþættara en svo.

Lúkas er orðinn píslarvottur - fórnarlamb grimmdar og mannvonsku. Athafnirnar sem fram fóru eru táknræn mótmæli gegn illri meðferð á dýrum.

Í blöðum gaf að líta mynd af ungu, fallegu fólki með hund í bandi sem kveikti á kerti. Ekki veit ég hvort þetta unga fólk þekkti Lúkas, eða eigendur hans, nokkurn skapaðan hlut - eða hvort "harminn skortir í líf þess" eins og einn pistlahöfundur orðaði það. Satt að segja vona ég að þetta unga fólk hafi ekki þurft að harma margt enn sem komið er. En ég þykist vita að með þessu hafi það viljað sýna hug sinn til þess sem gerðist; tjá sorg vegna grimmilegrar meðferðar á saklausu dýri og samúð með eigendunum.

Til þess eru auðvitað ýmsar leiðir - og sjálfsagt er margt í mannlegu samfélagi sem ástæða væri til að vekja athygli á með minningarathöfnum, mótmælagöngum og kertafleytingum. En hvað? Má ekki fólk koma saman og taka afstöðu í dýraverndunarmáli? Það hefur margt verið gert fánýtara en það.

Og ef ástæðan er sú að "harminn skorti" í líf fólks, þá eru það bara góðar fréttir fyrir mér.

 

blidahvolpurein05 

Læt að lokum fljóta hér með tvær sætar hvolpamyndir af tíkinni minni - á annarri hefur hún náð snuðinu af ömmudreng - og heldur augljóslega að hún sé líka maður.

 snuddublida05

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband