Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Kvæðamannafélagið Iðunn 80 ára

freya Kvæðamannafélagið Iðunn er 80 ára í dag, en það var stofnað 15. sept. 1929. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að viðhalda og kenna íslenskan kveðskap og vísnagerð, safna kvæðalögum og varðveita þar með þessa merkilegu menningarhefð okkar Íslendinga sem rekja má langt aftur í aldir.

Nafn félagsins vísar til gyðjunnar Iðunnar. Hún gætti eplanna sem æsir átu til að viðhalda æsku sinni. Nafnið hæfir vel félagi sem varðveitir og heldur lífi í aldagamalli hefð.

Ég hef verið félagi í Iðunni í mörg ár, var varaformaður þess um tíma, og á margar góðar minningar frá skemmtilegum félagsfundum. Þá var oft glatt á hjalla, með kveðskap og leiftrandi ljóðmælum sem flugu milli manna. Þarna hafa margir ógleymanlegir hagyrðingar stigið á stokk í gegnum tíðina, snillingar á borð við Sveinbjörn Beinteinsson, Andrés Valberg, bræðurna Hákon og Ragnar Aðalsteinssyni, o.fl. Sömuleiðis hafa sprottið þar upp frábærir listamenn í kveðskap, menn á borð við Steindór Andersen sem hefur lagt einna drýgstan skerf til lifandi kveðskaparlistar af núlifandi Íslendingum. 

Þegar félagið fagnaði 75 ára afmæli sínu árið 2004 voru gefnar út 100 kvæðastemmur af silfurplötum Iðunnar ásamt veglegu riti með nótum að kvæðalögunum öllum og ritgerðum um íslenska kvæðahefð og rímnakveðskap. Silfurplötur Iðunnar nefndist þessi merka útgáfa sem er einstök í sinni röð og mikið þing.

Nú fagnar Iðunn áttræðisafmæli. Ég verð fjarri góðu gamni, og verð því að láta mér nægja að vera með í anda. En héðan úr Skutulsfirðinum sendi ég félögum mínum hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins -  það er braghenda:

Iðunn, til þín æsir sóttu æskuþróttinn.
Eplin rjóð í öskju þinni
yndi bjóða veröldinni.

Enn við þráum ávextina' af eski þínum,
af þeim lifna ljóð á vörum,
lífsins glóð í spurn og svörum.

Áttræðri þér árna viljum allra heilla.
Megi ljóðsins mátar finna
máttugan kraftinn epla þinna.


Klisjan um kvendyggðina

Valkyrja_by_perkanÍ Sigurdrífumálum Eddukvæða er sagt frá því þegar Sigurður Fáfnisbani reið á Hindarfjall og vakti upp af dásvefni valkyrjuna Sigurdrífu, sem lá þar í skjaldborg sinni, umlukin vafurloga. Hún hafði hjálm á höfði, íklædd brynju  sem var svo rammgerð að Fáfnisbaninn þurfti að rista hana af með sverði sínu. Við það brá hún sínum langa svefni, reis upp af beði og heilsaði degi:

Heilir æsir.
Heilar ásynjur.
Heil sjá hin fjölnýta fold.
Mál og manvit
gefið okkur mærum tveim
og læknishendur meðan lifum.

Síðan setjast þau tvö, valkyrjan og hetjan. Hún kennir honum rúnir þær sem ráða þarf til sigurs, lækninga, lífsnautna og gæsku. Að lokum biður hann hana um holl ráð sem hún leggur honum í lokaþætti kvæðisins og ráðleggur honum þar að sýna baráttuhug og þegja ekki við mótgerðum.

Sjálf er Sigurdrífa brynjuð herklæðum, varin inni í skjaldborg, umlukin vafurloga. Þær eru því margar hindranirnar sem Fáfnisbaninn þarf að yfirstíga til þess að eiga samneyti við valkyrjuna. Maður hefði haldið að fyrir innan allar þessar varnir myndi hann kannski komast í tæri við hin helgu vé kvenleikans - eitthvað viðkvæmt og mjúkt, huggandi, vaggandi og blítt - það hefði a.m.k. verið í anda klisjunnar um kvenleikann. En hvað finnur Sigurður? Stolta bardagahvöt, hugmóð og vitræn rök.

Það er athyglisvert að sjá þarna, í fornu kvæði, hermannlega hugmyndafræði flutta fram af konu sem leggur hetjunni lífsreglurnar. Hún varar hann beinlínis við þeim konum sem "sitja brautu nær" og "deyfa sverð og sefa." Hetjan á að berjast - hún á ekki að láta bifast af úrtölum og gráti kvenna. Um leið biður hún guðina um "mál og manvit"  handa þeim tveim sem þarna sitja "og læknishendur meðan lifum".

Hver er eiginlega Sigurdrífa? Fyrir hvað stendur hún og hver væri hennar samnefnari í samtímanum?

Sigurdrífa er í senn hermaðurinn og læknirinn, stjórnmálaskörungurinn, stjórnandinn, hugsjónakonan. Henni hugnast illa ákveðnir þættir í fari kvenna, sjálf er hún þó samnefnari fyrir allt sem kvenlegt getur talist í fornum sið. Hún býr yfir þekkingu völvunnar og kynngi valkyrjunnar sem hún helgar lífi og lækningu. Hún er líka kennari, sérfræðingur, ráðgjafi.

Sigurdrífa kemur oft upp í huga minn þegar ég þarf að hlusta á margtuggnar klisjur um konur, eðli þeirra og einkenni. Ætli Sigurdrífa hefði komið sér vel á kvennavinnustað? Hvernig hefði hún rekist í stjórnmálaflokki eða í samstarfi við aðrar konur?

Klisjurnar um kveneðlið er víðar að finna en í hugmyndafræði og orðræðu karla. Þær eru oft rauður þráður í gegnum orðræðu kvenna, ekki síst þeirra sem kenna sig við kvennabaráttu og kvenréttindi. "Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að  slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".

superwomanEin er sú klisja sem tröllriðið hefur kynjaumræðunni undanfarin ár, og það er klisjan um hina "kvenlegu stjórnunarhætti" -- en það hugtak ber að skilja sem "góða stjórnunarhætti". Í hugtakinu felst krafa um valddreifingu, en ekki endilega um dreifingu ábyrgðar, því stjórnandinn verður jú alltaf að standa klár á ábyrgð sinni og þar með mistökum annarra starfsmanna. Krafan felur það eiginlega í sér að kvenstjórnandi sé vinkona, ráðgjafi, móðir og þjónn, allt í senn og með þessum meðulum er ætlast til þess að hún ái árangri.

Sjálf hef ég aldrei verið aðnjótandi nokkurs sem kalla mætti kvenlega stjórnunarhætti, og hef ég þó oft unnið með og undir forystu kvenna. Ég hef bara kynnst góðum eða lélegum stjórnendum á mínum ferli.

En hví skyldi það eiga að vera dyggð að vera kona? Hvers vegna erum við konur svona kröfuharðar við sjálfar okkur, og hver við aðra að ætlast til þess að við séum alltaf í einhverju alltumlykjandi móður- og systurhlutverki gagnvart öllu og öllum, sérstaklega öðrum konum? Ekki voru þær það fornkonurnar, gyðjurnar, völvurnar, læknarnir og húsfreyjurnar sem við lesum um í fornbókmenntum. Þær sögðu fyrir um veðurfar og forlög, höfðu búsforráð á bæjum, hvöttu eiginmenn, bræður og syni til dáða og læknuðu svo mein þeirra að orrustu lokinni. Það var ekki þeirra hlutverk að "deyfa sverð og sefa" hvorki í vörn né sókn - eða koma sér vel við aðrar konur. Nei, þær áttu ekki að koma sér vel, heldur reynast vel.

Kvenpersónur fornsagnanna voru til á eigin forsendum "máls og manvits", eins og Sigurdrífa er hún heilsaði degi og goðheimi öllum á Hindarfjallinu forðum.


Að tengja lán við launavísitölu?

Það hljómar skynsamlega að tengja verðtryggingu lána við vísitölu launa fremur en neyslu, eins og Joseph Stiglitz bendir á. Hugmynd Stiglitz á vissan samhljóm í hugmynd Þórólfs Matthíassonar hagfræðings um afkomutengingu lána, þó hugmynd Þórólfs  miðist fremur við greiðslugetu fólks en verðlagsforsendur lánanna.  Báðir hagfræðingarnir eru hinsvegar að leita réttlátra leiða til þess að leysa almennan og yfirþyrmandi greiðsluvanda. Í því samhengi vilja báðir líta til afkomu fólks. 

Vitanlega er það alveg rétt hjá Stiglitz að verðtryggingin eins og hún hefur verið praktíseruð á Íslandi er óréttlát. Hann hefur líkt henni við lyf sem gefið er við höfuðverk en drepur í reynd sjúklinginn (og þar með höfuðverkinn). Að miða afborganir lána við síhækkandi neysluvísitölu sem þróast öðruvísi en launavísitala, felur í sér verulega hættu fyrir lántakandann. Þetta hlýtur að vera hægt að leiðrétta. 

Þó er ein hlið á þessu máli sem þarf að hugleiða, og það er svarti vinnumarkaðurinn. Hann hlýtur að skekkja myndina, hvort sem við erum að tala um að afkomutengja afborganir eða miða verðtryggingu við launavísitölu.

Er hægt að finna "rétta" launavísitölu í landi þar sem svartur vinnumarkaður þrífst undir (og jafnvel ofan á) yfirborðinu?

Þó ég spyrji svona - er ég samt höll undir þessar hugmyndir að breyta við miði lánanna þannig að afborganir þeirra og verðþróun fylgi fremur afkomu fólks en annarri verðlagsþróun. En til að slík breyting feli í sér eitthvert réttlæti, þurfa forsendur að vera réttar. Málið er því ekki einfalt.


Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir

Þórólfur Matthíasson Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.

Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.

Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.

Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.

Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.

Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur. 

Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).  


Jónsmessunótt

sumarsolstodur

Nú fer Jónsmessunóttin í hönd - sú dulmagnaða nótt sem þjóðtrúin telur öðrum nóttum máttugri í mörgum skilningi. Þá nótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í Jónsmessudögg enn þann dag í dag. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.

Annars er Jónsmessan kirkjuleg hátíð - og eins og flestar hátíðir kirkjunnar (t.d. jólin) þá var henni ætlað að leysa af heiðna sólstöðuhátíð þ.e. sumarsólstöðurnar sem eru tveim dögum fyrr. En sumarsólstöðurnar eru hinn náttúrulegi hápunktur sumarsins.

Það er dásamlegt að vera utandyra ef veður er gott um sumarsólstöður, t.d. á Jónsmessunótt og skynja kraftinn úr jörðinni - tína þá grös í poka og finna fallega steina. Vera einn með sjálfum sér.

Hér fyrir vestan hafa verið rigningarskúrir í dag. Jörðin er hrein og rök. Full af krafti. Það er svartalogn á firðinum og nýtt tungl á himni.

 


Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsáhaldabyltingin var galdur

busahaldabyltingin.jpg Ekki alls fyrir löngu ritað Sigurður Líndal grein í Fréttablaðið um ráðherravaldið í stjórnskipan landsins. Þetta er athyglisverð grein sem full ástæða er til að halda fram. Í niðurlagi kveður hinsvegar við óvæntan tón hjá Sigurði varðandi búsáhaldabyltinguna svokölluðu. Um hana segir Sigurður:

En fátt stendur þó lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stutt í að bareflin taki við af sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. 

Ég get ekki tekið undir það að búsáhaldabyltingin hafi verið sigur afþreyingariðnaðarins yfir rökhyggjunni. Sem sérfræðingur í galdramálum hef ég kynnt mér vel ýmiskonar galdra- og trúarathafnir í gegnum tíðina, form þeirra og inntak. Og satt að segja hef ég fundið samsvörun með búsáhaldabyltingunni og ýmiskonar galdraathöfnum sunnar á hnettinum, t.d. í Afríku. 

Formið er þetta: Meðlimir ættbálksins koma saman við eldinn og stíga dans undir taktfastri hrynjandi og hrópa óskir sínar eða áköll til guðanna.

Nóttina sem búsáhaldabyltingin stóð sem hæst logaði eldur í miðborginni þaðan sem takturinn barst eins og hjartsláttur út í náttmyrkrið. Þarna var sunginn mikill seiður. Þarna sameinaðist hugarorka þúsunda manna í fastri hrynjandi og ákalli um breytingar. Þessi seiður hafði áhrif.

Búsáhaldabyltingin var því engin afþreying - hún var galdur.


Verður stjórnlagaþing? Hvenær þá?

Eiríkur Tómasson, prófessor í stjórnskipunarrétti, hefur skrifað lærða grein um stjórnlagaþing þar sem fram kemur að vel sé gerlegt að boða til þess samhliða næstu alþingiskosningum. Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi skrif Eiríks, sem m.a. eru birt á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is.

Ríkisstjórnin hefur gefið það fyrirheit að lög verði sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings. Einnig verði gerðar breytingar á stjórnarskrá sem lúta að auðlindum í þjóðareign; þjóðaratkvæðagreiðslum og  aðferð við breytingar á stjórnarskrá. Í þessu skyni var nýlega skipaður sérstakur ráðgjafahópur undir forystu Bjargar Thorarensen, prófessors og forseta lagadeildar HÍ.

Nú, tæpum tveim vikum síðar, er komið fram frumvarp frá framsóknarflokknum um stjórnlagaþing. Ekki hefur það fyrr litið dagsins ljós en ríkisstjórnin boðar annað frumvarp. Hvað það boðar veit ég ekki  - en grunur vaknar um að málið verði tafið.

Það má ekki gerast.  Ný stjórnarskrá sem setur ný viðmið sem byggja á endurmati og reynslu er forsenda þess að við getum markað okkuð nýtt upphaf. Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur. Við þráum flest öll endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við. Þar er um að ræða gildi á borð við heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ekki síst ábyrgð


Auschwitz - Birkenau

P1000621 (Medium) ARBEIT MACHT FREI stendur svörtum stöfum yfir innganginum að útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi. Í 3ja km fjarlægð eru Birkenau búðirnar - sem oft og einatt eru kallaðar Auschwitz-Birkenau, eða Auswitz II.  Þær eru afkastamestu útrýmingarbúðir Þjóðverja á árunum 1940-45. Á ferð minni til Kraká í síðustu viku átti ég þess kost að skoða Auswitz og Birkenau.  Búðirnar eru 50 km suðvestur af Kraká.

P1000632 (Medium)Ég mun aldrei gleyma þeirri heimsókn - og það mun taka mig vikur, ef ekki mánuði að vinna úr þeirri upplifun sem ég varð fyrir þarna; þeim upplýsingum sem streymdu til mín í gegnum staðreyndir, minjar, myndir og annað sem fyrir augu bar.

Í Auschwitz I - upprunalegu búðunum - voru 70 þúsund manns tekin af lífi, aðallega Pólverjar og Sovéskir stríðsfangar. Í Birkenau lét að minnsta kosti 1 milljón manna líf sitt, mest Gyðingar og Pólverjar, en einnig Sígaunar, Vottar Jehóva, samkynhneigt fólk, fólk sem dæmt hafði verið fyrir ýmsa glæpi, fatlaðir og aðrir sem ekki féllu vel að hugmyndafræði Nazismans. Raunar  kom fram í Nurnberg réttarhöldunum,  hjá yfirmanni búðanna, Rudolf Höss, að þarna hefðu um 3 milljónir látið líf sitt - en skráning á þeim sem komu i búðirnar var að engu orðin undir lokin, svo sannanir um endanlegan fjölda skortir.

P1000624 (Medium)Innan við hliðið í Auschwitz I, léku hljóðfæraleikarar létta tónlist fyrir þá sem komu í búðirnar. Fólk hafði þá ferðast með gripavögnum dögum saman, án matar eða salernisaðstöðu, án nægjanlegs súrefnis og var aðframkomið þegar það kom á brautarpallinn í Auswitz. Sumir höfðu tekið með sér búsáhöld og aðrar eigur í þeirri trú að þeir væru að koma til nýrra heimkynna. Þeim var ráðlagt að skilja farangurinn eftir á brautarstöðinni og fara beint í bað. Við hliðið ómuðu léttir marsar og fólkið gekk grunlaust inn fyrir, framhjá tvöfaldri rafmagnsgirðingunni sem umlykur svæðið. Þar var því strax skipt í tvo flokka.

Til hægri fóru þeir sem áttu að lifa - fólk á góðum aldri sem líklegt var til þess að geta unnið. Til vinstri - og beint í gasklefann - fóru gamalmenni, fatlaðir, börn og aðrir sem ekki voru til stórræðanna.

Það er undarlegt að standa framan við dyrnar að gasklefanum. Sjá háan reykháfinn bera við loft -skammt frá húsinu þar yfirmaður búðanna bjó með konu sinni, börnum og heimilishundi. Úr stofuglugganum gátu þau séð fangana streyma inn í byrgið og reykinn liðast upp um reykháfinn. Enginn kom út aftur. Þjóðverjar reyndu að eyðileggja þessi ummerki áður en búðirnar voru frelsaðar. Þeim tókst það þó ekki nema að hluta. Líkbrennsluofnarnir hafa verið endurbyggðir nákvæmlega eins og þeir voru. Klefarnir eru upprunalegir.

                                                

P1000602 (Medium)Maður gengur inn um þessar lágu dyr. Þar fyrir innan var fólk látið afklæðast og því síðan þjappað inn í lágan klefa þar fyrir innan. Í loftinu eru einhverskonar túður eða stokkar - þar niður var eitrinu veitt. Zyklon-B nefndist hið banvæna efni. Þetta eru litar örður, minna helst á mulda sápu eða grófa, ljósa sandmöl. Þegar efnið komst í samband við súrefni og ákveðið hitastig losnaði eitrið úr læðingi. Tuttugu mínútum eftir að eitrinu var veitt niður um túðurnar, voru allir í klefanum látnir. Þá voru klefarnir opnaðir - líkin tekin og "hreinsuð". Gullfyllingar teknar úr tönnum og hár skorið af. Síðan voru líkamarnir settir í brennsluofinn.

Þeir sem ekki fóru beint í gasklefann voru fluttir í skálana þar sem þeim var úthlutað koju með 2-4 öðrum. Hár þeirra rakað af og húð þeirra merkt með brennimerki eða tattúi á handlegg eða brjóst. Í fyrstu voru allir fangarnir myndaðir og nafn þeirra skráð ásamt öðrum upplýsingum. Þegar leið á stríðið var þessu hætt, og fanganúmerið á húð þeirra látið duga - eftir það bar viðkomandi einungis þetta númer í stað nafns.

P1000637 (Medium) 

 

 

Enn skelfilegri var aðbúnaður fanganna í Birkenau - þar voru húsakynnin hesthús þar sem hróflað hafði verið upp rúmstæðum - þremur kojuröðum upp undir loft. Fimm til átta sváfu þar saman í hverri koju, með eina ábreiðu. Engin upphitun, engin hreinlætisaðstaða.  Þessi mynd er ekki góð en ef þið smellið á hana, stækkar hún, og þá má sjá betur hvernig umhorfs var í þessum vistarverum.

 

 

P1000598 (Medium) Í Auschwitz I vorum við leidd að gálgunum þar sem brotlegir fangar voru teknir af lífi fyrir litlar sakir - jafnvel tólf saman. Við sáum aftökustaðinn þar sem þeir voru skotnir til bana. Það var í portinu milli skálanna þar sem yfirmennirnir höfðust við öðrumegin. Hinumegin var hið svokallaða "sjúkrahús" þar sem Josef Mengele gerði sínar ómannúðlegu og skelfilegu tilraunir á konum og börnum, aðallega tvíburum. Við sáum líka refsiklefana þar sem fangarnir voru sveltir eða þeir kvaldir með því að standa örþreyttir eftir langan vinnudag. Já, við sáum klefa sem var 90 x 90 cm að þvermáli. Fanginn þurfti að skríða inn um lítið op sem var við gólfið, og rísa síðan upp og standa þar uppréttur, því ekki gat hann lagst - þar til næsti vinnudagur tók við.

Á göngunum eru myndir af þeim föngum sem myndaðir voru á fyrstu þremur árunum sem búðirnar voru starfræktar. Undir myndunum eru nöfn, fanganúmer og dánardægur hvers og eins. Margir létust fáeinum dögum eftir komuna, aðrir vikum eða mánuðum síðar. Flestir voru látnir áður en árið var liðið. Á þessum myndum sér maður líka börn sem hafa lifað mislengi. Hugrekki þeirra og þróttur, þar sem þau horfa framan í ljósmyndarann snertir mann djúpt.

Einn skálinn er helgaður þeim munum sem fundust eftir að búðirnar voru frelsaðar. Í einu herberginu er gríðarstór haugur af ferðatöskum. Annar haugur af búsáhöldum ýmiskonar  (sem fólk tók með sér því það hélt að þarna biðu þess ný heimkynni). Sá þriðji af gleraugum, sá fjórði af skóm.

Í einu herberginu er haugur af mannshári - heilt tonn - aðallega kvenhári. Það notuðu þjóðverjarnir til þess að vefa fóður í hermannabúninga. Í loftinu er undarleg lykt - sambland af myglu og mölkúlum. Þarna er manni farið að líða verulega illa. Í einu horninu eru bænasjöl sem gerð voru upptæk, einnig röndóttir fangabúningarnir, gauðrifnir og grófir, sem augljóslega hafa ekki haldið neinum hita í vetrarkuldum.

Innar í þessu sama herbergi eru svo barnafötin, rifin og snjáð, snuddurnar, litlu barnaskórnir, bangsar og dúkkur sem höfðu verið teknar með í leiðangurinn - í helförina.

Það verður enginn samur eftir að hafa komið á þennan stað.

 

P1000622 (Medium)

Ég finn veðurbrigði í nánd ...

fýll-hive.is (Small) Jæja, þá eru haustlægðirnar farnar að gera vart við sig, og nú mun vera von á einni frekar krappri eins og fram kemur á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar. Ekki er laust við að maður finni þetta á sér, enda komið hausthljóð í vindinn fyrir nokkru.

Ég er ein af þeim sem finn fyrir veðurbrigðum þegar þau nálgast. Margir halda að þetta sé einhverskonar hjátrú eða bábilja. Svo er þó ekki. Ég beinlínis finn fyrir því í mjöðmum og baki þegar loftþrýstingur lækkar. Gömlu konurnar hafa löngum haldið þessu fram - og ég held að margt yngra fólk finni fyrir þessu þó það átti sig ekki alltaf á ástæðunni. Sömuleiðis verð ég svefnþung og þreytt þegar lægð er yfir landinu - þannig er það bara.

Ég minnist þess þegar ég kenndi í Gagnfræðaskóla Húsavíkur fyrir mörgum árum, að ef krakkarnir urðu óvenju órólegir - þá á ég við hópinn allan - þá sagði Sigurjón Jóhannesson skólastjóri ævinlega: Nú er lægð á leiðinni. Og það brást ekki.

Maður getur líka séð ýmis veðurmerki á dýrum, sérstaklega fuglum, þegar loftþrýstingur er að breytast.

Og sumsé - nú er lægð á leiðinni. Ég var svefnþung í morgun og svei mér ef það lagðist ekki svolítill seiðingur í spjaldhrygginn í gærkvöldi.  Wink


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband