Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum

 

Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana  heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.

Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.

Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði  14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda. 

Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.

Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið. 

Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.

Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.

Heildræn meðferð - heilsubót eða kukl?

Þingsályktunartillaga - sem ég er meðflutningsmaður að - um að kannaðar verði forsendur þess að niðurgreiða heildræna meðferð græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu, hefur vakið augljósan áhuga í samfélaginu, jafnvel hörð viðbrögð hjá sumum. Eitt dæmi er  þessi vanhugsaða fordæming á heimasíðu Vantrúar þar sem því er haldið fram að umræddir þingmenn - Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og undirrituð - séum að leggja það til að ríkið "niðurgreiði skottulækningar" eins og það er orðað svo smekklega.

Verði hin ágæta þingsályktunartillaga okkar þriggja samþykkt gerist einfaldlega þetta:

Skipaður verður starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, Bandalagi íslenskra græðara, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti. Sá hópur metur það í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um gagnsemi heildrænnar meðferðar græðara hvort efni standi til þess að bjóða fólki upp á niðurgreiðslu slíkrar meðferðar - hvort sem hún er þá liður í  t.d.

  • eftirmeðferð (td eftir krabbameinsmeðferð, áfengismeðferð eða dvöl á geðsjúkrahúsi svo dæmi sé tekið)
  • stoðmeðferð við aðrar læknisfræðilegar/hefðbundnar meðferðir (t.d. stuðningur við kvíðastillandi meðferð, meðferð við þunglyndi eða vegna meðferðar langvinnra, álagstengdra sjúkdóma)
  • eða sjálfstæð meðferð vegna óskilgreindra heilsufarslegra vandamála sem  læknavísindin ráða jafnvel ekki við með hefðbundnum aðferðum.

Heildrænar meðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna undanfarna áratugi sem liður í almennri heilsuvakningu og auknum skilningi læknavísindanna á því að sjúkdómar eru sjaldnast einangrað fyrirbæri, heldur afleiðing samverkandi þátta í lífi fólks: Lifnaðarhátta, andlegs álags, erfða o.s.frv.

Náttúrulækningafélag Íslands reið á vaðið á síðustu öld með stofnun heilsuhælisins í Hveragerði, þar sem fólk fær einmitt heildræna meðferð við ýmsum kvillum t.d. eftir skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir: Slökun, nudd, leirböð, hreyfingu, nálastungur o.fl.

Verði þessi starfshópur skipaður má vænta þess að hann muni líta til þeirra rannsókna og annarra gagna sem fyrir liggja um gagnsemi slíkra meðferðarúrræða, ræða við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og leita álits þeirra.

Fyrir nokkrum árum spratt upp mjög heit umræða um ágæti eða gagnsleysi höfuðbeina og spjaldhryggjameðferðar. Fram á sviðið þrömmuðu læknar sem höfðu allt á hornum sér í því sambandi. Þá skrifaði ég þessa grein á bloggsíðu mína sem mér finnst raunar eiga fullt erindi inn í þessa umræðu enn í dag.


Sjóbað á sautjándanum

P1000840 (Medium)Afrek dagsins hjá okkur mæðgum var: Sjóbað! Cool

Brrrrrrrrr - við dembdum okkur í sjóinn framundan lítilli sandfjöru á Seltjarnarnesinu í góða veðrinu í dag. Þetta var svona skyndihugdetta.

Skömmu áður stóðum við nefnilega eins og ratar á tröppunum við Vesturbæjarlaugina - höfðum ekkert hugsað út í það að auðvitað eru sundlaugarnar lokaðar á 17. júní.

Hálf vonsviknar fórum við út á Seltjarnarnes - komum þar við í ísbúð til að bæta okkur upp fýluferðina, og meðan við vorum að sleikja ísinn var tekinn svolítill rúntur um nesið. Þá sáum við mann á sundskýlu sem var að þurrka sér á bílastæðinu við golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Við litum hvor á aðra: Hann hlýtur að vera að koma úr sjónum, þessi! Við í sjóbað!

Og það gerðum við. Ekki eins kalt og við héldum - en kalt samt.  Og hressandi. Cool

Svona gekk þetta fyrir sig.

Fyrst var tekin upplýst ákvörðun og náð í handklæði og sundföt

P1000835 (Medium) 

Svo var farið á staðinn og fötum fækkað

P1000837 (Medium)
Þá var tánni dýft út í og sjórinn aðeins mátaður
P1000839 (Medium)
Og svo var látið vaða!
P1000841 (Medium)
Dásamlegt!
P1000840 (Medium) 

Geta skal þess sem gott er ...

Mér hefur að undanförnu orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hlífa þeim sem hlífa skyldi í þeim  sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðum sem grípa þarf til í kjölfar efnahagskreppunnar. Það er á slíkum tímum sem það skiptir máli að forgangsraða í þágu velferðarhugsunar.

Sé litið til árangurs af stjórnarsetu Samfylkingarinnar undanfarin tæp tvö ár, má sjá hvers virði það er að hafa jafnaðarmannaflokk við stjórnvölinn þegar á reynir. Lítum á lífeyrismál aldraðra og öryrkja til dæmis.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur aldrei hækkað jafn mikið og á þeim tíma sem liðinn er frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru óskertar bætur lífeyrisþega færðar undir láhgmarkslaunm á vinnumarkaði og þeim haldið þar, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára.

Eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu Samfylkingarinnar hefur tekist að snúa þróuninni við. Greiðslur til lífeyrisþega hafa vaxið um  42% eða 19,2 milljarða milli áranna 2007-2008.

Óskertar bætur lífeyristrygginga eru nú 13% hærri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og hafa aldrei áður erið hærri. Þær munu hafa hækkað um 43% í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar.

Í reynd má segja að kjör lífeyrisþega hafi verið varin mun betur en kjör almennra launþega eftir hrun bankanna. Það er í samræmi við þá eindregnu velferðaráherslu Safmylkingarinnar að standa vörð um kjör þeirra  sem minnst hafa milli handanna.

Það skiptir máli hverjir stjórna.


Fátækt fólk og velferðarkerfið

glaucoma_surgery_photo Á krepputímum er fátt dýrmætara en traust velferðarkerfi sem vegið getur upp á móti afleiðingum atvinnumissis og tekjutaps.

Það er því þyngra en tárum taki að fólk sem þarf læknisþjónustu skuli ekki geta veitt sér hana. Þá er ég  til dæmis að hugsa um gamalt fólk sem þarf á liðskiptaaðgerðum að halda og hefur jafnvel beðið mánuðum saman. Svo þegar röðin kemur að því er komin kreppa og viðkomandi telur sig ekki hafa efni á því að ganga í gegnum aðgerðina og það sem henni fylgir. Sama er sjálfsagt að segja um ýmiskonar lýtaaðgerðir, kjálka- og tannréttingar og fleira.

Miðaldra kona ákveður að bíða með hjartaþræðinguna - hún hefur hvort eð er fundið fyrir hjartsláttartruflunum svo lengi. Karl á svipuðum aldri telur sér trú um að hann geti beðið til betri tíma með að láta fjarlægja fjólubláan, óreglulegan blett á bakinu. Gamall maður ákveður að ganga bara áfram með ónýtu mjöðmina - harka af sér og nota stafinn.

Fréttir um að fólk veigri sér við að nota heilbrigðisþjónustuna segja þó ekki aðeins til um kreppuna í landinu. Þær sýna okkur svart á hvítu hvernig heilbrigðiskerfi okkar er orðið - "þökk" sé Sjálfstæðisflokknum og þeirri frjálshyggju- einkavæðingarstefnu sem hann hefur staðið fyrir áratugum saman með gjaldtöku og verðlagningu velferðarþjónustunnar. Angry

Sorglegt - í einu orði sagt. Sorglegt.

 


mbl.is Afpanta rannsóknir og aðgerðir lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband