Færsluflokkur: Mannréttindi

Krafan um jöfnuð er ekki klisja

Jafnaðarhugsjónin er auðlind – það sjáum við þegar við lítum til öflugustu velferðarsamfélaga heims, eins og Norðurlanda.  Krafan um jöfnuð er lifandi stefna að verki. Hún miðar að því að byggja upp samfélag af sömu umhyggju og við byggjum upp heimili. Því er ætlað að veita öryggi og vera skjól.  Þess vegna hefur það haft ótvíræða þýðingu fyrir íslenskt samfélag að það skuli hafa verið jafnaðarmenn sem haldið hafa um stjórnartauma hin erfiðu ár eftir hrun.  Á síðustu fjórum árum hafa jafnaðarmenn á Íslandi náð að jafna lífskjör í landinu. Við breyttum skattkerfinu – og já, við hækkuðum skatta á þá hæstlaunuðu, en um leið hlífðum við láglaunahópunum og vörðum millitekjuhópinn. Við jukum stuðning við ungar barnafjölskuldur, hækkuðum barnabætur, hækkuðum húsaleigubætur og drógum úr skerðingum. Við stórhækkuðum vaxtabætur og greiddum samtals hundrað milljarða í þær og barnabætur á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni komist nálægt. Kaupmáttur lægstu launa er hærri nú en hann var í góðærinu. Skattbyrðin er lægri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er nú helmingi minni en árið 2007 þegar hann varð mestur. Það skiptir máli hverjir stjórna. Okkur tókst það sem engri annarri þjóð hefur tekist, sem hefur lent í kreppu: Að verja kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að náðist að minnka halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, lækka verðbólgu úr 18% í 4,5%, minnka atvinnuleysi um helming og ... verja velferðarkerfið. Nei, krafan um jöfnuð er ekki klisja – hún er lifandi stefna. Félagslegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í samfélögum þar sem jöfnuður er í hávegum hafður er minna um öfga og glæpi. Jafnaðarstefnan vinnur gegn félagslegum vanda og andlegri vanlíðan. Hún vinnur gegn kynjamismunun og menntunarskorti. Jafnaðarstefnan stuðlar að almennri velmegun, sjálfbærni og minni sóun.Hún stuðlar að samheldni, gagnkvæmu trausti og mannvirðingu. Þannig samfélag vil ég. 

Kvótamálin og vegferðin framundan

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá.  Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.

 

En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.

 

Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn  og vaxandi  leigumarkaður með aflaheimildir  og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.

Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt – skref sem ég tel  rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.  Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um „allt eða ekkert“ getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.

 

Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni – en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.

 

----------------

Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.


Kvótamálið - tækifærið er núna

Fyrr í dag sendum við Lilja Rafney Magnúsdóttir frá okkur yfirlýsingu vegna stöðunnar sem upp er komin í fiskveiðistjórnunarmálinu - en í dag ákváðu forystumenn stjórnarflokkanna að bíða með framlagningu þess. Yfirlýsing okkar Lilju Rafneyjar fer hér á eftir:

Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun,  sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar,  bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt  búsetuskilyrði í landinu.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi  leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er  núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
 
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt – skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.

Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta.  Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna  á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.

Nú er tækifærið – óvíst er að það gefist síðar.


Heildræn meðferð - heilsubót eða kukl?

Þingsályktunartillaga - sem ég er meðflutningsmaður að - um að kannaðar verði forsendur þess að niðurgreiða heildræna meðferð græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu, hefur vakið augljósan áhuga í samfélaginu, jafnvel hörð viðbrögð hjá sumum. Eitt dæmi er  þessi vanhugsaða fordæming á heimasíðu Vantrúar þar sem því er haldið fram að umræddir þingmenn - Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og undirrituð - séum að leggja það til að ríkið "niðurgreiði skottulækningar" eins og það er orðað svo smekklega.

Verði hin ágæta þingsályktunartillaga okkar þriggja samþykkt gerist einfaldlega þetta:

Skipaður verður starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, Bandalagi íslenskra græðara, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti. Sá hópur metur það í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um gagnsemi heildrænnar meðferðar græðara hvort efni standi til þess að bjóða fólki upp á niðurgreiðslu slíkrar meðferðar - hvort sem hún er þá liður í  t.d.

  • eftirmeðferð (td eftir krabbameinsmeðferð, áfengismeðferð eða dvöl á geðsjúkrahúsi svo dæmi sé tekið)
  • stoðmeðferð við aðrar læknisfræðilegar/hefðbundnar meðferðir (t.d. stuðningur við kvíðastillandi meðferð, meðferð við þunglyndi eða vegna meðferðar langvinnra, álagstengdra sjúkdóma)
  • eða sjálfstæð meðferð vegna óskilgreindra heilsufarslegra vandamála sem  læknavísindin ráða jafnvel ekki við með hefðbundnum aðferðum.

Heildrænar meðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna undanfarna áratugi sem liður í almennri heilsuvakningu og auknum skilningi læknavísindanna á því að sjúkdómar eru sjaldnast einangrað fyrirbæri, heldur afleiðing samverkandi þátta í lífi fólks: Lifnaðarhátta, andlegs álags, erfða o.s.frv.

Náttúrulækningafélag Íslands reið á vaðið á síðustu öld með stofnun heilsuhælisins í Hveragerði, þar sem fólk fær einmitt heildræna meðferð við ýmsum kvillum t.d. eftir skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir: Slökun, nudd, leirböð, hreyfingu, nálastungur o.fl.

Verði þessi starfshópur skipaður má vænta þess að hann muni líta til þeirra rannsókna og annarra gagna sem fyrir liggja um gagnsemi slíkra meðferðarúrræða, ræða við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og leita álits þeirra.

Fyrir nokkrum árum spratt upp mjög heit umræða um ágæti eða gagnsleysi höfuðbeina og spjaldhryggjameðferðar. Fram á sviðið þrömmuðu læknar sem höfðu allt á hornum sér í því sambandi. Þá skrifaði ég þessa grein á bloggsíðu mína sem mér finnst raunar eiga fullt erindi inn í þessa umræðu enn í dag.


Hvert er þá öryggi aldraðra á hjúkrunarheimilum?

Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar vekur margar áleitnar spurningar.

Hér er um að ræða sjálfseignarstofnun sem rekin er á dagpeningum frá ríkinu.  Stofnun sem hefur tekið við háum greiðslum frá skjólstæðingum sínum og ríkinu - en meðhöndlað þá fjármuni eins og þeir væru ráðstöfunarfé stjórnenda, e-s konar risnu fé fyrir vini og vandamenn þeirra sem treyst var fyrir þessum fjármunum. „Örlætisgjörningur" er orðið sem Ríkisendurskoðun notar yfir þann gjörning. Ekki er ég viss um að aðstandendur íbúa Eirar myndu velja það orð. Verður mér þá hugsað til aðstandenda gamla mannsins sem kom með 24 mkr í ferðatösku fyrir fáum árum til þess að greiða fyrir íbúðina sem hann fékk að flytja inn í á Eir. Síðan greiddi hann 63 þús. kr.  mánaðarlega fyrir að fá að búa þar.

Þetta ógeðfellda mál hlýtur að verða rannsakað frekar  og óhugsandi annað en að stjórn heimilisins segi af sér, eða verði látin segja af sér, sjái hún ekki sóma sinn í því að víkja sjálf.

En þetta mál vekur áleitnar spurningar fyrir okkur alþingismenn, sem varða öryggi, eignastöðu og réttindi aldraðs fólks sem dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins.

Í þinginu í dag beindi ég þeim tilmælum til formanns velferðarnefndar Alþingis, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að taka málefni hjúkrunarheimilanna upp með heildstæðum hætti í velferðarnefnd þingsins. Það þarf að endurskoða og fara vel yfir  það fyrirkomulag sem nú viðgengst varðandi framlag aldraðra til búsetu- og dvalarréttinda á þessum heimilum. Fólk greiðir háar fjárhæðir í upphafi,  og þarf auk þess að  sæta upptöku lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Þess eru dæmi að fólk missi nánast öll fjárforráð við það að fara inn á slík heimili. Þetta er gert í nafni „öryggis" og „umönnunar" sem reynist svo ekki betra en dæmið um Eir sannar.

Það er kominn tími til að endurskoða mál þessi í heild sinni.


Nýja Ísland - kemur þú?

world_trade_center_epa Þegar tvítyrni  heimsviðskiptahallarinnar í New York hrundi til grunna þann 11. september 2001 gaus upp  kæfandi mökkur sem varð fjölda manns að fjörtjóni. Björgunarsveitir höfðu sumar hverjar orðið of skjótar á vettvang,  með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi slökkviliðs- og björgunarmanna lét lífið þegar byggingarnar jöfnuðust við jörðu. Dágóður tími leið áður en rofaði til og menn gátu metið afleiðingar þess sem gerst hafði.

Við hrun íslensku bankanna í október 2008 þyrlaðist líka upp þykkur mökkur. Almenningur hafði enga grein gert sér fyrir því  hve hættulega háir turnar höfðu verið reistir á íslenskum fjármálamarkaði fram að því. En óbærilegur mökkurinn sem fylgdi hruninu segir sína sögu um skefjalausa viðskiptahætti, ábyrgðarleysi og hóflausa græðgi. Og sú saga varðar ekki einungis fjármálafíflin sem steyptu okkur því sem næst í glötun. Nei, hún fjallar líka um öll hin fíflin, sem eltu skinið af glópagullinu eins og vanvita börn. Fjölmiðlana sem góndu hrifnir upp í fjármálaspekúlantana, flöttu myndirnar af þeim á forsíður tímaritanna, kusu þá viðskiptasnillinga og frumkvöðla ársins á meðan þeir frömdu samsæri sitt gegn þjóðinni. Stjórnmálamenn okkar - jafnvel forsetinn - fylgdu þeim eins og skugginn í erlendar viðskipta- og kynningarferðir, studdu við „íslensku útrásina" og fluttu um hana loðmullulegar lofræður við glasaglaum og ljósleiftur á blaðamannafundum. Almenningur horfði á í aðdáun og hrifningu.

Þjóðarskömmin

Nú situr óbragðið eftir - skömmin.  Það er þjóðarskömm. Við finnum öll til hennar ... öll, nema kannski þeir sem enn neita að horfast í augu við ábyrgð sína á því sem gerðist. Það gæti til dæmis átt við um þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem flestir sátu hjá við afgreiðslu þingsins á ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Flokkurinn sem ber höfuð ábyrgð á hugmyndafræði Hrunadansins, flokkurinn sem innleiddi þá taumlausu frjálshyggju sem dansað var eftir, hann „sat hjá" þegar tekist var á við afleiðingarnar. Skilaði auðu. Það var átakanlegt að sjá.

Verður Ísland nokkurn tíma samt aftur?  Vonandi ekki.  Sannleikurinn er sá, að það Ísland sem við kvöddum í október 2008 var ekki gott í gegn. Þó að allt liti vel út á yfirborðinu, hagtölur sýndu almenna velmegun, landið mældist meðal tíu efnuðustu þjóða heims (jafnvel ein hamingjusamasta þjóð í heimi) og ríkissjóður væri orðinn nokkurn veginn skuldlaus, þá voru innviðirnir ekki í lagi.

Fjármálakerfið var ofþanið,  neyslan óhófleg, skuldasöfnunin úr böndum - ekki síst í undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. En verst var þó að siðferðisþrek þjóðarinnar hafði látið undan síga. Um það vitna upplýsingar sem nú eru að koma í ljós um umfang skattsvika og svarta atvinnustarfsemi, hagsmunagæslu og krosseignatengsl í viðskiptalífinu, getuleysi eftirlitsstofnana og gáleysi stjórnvalda.

Já, stjórnvöld brugðust hlutverki sínu. Þau gleymdu sér við hrævareldana og uggðu ekki að sér. Í stað þess að safna í kornhlöðurnar til mögru áranna var slegið slöku við aðdrættina. Á góðæristímanum 1993-2007 var farið í skattalækkanir sem komu sér vel fyrir þá tekjuháu á meðan hlutfallslegar byrðar jukust á þá tekjulágu. Hinu mikilvæga jöfnunarhlutverki skattkerfisins var raskað og tekjulindin rýrð. Lætur nærri að ef skattalækkanir áranna 2003-2007 yrðu framreiknaðar á núvirði, hefðu þær náð langt með að greiða niður halla ríkissjóðs á þessu ári. En því er nú ekki að heilsa. Kornhlöðurnar eru galtómar, og fátt um aðföng.

Í hverju felast átökin?

Af þeirri óvægnu umræðu sem verið hefur í samfélaginu undanfarna mánuði mætti stundum ætla að þau stjórnvöld sem nú sitja hafi hætt sér of snemma inn á björgunarvettvanginn. Að minnsta kosti er enginn hörgull á fúkyrðum og úrtölum þeirra sem telja sig geta verið áhorfendur að björgunarstarfinu og hvorki þora né vilja leggja því lið. En endurreisn samfélags getur ekki orðið nema með þátttöku allra. Þá á ég annars vegar við atvinnuvegina, stéttarfélögin, stjórnvöld og almenning - hins vegar þá sem ráðandi eru í opinberri umræðu, þ.e. fjölmiðlana, fræðasamfélagið og stjórnmálamenn.

Okkar bíður mikið starf. Meinsemdir þær sem ollu bankahruninu eru margar hverjar enn til staðar í íslensku samfélagi, og það mun sjálfsagt taka ár og áratugi að vinna á þeim bug. Við sjáum þær

  • í ósanngjörnu kvótakerfi;
  • í þvermóðsku fjármálastofnana við að veita stjórnvöldum upplýsingar vegna rannsóknar á hruninu;
  • á fáránlegum kröfum stjórnenda fjármálafyrirtækja um svimandi háar bónus greiðslur;
  • í afskriftum hárra skulda gagnvart útvöldum á meðan fjölskyldur eru að bugast og menn að brotna undan skuldabyrði;
  • í upplýsingum um umfang skattsvika og misnotkun opinberra bóta.
  • Síðast en ekki síst sjáum við meinsemdirnar í afneitun og afstöðuleysi þeirra sem stærsta ábyrgð bera á hruninu og hugmyndastefnu þess.

Nei, gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem reið hér húsum. Og meinsemdirnar sem ollu hruninu eru flestar enn til staðar.

Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu. Þau munu snúast um það

  • hvaða aðferðum verði beitt við uppgjörið vegna bankahrunsins;
  • hvaða aðferðum verði beitt við endurreisn efnahagskerfisins og hvort takast megi að verja grunnþætti velferðarkerfisins, mikilvæga almannahagsmuni, auðlindir o.s. frv.;
  • hvort gerðar verða nauðsynlegar leiðréttingar á óréttlátu kvótakerfi;
  • hvort leikreglur viðskiptalífsins verða endurhannaðar;
  • hvort komið verður hér á nauðsynlegum lýðræðisumbótum;
  • hvort siðbót muni eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi;
  • já, hvort spilin verða stokkuð upp og hvernig gefið verður upp á nýtt.

Átök komandi missera í íslenskum stjórnmálum munu snúast um það hvort eitthvert uppgjör muni eiga sér stað yfirleitt.

Gleymum því ekki að það eru sterk öfl að verki í íslensku samfélagi sem vilja ekkert við ábyrgð sína kannast, og vilja því ekkert endurmat og engin skuldaskil.

----------------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Hvað gengur ríkisskattstjóra til?

RikisskattstjoriÉg verð að viðurkenna að framganga ríkisskattstjóra gagnvart forráðamanni IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. vekur mér ugg í brjósti. Að ríkisskattstjóri skulu á opinberum vettvangi viðra "grunsemdir" sem hann hefur um "upplýsingastuld" gagnvart nafngreindum einstaklingi, er umhugsunarefni. Sérstaklega í ljósi þess að tengslanetið sem Jón Jósef Bjarnason er að vinna hefur að geyma upplýsingar sem tvímælalaust hljóta að koma almenningi við og vera til mikils gagns fyrir þá sem rannsaka hagsmuna- og krosseignatengslin á íslenskum fjármálamarkaði.

Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti.

Hvaða tilgangi þjónar það þá þegar ríkisskattstjóri í sérstakri fréttatilkynningu vekur athygli á óskyldum atriðum sem einungis eru til þess fallin að rýra traust á þeim sem um er rætt? Ég er ekki undrandi þó að nefndur Jóns Jósef telji vegið að mannorði sínu, eins og fram kom í hádegisfréttum. Ég fæ ekki séð hvað það kemur málinu við þó að  IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustan hafi ekki skilað ársreikningi til embættis ríkisskattstjóra. 

Vill ekki ríkisskattstjóri upplýsa okkur Íslendinga um alla þá sem ekki hafa skilað embættinu ársreikningi undanfarin þrjú ár?

Fram hefur  komið að Jón Jósef greiddi fyrir aðgang að þeim upplýsingum sem hann notast við. Hann gerði skýra grein fyrir því hvað hann hygðist fyrir og í hvaða tilgangi. Þær upplýsingar sem út úr gagnavinnslunni koma eiga ríkt erindi við jafnt almenning sem stjórnmálamenn - að ég tali nú ekki um þá sem rannsaka eiga hrunið. Hafi Persónuvernd eitthvað við þessa gagnavinnslu að athuga hlýtur hún að gera sínar athugasemdir. Hefur hún gert það? Það er ekki eins og þetta mál hafi farið leynt.

Nei, þessar tiltektir ríkisskattstjóra skjóta skökku við - og vekja áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með þessu?

 ------------------------

PS: Ég efast ekki um að ríkisskattstjóri fer að lögum í embættisverkum sínum - en það hefði hann líka gert þó umræddar "grunsemdir" hefðu ekki verið viðraðar opinberlega.


mbl.is Grunaður um upplýsingastuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafælni eða fjölmiðlasýki

Johanna Síðustu daga hafa heyrst sárar umkvartanir - sem fjölmiðlar af einhverju ástæðum hafa tekið undir - að forsætisráðherra sjáist ekki lengur. Hún sé bara "ósýnileg" í fjölmiðlum.

Nú þykir mér týra.

Ég hef ekki getað betur séð en að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið í nánast öllum fjölmiðlum svo að segja daglega í allt heila sumar - þar til e.t.v. núna síðustu daga. Og þó hef ég varla opnað fjölmiðil án þess að sjá henni bregða fyrir, eða nafn hennar nefnt. Ég veit ekki betur en að hún hafi haldið fasta blaðamannafundi, einn og tvo í viku, í allt heila sumar, og geri enn. Það er nú eitthvað annað tíðkaðist hér áður og fyrr í tíð annarra forsætisráðherra.

Þessi lævísi og ljóti áróður, að Jóhanna sé ekki til staðar, hún sé horfin, er vitanlega runninn undan rifjum andstæðinga hennar. Þetta er þaulhugsuð markaðssálfræði, sem gengur út á það að rýra trúverðugleika þess stjórnmálamanns sem notið hefur mests trausts meðal almennings fram á þennan dag. Og það er alvarlegt umhugsunarefni að fjölmiðlar skuli spila með í þessu. Þeir ættu nefnilega að vita betur.

Hitt er svo annað mál, að Jóhanna Sigurðardóttir er ekki haldin þeirri fjölmiðlasýki sem hefur heltekið veflesta nústarfandi stjórnmálamenn. Hún lætur verkin tala, og það er góður siður, sérstaklega á krepputímum. Ég tel auk þess sjálfsagt að hún njóti - þó ekki sé nema brots - þeirra mannréttinda að fá að eiga eina og eina hvíldarstund, einhverja dagparta vikunnar.

Maður hefði haldið að íslensk þjóð kynni að meta forystumann sem helgar þjóðinni alla krafta sína, nótt sem nýtan dag og lætur það hafa forgang umfram allt annað. Annað væri algjörlega á skjön við þá háværu kröfu sem hvarvetna ómar um heiðarleika, traust og ósérhlífni.

Segi ekki meir.

------------------------------------------

 

PS: Annars bloggar Gísli Baldvinsson ágætlega um þetta mál og ber saman við birtingarmynd stjórnarandstöðunnar meðal annars.

 


Fangelsismál í ólestri

Hegningarhusid Sannarlega eru fangelsismál á Íslandi "sagan endalausa" eins og bent hefur verið á. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að enn skuli menn vera vistaðir í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ég minnist þess þegar ég heimsótti þann stað fyrir um tveimur áratugum - þá ungur og ákafur fréttamaður að fjalla um ólestur fangelsismála. Þrengslin innandyra runnu mér til rifja, og ég hefði ekki trúað því þá að þessi húsakynni myndu enn verða í notkun sem fangelsi árið 2009. En þannig er það nú samt - þessi myrkrakompa við Skólavörðustíg er ennþá fangelsi, rekið á undanþágum frá ári til árs. 

Á wikipediu er húsakynnunum þannig lýst:

 Fangaklefarnir í hegningarhúsinu eru litlir og loftræsting ónóg, fangarkvarta gjarnan yfir bágri salernisaðstöðu, en ekkert herbergjanna 16 er svo vel búið að menn geti gengið þar örna sinna svo vel sé, því þar eru hvorki salernihandlaugar.

 Já, byggingarsaga fangelsismála hér á landi er mikil raunasaga og lýsingar á vandræðaganginum við þennan málaflokk eru orðnar ófagrar.  

Margar ríkisstjórnir hafa setið að völdum frá því ég fór að kynna mér fangelsismál. Þær hafa allar vandræðast með þennan málaflokk, og litlu þokað áleiðis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að lausnum í nær fimmtíu ár, án þess að nýtt fangelsi hafi risið. Áratugum saman hafa áætlanir og teikningar legið á borðinu sem ekkert hefur orðið úr. Eitt árið var meira að segja byggður húsgrunnur sem lá óhreyfður í jörðu árum saman og eyðilagðist loks.

Þetta er sagan af óhreinu börnunum hennar Evu sem enginn vill sjá eða vita um.

Vanræksla - er eina orðið sem mér kemur í hug um þennan málaflokk. Og sú vanræksla hefur varað áratugum saman. Því miður.

Nú leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leiða til að fjölga plássum (og væntanlega öðrum úrræðum) fyrir dæmda brotamenn, og til greina kemur að leigja húsnæði í því skyni. Ég vona að dómsmálaráðherra verði eitthvað ágengt að þessu sinni.


Klisjan um kvendyggðina

Valkyrja_by_perkanÍ Sigurdrífumálum Eddukvæða er sagt frá því þegar Sigurður Fáfnisbani reið á Hindarfjall og vakti upp af dásvefni valkyrjuna Sigurdrífu, sem lá þar í skjaldborg sinni, umlukin vafurloga. Hún hafði hjálm á höfði, íklædd brynju  sem var svo rammgerð að Fáfnisbaninn þurfti að rista hana af með sverði sínu. Við það brá hún sínum langa svefni, reis upp af beði og heilsaði degi:

Heilir æsir.
Heilar ásynjur.
Heil sjá hin fjölnýta fold.
Mál og manvit
gefið okkur mærum tveim
og læknishendur meðan lifum.

Síðan setjast þau tvö, valkyrjan og hetjan. Hún kennir honum rúnir þær sem ráða þarf til sigurs, lækninga, lífsnautna og gæsku. Að lokum biður hann hana um holl ráð sem hún leggur honum í lokaþætti kvæðisins og ráðleggur honum þar að sýna baráttuhug og þegja ekki við mótgerðum.

Sjálf er Sigurdrífa brynjuð herklæðum, varin inni í skjaldborg, umlukin vafurloga. Þær eru því margar hindranirnar sem Fáfnisbaninn þarf að yfirstíga til þess að eiga samneyti við valkyrjuna. Maður hefði haldið að fyrir innan allar þessar varnir myndi hann kannski komast í tæri við hin helgu vé kvenleikans - eitthvað viðkvæmt og mjúkt, huggandi, vaggandi og blítt - það hefði a.m.k. verið í anda klisjunnar um kvenleikann. En hvað finnur Sigurður? Stolta bardagahvöt, hugmóð og vitræn rök.

Það er athyglisvert að sjá þarna, í fornu kvæði, hermannlega hugmyndafræði flutta fram af konu sem leggur hetjunni lífsreglurnar. Hún varar hann beinlínis við þeim konum sem "sitja brautu nær" og "deyfa sverð og sefa." Hetjan á að berjast - hún á ekki að láta bifast af úrtölum og gráti kvenna. Um leið biður hún guðina um "mál og manvit"  handa þeim tveim sem þarna sitja "og læknishendur meðan lifum".

Hver er eiginlega Sigurdrífa? Fyrir hvað stendur hún og hver væri hennar samnefnari í samtímanum?

Sigurdrífa er í senn hermaðurinn og læknirinn, stjórnmálaskörungurinn, stjórnandinn, hugsjónakonan. Henni hugnast illa ákveðnir þættir í fari kvenna, sjálf er hún þó samnefnari fyrir allt sem kvenlegt getur talist í fornum sið. Hún býr yfir þekkingu völvunnar og kynngi valkyrjunnar sem hún helgar lífi og lækningu. Hún er líka kennari, sérfræðingur, ráðgjafi.

Sigurdrífa kemur oft upp í huga minn þegar ég þarf að hlusta á margtuggnar klisjur um konur, eðli þeirra og einkenni. Ætli Sigurdrífa hefði komið sér vel á kvennavinnustað? Hvernig hefði hún rekist í stjórnmálaflokki eða í samstarfi við aðrar konur?

Klisjurnar um kveneðlið er víðar að finna en í hugmyndafræði og orðræðu karla. Þær eru oft rauður þráður í gegnum orðræðu kvenna, ekki síst þeirra sem kenna sig við kvennabaráttu og kvenréttindi. "Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að  slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".

superwomanEin er sú klisja sem tröllriðið hefur kynjaumræðunni undanfarin ár, og það er klisjan um hina "kvenlegu stjórnunarhætti" -- en það hugtak ber að skilja sem "góða stjórnunarhætti". Í hugtakinu felst krafa um valddreifingu, en ekki endilega um dreifingu ábyrgðar, því stjórnandinn verður jú alltaf að standa klár á ábyrgð sinni og þar með mistökum annarra starfsmanna. Krafan felur það eiginlega í sér að kvenstjórnandi sé vinkona, ráðgjafi, móðir og þjónn, allt í senn og með þessum meðulum er ætlast til þess að hún ái árangri.

Sjálf hef ég aldrei verið aðnjótandi nokkurs sem kalla mætti kvenlega stjórnunarhætti, og hef ég þó oft unnið með og undir forystu kvenna. Ég hef bara kynnst góðum eða lélegum stjórnendum á mínum ferli.

En hví skyldi það eiga að vera dyggð að vera kona? Hvers vegna erum við konur svona kröfuharðar við sjálfar okkur, og hver við aðra að ætlast til þess að við séum alltaf í einhverju alltumlykjandi móður- og systurhlutverki gagnvart öllu og öllum, sérstaklega öðrum konum? Ekki voru þær það fornkonurnar, gyðjurnar, völvurnar, læknarnir og húsfreyjurnar sem við lesum um í fornbókmenntum. Þær sögðu fyrir um veðurfar og forlög, höfðu búsforráð á bæjum, hvöttu eiginmenn, bræður og syni til dáða og læknuðu svo mein þeirra að orrustu lokinni. Það var ekki þeirra hlutverk að "deyfa sverð og sefa" hvorki í vörn né sókn - eða koma sér vel við aðrar konur. Nei, þær áttu ekki að koma sér vel, heldur reynast vel.

Kvenpersónur fornsagnanna voru til á eigin forsendum "máls og manvits", eins og Sigurdrífa er hún heilsaði degi og goðheimi öllum á Hindarfjallinu forðum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband