Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég heiti Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, er þjóðfræðingur að mennt, fimm barna móðir og ellefu barna amma.


Maðurinn minn er Sigurður Pétursson, borinn og barnfæddur Ísfirðingur, sagnfræðingur að mennt. 


 Bernska og unglingsár


Ég er fædd í henni Reykjavík árið 1958, dóttir Magdalenu Thoroddsen og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar. Alin upp á Miklubrautinni, gekk í Hlíðaskóla þar sem ég var undir handleiðslu þess frábæra kennara og mannvinar, Ármanns Kr. Einarssonar, rithöfundar, fram á unglingsár.


Sem barn var ég send í sveit á sumrin - og kynntist því almennum sveitastörfum eins og þá var títt um íslensk börn. Pabbi var mikill hestamaður og ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að vera með honum í hrossastússi. Hef átt margar góðar stundir á hestbaki í góðra vina hópi gegnum tíðina.


Vorið 1973 fluttist fjölskylda mín vestur á Ísafjörð þar sem pabbi tók við sýslumanns- og bæjarfógetaembætti sem hann gegndi til ársins 1983. Hann dó síðar sama ár.


Ég var einn vetur á Núpi í Dýrafirði en fór síðan í fjórða bekk í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði þar sem Hannibal Valdimarsson réði lögum og lofum þann vetur - eftir skyndilegt fráfall forvera síns Jóns Ben. Í næstu götu var Menntaskólinn á Ísafirði nokkurnveginn nýstofnaður, þar sem sonur Hannibals, Jón Baldvin, var skólameistari. Þar hóf ég mína menntaskólagöngu haustið 1975, ólétt að fyrsta barninu mínu, Þorvarði sem fæddist 15. nóvember það ár.


 Í menntaskólanum kynntist ég manninum í lífi mínu - honum Sigga - og við höfum stigið saman ölduna upp frá því. Ég lauk stúdentsprófi vorið 1979 og strax um haustið fluttum við Siggi með Dodda syni mínum norður á Húsavík þar sem við gerðumst kennarar við gagnfræðaskólann einn vetur. Ég kenndi ensku í öllum deildum - hann stærðfræði og dönsku.


Háskólaár og barneignir 


Árið eftir flutti litla fjölskyldan til Reykjavíkur og þá tók háskólagangan við. Ég lærði íslensku og heimspeki, hann sagnfræði og mannfræði. Við vorum bæði virk í stúdentapólitíkinni á þessum tíma - hann í stúdentaráði, ég í háskólaráði. Á þeim árum fæddust okkur þrjú börn til viðbótar, Saga 1982, Pétur 1983 og Magdalena 1985. Ég vann sem blaðamaður með skóla, en Siggi sem stefnuvottur. Ég lauk BA prófi árið 1985 - Siggi árið áður.


Fréttamennska og fræðastörf


Í ársbyrjun 1986 var ég ráðin sem fréttamaður á fréttastofu sjónvarpsins sem þá var eitt á markaði. Ég starfaði sem frétta- og dagskrárgerðarmaður við RÚV til ársins 1990 en þá höguðu atvikin því þannig að ég sigraði prófkjör Nýs vettvangs, stjórnmálaafls sem bauð fram til borgarstjórnar vorið 1990, og var n.k. undanfari Reykjavíkurlistans. Í framhaldi af því varð ég borgarfulltrúi í Reykjavík og borgarráðsmaður næstu fjögur árin. Á sama tíma lauk ég magistersprófi í íslensku og þjóðfræðum frá Háskóla Íslands (1992) og gerðist stundakennari í þjóðfræðum við félagsvísindadeild HÍ. Yngsti sonur minn, Andrés Hjörvar, fæddist í janúar 1994, og þar með dró ég mig út úr pólitík en helgaði mig heimilisstörfum og doktorsnámi næstu árin.


Ég sérhæfði mig í þjóðfræðum, einkum þjóðsagnahefð, trúarháttum og sögu galdraofsókna. Doktorsritgerð mín: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum, fjallar um það efni. Hana varði ég við heimspekideild HÍ vorið 2000.


Á meðan ég var í doktorsnámi fluttum við til Danmerkur þar sem ég var gestarannsakandi við þjóðfræðideild Kaupmannahafnarháskóla eitt ár. Við bjuggum í Gilleleje, yndislegu sjávarplássi á Norður-Sjálandi og þaðan fór ég til Kaupmannahafnar þrisvar í viku. Þetta var frábær tími og lærdómsríkur fyrir okkur öll. Siggi vann sem verkamaður í áhaldahúsi bæjarins, börnin sóttu skóla í Gilleleje og létu að sér kveða í íþróttum, hvert á sínu sviði. 


Eftir heimkomuna, síðla árs 1997, hlotnaðist mér sú ánægja að vera í hópi þeirra fræðimanna sem stofnuðu ReykjavíkurAkademíuna. Næstu árin starfaði ég sem sjálfstæður fræðimaður og háskólakennari. Árin 1999-2001 var ég starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, leysti þar af sem forstöðumaður þjóðháttadeildar og var upplýsingafulltrúi um tíma.


Ísafjarðarár


Vorið 2001 urðu þau tímamót í lífi okkar hjóna að ég var ráðin skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og við fluttum búferlum.  Þegar ég sagði starfi mínu lausu fimm árum síðar hafði nemendum fjöglað um þriðjung, réttindakennurum hafði fjölgað úr 30% í 70%, brottfall hafði minnkað meira en í þeim skólum sem teknir voru til samanburðar (úr 19% í 6-9% að jafnaði). Rekstrarstaðan batnaði úr 12-15% rekstrarhalla í innan við 3% rekstrarfrávik. Á sama tíma var húsnæði skólans endurnýjað, einkum heimavistin, komin var fullburða húsasmíðadeild ásamt nýrri og glæsilegri verkmenntaaðstöðu fyrir byggingargreinar. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ um starfsumhverfi Menntaskólans á Ísafirði sem birt var í desember 2005, kom fram að Menntaskólinn á Ísafirði hafði á fimm árum skipað sér í hóp framsæknustu og best reknu framhaldsskóla landsins.


Eftir að skólameistaratíðinni lauk 2006 tók við nýtt tímabil þegar mér gafst kostur á að taka þátt í að byggja upp fræðasetur Háskóla íslands á landsbyggðinni næstu ár á eftir. Meðfram því starfi gafst mér tími til að sinna ýmsum hugðarefnum, m.a. Vestffjarðaakademíunni sem ég átti þátt í að stofna árið 2004 og gerðist síðar formaður fyrir (www.vestakademia.is). Ég fór aftur að syngja í kór, fór að spila blak og tók til við að leitarþjálfa hundinn minn fyrir björgunarhundasveitina á Ísafirði. Skyndilega hafði ég meiri tíma en nokkru sinni til þess að sinna fjölskyldunni, börnum og barnabarni, vera í sambandi við vini og deila hugleiðingum með öðrum, t.d. hér í bloggheimum.


 Í ársbyrjun 2009 urðu svo enn þáttaskil þegar ég ákvað að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar þá um vorið. Ég hlaut annað sæti á lista flokksins, var kjörin alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi þann 26. apríl 2009. Því starfi gegndi ég til ársins 2013 þegar Samfylkingin beið mikið afhroð í alingiskosningum og tapaði 11 þingmönnum af 20. Ég var í hópi þeirra sem féllu þá út af þingi. Síðan hef ég verið sjálfstætt starfandi rithöfundur og fræðimaður. Ég stofnaði lítið gistiheimili sem ég starfræki á sumrin í húsinu mínu á Ísafirði, en á veturna stunda ég ritstörf og rannsóknir. Haustið 2015 tók ég aftur sæti á Alþingi í eitt ár og gegndi á sama tíma varaforsetaembætti í Norðurlandaráði. Eftir það varð ég aftur sjálfstætt starfandi fræðimaður, fararstjóri og rithöfundur.


Sumarið 2017 lauk Ísafjarðardvölinni, þegar við hjónin seldum fallega húsið okkar í Miðtúni og fluttum aftur suður til Reykjavíkur, þar sem ég hafði haldið mikið til yfir vetrarmánuðina frá því ég gerðist þingmaður 2009. Ég var farin að syngja með Cantabile kórnum hennar Margrétar Pálmadóttur og stunda það félagslíf sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða.


 


Enn urðu breytingar síðsumars 2018 þegar Siggi maðurinn minn réði sig sem kennara við Menntaskólann á Laugarvatni og við fluttum (ég a.m.k. með annan fótinn) þangað austur. Þar undi ég nú hag mínum vel - tók aftur til við fræðagrúsk og ritstörf, að þessu sinni í fögru og friðsælu umhverfi.  


 


Haustið 2022 tók ég við s5srfi deildarforseta félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.

Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband