Færsluflokkur: Tónlist

Sól slær silfri á voga ...

snaefellsjokull "... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.  

(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir) Blush

En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.

Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.

"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.

Njótið helgarinnar.

 PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.


Lóan er komin. Gleðilega páska!

Loan Það er sólarglenna og hæglætisveður hér á Ísafirði þennan páskamorgun. Í gær sást til heiðlóu á Holtsodda í Önundarfirði. Hrossagaukur sást í Haukadal í Dýrafirði og æðarkóngur við Höfða.

 Já, vorið er á næsta leiti - og vonandi fylgir því betri tíð fyrir land og lýð.

Aldrei fór ég suður hátíðin stóð fram eftir nóttu og við heyrðum daufan óminn berast yfir bæinn þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Það virtist vera góð og vandræðalaus stemning í kringum tónleikana. Þegar ég kíkti var Hemmi Gunn að rifja upp gamla takta við mikinn fögnuð. Salurinn var troðfullur út úr dyrum.

Húsið hjá mér er fullt af gestum um hátíðarnar. Tvö barnanna minna komu að sunnan ásamt tveimur vinum sínum fyrr í vikunni. Hér hafa líka verið nætur gestir í tengslum við kosningastarfið, þannig að hér er hvert fleti skipað, eins og oftast um þetta leyti. Bara gaman af því.

Sjálfsagt munum við skella okkur á skíði seinna í dag. Svo verður kíkt á kosningamiðstöðina, og eldað eitthvað gott í kvöld. Smile

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska kæru lesendur og vinir!

 


Glimrandi tónleikar; handleggsbrotinn stjórnandi; börn í yfirliði ... semsagt: Viðburðaríkt kvöld

valkyrjurdes06Tónleikarnir okkar Valkyrjanna og stúlknakórsins tókust glimrandi vel í gærkvöldi. Ég fann röddina aftur. Því fór nú ekki eins og Leirverjinn Björn Ingólfsson hafði spáð mér þegar ég kveinkaði mér undan raddþreytu fyrr um daginn:

Frekar illa er frúin stödd,
frá því okkur segjandi
að hún hafi enga rödd
og ætli að syngja þegjandi. Whistling

 

Tónleikarnir tókust bara vel, held ég. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá og heyra á tónleikagestum. Að vísu leið yfir eina stúlkuna í blálokin á tónleikunum, en það náðist að grípa hana áður en hún skall í gólfið. Daginn áður hneig önnur stúlka í yfirlið á æfingu, þannig að þið sjáið að það getur gengið á ýmsu þegar mikið stendur til.

 Eftir tónleikana komum við saman til þess að halda upp á vel heppnað kvöld. Þá vildi ekki betur til en svo að stjórnandinn okkar rann í hálkunni framan við húsið og handleggsbrotnaði. Frown

Þetta skyggði verulega á gleðina - enda varð uppi fótur og fit með tilheyrandi pilsaþyt og rassaköstum eins og gengur í kvennahópi. Það var hringt á sjúkrahúsið og útvegaður bíll. Aumingja Ingibjörgu var troðið í aftursætið með blessunarorðum og fyrirbænum okkar hinna.  Svo var brunað með hana sárkvalda á slysavarðstofuna þar sem búið var um brotið.

Við hinar þurftum að sjálfsögðu að fá okkur hjartastyrkjandi á meðan við biðum þess að fá fréttir af afdrifum Ingibjargar. Já, við þurftum líka að syngja svolítið til þess að róa okkur. Það tók svolitla stund. Svo þegar ljóst var að kórstjórnandinn var beinbrotin, var ekki annað tekið í mál en að ekið yrði með hana framhjá húsinu, svo við gætum komið að bílnum, kysst hana og knúsað í kveðjuskyni.

Já, það er ekki þrautalaust að halda tónleika. Þetta var svo sannarlega viðburðaríkt kvöld og verður lengi í minnum haft.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------- 
PS: Myndin hér fyrir ofan er tekin 2006, stuttu eftir að kórinn var stofnaður.

Sungið og sungið og sungið og .... börn falla í yfirlið!

kórsöngur Ég hef verið að syngja fullum hálsi í allan dag - nú þarf ég að þegja.  Nú vil ég fá að þegja. Lengi.

Um bylgjur ljóssins berast nú
boð um mikinn fögnuð.
Upp á mína æru og trú:
Ólína er þögnuð.

Já, við æfðum af svo miklu kappi í dag að börnin voru farin að hníga niður í yfirlið. Whistling  Jæja - ég á auðvitað ekki að tala í fleirtölu. Það var ein stúlka sem hneig niður. Steinlá, litla skinnið - og pabbinn sótti hana skömmu síðar.

En það var sumsé kvennakórinn Valkyrjurnar sem þarna þandi raddöndin ásamt undurþýðum barna- og stúlknakór. Tilefnið eru tónleikar sem verða í Ísafjarðarkirkju annað kvöld. Þar munum við, flytja Ceremony of Carols og fleira jólalegt við fagran hörpuslátt og kertaljós.

En, eftir þetta hógværa yfirlið hélt æfingin áfram undir styrkri stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, stjórnanda okkar. Hún átti svo eftir að fara út í Bolungarvík að stjórna aðventukvöldi, þannig að það var enginn tími til að drolla. Wink Svona konur eiga nú eiginlega að fá heiðursmerki.

Við í altinni töldum vissast að halda eina aukaæfingu í heimahúsi nú í kvöld - svona rétt til að styrkja nokkrar innkomur eins og gengur.

Og nú er ég sumsé búin að syngja yfir mig, eins og ég sagði ....


Á vængjum söngsins á Tónlistardaginn mikla!

abba Í dag ætla ég ekki að hugsa um pólitík. Ég ætla bara að svífa "Á vængjum söngsins" í tilefni af því að nú er Tónlistardagurinn mikli framundan hér á Ísafirði næstkomandi laugardag. Þessi tónlistarveisla er haldin í tengslum við 60 ára afmæli Tónlistarskólans hér - og nú verður mikið um að vera. Allir kórarnir á svæðinu hafa verið virkjaðir í tónlistarflutning og íbúarnir sjálfir, því fólk mun geta komið inn á heimili bæjarbúa og hlýtt þar á tónlistarflutning heimafólks (sniðugt Smile minnir svolítið á fiskidaginn).

 Nú vill svo skemmtilega til að einkennislag Tónlistardagsins mikla er ABBA lagið "Thank you for the music" í íslenskri þýðingu. Lagið var valið í vor, áður en myndin Mama mia sló hér í gegn, áður en ABBA æðið gekk yfir landið. En nú fellur þetta alltsaman eins og flís við rass.

Ég fékk þann heiður að þýða textann og hann útleggst hjá mér "Á vængjum söngsins " . Þessari þýðingu hefur nú verið dreift í hús á Ísafirði, skilst mér, því það er ætlunin að allir taki undir með kórunum á Silfurtorginu á Ísafirði á laugardaginn. Ég verð sjálf fjarri góðu gamni, upptekin við að stjórna aðalþingi Neytendasamtakanna með meiru. En ég verð með í anda.

Fyrir þá sem vilja æfa sig, þá fer textinn hér á eftir. Og HÉR getið þið séð lagið sungið af ABBA.

En þýddi textinn er svona:


Látlaus ég virðist, ég verð sjaldan æst eða reið.
Ef ég segi sögu - þá syfjar þig trúlega um leið.
En leynivopn á ég - eitt dásemdarþing,
því kliðurinn þagnar þegar ég syng.
Það er hamingjugjöf
og mig langar að hrópa yfir höf.

Á vængjum söngsins hef ég svifið
í sorg og gleði,
sungið dátt með glöðu geði.
Án þess væri lífið svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

Dálítil hnáta ég dansaði af lífi og sál.
Ég dreymandi söng, því söngur var mitt eina mál.
Og oft hef ég hugsað hvers virði það er
að heyra og finna í brjóstinu á sér
þessa hljómkviðu slá,
hjartastrengina samhljómi ná.

Á vængjum söngsins hef ég svifið  ....

Þakklæti finn ég - þegar ég syng af hjartans lyst.
Rödd mína þen ég hátt svo allir heyri:
Þennan róm, þennan tón, þennan hljóm.

Söngs á vængjum svíf ég - í sorg og gleði.
Syng ég dátt með glöðu geði ,
án þess væri lífið - svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

-----

PS: Í dag (18. sept) leiðrétti ég textann sem var settur hér inn í fyrstu - ég hafði í ógáti tekið eldri drög að textanum. Þetta hefur nú verið lagað - þetta er endanlegi textinn hér fyrir ofan.


Amy Winehouse, Britney, Jackson - harmsaga okkar daga.

amy-winehouse-fat-thin Amy Winehouse er að upplagi falleg og hæfileikarík söngkona með stórbrotna rödd. Ung stúlka sem fyrri fáum mánuðum var svona útlítandi:

 amy_winehouse_narrowweb__300x414,0 En er nú orðin svona:

AmyWinehouse-horud AmyWinehouse2603_468x406

Hún er grindhoruð, alsett kaunum og kýlum eins og þeir sem neyta heróíns, kókaíns og cracks.  Tónlistarframmistaðan hefur þróast á svipaðan veg. Ekki er ýkja langt síðan Amy kom fram við verðlaunaafhendingu og söng þá með þessum hætti. Bara sæmilegt, ekki satt? Back to black söng hún um svipað leyti og gerði það bærilega. En á  þessum tónleikum má hinsvegar sjá að hún er farin að missa fjaðrirnar: Máttfarin, laglaus og óstyrk.

amy_winehouse_4_wenn1832955 Já, það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Amy Winehouse. Þetta hefur gerst svo hratt að maður trúir því varla. Á hverjum tónleikunum af öðrum birtist hún skökk og skæld, þvoglumælt og hræðileg, eins og til dæmis hér. Hún hefur jafnvel gengið svo langt að fá sér í nösina frammi fyrir áhorfendaskaranum, eins og hún hafi ekki áttað sig á því hvar hún var stödd.

Þetta "Hollywood-líf" er eins og banvænn sjúkdómur. Ungt fólk í blóma lífsins er bókstaflega étið upp til agna ef það kann ekki fótum sínum forráð. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi: Britney Spears,  Michael Jackson og fleiri og fleiri. Birtingarmyndirnar eru margvíslegar - en allar eiga þær það sammerkt að í þeim eru ungar, hæfileikaríkar manneskjur að veslast upp fyrir augunum á heimsbyggðinni. Og heimurinn horfir og horfir - af áfergju og grimmd - tekur myndir og selur. Græðir á ógæfunni. 

Enginn segir "nóg komið". Og enginn kemur til hjálpar.


Markaðstorg þjóðanna. Getspeki Sigmars.

euroband Mikið déskoti var Sigmar seigur að giska á einkunnagjöf þjóðanna í Júróvisjóninni í gær. Það er eiginlega það sem stendur upp úr - svona fyrir utan frammistöðu Íslendinganna í keppninni.

Getspeki Sigmars segir manni það líka að tónlistin sjálf skipar æ minni sess í þessari keppni. Þetta er auðvitað fyrst og fremst markaðstorg þar sem þjóðirnar keppast við að vekja athygli á sér og auglýsa sig fyrir fjárfestum, ferðamönnum, alþjóðlegum verslunarkeðjum og þar fram eftir götum. Og það er orðið átakanlega fyrirsjáanlegt hvernig atkvæði falla milli þjóða og svæða. Við Íslendingar erum þar engin undantekning - kjósum Norðurlandaþjóðirnar og Vestur-Evrópulöndin og þiggjum þeirra stuðning á móti. Enda var það línan fyrir keppnina.

Svolítið hlálegt fannst mér að sjá Þýskaland og Lettland fá tólf stig einhversstaðar frá - svona í ljósi þess að flutningur þeirra var alveg rammfalskur á köflum. Reyndar finnst mér með ólíkindum að sjónvarpsáhorfendur skuli þurfa að hlusta á rammfalskan söng í jafn tæknivæddri útsendingu og Júróvisjón - þar sem keppendurnir eiga að vera það sem stendur upp úr eftir undankeppnir. Ég heyrði ekki betur en Rúmeníuframlagið hafi líka verið falskt - jafnvel sænska lagið á köflum. Blush

Þess vegna hefði ég orðið móðguð ef við Íslendingar hefðum ekki komist upp fyrir Svía. Segi það satt. Okkar flytjendur slógu hvergi feilnótu og fóru aldrei út af sporinu - heldur voru landi og þjóð til mikils sóma.

Takk fyrir það.

 


Glæsilegt hjá Eurobandinu

eurobandið Það gerist sjaldan - og æ sjaldnar satt að segja - að ég fyllist sannkölluðu þjóðrembustolti yfir frammistöðu Íslendinga á erlendri grundu. Seint hélt ég að ég myndi sitja með gæsahúð af gleði yfir Júróvisjón. Það hefur bara ekki gerst síðan Sigga Beinteins og Grétar Örvars flatteruðu hálfan heiminn - já, og Selma svo reyndar seinna. Því miður minnist ég þess oftar að hafa setið hálf vandræðaleg og stressuð fyrir framan skjáinn að fylgjast með okkar fulltrúum í keppninni.

En í kvöld gerðist það aftur. Smile 

Ég bókstaflega sat sem bergnumin og var að SPRINGA af stolti.Wizard Þau Regína Ósk og Friðrik Ómar ásamt félögum sínum í bakbandinu stóðu sig með sönnum sóma. Lífleg, geislandi, örugg - þetta var sko alvöru frammistaða.

Og mér er bara nákvæmlega sama hvar við lendum í þessari keppni þegar upp er staðið - ég er svo harðánægð með mitt fólk. Það var ekki hægt að gera þetta betur. Hvort Evrópa kann svo að meta þetta er önnur saga. En ég lít þá frekar á það sem evrópskt menningarvandamál ef okkar fólk fær ekki gott brautargengi í keppninni. Cool

Ég óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu frammistöðu Júróbandsins. Kissing  


mbl.is „Kom skemmtilega á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubbi og Björn Jörundur eða Óðinn Valdimarsson?

Odinn Bubbi og Björn Jörundur hafa kynnt til sögunnar nýja útgáfu á laginu yndislega sem Óðinn Valdimarsson söng svo ógleymanlega á sínum tíma, "Ég er kominn heim" eða "Er völlur grær" eins og það heitir víst upphaflega.

Ýmsir hafa spreytt sig á þessu lagi eftir að Óðinn tók það. Bjöggi syngur það býsna vel - svo hafa Andri Bachmann og fleiri sungið það og tekist svona og svona.

En þó ég haldi mikið upp á Bubba og Björn Jörund, þá er ég ekki ýkja hrifin af þessu nýjasta tiltæki þeirra. Þeir bara ná ekki þessari sætu, gammeldags stemningu sem svífur yfir laginu.

Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann syngja þetta eins vel og Óðin heitinn - mýktin í söngstílnum hans er bara óviðjafnanleg. Hreint út sagt.

En fyrst ég er nú farin að tala um þetta. Þá hef ég heldur ekki enn náð einni línunni í textanum - sama hver syngur. Er einhver þarna úti sem getur upplýst mig um þetta?

Það sem mig vantar er í 2. erindinu sem hefst svona: Við byggjum saman bæ í sveit / sem blasir móti sól ...... Svo kemur eitthvað með "landið mitt / mun ljá og veita skjól".

 Hvað á að koma þarna á milli?


Ógleymanlegir hátíðartónleikar

Hatidarkor-BjornBaldursson Í kvöld  voru hátíðartónleikarnir með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar í íþróttahúsinu á Torfnesi. Sjálf stóð ég inni í miðjum kór og söng Gloríu eftir Poulenc ásamt um hundrað kórfélögum - verkið var síðast á dagskránni. Bernharður Wilkinson stjórnaði hljómsveit og kór - troðfullt íþróttahúsið. Ingunn Ósk Sturludóttir söng einsöng í Gloríunni. Hún gerði það þannig að ég er enn með gæsahúð.

Ég held við höfum bara staðið okkur býsna vel hátíðarkórinn. Áheyrendur virtust ánægðir og tilfinningin á meðan á þessu stóð var góð. Ég veit svosem ekki hvernig stjórnandanum leið þarna í einni innkomunni ... Blush .... best að tala ekki meir um það ...  en það verður sjálfsagt aldrei upplýst Smile

Beata Joó á heiður af æfingum kórsins fyrir þessa tónleika - hún er auðvitað frábær. Svo kom Bernharður Wilkinson og rak smiðshöggið á síðustu tveimur æfingunum. Hann er auðvitað afburðamaður á sínu sviði - og mjög gaman að hafa kynnst honum svona í aksjón, eins og maður segir.

 Þetta var frábær upplifun og ógleymanleg stund.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband