Rífandi gangur!

Holastoll Það veitti mér ákveðna vongleði - á ferð minni um Skagafjörð í dag - að finna bjartsýni og framkvæmdahug heimamanna. Já, mitt í öllu krepputalinu sem dynur á okkur dag eftir dag, líta Skagfirðingar vondjarfir fram á veg. 

Á Sauðárkróki eru öflug atvinnufyrirtæki. Eftirtektarvert er að sjá hvernig Kaupfélag Skagfirðinga nýtir afl sitt til þess að styðja við nýsköpun og byggja upp atvinnulífið á staðnum. Það á og rekur fiskvinnslu, vélaverkstæði, verslun og fleira - er sannkallaður máttarstólpi í héraði.

Í Verinu - sem er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur - eru stundaðar rannsóknir í líftækni, fiskeldi og sjávarlíffræði á vegum Háskólans á Hólum og Matís. Þar er hugur í mönnum og þeir eru að tala um stækkun húsnæðisins.

Í fjölbrautaskólann er líka verið að tala um stækkun húsnæðis þar sem verknámið er að sprengja allt utan af sér. Á öðrum stað í bænum, í fyrirtækinu Íslenskt sjávarleður hf.,  er verið að framleiða og þróa vörur úr fiskroði og lambskinni og gengur vel. 

Skagfirðingar standa nú í hafnarframkvæmdum. Ferðaþjónusta er þar vaxandi atvinnugrein í Skagafirði, sömuleiðis hestamennskan. Er það ekki síst að þakka Háskólanum á Hólum þar sem starfræktar eru ferðamáladeild og hestafræðideild auk fiskeldis- og fiskalíffræðideildar.  Þar var líka gaman að koma og sjá gróskuna í skólastarfinu (vel hirt hross í hundraða tali og nemendur einbeitta við nám og störf). 

Ég notaði tækifærið og heimsótti líka Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd. Það var gaman að koma á þessa staði. Á Skagaströnd eru líka ýmsir sprotar að vaxa. Þar er sjávarlíftæknisetrið BioPol, og fyrirtækið Sero þar sem unnið er með fiskprótein. Þar er líka Nes-listamiðstöð sem er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamönnum er gefinn kostur á vinnuaðstöðu og húsnæði um tíma. Þegar ég leit þar inn voru fjórir listamenn að störfum, þrír erlendir og einn íslenskur.´

Mér var hvarvetna vel tekið. Ég var leidd um fyrirtæki og stofnanir, kynnt fyrir fólki og frædd um hvaðeina sem laut að atvinnulífi staðanna, sögu, menningu og staðháttum. 

Er ég nú margs vísari og þakklát öllum þeim sem aðstoðuðu mig og upplýstu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband