Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Bloggþreyta

Gott fólk - ég er sennilega búin að blogga yfir mig eftir törn síðustu vikna. Er eiginlega orðin þurrausin og ætla að taka mér hlé.

Sjáumst þegar ég hef safnað kröftum á ný. Wink

bardastrond


Hvar eru nú handtökuheimildirnar?

 Hvar er nú efnahagsbrotadeild lögreglunnar? Hvar eru handtökuheimildir lögreglunnar? Það vantar ekki að hægt sé að taka krakkagrey og hneppa í varðhald fyrir það að mótmæla á almannafæri. En menn sem misnota aðstöðu sína og vitneskju - misfara með það traust sem þeim er sýnt - til þess að draga sér fé, þeir ganga lausir. Ekki nóg með það, þeir eru sérstakir ráðgjafar stjórnvalda og látnir starfa með skilanefndunum sem eiga að gera upp verkin þeirra. 

Ræningjar á rannsóknavettvangi. Angry

thjofurEigendur Landsbankans og Glitnis láta peningamarkaðssjóði bankanna kaupa í fyrirtækjum sem þeir eiga persónulega þegar þeir sjálfir eru komnir í lausafjárþröng, eins og það er orðað. Þeir nota fjármuni viðskiptavina bankans til þess að bæta sér upp persónuleg blankheit.   Fyrirgefið, en þetta er í reynd ekkert annað en innherjaþjófnaður - fjármunir færðir úr sjóðum viðskiptamanna yfir í veski stjórnenda.

Svo voga skilanefndirnar sér að hylma yfir með þessum mönnum og skjóta þeim á bak við bankaleynd. Angry 

Hvar er nú dómsmálaráðherra með allar sínar sérsveitir? Af hverju er ekki ruðst inn með dómsúrskurði og gögn gerð upptæk til að upplýsa þetta mál, eins og menn gera þegar grunur leikur á um skattsvik?

Þvílíkt og annað eins. 

Burt með þetta spillingarlið - þessa afbrotamenn!

 


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En útrásarvíkingarnir?

Af hverju ekki að bjóða útrásarbarónunum að sitja fyrir svörum á næsta borgarafundi, eins og Friðrik Þór Guðmundsson bendir réttilega á í sínu bloggi? Er ekki tími til kominn að þeir fái sín sérmerktu sæti í Háskólabíói og horfist þar í augu við almenning?

Eru mótmælin að þróast í múgæsingu?

motmælendurEru mótmæli Íslendinga að breytast í múgæsingu? Ég velti því fyrir mér eftir atburðina við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Fréttamyndir af vettvangi skjóta manni skelk í bringu.

Hugsanlega hefði lögreglan getað leyst þetta mál betur - til dæmis með því að láta einhvern koma út og tala við fólkið. Þó er ég ekki viss, svona eftir á að hyggja. Enda verð ég að segja að þeir sem brjóta rúður og ráðast til inngöngu með steinhellur á lofti geta nú varla búist við því að þeim sé boðið í kaffi þegar inn er komið. Hvað hélt fólk að lögreglan myndi gera? Auðvitað máttu menn vita að hún myndi verja húsið.

Svo kom drengurinn út - eins og skæruliðaforingi með klút fyrir andlitinu. Lítið bara á þessa fréttamynd hér fyrir ofan. Það mætti halda að hún væri tekin í Palestínu.

piparudiNei, atburðarásin er að verða einhvernvegin hálf óraunveruleg. Það er átakanlegt að sjá nú myndir af fólki sem ber menjar eftir piparúða lögreglunnar.  Við Íslendingar eigum ekki að venjast átökum sem þessum, enda siðmenntuð þjóð að því talið er.  

Hitt er svo annað mál að ég gef lítið fyrir skýringar lögreglu á handtöku piltsins. Þeir voru greinilega að ögra mótmælendum með þessu. En þeir gera það vonandi ekki aftur.

 


Já, hvaða spillingarlið?

Burt með spillingarliðið er krafa sem um hríð var upphaf og endir allra bloggfærslna á þessari síðu. Krafan var sett fram af ærnu tilefni, daginn sem fréttist að yfirmenn Kaupþings hefðu ákveðið að afnema skuldaábyrgð útvalinna "lykilstarfsmanna" í bankanum vegna hlutabréfakaupa sem námu tugum milljarða króna. Þetta voru sömu menn og margir hverjir höfðu tugi milljóna króna í laun á mánuði áður en bakakerfið hrundi. Þarna var manni einfaldlega nóg boðið.

Nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að krafan "burt með spillingarliðið" er orðin að einhverskonar samnefnara yfir kröfuna um afsagnir ráðherra, vantraust á ríkisstjórnina og sem tjáning á andúð gegn stjórnmálamönnum almennt. Þetta hefur jafnvel heyrst sem vígorð gegn lögreglunni. Woundering 

Sjálfri var mér rammasta alvara með þessum orðum þegar þau voru sett fram. Þess vegna er mér heldur ekki sama hvernig þau eru notuð. Pólitísk ábyrgð er eitt - spilling er annað. Athugið það.

Ég geri skýran greinarmun á því þegar:

  • Fagráðherra eða háttsettur embættismaður verður að horfast í augu við mistök eða að eitthvað hafi farið úrskeiðis á hans vakt annarsvegar - eða
  • yfirmenn banka falsa efnahagsreikninga, búa til leppfyrirtæki til að fela og koma undan fjármunum, nýta sér innherjaupplýsingar eða fella niður skuldaábyrgðir valinna starfsmanna vegna hlutabréfakaupa, eins og dæmi eru um.

Samskonar greinarmun geri ég á:

  • Ráðherra og/eða háttsettum embættsimanni sem er persónulega tengdur spillingu á borð við innherjaviðskipti (sbr. menntamálaráðherra/ ráðuneytisstjóri fármálaráðuneytisins), eða
  • ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að eitthvað fer úrskeiðis sem hann ræður illa við eða honum hefur yfirsést (sbr. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra).

Ekki man ég hvort það var í Japan eða Kína sem landbúnaðarráðherrann sagði af sér þegar uppskeran brást eitt árið. Þessi ráðherra tók ábyrgð á velferð fólksins í landbúnaðarhéruðum. Hann taldi sig bera pólitíska ábyrgð sem enginn annar en hann ætti að axla, jafnvel þótt um væri að ræða atburði sem hann hafði ekkert vald á.

Það er ekki sanngjarnt að krafa um afsögn ráðherra sem ber fagpólitíska ábyrgð á málaflokki hljóði:  Burt með spillingarliðið! Tja, nema sami ráðherra hafi á einhvern hátt gerst sekur um spillingu.

Burt með spillingarliðið er setning sem hefur þýðingu í mínum huga - hún er ekki bara eitthvert gaspur út í loftið. Við þessa kröfu geta menn svo bætt því sem þeim sýnist, vilji þeir ganga lengra t.d. að krefjast afsagnar ráðherra eða ríkisstjórnarinnar í heild.

En í öllum bænum - látum orð hafa merkingu. 

Já, og ... burt með spillingarliðið! Wink


Kraftmikill flokksstjórnarfundur

Woman's%20Guide%206Í dag átti ég tveggja kosta völ: Að mæta á mótmælafund á Austurvelli, eða flokkstjórnarfund hjá Samfylkingunni. Ég valdi að mæta á flokksstjórnarfundinn og komast þar með milliliðalaust inn í samræðu við ráðherra og forystumenn flokksins um stjórnmálaástandið og framtíðarhorfurnar.

Ég sé ekki eftir því - þetta var afar gagnlegur fundur. Þarna fór fram einörð umræða, hreinskiptin og opin þar sem tæplega fimmtíu manns tóku til máls. 

Engan hefði órað fyrir því þegar við hittumst síðast á flokkstjórnarfundi um miðjan september að svo margt alvarlegt ætti eftir að gerast milli funda. Enda lá fólki nú margt á hjarta. 

Fundarmenn voru sammála um að síðustu daga hafa mikilvæg skref verið stigin - aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, sátt í Ísbjargardeilunni og afnám eftirlaunarsérréttinda ráðamanna, svo veigamestu málefnin séu nú nefnd. Í burðarliðnum er tillaga um úttekt á aðdraganda bankahrunsins.

En menn voru jafn sammála um að framundan eru mörg og knýjandi verkefni varðandi úrvinnslu, endurreisn og ekki síst uppgjör þeirra atburða sem orðið hafa - því eins og formaðurinn orðaði það í sinni inngangsræðu: Fyrst kemur fólkið, svo flokkurinn!

Mér líður betur eftir að hafa tekið þarna til máls og hlustað á flokkssystkini mín tala.

Það var mikill kraftur í þessum fundi.


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið

Í kvöld sat ég fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósinu ásamt Berki Gunnarssyni friðargæsluliða og starfsmann hjá NATO. Umræðuefnið var efnahagsástandið, eftirlaunafrumvarpið, ræða Davíðs o. s. frv.  Ég hefði auðvitað viljað fá helmingi lengri tíma til að segja allt sem mér liggur á hjarta, en .... maður getur ekki alltaf fengið allt sem maður vill. Wink

Þið sem áhuga hafið á þessari umræðu, getið séð þáttinn hér.


Á skítahaugum geta vaxið blóm ...

blóm Nýja Ísland  - listin að týna sjálfum sér, nefnist bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og bloggara. Eintak af þessari bók datt inn um bréfalúguna hjá mér fyrir skömmu og ég fór að blaða í henni. Það endaði með því að ég las hana spjaldanna á milli og var rétt í þessu að leggja hana frá mér. Ég mæli með henni.

Í þessari bók skoðar Guðmundur "íslenska efnahagsundrið" - hvers afleiðingar við erum að kljást við nú um stundir. Hann leitast við að greina þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu áratugum og allt fram á þennan dag:  Hvernig hugarþel þjóðarinnar og gildismat hafa birst frá einum tíma til annars m.a. í löggjöf, opinberri umræðu, viðskiptaháttum og samskiptum. 

Sú athugun leiðir ýmislegt óþægilegt í ljós, m.a. hvernig gildi hins "stéttlausa" samfélags hafa smámsaman molnað og morknað; hvernig samkennd og samheldni hafa látið undan í okkar litla samfélagi; hvernig auðmenn og fyrirtæki hafa öðlast meiri völd og áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þeim er hollt. Á sama tíma hefur almannavaldið orðið veikara og vanbúnara að takast á við breyttar aðstæður, auk þess sem hin glöggu skil sem áður voru milli markaðarins (veraldar viðskipta) og samfélagsins (veraldar almannavalds og menningarverðmæta) verða sífellt óljósari.

Já, íslenska efnahagsundrið hefur ekki orðið okkur sú gæfa sem efni og vonir stóðu til. Útrásartíminn var vissulega tími kappsemi og atorku líkt og þegar Íslendingar brutust úr fátækt og kyrrstöðu á fyrstu áratugum 20. aldar. En eins og höfundur bendir réttilega á báru eldri kynslóðir þó "gæfu til þess að varðveita og rækta lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeið sem gekk yfir".  Í markaðshyggjuákafanum síðustu ár hafa þessi gildi orðið undir - gildin sem þó eru "svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélags".

Þarna skilur höfundur við okkur með spurningum sem lúta að afdrifum og endurheimt hinna horfnu gilda.

Woundering

Að lestri loknum fór ég að hugsa um hrun og endurreisn. Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð.

Spurningin núna er sú, hvort okkur tekst að sá réttu fræjunum í þann haug sem blasir við. Tekst okkur að endurheimta og sá að nýju traustum gildum á borð við samkennd, samhjálp og mannúð? Það er hin stóra spurning - hið stóra verkefni sem bíður okkar allra. 

íslenskiFáninn


Þjóð í greipum Davíðs

DavidGeirMbl.is Ég man þá tíð þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, ég var fréttamaður á sjónvarpinu. Mér er það mjög minnisstætt þegar hann neitaði að veita fréttastofunni viðtöl nema ákveðnir fréttamenn tækju þau. Hann ætlaði til dæmis að neita að tala við mig. Þá sýndi Ingvi Hrafn Jónsson þáverandi fréttastjóri af sér þann dug að láta Davíð Oddsson vita það að hann veldi sér ekki viðmælendur á fréttastofu sjónvarpsins. Og þar við sat.

Þetta rifjast upp fyrir mér þegar Davíð talar núna um heljartök hagsmunaaðila á fjölmiðlum. Hann hefur sjálfur haft slíkt tök,  enda átti hann eftir að verða mun valdameiri í íslensku samfélagi en þegar hann var borgarstjóri. Hann hefur viljað hafa þessi tök og beita þeim. Þannig er það nú bara - það otar hver sínum tota.

Sjálfréttlæting var orðið sem kom fyrst í huga minn þegar ég hlýddi á ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Vissulega var þróttur í röddinni - hann er greinilega ekki af baki dottinn.  En það er einkennilegt að hlusta á opinberan embættismann tala á formlegum fundi og eyða mestum hluta ræðutíma síns í að réttlæta sjálfan sig persónulega.

Þetta er - hvað sem öðru líður - maðurinn sem skóp skilyrðin fyrir útrásinni í krafti forsætisráðherraembættis síns með hugmyndafræði frjálshyggjunnar að vopni. Var það ekki hann sem "seldi" bankana á gjafverði? Var það ekki hann sem réði lögum og lofum, deildi og drottnaði árum saman?  Skaut sendiboða slæmra tíðinda með því til dæmis að leggja niður Þjóðhagsstofnun þegar honum líkuðu ekki efnahagsspárnar? 

Vissulega má af tilvitnunum Davíðs lesa að hann hafi varað við því sem var yfirvofandi. Það var gert í einhverjum ræðum sem enginn tók eftir á formlegum fundum þar sem menn dotta eldsnemma á morgnana og boðskapurinn fer inn um annað eyrað en út um hitt. En tók hann upp símtólið og talaði við þá sem stjórna landinu? Hélt hann vinnufundi um málið? Gerði hann tillögur um viðbrögð við yfirvofandi hættuástandi? Hvar gerði hann þær tillögur, og við hvern? Hvar eru þær?

Sjáið til, það sem Davíð gerði  var annars eðlis en það sem hann sagði. Hann safnaði ekki korni í hlöður fyrir mögru árin. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans reyndist ekki nægur þegar til átti að taka. Sömuleiðis peningastóll bankana - enda búið að lækka bindiskylduna. Hver skyldi hafa borið ábyrgð á því?

Og svo klykkir hann út með því að hann viti hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann veit en vill ekki segja. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Eitt stendur þó eftir stálinu sterkara: Davíð Oddsson ætlar ekki að falla einn úr háu sæti. Verði hann látinn víkja úr starfi Seðlabankastjóra mun hann taka fleiri með sér. Í þessari ræðu lét hann skína í tennurnar: Davíð er þess albúinn að fletta ofan af aðgerða- og andvaraleysi annarra. Og þar liggur hundurinn grafinn. 

Það er Davíð sem hefur ráðherra Sjálfstæðislfokksins í heljargreipum, og þar með þjóðina.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo margt hefur gerst ...

Nú hefur bara svo margt gerst síðustu dægur að móttakarinn í mér er brunninn yfir. Hann tekur ekki við meiru í bili.  Lítið bara yfir nýliðna viku:

10. nóv. seint um kvöld: Bjarni Harðarson missir frá sér tölvupóst á alla fjölmiðla með bréfi tveggja Framsóknarmanna til Valgerðar Sverrisdóttur og ljóstrar þar með upp um eigin áform um að koma þessu nafnlaust á framfæri í bakið á Valgerði. Landsmenn taka andköf.  


11. nóv. Bjarni segir af sér þingmennsku. Andköf halda áfram.

12. nóv. Forseti Íslands lætur ummæli falla á fundi með fulltrúum nágrannaþjóða sem verða þess valdandi að menn sitja klumsa undir ræðuhöldunum. Norski sendiherranns sér ástæðu til að senda heim sérstaka greinargerð um uppákomuna. Landsmenn líta hver á annan.

14. nóv. Sjálfstæðismenn ákveða að flýta landsfundi fram í janúar og skipa nefnd um Evrópumál sem á að skila af sér fyrir landsfundinn. Sama dag ...

14. nóv. leggur ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum í landinu. Maður er rétt farinn að fletta í gegnum aðgerðalistann þegar næsta stórfrétt dynur yfir. 


15. nóv. Framsóknarflokkurinn heldur þann "magnaðasta" miðstjórnarfund sem framsóknarmenn hafa setið, svo vitnað sé í bloggskrif eins þeirra. Á þessum fundi verða þau stórtíðindi að flokkurinn tekur stefnuna til Evrópu. Hart er deilt á forystuna og af fundinum heyrast hróp og köll gegnum luktar dyr. Loft er lævi blandið. Sama dag ...

15. nóv.  mótmæla 6-8 þúsund manns á Austurvelli - hafa aldrei verið fleiri -  Alþingishúsið er þakið eggjarauðum og klósettpappír.

16. nóv. Ríkisstjórnin kynnir samkomulag í Ísbjargar deilunni. Ekki er fyrr búið að taka hljóðnemana úr sambandi og kalla til aðjúnkta, dósenta og lektora til að tjá sig um málið en ...

17. nóv. að morgni dags: Gert er uppskátt um þá 27 liði sem felast í umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst berast af þessu lausafregnir (skúbb hjá DV ), en síðar um daginn heldur ríkisstjórnin blaðamannafund og opinberar það sem í umsókninni felst. Aftur eru kallaðir til aðjúnktar, dósentar og lektorar til að leggja mat á umsóknina. Þeir hafa ekki fyrr opnað munninn en ...


17. nóv. kl. 15:00: Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Hann er búinn að fá svo gjörsamlega nóg að hann heldur ekki einu sinni blaðamannafund - svarar ekki spurningum, heldur afhendir þingforseta bréf og segir sig frá öllu saman. Ætlar ekki að tjá sig í bráð. Þingheimur situr agndofa - bloggheimur þagnar ... um stund.

 Shocking

Það eru takmörk fyrir því sem hægt er að leggja á einn bloggara á einni viku. Nú er upplýsingaflæðið orðið svo mikið að "tölvan" er einfaldlega frosin - hún tekur ekki við meiru, og skilar ekki fleiru frá sér í bili. 

Hreinsun stendur yfir - en það er bloggstífla á meðan. Ég bið lesendur að sýna biðlund á meðan þetta ástand varir.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband