Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Í minningu góðs vinar

baldur

 Í dag verður til jarðar borinn kær vinur, Baldur Þórhallur Jónasson frá Árholti á Húsavík.

Hann kvaddi þetta líf eftir stutta en stranga sjúkralegu. Það var um vornótt, þegar kraftur náttúrunnar er mestur, gróðurinn að lifna af vetrardvala og birtan að taka völdin. Hringrás lífs og dauða.

Á viðskilnaðarstundinni var sumarnóttin var að verða albjört fyrir norðan. Þar ríktu árniður, fuglasöngur og ilmandi kjarr í litum þingeyskrar sveitar, þaðan sem sögur hans og ljóð áttu uppruna sinn. Laxinn að ganga í árnar.

Baldur, vinur okkar, bar ekki aðeins nafn hins bjarta áss, heldur líka svipmót og fas. Ljós yfirlitum með gáfublik í auga, rólegur í fasi og alvörugefinn. Þannig kom hann okkur fyrir sjónir þegar fundum bar fyrst saman sumarið 1987 í Hollandi. Hann var þá fararstjóri en við ferðalangar með fjögur börn. Strax á flugvellinum fangaði hann athyglina, öruggur í fasi með auga á hverju úrlausnarefni, boðinn og búinn til aðstoðar. Þarna tókust kynni sem urðu að lífslangri vináttu, þegar Baldur og Margrét vinkona okkar gengu í hjónaband nokkrum árum síðar.

Baldur var góður félagi og mikill vinur vina sinna. Hjálpsemi hans var einstök, ekki síst við þá sem lífið fór um ómjúkum höndum, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra sem hann tók að hjarta sínu. 

Baldur var maður með ríka réttlætiskennd og áhuga á þjóðmálum. Marga rökræðuna tókum við um landsins gagn og nauðsynjar – ekki alltaf sammála um leiðir, en alltaf samhuga um markmið og meginsjónarmið.  Við skynjuðum fljótt, að maðurinn hafði ýmislegt reynt. Einmitt þess vegna, gat hann gefið svo mikið. Hann veitti óspart af gnægtarbrunni sagna og ljóða um náttúru Þingeyjarsýslu, af laxveiði í drottningu íslenskra áa í Aðaldal, úr sveitinni við Mývatn og af minnisverðu fólki hvort sem var frá Húsavík eða fjarlægum löndum. Heimamaður og heimsmaður, það var Baldur. Það var sama hvar borið var niður, aldrei var komið að tómum kofa.  

Baldur greindist fyrst með krabbamein árið 1999 og gekkst undir vandasama aðgerð á hálsi og barka. Eftir það þurfti hann að þjálfa nýja taltækni með „nýrri rödd“, og sættast við gjörbreytingu á lífi sínu.  Hann tókst á við vandann af aðdáunarverðu æðruleysi. Þá, líkt og síðar, kom það í hans hlut að vera sá sterki, sá sem hughreysti sorgbitna ástvini og taldi í þá kjark og von.

Baldur var næmur á umhverfi sitt og næmur fyrir fólki. Dagfarsprúður og barst ekki mikið á, en húmoristi sem gladdist með glöðum. Skáldmæltur var hann eins og hann átti kyn til og eftir hann liggur mikið magn lausavísna og kvæða sem hann greip ósjaldan til á góðum stundum. Þannig naut hann sín best: Í töfrum orðanna, bundnum í ljóð eða óbundnum í rökræðum, þegar hugurinn hóf sig til flugs, yfir daglegt amstur. Sagan og lífið fléttuð saman í eina heild.

„Margs er að minnast, margt er hér að þakka.“ Erfiðu sjúkdómsstríði er nú lokið. Í því stríði sýndi Baldur styrk sem fáum er gefinn.

Eitt mun þó dauðinn aldrei ná að vinna,
orstír sem sprottinn er af sönnum toga.
Minning þín hlý í hugum vina þinna
og hjörtum lifir, eins og bjarmi af loga. (ÓÞ)

Nú hefur sálin vitjað skapara síns – laxinn er genginn í ána. 

Blessuð sé minning góðs vinar.  

 

Ólína og Sigurður. 

  


Stund milli stríða

Nýliðið sumar hefur verið afar viðburðaríkur tími. Tími annríkis. Reynsluríkur tími.

Þingmenn hafa lítið næði fengið til að kasta mæðinni eða eiga samvistir með fjölskyldu eða vinum. Nú þegar það næði loksins gefst eru skólarnir byrjaðir og vetrardagskráin hafin hjá flestum.

Engu að síður er gott að eiga svolitla stund milli stríða.

Nú um helgina koma þeir feðgar til borgarinnar - sonurinn að keppa í fótbolta. Móðirin staðráðin í að vera honum (hæfileg) hvatning á hliðarlínunni. Wink

Svo er meiningin að skella sér vestur eftir helgina, reyna að njóta þess að eiga nokkurra vikna eðlilegt heimilislíf, tína ber ef veður leyfir, æfa hundinn og svona ... prjóna.

Sjáumst þegar ég nenni að byrja að blogga aftur.

Hafið það gott á meðan.


Ópólitísk helgi - og C-próf á hundinn!

snaefellsjokull Það var svoooo gott að komast burt úr bænum um helgina. Varpa frá sér áhyggjum af afdrifum lands og þjóðar og halda á vit jökulsins: Arka um lyngi  vaxnar hlíðarnar, krökkar af berjum  -  æfa hundinn - hitta félagana - reyna á sig í brekkunum - leggjast milli þúfna í sólskininu og úða í sig aðalbláberjunum.

Koma svo þreytt heim að kvöldi - horfa á sólina setjast í hafið öðrumegin , tunglið rísa á hálfbláum himninum hinumegin og jökulinn loga.

Dásamlegt!

Jamm, ég brá mér á æfingu  upp á Gufuskála með Björgunarhundasveitinni og tók C-próf á hundinn í víðavangsleit. Joyful Ó, já - gekk bara vel.

skutull.sumar08

Og nú er hann á leiðinni norður á Ísafjörð með björgunarsveitarbílnum þessi ræfill - Skutull minn - eftir langa og erfiða helgi í lífi unghunds. Þar bíða hans góðar móttökur, lærleggur af lambi o.fl. notalegt. Húsmóðir hans kemur svo þegar búið er að bjarga þjóðarhag í þinginu. Wink

Nú þegar hundurinn hefur tekið bæði byrjendaprófin í víðavangs- og vetrarleit tekur alvaran við. Það þýðir víst að maður þurfi að fara að komast sér í almennilegt form. Blush

Við sjáum nú til með það.

 

 


Gufuskálar!

Þó að mikil spenna ríki nú í Ice-save málinu og óljóst sé um afdrifin, þá er ég á leið vestur á Gufuskála að æfa hundinn og ætla að vera þar um helgina, enda get ég lítið gagn gert annað en að hugsa hlýtt til fjárlaganefndar.

Ætla að reyna að halda mér vakandi að þessu sinni, á báðum leiðum. Wink

Eigið góða helgi öllsömul.


Gleði og stolt

GayPrideRoses "Alltaf grunaði mig þetta!" sagði hann við mig sigri hrósandi gamall samverkamaður sem ég hitti á miðjum Laugaveginum í dag. Ég gekk þar í humátt á eftir Gleðigöngunni og hafði valið að fara á eftir fánanum sem á stóð  "stoltar fjölskyldur".

"Þú ert auðvitað ein af þeim" sagði hann og klappaði á öxl mína skælbrosandi.  

 "Ég er stoltur aðstandandi eins og aðrir hér" svaraði ég umhugsunarlaust og áttaði mig ekki strax á því hvað maðurinn var að fara.

En þegar ég sá brosið hverfa eins og dögg fyrir sólu fyrir örvæntingarfullum vandræðasvip - þá varð ég að stilla mig um að skella ekki upp úr. 

"Takk fyrir komplímentið" sagði ég með blíðu blikki þegar ég sá hvað maðurinn var miður sín. Svo hélt ég mína leið. Hann stóð orðlaus eftir undir ásakandi augnaráði eiginkonunnar sem var við hlið hans. Þessi skondna uppákoma var einhvernvegin eins og atriði úr danska myndaflokknum Klovnen - án þess að ég geti skýrt það nánar (mér er enn skemmt þegar ég hugsa um þetta).

Annars var gríðarleg stemning í bænum og mikill mannfjöldi. Ég hafði mælt mér mót við vini mína á horni Barónstígs þar sem við horfðum á litríka gönguna nálgast og slógumst svo í hópinn þegar vörubílarnir  með skemmtiatriðunum voru farnir framhjá. Hvarvetna var fólk með litríkar blómfestar um háls og marglita fána. Á Arnarhóli var þjóðhátíðarstemning - einhver þægileg blanda af rólegheitum og stuði.

Aðstandendur göngunnar hafa sannarlega ástæðu til að vera bæði  glaðir og stoltir í dag.


mbl.is „Stærsta gangan til þessa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill fugl í vanda

mariuerla170606_9 Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni. 

Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.

Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.

Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.

Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.


"Jarmur fogla" og fénaðar - vel heppnuð útkallsæfing

normal_IMG_0067Bærilega tókst útkallsæfingin með björgunarhundunum í nótt - en ég verð að játa að ég er svolítið syfjuð eftir þetta allt saman, enda var ekki nokkur svefnfriður í sjálfri sumarnóttinni fyrir jarmi "fogla" og fénaðar. Hafði ég þó hugsað mér gott til glóðarinnar að sofa undir beru lofti í "næturkyrrðinni".

Ævintýrið hófst eiginlega strax í gærkvöld, þegar við komum að Hæl í Flókadal og fengum þar höfðinglegar móttökur hjá heimilisfólkinu sem bar í okkur góðan mat og heitt kaffi.

Sex úr hópnum höfðu það hlutverk að vera "týnd". Við vorum vakin klukkan þrjú í nótt og ekið með okkur  sem leið lá niður í Stafholtstungur þar sem við áttum að fela okkur á mismunandi stöðum. Leitarteymin fimm voru svo kölluð út um klukkutíma síðar.

Ég fann mér góðan felustað í klettaskorningi, skreið ofan í svefnpokann, breiddi yfir mig feluábreiðuna og hugðist, eins og fyrr segir, sofa til  morguns í lognblíðri sumarnóttinni. En ... það var bara ekki nokkur svefnfriður fyrir blessaðri náttúrunni. Woundering 

Ekkert sker meir í eyrun og hjartað en móðurlaust lamb sem grætur út í næturkyrrðina. Og ef einhver heldur að fuglar himinsins sofi um sumarnætur, þá er það misskilningur. Þeir eru nefnilega á stanslausri vakt yfir ungum sínum. Þeim er meinilla við útiliggjandi björgunarsveitarmenn, og láta það óspart í ljósi með miklum viðvörunarhljóðum og hvellu gjalli við minnstu hreyfingu. 

En ég lét nú samt fara vel um mig, og hlustaði á þessa nætursymfóníu.  Heyrði hundgá í fjarska og fjarlæg fjarskipti - enda hljóðbært í logninu. Virti fyrir mér tvo svartbaka elta smáfugl út undir sjóndeildarhring. Ekki sá ég hvernig sá eltingarleikur endaði - en víst er að hann hefur endað illa fyrir einhvern og vel fyrir einhvern annan. Þannig er blessuð náttúran í allri sinni tign.

Ég var sú fyrsta sem fannst af þeim sem týndir voru. Það voru þeir félagarnir Krummi og Gunnar Gray sem fundu mig klukkan sjö í morgun. 

Æfingin stóð í sex tíma. Á eftir var haldin höfðingleg grillveisla á Hæl, og að henni lokinni voru unghundarnir æfðir. 

Skutull minn stóð sig vel, og nú vonast ég til að geta tekið C-prófið á hann í víðavangsleit í ágúst  - að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til. 

lfljtsvatnma2009002-vi


Svolítil leiðrétting til Þórs Saari ... annars er ég farin á útkallsæfingu ...

... upp í Borgarfjörð, ætla að liggja þar í tjaldi í nótt og ekki að hugsa meira um pólitík þessa helgina. Ice-save getur beðið betri tíma.

En ég sá á visi.is að Þór Saari réðist á mig heiftúðlega með ósannindum um að ég hefði hlegið að eineltistali Birgittu Jónsdóttur í þinginu á föstudag og verið með framíköll. Lágt þykir mér maðurinn leggjast í þessum málatilbúnaði, enda fer hann með hrein ósannindi.

Hér er tengillinn á ræðu Birgittu - og dæmi nú hver um sig um það sem þarna fór fram - ég ætla ekki að svara því frekar.

En .. nú streyma félagar Björgunarhundasveitar Íslands upp í Flókadal þar sem útkallsæfing mun fara fram eldsnemma í fyrramálið. Sjálf er ég ekki með fullþjálfaðan hund, þannig að hann bíður þess að fá að spreyta sig síðar.

Ég verð "týnd" milli þúfna eins og fleiri. Svo verður grillað og unghundarnir æfðir.

"Sjáumst" síðar  Wink

 

P


Úr Jökulfjörðum

VebjarnarnupurFjögurra daga gönguferð í Jökulfjörðum að baki, og það var ljúft að smeygja sér undir dúnmjúka og tandurhreina sængina í gærkvöldi og hvíla lúin bein. Er svolítið þreytt í dag, en endurnærð engu að síður!

Þarna var á ferðinni sami hópur og gengur árlega um Hornstrandafriðland - hópurinn sem nú nefnist Skaflabjörn, eftir ævintýri síðasta árs (sjá hér, hér og hér). Í för með okkur að þessu sinni voru tengdaforeldrar mínir, Pétur Sigurðsson (78) og Hjördís Hjartardóttir (70). Hann gekk með alla dagana, hún hvíldi einn (eins og raunar fleiri úr hópnum, þar á meðal hundarnir tveir sem fylgdu okkur). Wink

Að þessu sinni var þó ekki farið inn í Hornstrandafriðlandið heldur í Grunnavík og gengið þaðan um fjöll og fjörur.

Ferðin hófst með bátsferð frá Bolungarvík á föstudagsmorgni yfir að Berjadalsá á Snæfjallaströnd. Þaðan gengum við yfir í Grunnavík. Á leiðinni varð það óhapp að Kristín Böðvars féll um grjót og olnbogabrotnaði. Við vorum sem betur fer með góða sjúkrakassa meðferðis og gátum búið um brotið og spelkað það, enda enga aðra aðstoð að fá þarna uppi á fjallinu. Kristín harkaði af sér, tók eina verkjatöflu og gekk til byggða (3 klst). Góður kunningi okkar á Ísafirði var kallaður til aðstoðar og kom hann á bátnum sínum yfir í Grunnavík og skutlaði henni á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem gert var betur að brotinu. Síðan var mín kona komin aftur í Grunnavík seinna um kvöldið, tilbúin í göngu næsta dags.  

Já það eru jaxlar í þessum hópi sem láta hvorki beinbrot né aldur hefta sína för. Cool

Í Grunnavík beið farangurinn okkar og slegið var upp tjöldum. Við Helga Magnea og Pétur Sigurgeir skelltum okkur í sjóbað en aðrir drifu sig í heita pottinn sem þarna er.

Daginn eftir gengum við út Staðarhlíðina með stórgrýttri fjörunni út að Kollsá og þar upp á Staðarheiðina aftur til Grunnavíkur. Fjaran er stórgrýtt og illfær og getur ekki talist gönguleið. Ég ræð fólki frá að fara hana.

mariuhornÞriðja daginn, sunnudaginn, gengum við á Maríuhornið. Um kvöldið fengum við notalega sögustund á Friðriki ferðabónda í Grunnavík sem bauð okkur í bæinn eftir kvöldmatinn.

Í gær, mánudag, gengum við síðan frá Grunnavík yfir Staðarheiðina, niður hjá Kollsá og áfram út að Flæðareyri þangað sem báturinn átti að sækja okkur. Raunar var ekki lendandi á Flæðareyri svo við röltum til baka inn í Höfðabótina þangað sem báturinn stefndi, og þar komst tuðran í land til að ferja okkur um borð.

Eins og alltaf eftir þessar gönguferðir er ég lúin en alsæl og hvíld á sálinni.

Framundan bíður Ice-save málið í þinginu og fleira sem krefst einbeitingar ... en ég er til í slaginn!

FootinMouth

PS: Ég get því miður ekki sett inn mínar eigin myndir strax þar sem ég hef ekki komist í ferðatölvuna mína. Myndina efst á síðunni fann ég fyrir all löngu á vefnum en veit því miður ekki hver tók hana, hún er af Vébjarnargnúpi tekin af sjó. Myndin af Maríhorninu er fengin á vef SAF - hún er líka tekin af sjó. Svo er hér mynd tekin í Hlöðuvíkurskarði á fyrsta degi ferðar í fyrra .

Hlöðuvíkurskarð4

 

 


Minning um Blíðu

blidahvolpurein05 (Medium) Blíða var eftirminnilegur hundur. Fáir hundar voru ljúfari eða skemmtilegri ef því var að skipta - og fáir hundar voru sjálfstæðari og fyrirferðarmeiri þegar sá gállinn var á henni. Eins og allir eftirminnilegir persónuleikar gerði hún kröfur til eigenda sinna, lét vita af sér, en var eins og hugur manns þess á milli. Hún var ekki allra. En við náðum vel saman, ég og hún.

Blíða var þjálfuð sem ollyogblida07 (Medium)björgunarhundur í tvö ár. Hún tók C-próf í vetrarleit vorið 2007, þá eins og hálfs árs gömul. Henni gekk vel í leitarþjálfuninni framan af, en svo kom í ljóst að hún var ekki nógu sterk fyrir þessa þjálfun. Hún fór að veikjast ítrekað á æfingum og sýna ýmis merki þess að ráða ekki við verkefnið. Síðastliðið sumar lauk hún ferli sínum sjálf með eftirminnilegum hætti þegar hún beinlínis fór í "verkfall" á miðju námskeiði og var ekki æfð meira eftir það. Embarassed P1000530 (Medium)

Ég fékk mér annan hund til að þjálfa - hvolpinn Skutul sem nú er ársgamall. Blíða aðstoðaði mig við uppeldið á honum og gerði það vel. Hún kenndi honum að hlýða manninum og var honum framan af sem besta móðir. En svo óx hann henni yfir höfuð, og samkomulagið versnaði.

Loks varð ég að láta hana frá mér - það gekk ekki að hafa tvo ráðríka hunda á heimilinu, þar af annan í vandasamri þjálfun sem krafðist allrar minnar athygli.

Hún fékk gott heimili norður í Skagafirði hjá fólki sem hafði átt bróður hennar en misst hann fyrir bíl. Þau tóku Blíðu að sér, og í fyrstu gekk allt vel. En það var annar hundur á heimilinu og þeim samdi aldrei. Hún varð taugaveikluð og óörugg um stöðu sína, gelti meira en góðu hófi gegndi, og þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þegar hún svo sýndi sig í því að urra að barnabarninu í fjölskyldunni, var ákveðið að láta hana fara. Ég skil þá ákvörðun, og úr því ég gat ekki tekið við henni aftur var betra að láta hana sofna en vita af henni á flakki milli eigenda.

Nú hvílir hún við hlið bróður síns norður í Skagafirði.

Já, Blíða var eftirminnilegur hundur. Á góðum stundum

Bilferd (Medium)

 

var hún mikill félagi og engan hund hef ég séð fegurri á hlaupum en hana. Þannig geymi ég mynd hennar í huga mér, og sé hana nú í anda hlaupa tignarlegri en nokkru sinni fyrr um gresjurnar á hinum eilífu veiðilendum.

Blessuð sé minning Blíðu.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband