Grunngildin - og aðeins meira um Kristinn H.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.

Lítum nánar á nokkur þau helstu:

  • Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka.
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi. Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu til dæmis.
  • Uppbygging háskólastarfs og símenntunar um land allt er mikilvægur þáttur í því að minnka aðstöðumun og auka atgerfi byggðanna, að ekki sé minnst á samgöngur og fjarskipti sem eru nauðsynlegir grunnþættir í hverri samfélagseiningu - nokkuð sem ekkert hérað getur verið án.
  • Stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll verða að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa stjórnmálaflokka eða annarra hagsmunaafla.

Jamm.... þetta er meðal þess sem ég er að ræða á þessum fundum okkar prófkjörsframbjóðenda í Norðvesturkjördæmi - en yfirreið okkar um kjördæmið stendur nú sem hæst. Við vorum á Hellissandi og Grundarfirði í dag. Í hádeginu á morgun verður fundur í Narfeyrarstofu í Stykkishólmi og í Félagsheimilinu á Patreksfirði kl 20 um kvöldið.

HolmavikProfkjor09Að lokum ein vísa sem varð til í rútunni hjá okkur þegar endanlega var orðið ljóst að Kristinn H. væri ekki genginn í Samfylkinguna heldur Framsóknarflokkinn:

 Glumdi í flokknum gleði-org,
 gladdist allur skarinn:
 Kristinn veldur kæti og sorg,
 hann kominn er ... og farinn!

 

 

Og hér sjáið þið okkur Örnu Láru framan við Café Riis á Hólmavík um hádegisbil í gær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Bíddu við! Eru jafnaðarmenn nú allt í einu farnir að vilja mannréttindi? Hver heldur þú að kaupi svona bull?

Eru jafnaðarmenn að vona að allir landsmenn hafi gullfiskaminni?

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.2.2009 kl. 22:46

2 Smámynd: Þórður Már Jónsson

Ólína, hvar eru myndirnar af myndarlegu herramönnunum sem eru með í för???

Þú veist líklega nokkurn veginn hvernig mig langar að svara þessu kommenti hérna fyrir ofan....

Þórður Már Jónsson, 28.2.2009 kl. 22:50

3 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Sæl Ólína. Mig tekur sárt að hafa misst af fundinum ykkar í Grundarf. Hefði mig órað fyrir því að hafa fengið tækifæri að hitta þig þá hefði ég látið mig hafa að ferðast smá í öllum snjónum. En kosningabaráttan er rétt að hefjast.

Er reyndar búinn að taka ákvörðun um að gerast meðlimur í Samfylkingunni.

Baráttukveðjur.

Þráinn Jökull Elísson, 28.2.2009 kl. 23:10

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ólína hvað finnst þér um yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar um að gefa kost á sér sem áframhaldandi formaður Samfylkingar ?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.2.2009 kl. 23:12

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk, öll fyrir ykkar athugasemdir.

Og gaman að sjá að Þráinn hefur gert upp hug sinn að ganga til liðs við okkur.

Katrín Snæhólm, mér líst vel á að hafa þær Ingibjörgu Sólrúnu og Jóhönnu saman í framvarðasveit flokksins.  Þær standa frammi fyrir sögulegu og afar mikilvægu verkefni (sem og Samfylkingin í heild sinni) og ég styð þær heilshugar.

Ingibjörg Sólrún sýndi það og sannaði í dag að henni er ekki fisjað saman. Við þurfum á dugmiklu og hugrökku fólki að halda eins og nú árar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.2.2009 kl. 23:25

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já og Þórður minn kær -- þessi fjallmyndarlegu menn sem vantaði á myndina eru svo fastgrónir við farsímana sína að þeir festast ekki á filmu.

Þú veist um hvað ég er að tala

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.2.2009 kl. 23:27

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já satt segirðu, Ingibjörg Sólrún er flokknum nauðsynleg til að halda hinni mannlegu og hlýju ásýnd inni í forystunni. Nú bíð ég eftir því að hún taki undir ályktanir þínar um paragraff eitt í málefnaminnisblaði þínu hérna að ofan. Og að loksins verði brugðist við úrskurði Mannréttindanefndar S.Þ.

Ég er bara svo hræddur um að ég "sé ekki þjóðin" í hugskoti Ingibjargar S.

Bestu kveðjur! Og vísan um Kristinn H. var nú skratti smellin. 

Árni Gunnarsson, 1.3.2009 kl. 00:00

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mér finnst hreint stórkostlegt að Samfylkingin skuli tefla fram þessum hæfu og reynslumiklu konum til forystu í þá miklu tiltekt og uppbyggingu sem framundan er. Jóhanna er allra sterkasti jafnaðarmaður sem Ísland á um þessar mundir. Ingibjörg Sólrún er mikill leiðtogi og öflugur stjórnmálamaður.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.3.2009 kl. 00:41

9 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Þessi fjögur atriði sem þú ræðir um eru fín, sum þeirra ættu nú reyndar löngu að vera komin í höfn.

Spurningin er;  Hvað hefur þú hugsað þér að gera fyrir þá sem eru atvinnulausir í dag, þá sem eru á góðri leið með að missa sínar íbúðir og svo er margt annað sem þarf að gera fyrir þá sem kreppan lendir harðast á.  Kreppunni verður ekki lokið ef/þegar þú kemst á þing svo að ég vildi gjarnan heyra hvaða hugmyndir þú hefur um framtíðina.  Um fortíðina veit ég það að æði mörg kosningaloforð hafa ekki verið efnd enn.

Páll A. Þorgeirsson, 1.3.2009 kl. 01:16

10 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Fyrirgefðu Ólina.

Þetta sem þú segir hér....

"

Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka. "
Samfylkingin hefur nú þegar fengið tækifæri til þess hvoru tveggja að berjast gegn þessu órættlæti í tveimur þingkosningum , í stjórnarandstöðu á þingi og nú síðast í stjórn, en ekkert hefur verið að gert.
Ég endurtek EKKERT, þetta er gaspur og blaður án aðgerða sem einn flokkur hefur getað sett á oddinn ef vilji hefði staðið til.
Viljinn er enginn og það vitum við vel í Frjálslynda flokknum.
kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.3.2009 kl. 01:54

11 Smámynd: Kjartan Björgvinsson

Ég er nú ekki sammála þér um ISG, ef að það er svo mikilvægt að hefja sig á sviði Sameinuðu Þjóðanna að hægt sé að leiða hjá sér hagsmuni þeirra sem trúðu manni fyrir fjöreggi sínu þá er sá hinn sama ekki hæf til forystu.

Hins vegar er ég í sjöunda himni yfir að loksins minnist einhver aftur á að þörf er á að breyta kvótakerfinu sem er næststærsta hneisa í sögu Alþingis eingöngu einkavæðing bankanna og hugsanlega annarra ríkisfyritæka er verri.

Vertu trú hugsjónunum, líka eftir að þú hefur náð kjöri.

Kjartan Björgvinsson

Kjartan Björgvinsson, 1.3.2009 kl. 02:25

12 Smámynd: Fannar frá Rifi

þú átt við gamaldags átthagafjötra Ólína þegar þú talar um kvóta og byggðarmál? eða ertu bara í frösunum og hefur ekki kynnt þér neit?

eða segir það ekki neitt að 90% kvótans er skráður, landað og unninn utan höfuðborgarsvæðisins og strærstu hafnir landsins eru nú ekki stórir bæir. 

svo það komist nú einhvern tíman á hreint.

að mati ykkar (í þessu tilviki samfylkingarmanna) hvar má gera út á Íslandi. því ekki virðist Snæfellbær, Akureyri, Grindavík, Dalvík eða Vestmannaeyjar vera að ykkar mati góðir staðir og allir sem þaðan gera út vera útsendarar djöfulsins. eða hvað?

eða á öllu að vera dreift jafnt yfir byggðirnar þannig að í hverri byggð verði kannski einn eða tveir bátar? 

það ódýrt að vera með innantómar yfirlýsingar og frasa þegar engar lausnir eru til staðar eða nokkrar raunhæfar hugmyndir hafa komið upp á borðið. 

Ef þú getur svarað því hvar má og hvar má ekki gera út, þá ertu meiri manneskja en flokksbróðir þinn sem vermir annað sætið á listanum. 

Nú það er náttúrulega alltaf ein lausn til. nú við getum aukið veðar upp í segjum 500.000 tonn af Þorski. Þá geta allir veitt nægju sína. nema hvað að kannski þolir stofnin ekki slíka veiði og markaðurinn myndi kannski ekki gefa neitt fyrir slíkt offramboð. 

en annars er það aldrei gaman að sjá þá sem vilja að stjórnmálamenn fari að vasast aftur í útgerð. var ekki skaðinn nóga mikill þegar stjórnmálamennirnir eyðilögðu byggðirnar með togaravæðingunni? var ekki skaðinn nægur þá? ef þú myndir kynna þér málið án þess að fara frasa og upphrópunar pólitík, þá myndiru kannski taka eftir því að þær sjávarbyggðir sem verst standa í dag, eru þær byggðir sem helst fengu hjálp frá þingmönnum og fengu togara í fjörðinn. eða jafnvel tvo. 

afskipti og inngrip misvitra stjórnmálamanna sem eru með álíka langt langtímamarkmið og útrásarbankastjóri (mesta lagi 4 ár fram að næstu kosningum) er ekki það sem landsbyggðin þarf.  ef útgerð á þrífast þá þarf stöðugleika svo það sé hægt að reka útgerði í hundrið ára. 

Fannar frá Rifi, 1.3.2009 kl. 02:29

13 Smámynd: Fannar frá Rifi

ef það ætti að úthluta kvótanum á byggðarlög. hvernig ætti að gera það? við hvað ætti að miða? núverandi byggðarmyndstur og veiði? byggðarmynstur og veiði sem var 1980? eða kannsk 1960 eða kannski 1890 þegar Dritvík var mesti útgerðarstaður landsins?

Fannar frá Rifi, 1.3.2009 kl. 02:32

14 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Ólína ertu ánægð með að Ingibjörg ætli sér að verða formaður áfram ?

Hvernig heldur að það verði auðvelt fyrir Jóhönnu að vera með bílstjórann í aftursætinu ?

Mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. hafði samfylkingin þetta að leiðarljósi á þessu kjörtímabili ?

Jens Sigurjónsson, 1.3.2009 kl. 04:34

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gott fólk.

Ég ætla ekki að halda því fram hér að allt sé eins og það á að vera í okkar samfélagi. Og mér er vel ljóst að Samfylkingin kom ekki öllum sínum stefnumálum til leiðar í fyrrverandi ríkisstjórn. Betur má ef duga skal.

En stefnumálin eru skýr - og að þeim vil ég vinna. ´

Fannar frá Rifi spyr um sjávarútvegsmálin. Ég vil sjá blómlegar útgerðir og fiskvinnslu um allt land. Ég vil til dæmis sjá endurreisn sjávarútvegs á Ísafirði, Patreksfirði, Snæfellsnesi og víðar á stöðum sem mega muna sinn fífil fegri. Og þó svo að verið sé að moka upp fiski af miðunum og flytja hann óunninn til útlanda, þá sé ég ekki virðisaukann í því fyrir þjóðfélagið, þið fyrirgefið,. Það kann að vera hagkvæmt fyrir útgerðina, en er það svo sannarlega ekki fyrir samfélagið. Ónei.

Ég hef kynnt mér þessu mál og veit´hvað er að tala um. Ég þekki hlutskipti sjávarbyggðanna sem misstu lífsviðurværið við kvótaframsalið. Þá átti sér stað eitt mesta arðrán Íslandssögunnar.

Og þá fór nú lítið fyrir gömlu herópi Sjálfstæðismanna (sem reyndar hefur lítið heyrst í seinni tíð): Gjör rétt, þol ei órétt!

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.3.2009 kl. 09:34

16 Smámynd: Fannar frá Rifi

Svarar ekki neinu en kemur með eintóma frasa um betri byggð og eitthvað annað í slíkum upphrópunar slagorðastíl.

þú kannski gerir þér ekki grein fyrir því, en íslendingar hafa ekki viljað vinna í fiski undan farin ár og í raun síðustu 2 áratugi. ef það á að fá íslendinga til að vinna í fiski, sérstaklega í landvinnslu, þá þarf hátækni vinnslur sem vinna gríðarlega mikið magn af fiski og borga þannig mjög há laun. vinnslur sem eru á við 5 venjulegar fiskivinnslur og frystihús í dag. Til að slíkt geti, þá þarf samþjöppun á veiðiheimuld og þar með færri vinnslur.

ferskur fiskur óunninn, hefur verið mjög verðmætur. þú vilt kannski skerða kjör sjómanna með því að neyða alla til að vinna fiskinn hérna heima svo að aflaverðmætinn verði minni? en kannski eru sjómenn ekki samfélagið.

sjávarbyggðirnar misstu sit, þar sem menn treystu á aðra til að sjá fyrir sér. þar sem menn treystu á sig sjálfa og tóku sjálfir áhættu, þar hefur útgerðin blómstrað. bæði í stóra og litlakerfinu. 

allir geta farið í úgerð. að því gefnu að þeir séu tilbúnir að taka sömu áhættu og aðrir við að skuldsetja sig með lántöku. því það er alveg það sama í útgerð og öllu öðru. þú stofnar ekki fyrirtæki frítt. þú verður að gjörasvo vel að taka lán og kaupa af öðrum. 

núna hefur t.d. Rifshöfn aukið verulega við sig aflaheimildum á móti því að minnkað hefur á Vesfjörðum. á að færa t.d. aflann frá Jóni Jóns tryllusjómanni á Rifi, til Gunna Gunn tryllusjómanna á Patró sem seldi allt frá sér? eða á að taka af Jóni Jóns sem keypti af Gunna Gunn, og færa nágranna Gunna sem ekki vilda kaupa þegi gunni hætti í útgerð?

aflinn er bara 30% af því sem hann var 1986. þannig að eina leiðinn sem virðist vera fær, í þessari hugmynd þinni, er að þrefalda veiðheimildir. ertu að leggja það til að veiðiheimildir á þorski séu þrefaldaðar? 

Fannar frá Rifi, 1.3.2009 kl. 11:59

17 Smámynd: Halla Rut

Ólína, ég held að það lof, og sá átrúnaður, er þú gefur ISG hér sé hrein lygi hjá þér. Ég held að þú hugsir allt annað. Svo vel áttu heima í þöggunarflokknum.

Halla Rut , 1.3.2009 kl. 16:08

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

"Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka."
Þetta hefur heyrst áður:

bb.is | 28.02.2003 | 08:52Ingibjörg Sólrún og Össur boðuðu afnám kvótakerfisins

"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, og Össur Skarphéðinsson, formaður flokksins, lögðu áherslu á nauðsyn samvinnu höfuðborgar og landsbyggðar á opnum stjórmálafundi Samfylkingarinnar á Ísafirði í gærkvöldi. Þau gagnrýndu harðlega stjórnkerfi fiskveiða og boðuðu afnám kvótakerfisins"
Hvað gerði Samfylkingin í boðuðu afnámi kvótakerfisins í fráfarandi ríkisstjórn?
Gangi þér annars vel, flott og frambærileg kona og Samfylking græðir örugglega á þér.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.3.2009 kl. 19:28

19 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Í titlinum á færslunni fallbeygist nafnið Kristinn H. í Kristin H.

Vildi bara benda þér á þetta!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 1.3.2009 kl. 22:14

20 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég hef mikið álit á þér sem stjórnmálamanni og þar með fellur þú í mjög fámennan en fríðan flokk stjórnmálamanna í mínum huga. Þess vegna er ég ekki mjög sáttur við þig um þessar mundir. Að mínu viti er samfylkingin ekki réttur vettvangur fyrir þig og óttast að áhrif þín þar verði ekki eftir vonum, viljinn til breytinga er ekki til staðar í flokknum, það sýnir afstaða Ingibjargar til áframhaldandi setu. Þínir kraftar hefðu betur nýst í nýju framboði með fleira goðu fólki sem trúandi er til að vilja og geta breytt einhverju

Hjalti Tómasson, 2.3.2009 kl. 00:29

21 Smámynd: Halla Rut

Hér er ég 100% sammála Hjalta hér að ofan og tek undir hvert orð. Ég hef sagt þér það áður, Ólína, að ég hef trú á þér og treysti en get ekki séð hvernig þú ætlar að koma þínu ágæti á framfæri undir stjórn mesta tækisfærasinna Íslandssögunnar.

Halla Rut , 2.3.2009 kl. 10:10

22 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar frá Rifi setur hér upp ýmsar spurningar í löngu máli. Svar mitt er stutt: Ég tel að við verðum að leiðrétta óréttlætið sem hlaust af frjálsa framsalinu. Það er lag núna að breyta kerfinu, innleysa kvótann og leigja hann út aftur eftir sanngjörnum leikreglum. Fyrningarleið kemur til greina, eða útfærsla á henni, en það má hugsa sér fleiri leiðir.

Lykilatriðið er þetta: Við erum ekki að tala um eignanám, eða að taka af þeim sem hafa keypt og greitt fullu verði án þess að bætur komi fyrir. Slíkt tal er bara hræðsluáróður. Ef menn eru að gera út með samfélagslega hagkvæmum hætti þá er það hið besta mál. En auðæfi þjóðarinnar eiga ekki að vera markaðsvara fyrir fáeina útvalda. Við Íslendingar höfum veitt fisk í þúsund ár og eigum að fá að gera það. Það er náttúruréttur okkar.

Halla Rut - í þinni fyrri athugasemd talar þú um "lygi". Þú verður að eiga það við sjálfa þig hvaða orð þú velur öðru fólki en ég bið þig að hugleiða orðbragð þitt.

Hjalti: Ég mun gera mitt besta innan Samfylkingarinnar og vonandi á Alþingi, hljóti ég til þess stuðning. En ég er orðin nógu þroskuð til að vita að maður fær aldrei allt sem maður vill í þessu lífi - og því miður vitum við ekki á þessari stundu hvaða stjórnarmynstur verður eftir kosningar (þó ég viji áframhaldandi félagshyggjustjórn). Það er vandinn í okkar stjórnmálum, að fólk kýs flokka en veit aldrei hvaða ríkisstjórn verður. Fyrir vikið brenglast alltaf allar stefnuskrár og málefnalistar því við stjórnarmyndun upphefjast samningaviðræður um það hvað nái fram að ganga.

Annars hef ég fulla trú á því Samfylkingunni núna. Hún er ungur stjórnmálaflokkur, en reynslunni ríkari eftir það sem gerst hefur. Innan hennar vébanda er fjöldi af frábæru hugsjónafólki sem vill vinna þjóðinni vel.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.3.2009 kl. 13:45

23 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína. þú hlýtur þá að vera á því að allar auðlindir landsins, séu í raun auðlindir þjóðarinnar, og þeim eigi að vera endurúthlutað?

"Það er lag núna að breyta kerfinu, innleysa kvótann og leigja hann út aftur eftir sanngjörnum leikreglum"

Ekkert nema innantómar fyrirsagnir og slagorð. Hvernig ætlaru að leigja hann út? hvað er ósanngjarn við núverandi kerfi? Ertu að fullyrða það að menn geta ekki farið og keypt kvóta? að hver sem er geti ekki keypt kvóta á samahátt og hann getur keypt allar aðrar eignir á þessu landi? 

að ríkið leigi út kvótann? því að leigukerfið er svo hagkvæmt? að allir séu leiguliðar og geti ekki gert ráð fyrir því að vinna í fiski nema kannski í eitt til fjögur ár. 

þú ferður að skilja eitt. afskipti ykkar stjórnmálamannana er það versta sem kemur fyrir byggðirnar. óvissan sem þið skapið með þessu gegndarlausa tali um uppstokkun og breytingar, hefur hrakið fleiri úr greininni heldur allur niðurskurður samanlagt. þú og þínir skoðunarbræður Ólína eruð þannig ábyrgð fyrir þeirri samþjöppun sem átt hefur sér stað. þú átt þátt í því að hræða litla aðila úr greininni og þannig veikja byggðir. 

og eina ráðið sem þú kemur með er að stjórnmálamenn fái vasist í öllu aftur og útdeili til vina og vandamanna eins og gert var með lán og togara hér áður fyrr, með hörmulegum afleiðingum fyrir þær byggðir sem stjórnmálamenn skiptu sér af. 

Fannar frá Rifi, 2.3.2009 kl. 18:29

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar, þú segir "þú verður að skilja eitt. afskipti ykkar stjórnmálamannanna er það versta sem kemur fyrir byggðirnar. Óvissan sem þið skapið með þessu gegndarlausa tali um uppstokkun og breytingar, hefur hrakið fleiri úr greininni heldur allur niðurskurður samanlagt"

Ég vil bara minna þig á að núverandi kvótakerfi - og þá er ég fyrst og fremst að vísa til frjálsa framsalsins, kerfið sem þú ert að verja - hefur svipt fjölda byggðarlaga lífsviðurværi íbúa sinna. Það hefur valdið misskiptingu og óréttlæti þar sem veiðiheimildunum er safnað á fárra hendur. Þessar sömu veiðiheimildir hafa verið veðsettar upp í topp eins og ganga síðan eins og hver annar braskvarningur milli manna.

Þú vilt veiða fisktegund sem útgerðin í bænum þínum er ekki að veiða - og þú snýrð þér til þeirra og vil kaupa af þeim ónýttan kvóta í þeirri tegund, hvað gerist? Jú, þeir segja: Ég vil ekki selja þér kvótann, en þú mátt leigja hann af mér.

Þetta er ein birtingarmynd vandans sem lýsir honum afar vel. Þjóðin á ekki lengur þessa auðlind - hún hefur verið hrifsuð úr höndum byggðanna og setta á hendur fáeinna sægreifa. Samt er útgerðin i landinu stórskuldug og veðsett. Og nú er verið að tala um að varpa þessum skuldum yfir á þjóðina með afskriftum.

Þetta ert þú að verja. Þetta verja Sjálfstæðismenn og LÍÚ.

En þetta er misrétti og spilling - engu skárri en sú sem viðgengist hefur í bankakerfinu. Og þetta á að leiðrétta..

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.3.2009 kl. 09:31

25 Smámynd: Fannar frá Rifi

Hvaða atvinnugrein er ekki stórskuldu og veðsett í dag? legguru þá ekki líka til að allar atvinnugreinar sem eru skuldsettar verði gerðar upp og deilt út aftur eða leigðar til þegnanna af ríkisvaldinu?

Ólína. aflaheimildir hafa dregist saman um 30%. það er borin von að halda því fram að það sé hægt að halda úti jafnmikilli útgerð í dag með þessar heimildir og var árið 1986. ekki nema að þú leggir til að það verði 3 sinnum fleiri störf fyrir 3 sinnum lægri kaup.

"hefur svipt fjölda byggðarlaga lífsviðurværi íbúa sinna"

menn treystu á að aðrir myndu gera allt fyrir þá í stað þess að treysta á sig sjálfa. þar sem menn hafa treyst á sig sjálfa og unnið sjálfir að eigin málum í stað þess að biðja stjórnmálamenn um að koma að málum og laga allt. þar hefur byggð blómstrað. samt í raun ekki. þar hefur byggð staðið í stað.

þú veist það alveg jafn vel og ég að sjávarútveg einn og sér, mun aldrei geta haldið upp ein og sér lífvænlegri byggð í dag. menntað fólk mun alltaf flytjast í burtu frá stöðum sem ekki er annað í boði en sjávarútvegur. ofan á lag, þá hefur áhugi íslendinga ekki verið mikill á mörgum stöðum að vinna við sjávarútveg. heldurðu kannski að það hefðu jafnmargir íslendingar unnið við sjávarútveg í fyrra og gerðu árið 1986? 

"Þjóðin á ekki lengur þessa auðlind"

Að það sé ekki lengur vilta vestur stemmning þar sem menn moka hundruðum tonna af þorski á land sem liggur svo undir skemmdum og sendur í bræðslu? að menn þurrausi miðinn og hver er í kapp við annan um að auka veiðigetuna til að sækja meir en náunginn? 

Þú ættir nú að vita að þjóð er ekki lögaðili og getur ekki átt neitt. ekki nema þú eigir við að þú viljir að allt sé í eigu ríkisins og það séu ríkis útgerðir?

þjóðinn á fiskinn með sama hætti og hún landið. nýtingarrétturinn er hinsvegar hjá útgerðarmönnum og þeim sem kaupa kvótann. 

varðandi þetta dæmi sem þú tekur varðandi leigu, þá er einfalt ráð við því. afnema nær algjörlega leigukvótamarkaðinn. að einstaklingur í útgerð geti einungis leigt til sín og frá sér, sem nemur 5% af heildar aflaheimildum sínum. þetta myndi neyða alla aðila að veiða sjálfir þann afla sem þeir eru skráðir fyrir ellegar myndu þeirr missa hann eins og lög gera ráð fyrir. en þetta er ekki nóga mikill sósíalismi og forræðishyggja fyrir þinn smekk?

"Og nú er verið að tala um að varpa þessum skuldum yfir á þjóðina með afskriftum."

þetta er besta dæmið um að þú hafir ekki kynnt þér þessi mál og þú grípir alla þá frasa sem þú heyrir gagnrýnislaust á lofti. eða ertu kannski að leggja til að sjávarútvegsfyrirtæki og lífeyrissjóðir borgi inn í gömlu gjaldþrotabankanna til þess að borga út þeim sem tóku stöðu gegn krónunni? því ef framvirkugjaldeyrissamningarnir eru gerðir upp gagnvart þeim sem tóku stöðu með krónunni (útflytjendur og lífeyrissjóðir) þá verður að gera upp á sama hátt samninga við þá sem tóku stöðu gegn krónunni (eigendur bankana og aðra áhættu fjárfesta). Það sést núna hvar þú og Baugsfylkingin standa ef þetta er það sem þú átt við.

nema að þú sért að vitna í orð Árna Jónsen. ef svo er. þá er nú málflutningur þinn og rökvísi á frekar lágu plani.

það sem vantar alveg hjá þér og öllum þeim sem gagnrýna núverandi kerfi, eins og t.d. Kalla Matt. er hvernig verður skiptinginn á aflaheimildum?

hvað fara mörg tonn eða % af heildarafla í þennan bæ og hversu mikið í þann næsta. ef þið hafið ekki svar við þessu, hvernig breytingin á að vera og getið komið með hana, þá er allur ykkar málflutningur byggður á sandi og í raun bara slagorða pólitík sem ekkert stendur á bak við og engin skilningur á raunveruleikanum er fyrir hendi.

Ólína, ætlar þú að byggja þinn pólitíska frama á upphrópunum og frösum?

komdu nú með almennilegt svar.  

Fannar frá Rifi, 5.3.2009 kl. 00:13

26 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar - komdu sjálfur með rök og hættu lýðskruminu.

Þú segir: "...menn treystu á að aðrir myndu gera allt fyrir þá í stað þess að treysta á sig sjálfa. þar sem menn hafa treyst á sig sjálfa og unnið sjálfir að eigin málum í stað þess að biðja stjórnmálamenn um að koma að málum og laga allt. þar hefur byggð blómstrað. samt í raun ekki. þar hefur byggð staðið í stað."

Þetta eru köld skilaboð til fiskverkafólksins í sjávarbyggðun landsins sem missti hefur atvinnu sína vegna misréttisins sem hlaust af kvótakerfinu.

Já, þetta eru ísköld skilaboð til íbúa Flateyrar sem á síðast ári horfðu á eftir útgerðarmanninum sem ákvað að hann nennti þessu ekki lengur og seldi. Hann fór með 3 milljarða út úr byggðarlaginu. Eftir sat byggðin hans í sárum.

Dæmi af þessu tagi segja allt sem segja þarf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.3.2009 kl. 11:56

27 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það höfðu allir tækifæri á að kaupa. afhverju keyptir þú ekki kvóta og fórst að reka fyrirtæki til að styrkja þína byggð? Afhverju tókst þú þig ekki saman með öðrum og slógst lán til þess að kaupa upp fyrirtækið á Flateyri? Hann sá sér ekki fært að reka það án þess að fara í gjaldþrot. átti hann þá að bíða og fara í gjaldþrot? hefði það verið betra? 

"Hann fór með 3 milljarða út úr byggðarlaginu."

áttu við að hann tók 3 milljarða út af bankareikningi allra íbúa byggðarinnar og fór með þá annað? eða fékk hann 3 milljarða frá einhverjum í sjávarútvegi sem slá á lán hjá banka? eitthvað sem allir gátu gert ef þeir vildu taka áhættu. svona svipaða áhættu þarf til setja fót fyrirtæki hvaða atvinnugrein sem er á þessu landi. en þú vilt kannski meina að það eigi að gilda aðrar reglur í sjávarútvegi.

Í Snæfellsbæ hefur byggð staðið í stað undanfarið þrátt fyrir mikla aukningu aflaheimilda. það er ekki núna með aukinni fjölbreytni, t.d. með komu framhalsskóla í Grundarfjörð og vatnsverksmiðju á Rif sem hyllir undir aukningu og þá líka að þeir sem fara í nám haldi áfram að búa í sínum heimabæ. 

En það sendur ennþá eftir. 

hvernig vilt þú og Samfylkingin dreifa aflaheimildum á byggðir? hversu mörg prósent hver á hvaða byggð af heildar aflamarki hvers árs? meðan þú getur ekki svarað þessu er orð þín innihaldslítil og í raun marklausar upphrópanir til að vekja athygli á þér fyrir prófkjörið og síðan kosningar. 

Ég bíð spenntu eftir að sjá hvernig þú vilt sjá útdeilingunni á byggðir víst þú vilt að kvótinn verði bundinn í byggðum. 

Fannar frá Rifi, 5.3.2009 kl. 12:23

28 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég sé ýmsar leiðir færar í þessu. Ein leið gæti verið svokölluð fyrningarleið sem Jóhann Ársælsson beitti sér fyrir sem þingmaður Samfylkingarinnar á sínum tíma. Sú leið er seinfarin, en fær engu að síður.

Össur Skarphéðinsson hefur lagt til að kvótinn verði innleystur þannig að bætur komí á móti. Þær "bætur" mætti hugsa sér í formi veiðiheimlda.

Loks er ekki útilokað eins og sakir standa - að leysa kvótann inn til íslenska ríkisins á móti skuldum. Staðreynd er að stór hluti íslenskrar útgerðar er skuldsettur upp í topp.

Síðast en ekki síst mætti hugsa sér sambland þessara þriggja leiða.

Annars eru leiðirnar ekki aðalatriðið í þessu heldur markmiðið. Viljinn til þess að ná fram réttlátu kerfi sem talist getur þjóðhagslega hagkvæmt.

Eins og ég hef marg bent á er rekstrarleg hagkvæmni einstakra útgerðarfyrirtækja ekki það sama og þjóðhagsleg hagkvæmni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.3.2009 kl. 18:54

29 Smámynd: Fannar frá Rifi

Enn kemur ekkert svar og þú heldur þig í innantómum frösum og forðast það sem messtu skiptir.

hvernig verður kvótanum skipt á byggðirnar eins og þín hugmynd er um að byggðirnar endurheimti kvótann. 

meðan þú svarar þessu ekki er öll þín orð um kvótann marklaus. 

Fannar frá Rifi, 5.3.2009 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband