Færsluflokkur: Ferðalög

Lóan er komin. Gleðilega páska!

Loan Það er sólarglenna og hæglætisveður hér á Ísafirði þennan páskamorgun. Í gær sást til heiðlóu á Holtsodda í Önundarfirði. Hrossagaukur sást í Haukadal í Dýrafirði og æðarkóngur við Höfða.

 Já, vorið er á næsta leiti - og vonandi fylgir því betri tíð fyrir land og lýð.

Aldrei fór ég suður hátíðin stóð fram eftir nóttu og við heyrðum daufan óminn berast yfir bæinn þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Það virtist vera góð og vandræðalaus stemning í kringum tónleikana. Þegar ég kíkti var Hemmi Gunn að rifja upp gamla takta við mikinn fögnuð. Salurinn var troðfullur út úr dyrum.

Húsið hjá mér er fullt af gestum um hátíðarnar. Tvö barnanna minna komu að sunnan ásamt tveimur vinum sínum fyrr í vikunni. Hér hafa líka verið nætur gestir í tengslum við kosningastarfið, þannig að hér er hvert fleti skipað, eins og oftast um þetta leyti. Bara gaman af því.

Sjálfsagt munum við skella okkur á skíði seinna í dag. Svo verður kíkt á kosningamiðstöðina, og eldað eitthvað gott í kvöld. Smile

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska kæru lesendur og vinir!

 


Rysjótt tíð en líf í tuskum á Snæfellsjökli

fyristdagurÞað hefur verið vindasamt hér á Snæfellsjöklinum það sem af er vikunni. Í dag var hvassviðri með slydduéljum. Hundarnir létu það ekkert á sig fá - mannfólkið ekki heldur. Hér koma nokkrar myndir sem ég náði rétt áður en hleðslubatteríið dó á myndavélinni minni (að sjálfsögðu gleymdi ég hleðslutækinu heima, þannig að það verða ekki fleiri myndir birtar í bili).      

Skutull minn stendur sig vel það sem af er. Hann sýnir bæði áhuga og sjálfstæði og þykir almennt efnilegur. Vonandi tekur hann gott C-próf á föstudaginn.

 

Það er ekki slegið slöku við hér á þessu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar:  AframDrengir (Medium)Klukkan níu á morgnana er haldið upp á jökul þar sem æfingar standa fram eftir degi. Við erum venjulega komin niður aftur milli kl. fimm og sex, síðdegis. Þá eru flokksfundir. Síðan kvöldmatur kl. sjö og að honum loknum taka við fyrirlestrar til kl. 10. Þá eru hundarnir viðraðir - síðan spjallað svolítið fyrir svefninn.

 

Annars er netsambandið afar lélegt hérna. Ég er með svona NOVA-internet tengil sem byggir á GSM sambandi og það er ekki upp á marga fiska. Þessi bloggfærsla er því ekki hrist fram úr erminni skal ég segja ykkur. Whistling

BumbuBanar (Medium)

 

 

 

 En þrátt fyrir rysjótt veðurfar er létt yfir mannskapnum eins og venjulega þegar við komum saman Björgunarhundasveitin. Hér sjáið þið tvo félaga vora taka léttan bumbubana. Annað þeirra hefur það sér til málsbóta að bera barn undir belti, en hitt ... hmmm  Wink 

 

Nú það er nóg að gera við að grafa snjóholur fyrir hundana aKrissiMatarHolu (Medium)ð leita - þær þarf svo að máta - og eins og sjá mér er æði misjafnt hversu rúmt er um menn.


Vikufrí frá pólitík - nú er það Snæfellsjökull

snaefelljokull08 Nú tek ég vikufrí frá pólitíkinni. Er mætt á Gufuskála ásamt á þriðja tug félaga minna úr Björgunarhundasveit Íslands. Hópurinn verður við æfingar á Snæfellsjökli út þessa viku. Það er alltaf mikil stemning á þessu námskeiðum og glatt á hjalla bæði kvölds og morgna. Þessu fylgir heilmikið stúss - hér eru björgunarbílar frá flestum landshornum, hundar og menn með mikinn útbúnað. Svo getur veðrið verið með ýmsu móti.

Hér sjáið þið mynd frá vetraræfingu á Snæfellsjökli í fyrra - ég mun trúlega setja inn fleiri eftir því sem tilefni gefst næstu daga.

Pólitíkinhefur bara sinn gang á meðan - ætli hún fari langt. Wink

 

 


Rífandi gangur!

Holastoll Það veitti mér ákveðna vongleði - á ferð minni um Skagafjörð í dag - að finna bjartsýni og framkvæmdahug heimamanna. Já, mitt í öllu krepputalinu sem dynur á okkur dag eftir dag, líta Skagfirðingar vondjarfir fram á veg. 

Á Sauðárkróki eru öflug atvinnufyrirtæki. Eftirtektarvert er að sjá hvernig Kaupfélag Skagfirðinga nýtir afl sitt til þess að styðja við nýsköpun og byggja upp atvinnulífið á staðnum. Það á og rekur fiskvinnslu, vélaverkstæði, verslun og fleira - er sannkallaður máttarstólpi í héraði.

Í Verinu - sem er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur - eru stundaðar rannsóknir í líftækni, fiskeldi og sjávarlíffræði á vegum Háskólans á Hólum og Matís. Þar er hugur í mönnum og þeir eru að tala um stækkun húsnæðisins.

Í fjölbrautaskólann er líka verið að tala um stækkun húsnæðis þar sem verknámið er að sprengja allt utan af sér. Á öðrum stað í bænum, í fyrirtækinu Íslenskt sjávarleður hf.,  er verið að framleiða og þróa vörur úr fiskroði og lambskinni og gengur vel. 

Skagfirðingar standa nú í hafnarframkvæmdum. Ferðaþjónusta er þar vaxandi atvinnugrein í Skagafirði, sömuleiðis hestamennskan. Er það ekki síst að þakka Háskólanum á Hólum þar sem starfræktar eru ferðamáladeild og hestafræðideild auk fiskeldis- og fiskalíffræðideildar.  Þar var líka gaman að koma og sjá gróskuna í skólastarfinu (vel hirt hross í hundraða tali og nemendur einbeitta við nám og störf). 

Ég notaði tækifærið og heimsótti líka Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd. Það var gaman að koma á þessa staði. Á Skagaströnd eru líka ýmsir sprotar að vaxa. Þar er sjávarlíftæknisetrið BioPol, og fyrirtækið Sero þar sem unnið er með fiskprótein. Þar er líka Nes-listamiðstöð sem er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamönnum er gefinn kostur á vinnuaðstöðu og húsnæði um tíma. Þegar ég leit þar inn voru fjórir listamenn að störfum, þrír erlendir og einn íslenskur.´

Mér var hvarvetna vel tekið. Ég var leidd um fyrirtæki og stofnanir, kynnt fyrir fólki og frædd um hvaðeina sem laut að atvinnulífi staðanna, sögu, menningu og staðháttum. 

Er ég nú margs vísari og þakklát öllum þeim sem aðstoðuðu mig og upplýstu.

 

 


Lúsaleit á bloggsíðunni - hvað skyldu þeir finna?

Nú er augljóslega verið að lúsleita bloggsíðuna mína. Venjulega eru flettingarnar helmingi fleiri en innlitin. Þessa dagana eru þær hins vegar tugfalt fleiri. Einn morguninn um níuleytið voru komnar 1500 flettingar þó að innlitin væru innan við 20 - það gera 75 flettingar á hvert innlit. Whistling

Menn hafa auðvitað gott af því að lesa vel það sem ég hef skrifað undanfarin tvö ár. Trúað gæti ég að þeir yrðu bara betri á eftir. Wink

Annars er ég kúguppgefin. Búin að þeytast um allt Snæfellsnesið síðan á miðvikudag. Í dag lá leiðin suður á Akranes þar sem haldið var kjördæmisþing og endanlegur framboðslisti samþykktur með lófataki.  Þessi líka flotti listi (sjáið hér).  Ef marka má síðustu Capacent könnun erum við með þrjá þingmenn í kjördæminu.  

Á morgun  vonast ég til að geta hvílt mig. En á mánudag er stefnan tekin norður í land þar sem ég ætla að kíkja inn í fyrirtæki og hitta fólk, eins og á Snæfellsnesinu.

Þó ég sé lúin í augnablikinu hlakka ég til.


Fylgið rýkur upp - og ég þeytist um kjördæmið

Skoðanakannanir hafa sýnt miklar sveiflur í fylgi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi að undanförnu. Tvær síðustu kannanir Capacent sýna stökk úr 6,7% í 28% hér í kjördæminu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar lægri talan mældist, því á sama tíma var flokkurinn með nálægt 30% fylgi á landsvísu. Engu að síður var könnunin birt án athugasemda.

Nú, þegar fylgið hefur rokið upp úr 6,7% fyrri vikuna í 28% seinni vikuna - bíð ég spennt eftir fréttum af þessum mikla árangri sem náðst hefur frá því að ég kom inn á framboðslistann. Wink

En grínlaust - þá benda þessar miklu sveiflur til þess að eitthvað sé bogið við úrtakið, annað hvort of fáir á bak við niðurstöðuna, eða hópurinn of einsleitur.

Stykkisholmur Annars er ég nú á fleygiferð um kjördæmið að kynna mér sem best ég get atvinnuhætti og mannlíf sem víðast, ræða við fólk og fá upplýsingar. Síðustu daga höfum við Guðbjartur Hannesson verið á ferð um Snæfellsnesið og notið hér góðrar leiðsagnar heimamanna. Það er ánægjulegt að sjá hér´líf og starf við hafnirnar, menn í byggingarvinnu og börn að leik.

Eftir helgina er ferð minni heitið Norður í Skagafjörð og um Húnaþing þar sem ég vonast til að hitta bæði sjómenn og bændur í bland við annað mannval. Smile

Þetta hefur verið afar lærdómsríkt og skemmtilegt og verður það væntanlega áfram.

 


Úrslit prófkjöranna, spilaspár og prógrammið framundan

HolmavikProfkjor09 Nú er endurnýjun að eiga sér stað á framboðslistum stjórnmálaflokkanna að afstöðnum prófkjörum síðustu viku. Sjaldan ef nokkru sinni hafa landsmenn séð jafn miklar breytingar á öllum framboðslistum og nú. Þó er augljóst að fólk er að kjósa breytingarnar í bland við reynslu og þekkingu þeirra sem fyrir eru.

Nokkrir flottir hástökkvarar eru að koma inn hjá Samfylkingunni að þessu sinni. Það gladdi mig t.d. að sjá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Skúla Helgason stökkva inn á listann í Reykjavík - nýtt fólk með reynslu. Þá var gaman að sjá Önnu Pálu Sverrisdóttur, foringja ungra jafnaðarmanna ná markverðum árangri. Smile Sé litið til landsbyggðarinnar þá er líka að verða allnokkur endurnýjun þar. Hér í Norðvesturkjördæminu eru þrír nýir einstaklingar að koma inn á listann í 2., 3. og 4. sæti á eftir Guðbjarti Hannessyni. Það eru auk mín, Arna Lára Jónsdóttir og Þórður Már Jónsson. 

spadispilin09Það er svolítið gaman að því að ég lagði spilastjörnu fyrir þau bæði á fundaferðalaginu okkar um daginn. Hjá Örnu Láru kom góður og markviss árangur. Hjá Þórði komu upp vonbrigði sem myndu breytast í sigur eða árangur.  Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Nú er ljóst að hann mun flytjast upp í 4. sætið eftir brottgöngu Karls V. Matthíassonar. Wink

Í NA-kjördæmi varð endurnýjun með þeim Sigmundi Erni og Jónínu Rós í 2. og 3. sæti.

Hinir flokkarnir eru líka að fá inn nýtt fólk. Auðséð er að mörgum af þeim sem sátu á þingi síðasta kjörtímabil hefur verið refsað. Það er þó ekki alltaf í samræmi við hlutdeild þeirra að því sem gerðist, hefur mér fundist. En það er önnur saga.

En það eru spennandi tímar framundan - fundir og ferðalög hjá frambjóðendum. Sjálf verð ég á ferðinni í Skagafirði og Borgarfirði næstu tvær vikurnar - legg af stað á þriðjudag. Framundan eru líka kjördæmisþing og Landsfundur.

vetrarmynd07Og ekki má ég gleyma vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar á Snæfellsjökli í byrjun apríl. Þangað verð ég að fara til þess að taka stigspróf á hundinn - annars er ég búin að missa af tækifærinu þetta árið.

Jebb ... það er allt að gerast. 


mbl.is Ásta Ragnheiður í 8. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Ég fylgist með veðurfréttum.

hridarvedurNepalIsFrost og fjúk utan við gluggann minn. Ég horfi út á úfinn fjörðinn hvar sjórinn þyrlast upp í gráa sveipi í hviðunum. Vindurinn gnauðar við mæninn og tekur í húsið. 

Í stofusófanum liggur bóndi minn með blaðið frá í gær. Hann er að hlusta á Rás-1 með öðru eyranu. Það er þæfingur og þungfært í Ísafjarðardjúpi- flestar heiðarnar ófærar, segir þulurinn.

Inni í herbergi steinsefur unglingurinn á heimilinu. Hann er kvefaður.

Ketilkannan brakar á eldavélinni og gefur mér til kynna að kaffið sé tilbúið. Við fætur mér liggur hundurinn, rór og áhyggjulaus.

Þetta er laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Við munum fylgjast með veðurfréttum í dag.


mbl.is Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunngildin - og aðeins meira um Kristinn H.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.

Lítum nánar á nokkur þau helstu:

  • Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka.
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi. Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu til dæmis.
  • Uppbygging háskólastarfs og símenntunar um land allt er mikilvægur þáttur í því að minnka aðstöðumun og auka atgerfi byggðanna, að ekki sé minnst á samgöngur og fjarskipti sem eru nauðsynlegir grunnþættir í hverri samfélagseiningu - nokkuð sem ekkert hérað getur verið án.
  • Stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll verða að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa stjórnmálaflokka eða annarra hagsmunaafla.

Jamm.... þetta er meðal þess sem ég er að ræða á þessum fundum okkar prófkjörsframbjóðenda í Norðvesturkjördæmi - en yfirreið okkar um kjördæmið stendur nú sem hæst. Við vorum á Hellissandi og Grundarfirði í dag. Í hádeginu á morgun verður fundur í Narfeyrarstofu í Stykkishólmi og í Félagsheimilinu á Patreksfirði kl 20 um kvöldið.

HolmavikProfkjor09Að lokum ein vísa sem varð til í rútunni hjá okkur þegar endanlega var orðið ljóst að Kristinn H. væri ekki genginn í Samfylkinguna heldur Framsóknarflokkinn:

 Glumdi í flokknum gleði-org,
 gladdist allur skarinn:
 Kristinn veldur kæti og sorg,
 hann kominn er ... og farinn!

 

 

Og hér sjáið þið okkur Örnu Láru framan við Café Riis á Hólmavík um hádegisbil í gær.


Óráðsía skilanefndar

fúlgurfjár Skilanefnd Kaupþings hefur í ýmis horn að líta þessa dagana og vafalaust einhver áform. Sparnaður virðist þó ekki vera þar á meðal, ef marka má þennan fréttaflutning af lúxusferð tveggja nefndarmanna til Indlands fyrr í mánuðinum. Gist var á fimm stjörnu hóteli, sem er með þeim glæsilegustu á Indlandi, og flogið á fyrsta farrými í "þeim tilgangi að gæta hagsmuna gamla Kaupþings" eins og segir í fréttinni. Ferðin mun hafa kostað um eina milljón króna.

„ Ég vil helst eitthvað í allra besta flokki ef þér er sama" segir starfsmaður nefndarinnar sem skipulagði ferðina í tölvupósti sem  nú hefur verið birtur. Hann bætir við: "Ég yrði þakklátur fyrir að dagskráin yrði í háum gæðaflokki".

Kannski nefndarmenn hafi ekki áttað sig á því hverjir það eru sem greiða þeim launin og dagpeningana eftir bankahrunið? Það er  nefnilega almenningur í landinu, því það mun koma í hlut samfélagsins að standa undir skuldum gömlu bankanna.

Sá hinn sami almenningur býr við harðnandi kost. Fólk sér ekki út úr skuldum.  Sumir eiga ekki til hnífs og skeiðar. Fregnir berast af fólki sem ekki treystir  sér  til að borga nauðsynlega læknisaðgerðir. Foreldrar eru að afpanta tannréttingar og tannviðgerðir barna sinna.

En skilanefndir bankanna - þær "gæta hagsmuna" síns banka og ferðast í vellystingum.

Ef þetta er ekki firring, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.  Angry


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband