Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Krafan um jöfnuð er ekki klisja

Jafnaðarhugsjónin er auðlind – það sjáum við þegar við lítum til öflugustu velferðarsamfélaga heims, eins og Norðurlanda.  Krafan um jöfnuð er lifandi stefna að verki. Hún miðar að því að byggja upp samfélag af sömu umhyggju og við byggjum upp heimili. Því er ætlað að veita öryggi og vera skjól.  Þess vegna hefur það haft ótvíræða þýðingu fyrir íslenskt samfélag að það skuli hafa verið jafnaðarmenn sem haldið hafa um stjórnartauma hin erfiðu ár eftir hrun.  Á síðustu fjórum árum hafa jafnaðarmenn á Íslandi náð að jafna lífskjör í landinu. Við breyttum skattkerfinu – og já, við hækkuðum skatta á þá hæstlaunuðu, en um leið hlífðum við láglaunahópunum og vörðum millitekjuhópinn. Við jukum stuðning við ungar barnafjölskuldur, hækkuðum barnabætur, hækkuðum húsaleigubætur og drógum úr skerðingum. Við stórhækkuðum vaxtabætur og greiddum samtals hundrað milljarða í þær og barnabætur á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni komist nálægt. Kaupmáttur lægstu launa er hærri nú en hann var í góðærinu. Skattbyrðin er lægri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er nú helmingi minni en árið 2007 þegar hann varð mestur. Það skiptir máli hverjir stjórna. Okkur tókst það sem engri annarri þjóð hefur tekist, sem hefur lent í kreppu: Að verja kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að náðist að minnka halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, lækka verðbólgu úr 18% í 4,5%, minnka atvinnuleysi um helming og ... verja velferðarkerfið. Nei, krafan um jöfnuð er ekki klisja – hún er lifandi stefna. Félagslegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í samfélögum þar sem jöfnuður er í hávegum hafður er minna um öfga og glæpi. Jafnaðarstefnan vinnur gegn félagslegum vanda og andlegri vanlíðan. Hún vinnur gegn kynjamismunun og menntunarskorti. Jafnaðarstefnan stuðlar að almennri velmegun, sjálfbærni og minni sóun.Hún stuðlar að samheldni, gagnkvæmu trausti og mannvirðingu. Þannig samfélag vil ég. 

Súðavíkurgöng

Í janúar  varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að leggja fram fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið á Alþingi um ný jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fékk ég til liðs aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis sem eru meðflutningsmenn  mínir á þingsályktunartillögu um að Súðavíkurgöng verði næstu jarðgöng  á eftir Dýrafjarðargöngum. Lagt er til að jafnhliða verði efldar snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum allt þar til jarðgangagerðinni er lokið. Er þá einkum horft til stálþilja, víkkunar rása og grjótvarnarneta.

Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá  Ísafirði, Bolungarvík, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri  yfir vetrarmánuðina. Íbúar Súðavíkur þurfa enn fremur að sækja mest alla grunnþjónustu til Ísafjarðar um þennan veg. Í því ljósi má furðu sæta að Súðavíkurgöng skuli aldrei hafa komist inn á samgönguáætlun og að aldrei skuli hafa verið flutt þingmál þar um fyrr en nú.

Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga fyrir þinglok og það voru vonbrigði. Það verður því verkefni þingmanna kjördæmisins á næsta kjörtímabili að tryggja framgang málsins. Ekki mun skorta stuðning heimamanna, því undirtektir hafa verið mjög góðar hér á heimaslóðum. Það sáum við til dæmis þegar hópur fólks kom saman á Súðavíkurhlíðinni í gær til áréttingar kröfunni um jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Við það tækifæri var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu á síðunni www.alftafjardargong.is þar sem skorað er á stjórnvöld að hefja rannsókn og undirbúning að jarðagangagerðinni hið fyrsta. Á síðunni er réttilega minnt á að þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Þetta kom átakanlega glöggt í ljós í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði skömmu fyrir síðustu áramót þegar fjöldamörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Aðstæðurnar sem þarna sköpuðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.

Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum sínum - það hefur reynslan kennt okkur. Nægir að nefna Dýrafjarðargöng. Þau voru talin brýnasta jarðgangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun vegagerðarinnar fyrir mörgum árum, en voru við upphaf þessa kjörtímabils komin aftur til ársins 2022 á þágildandi samgönguáætlun. Sem fulltrúi í samgöngunefnd þingsins gekk ég í það ásamt fleiri þingmönnum kjördæmisins að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Það tókst og samkvæmt núgildandi áætlun á þeim að ljúka 2018. Má þakka það einarðri samstöðu í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, því hún skipti sköpum.  Nú er brýnt að frá þessu verði hvergi hvikað.

Á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga ((2015-2018) þarf að nota tímann vel og undirbúa næstu brýnu samgöngubót  - þá samgöngubót sem mikilvægt er að verði næst í röðinni. Það eru Súðavíkurgöngin.


Dýravelferð í siðvæddu samfélagi

blidahvolpurein05 (Medium) Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri  heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði  frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok.  Markmið laganna er að „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“ eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.

 

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.

 

Gelding grísa og sumarbeit grasbíta 

Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum „Borgen“ þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.

 

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu  í þessa veru. Nefndin leggst gegn  lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð „beit á grónu landi á sumrin.“

Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé  „við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið“. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.

Tilkynningaskylda og nafnleynd 

Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

 

Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.

   

Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.

 

Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins  við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.


Ofviðrið og afleiðingar þess - aðgerða er þörf

 Um síðustu áramót gekk ofviðri yfir norðvestanvert landið, með þeim afleiðingum að allar leiðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tepptust vegna fjölda snjóflóða. Rafmagn fór af fjölmörgum byggðum allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Rafmagnsleysið olli því meðal annars að síma og fjarskiptasamband lagðist af um tíma, þ.á.m. tetra-kerfið sem almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á í hættuástandi.

Í veðrinu afhjúpuðust m.ö.o. alvarlegir veikleikar í samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum Vestfirðinga.

 

Dómínóáhrif

Það sem við var að eiga voru samverkandi þættir – dómínóáhrif.  Óveður teppti samgöngur sem olli því að bjargir komust hvorki til né frá og ekki var hægt að gera við bilaðar rafmagnslínur. Rafmagnsleysi olli röskun á vöktun og fjarskiptum sem ofan á annan upplýsingaskort olli alvarlegu öryggisleysi með tilliti til almannavarna. Einungis munaði fáeinum mínútum að allir Vestfirðir yrðu alveg fjarskiptasambandslausir.  „Með öllu óásættanlegt“ sögðu fulltrúar neyðarlínu og almannavarna á fundi sem ég kallaði til í umhverfis og samgöngunefnd nokkrum dögum síðar með yfirmönnum samgöngu, raforku, og fjarskiptamála auk fulltrúa frá neyðarlínu og almannavörnum.

Umrædda daga var því ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum – í raun og veru ríkti þar neyðarástand um tíma.

Sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist getur hvenær sem er skapast aftur. Við Íslendingar höfum nú á fáum mánuðum fengið óveður af þeim toga sem einungis þekktust með ára millibili hér áður fyrr. Veðuröfgar verða æ tíðari en kerfið í dag er hið sama og það var um jólin. Það er slíkt áhyggjuefni að þing og ríkisstjórn hljóta að endurskoða  nú framkvæmdahraða, verkefnaröð og áætlanir varðandi alla þá þætti sem þarna brugðust, samgöngur, raforku og fjarskipti.

 

Flóðavarnir og jarðgöng

Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er flýting Súðavíkurganga svo þau geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum. Ég vænti þess líka – á meðan beðið er eftir jarðgöngum – að lagt verði ofurkapp á að koma upp viðunandi snjóflóðavörnum á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð.

Þeir atburðir sem urðu um áramótin voru viðvörun. Til allrar hamingju hlaust ekki manntjón eða óbætanlegur skaði af. En það væri óafsakanlegt ábyrgðarleysi að láta sér ekki þetta að kenningu verða.  Óhjákvæmilegt er að endurskoða nú áætlanir í samgöngu-, raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga.

Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða, séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerist núorðið á hverjum vetri, og gerðist einnig  að þessu sinni. Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa sex þéttbýlisstaða (Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Súðavíkur) við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina.

Þekkt eru 22 snjóflóðagil á þessari leið. Íáramótaveðrinu komu flóð úr 20 þeirra.  

Þetta sýnir að Súðavíkurgöng verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum. Um leið blasir við að nú dugir ekki lengur að tala og þæfa um aðgerðir í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga – nú þurfa verkin að tala.


Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum

 

Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana  heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.

Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.

Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði  14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda. 

Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.

Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið. 

Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.

Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.

Veiðileyfagjaldið ...

Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti. Hreinn hagnaður útgerðarinnar á síðasta ári var 60 milljarðar samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, það jafngildir 22,6% af heildartekjum greinarinnar sem voru 263 milljarðar króna.  Framlegð útgerðarinnar (svokölluð EBIDTA) var 80 milljarðar sem er mun betri afkoma  en 2010  þegar hún nam 64 milljörðum króna. Eiginfjárstaðan batnaði um 70 milljarða milli ára.

 

Þessar jákvæðu fréttir tala sínu máli. Þær sýna okkur hve mikið er að marka harmagrát talsmanna útgerðarinnar sem undanfarin misseri hafa fullyrt að þessi stönduga atvinnugrein myndi líða undir lok, færi svo að veiðigjald yrði lagt á umframhagnaðinn í greininni.  Eins og sjá má af þessum afkomutölum er engin slík hætta á ferðum, nema síður sé.

 

Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá  – þ.á.m. arðgreiðslur útgerðarinnar til sjálfrar sín. Það sem eftir stendur  – umframhagnaðurinn – myndar gjaldstofn fyrir töku  veiðileyfagjalds á greinina alla. Þar fyrir utan geta skuldug útgerðarfyrirtæki sótt um lækkun veiðileyfagjalds – nú og næstu þrjú árin – ef sýnt verður fram á að tiltekið skuldahlutfall stafi af kvótaviðskiptum fyrri ára.  Gert er ráð fyrir að heildarlækkun gjaldtökunnar vegna þessa geti numið allt að tveimur milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, þannig að tekjur ríkisins af veiðileyfagjaldi verði nálægt 13 milljörðum króna (hefði annars orðið 15 mia).

 

Það munar um þrettán milljarða í fjárvana ríkissjóð, því nú er mjög kallað eftir framkvæmdum og fjárfestingum til þess að herða snúninginn á „hjólum atvinnulífsins“. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast strax í gerð Norðfjarðarganga, og síðan í beinu framhaldi Dýrafjarðarganga/Dynjandisheiðar sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að hefjist 2015 og ljúki eigi síðar en 2018.

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú hægt að veita stórauknum fjármunum til tækniþróunar og nýsköpunar, aukinna rannsókna og styrkingar innviða í samfélagi okkar, eins og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður sjávarútvegurinn enn styrkari stoð í samfélagi okkar en verið hefur – raunverulegur þátttakandi í endurreisn atvinnulífs og byggðarlaga  og sannkölluð undirstöðuatvinnugrein í víðum skilningi.

 

En veiðileyfagjaldið er einungis eitt skref – vegferðinni er ekki lokið.

 

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Stjórnvöld mega ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

---------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Kvótamálin og vegferðin framundan

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá.  Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.

 

En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.

 

Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn  og vaxandi  leigumarkaður með aflaheimildir  og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.

Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt – skref sem ég tel  rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.  Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um „allt eða ekkert“ getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.

 

Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni – en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.

 

----------------

Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.


Afleiðingar ofsaveðurs - skýringa er þörf

Veðurofsinn sem gekk yfir Vestfirði nú um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku, samgöngu- og fjarskiptamálum okkar Vestfirðinga. Af því tilefni hef ég nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforkumál Vestfirðinga og mun fara þess á leit að yfirmenn samgöngu og fjarskiptamála verði kallaðir til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd til þess að skýra fyrir nefndinni hvað gerðist, og hvaða áætlanir séu uppi um að hindra að annað eins endurtaki sig.

 Vestfirðingar geta ekki unað því lengur að vera svo berskjaldaðir sem raun ber vitni þegar veðurguðirnir ræskja raddböndin af þeim krafti sem nú varð, hvorki varðandi raforkumál, fjarskipti né samgöngur.  Það gengur ekki öllu lengur að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerðist að þessu sinni (og ekki í fyrsta sinn). Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi - en þessi vegur er helsta samgönguæðin milli Ísafjarðar og umheimsins yfir vetrarmánuðina.  Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum. Þetta sýnir að jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, og þetta þarf að ræða við fyrsta tækifæri á vettvangi þingsins.

 Þá getum við ekki unað því að fjarskipti fari svo úr skorðum sem raun bar vitni, bæði GSM kerfið og Tetra-kerfið sem almannavarnirnar reiða sig á, bæði björgunarsveitir og lögregla.

Þá finnst mér Orkubú Vestfjarða skulda Vestfirðingum skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda, þar af tvær stöðvar á Ísafirði. Varaaflsstöðvarnar eru vélar sem þarfnast eftirlits, viðhalds og álagsprófunar. Eitthvað af þessu þrennu hefur farið úrskeiðis, og stjórnendur fyrirtækisins þurfa að skýra betur hvað gerðist. Enn fremur þarf að skýra það fyrir Vestfirðinum, almannavörnum og fleiri aðilum hvað fór úrskeiðis í upplýsingagjöf fyrirtækisins til íbúa á svæðinu.

 Orkubú Vestfjarða er fyrirtæki í almenningseigu þannig að Vestfirðingar eru ekki einungis viðskiptavinir fyrirtækisins heldur einnig eigendur þess. Það hlýtur að vekja furðu að ekki skyldu strax gefnar út tilkynningar í gegnum almannavarnir um það hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu. Fólk sat í köldum og dimmum húsum tímunum saman án þess að vita nokkuð. Það er ekki nóg að setja ótímasettar tilkynningar inn á heimasíðu fyrirtækisins, þegar rafmagnsleysi ríkir liggur netsamband að mestu niðri. Tilkynningar í gegnum almannavarnir til útvarpshlustenda og í GSM síma hefðu þurft að berast. Svör orkubússtjóra um að "panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara.

 Þessi uppákoma afhjúpaði að mínu viti svo alvarlega veikleika í kerfinu að það þarfnast nánari skoðunnar, m.a. á vettvangi þingsins.  Ég tel því  óhjákvæmilegt að farið verði vel yfir þessi mál í þinginu strax að loknu jólaleyfi.


Kvótamálið - tækifærið er núna

Fyrr í dag sendum við Lilja Rafney Magnúsdóttir frá okkur yfirlýsingu vegna stöðunnar sem upp er komin í fiskveiðistjórnunarmálinu - en í dag ákváðu forystumenn stjórnarflokkanna að bíða með framlagningu þess. Yfirlýsing okkar Lilju Rafneyjar fer hér á eftir:

Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun,  sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar,  bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt  búsetuskilyrði í landinu.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi  leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er  núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
 
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt – skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.

Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta.  Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna  á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.

Nú er tækifærið – óvíst er að það gefist síðar.


Ramminn er málamiðlun.

Í svonefndri Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fá ekki allir allt sem þeir vilja.
Stundum er sagt um málamiðlanir að þær geri alla álíka óánægða og því sé skynsamlegra að velja milli sjónarmiða. Nokkuð er til í því – en í jafn stóru máli og þessu getur ekki hjá því farið að reynt sé að teygja sig í átt til ólíkra sjónarmiða. Hér hefur það verið gert.

Rammaáætlun á að tryggja að nýting landsvæða með virkjunarkostum byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati með sjálfbærni að leiðarljósi. Henni er ætlað að taka tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Slík áætlun skal lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti hið minnsta.

Virkjunarsinnar eru ekki allskostar ánægðir með þann ramma sem nú liggur fyrir. Þeir telja að meira hefði mátt virkja. Þeir tala um atvinnuuppbyggingu, telja störf og peningaleg verðmæti. Þeir líta á fossandi vatn og sjá þar ónýttan möguleika sem rennur í tilgangsleysi til sjávar.

Verndunarsinninn dáist að fallandi fossi. Hann sér þar líka mikla möguleika, en allt annars konar. Hann upplifir fegurð, finnur kraftinn frá vatnsaflinu og óskar þess innra með sér að fleiri fái að njóta: Börnin og barnabörnin til dæmis. Báðir hafa nokkuð til síns máls.

Vaknandi vitund
En á það að vera sjálfgefið að virkja allt sem virkjanlegt er, bara af því það er hægt? Er ásættanlegt að virkja náttúruauðlindir – spilla þar með umhverfi – ef við þurfum ekki orkuna? Er atvinnuuppbygging réttlætanleg ástæða virkjunarframkvæmda, eins og sumir hafa haldið fram? Væri ekki nær að spyrja sig: Hversu lítið kemst ég af með? Hvað get ég komist hjá að virkja mikið?

Í nýju náttúruauðlindaákvæði í frumvarpi að breyttri stjórnarskrá er í fyrsta skipti fjallað um náttúruna sjálfrar hennar vegna, sem undirstöðu lífs í landinu sem öllum ber að virða og vernda. Þar er í fyrsta skipti sagt berum orðum í texta sem hefur lagagildi að öllum skuli með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Þar er kveðið á um að nýtingu náttúrugæða skuli þannig hagað að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Þetta mikilvæga ákvæði er til vitnis um vaknandi vitund og virðingu fyrir umhverfinu, móður jörð. Í því er horft frá öðrum sjónarhóli en þeim sem hingað til hefur verið svo mikils ráðandi í umræðunni um nýtingu náttúrugæða.
Íslensk náttúra er ekki aðeins uppspretta ljóss og varma, hún er líka uppspretta lífsafkomu og fæðuframboðs. Hún er uppspretta upplifunar. Ekki síst er hún uppspretta ódauðlegrar listsköpunar sem við þekkjum af ljóðum þjóðskáldanna og af öndvegisverkum myndlistarinnar.

Skynsamleg nýting

Það er ekki sjálfgefið að virkja allt, bara af því það er hægt. Náttúran á sinn tilverurétt og óbornar kynslóðir eiga sitt tilkall til þess að koma að ákvörðunum um nýtingu og vernd náttúrugæða. Orðið „nýtingarvernd" gæti jafnvel átt hér við, því verndun getur verið viss tegund nýtingar og atvinnusköpunar. Nærtækt er að benda á ferðaþjónustuna, en ég vil líka minna á þá mikilvægu hreinleikaímynd sem íslensk fyrirtæki, ekki síst matvælafyrirtæki, þurfa mjög á að halda.

Sú rammaáætlun sem nú liggur fyrir mætir andstæðum viðhorfum af þeirri hófsemi sem vænta má þegar mikið er í húfi og skoðanir skiptar. Hún gerir ráð fyrir skynsamlegri nýtingu en virðir um leið mikilvægi náttúrugersema. Hér er tekið visst tillit til óskertra svæða – þótt óneitanlega hljóti einhverjum að finnast sem lengra hefði mátt ganga í því efni.

Á hinn bóginn hefur fjölda landsvæða – sem að óbreyttu lægju undir sem virkjunarkostir – verið komið í skjól í þessari áætlun: Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti, Hengilsvæðinu, Geysissvæðinu, Kerlingafjöllum, Hvítá í Árnessýslu og Gjástykki. Öðrum kostum hefur verið skipað í biðflokk þar sem þau bíða frekari rannsókna eða annarra átekta. Við fjölgun kosta í biðflokki er fylgt þeim sjálfsögðu varúðarviðmiðum sem eru meginsjónarmið alls umhverfisréttar og við Íslendingar höfum með alþjóðlegum samningum skuldbundið okkur til þess að fylgja.

Hér hefur faglegum aðferðum verið fylgt, að svo miklu leyti sem hægt er, þegar mannshönd og mannshugur eru annars vegar. Hér hafa ekki allir fengið það sem þeir vildu. En þessi málamiðlun er skynsamleg að teknu tilliti til þess hversu andstæð sjónarmiðin eru í jafn vandmeðförnu máli.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband