Færsluflokkur: Bloggar

Er einhver þarna?

dyrafjordur2Eins og glöggir lesendur hafa sjálfsagt tekið eftir þá hef ég ekki sett inn bloggfærslu á þessa síðu í mörg ár. Sem er eiginlega undarlegt í ljósi þess hvað mér fannst alltaf gaman að blogga hér á moggablogginu. Vinnuhamurinn fannst mér skemmtilegur, auðvelt að setja inn myndir og einhhver léttleiki yfir því sem maður setti hér inn. Það sé ég nú þegar ég lít til baka og fer yfir gömlu bloggfærslurnar. 

Nú er ég að velta því fyrir mér hvort ég eigi að taka þráðinn upp aftur. Það myndi hjálpa mér að vita hvort einhverjir eru yfirleitt að lesa þetta. Ef svo er þá mættuð þið gjarnan gera vart við ykkur í athugasemd hér fyrir neðan. Ef ekkert gerist ... þá verður bara að hafa það.

Gleðilega jólarest ... þið sem þetta lesið. 

 


Krafan um jöfnuð er ekki klisja

Jafnaðarhugsjónin er auðlind – það sjáum við þegar við lítum til öflugustu velferðarsamfélaga heims, eins og Norðurlanda.  Krafan um jöfnuð er lifandi stefna að verki. Hún miðar að því að byggja upp samfélag af sömu umhyggju og við byggjum upp heimili. Því er ætlað að veita öryggi og vera skjól.  Þess vegna hefur það haft ótvíræða þýðingu fyrir íslenskt samfélag að það skuli hafa verið jafnaðarmenn sem haldið hafa um stjórnartauma hin erfiðu ár eftir hrun.  Á síðustu fjórum árum hafa jafnaðarmenn á Íslandi náð að jafna lífskjör í landinu. Við breyttum skattkerfinu – og já, við hækkuðum skatta á þá hæstlaunuðu, en um leið hlífðum við láglaunahópunum og vörðum millitekjuhópinn. Við jukum stuðning við ungar barnafjölskuldur, hækkuðum barnabætur, hækkuðum húsaleigubætur og drógum úr skerðingum. Við stórhækkuðum vaxtabætur og greiddum samtals hundrað milljarða í þær og barnabætur á kjörtímabilinu – meira en nokkur önnur ríkisstjórn hefur nokkru sinni komist nálægt. Kaupmáttur lægstu launa er hærri nú en hann var í góðærinu. Skattbyrðin er lægri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er nú helmingi minni en árið 2007 þegar hann varð mestur. Það skiptir máli hverjir stjórna. Okkur tókst það sem engri annarri þjóð hefur tekist, sem hefur lent í kreppu: Að verja kjör hinna lægst launuðu. Samhliða því að náðist að minnka halla ríkissjóðs úr 230 milljörðum í 3,6 milljarða á fjórum árum, lækka verðbólgu úr 18% í 4,5%, minnka atvinnuleysi um helming og ... verja velferðarkerfið. Nei, krafan um jöfnuð er ekki klisja – hún er lifandi stefna. Félagslegar rannsóknir hafa sýnt fram á að í samfélögum þar sem jöfnuður er í hávegum hafður er minna um öfga og glæpi. Jafnaðarstefnan vinnur gegn félagslegum vanda og andlegri vanlíðan. Hún vinnur gegn kynjamismunun og menntunarskorti. Jafnaðarstefnan stuðlar að almennri velmegun, sjálfbærni og minni sóun.Hún stuðlar að samheldni, gagnkvæmu trausti og mannvirðingu. Þannig samfélag vil ég. 

Dýravelferð í siðvæddu samfélagi

blidahvolpurein05 (Medium) Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri  heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði  frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok.  Markmið laganna er að „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“ eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.

 

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.

 

Gelding grísa og sumarbeit grasbíta 

Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum „Borgen“ þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.

 

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu  í þessa veru. Nefndin leggst gegn  lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð „beit á grónu landi á sumrin.“

Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé  „við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið“. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.

Tilkynningaskylda og nafnleynd 

Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

 

Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.

   

Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.

 

Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins  við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.


Veiðileyfagjaldið ...

Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti. Hreinn hagnaður útgerðarinnar á síðasta ári var 60 milljarðar samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, það jafngildir 22,6% af heildartekjum greinarinnar sem voru 263 milljarðar króna.  Framlegð útgerðarinnar (svokölluð EBIDTA) var 80 milljarðar sem er mun betri afkoma  en 2010  þegar hún nam 64 milljörðum króna. Eiginfjárstaðan batnaði um 70 milljarða milli ára.

 

Þessar jákvæðu fréttir tala sínu máli. Þær sýna okkur hve mikið er að marka harmagrát talsmanna útgerðarinnar sem undanfarin misseri hafa fullyrt að þessi stönduga atvinnugrein myndi líða undir lok, færi svo að veiðigjald yrði lagt á umframhagnaðinn í greininni.  Eins og sjá má af þessum afkomutölum er engin slík hætta á ferðum, nema síður sé.

 

Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá  – þ.á.m. arðgreiðslur útgerðarinnar til sjálfrar sín. Það sem eftir stendur  – umframhagnaðurinn – myndar gjaldstofn fyrir töku  veiðileyfagjalds á greinina alla. Þar fyrir utan geta skuldug útgerðarfyrirtæki sótt um lækkun veiðileyfagjalds – nú og næstu þrjú árin – ef sýnt verður fram á að tiltekið skuldahlutfall stafi af kvótaviðskiptum fyrri ára.  Gert er ráð fyrir að heildarlækkun gjaldtökunnar vegna þessa geti numið allt að tveimur milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, þannig að tekjur ríkisins af veiðileyfagjaldi verði nálægt 13 milljörðum króna (hefði annars orðið 15 mia).

 

Það munar um þrettán milljarða í fjárvana ríkissjóð, því nú er mjög kallað eftir framkvæmdum og fjárfestingum til þess að herða snúninginn á „hjólum atvinnulífsins“. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast strax í gerð Norðfjarðarganga, og síðan í beinu framhaldi Dýrafjarðarganga/Dynjandisheiðar sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að hefjist 2015 og ljúki eigi síðar en 2018.

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú hægt að veita stórauknum fjármunum til tækniþróunar og nýsköpunar, aukinna rannsókna og styrkingar innviða í samfélagi okkar, eins og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður sjávarútvegurinn enn styrkari stoð í samfélagi okkar en verið hefur – raunverulegur þátttakandi í endurreisn atvinnulífs og byggðarlaga  og sannkölluð undirstöðuatvinnugrein í víðum skilningi.

 

En veiðileyfagjaldið er einungis eitt skref – vegferðinni er ekki lokið.

 

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Stjórnvöld mega ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

---------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


Kvótamálin og vegferðin framundan

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá.  Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.

 

En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.

 

Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn  og vaxandi  leigumarkaður með aflaheimildir  og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.

Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt – skref sem ég tel  rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.  Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um „allt eða ekkert“ getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.

 

Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni – en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.

 

----------------

Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.


Kvótamálið - tækifærið er núna

Fyrr í dag sendum við Lilja Rafney Magnúsdóttir frá okkur yfirlýsingu vegna stöðunnar sem upp er komin í fiskveiðistjórnunarmálinu - en í dag ákváðu forystumenn stjórnarflokkanna að bíða með framlagningu þess. Yfirlýsing okkar Lilju Rafneyjar fer hér á eftir:

Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun,  sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar,  bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt  búsetuskilyrði í landinu.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi  leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er  núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
 
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt – skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.

Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta.  Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna  á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.

Nú er tækifærið – óvíst er að það gefist síðar.


Umsnúningur auðlindaákvæðis?

Vaxandi eru áhyggjur mínar af þeirri breytingu sem  nú er orðin á auðlindaákvæði verðandi stjórnarskrár. Ég tel því óhjákvæmilegt að hugað verði nánar að  afleiðingum þeirrar "orðalagsbreytingar" - enda óttast ég að hún geti snúið ákvæðinu upp í andhverfu sína. Það hringja allar viðvörunarbjöllur hjá mér yfir þessu, og lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála mér um að þetta sé (eða geti a.m.k. verið) efnisbreyting.

Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár - og á atkvæðaseðlinum sem almenningur tók afstöðu til í kosningunni 20. október síðastliðinn - sagði þetta um auðlindir í 34. grein:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar." 

 74% þeirra  sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu þetta orðalag.

Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eftir yfirferð sérfræðinganefndarer hins vegar talað um þær auðlindir „sem ekki eru háðar einkaeignarrétti".

Ég óttast að þar með sé verið að vísa því til ákvörðunar dómstóla framtíðarinnar að færa t.d. kvótahöfum eignarrétt yfir fiskveiðiauðlindinni, svo dæmi sé tekið. Það er ekki það sem þjóðin kaus um þann 20. október. Þá tóku kjósendur jákvæða afstöðu til þess að auðlindirnar - þar með talin fiskveiðiauðlindin - séu í ævarandi eigu þjóðarinnar.

Hér þarf að búa þannig um hnúta að engin hætta sé á því að þetta ákvæði sem á að vernda eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum snúist upp í andhverfu sína. Því hef ég óskað eftir því að fjallað verði um þetta sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd, sem og atvinnuveganefnd í tengslum við stjórnarskrárvinnuna. Ég hef líka vakið athygli nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á málinu, og óskað eftir því að þetta verði tekið til sérstakrar umfjöllunar.

Hér má enginn vafi leika á inntaki auðlindaákvæðisins eða ævarandi eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.


Morgunblaðseggjum kastað

c_documents_and_settings_ibm_my_documents_my_pictures_skutull_brefaluga Sé þetta rétt, sem fullyrt er á visir.is um uppsagnirnar á Morgunblaðinu, þá er nú verið að segja upp mörgum af bestu og tryggustu starfsmönnum blaðsins í gegnum tíðina.

Það er óneitanlega undarleg tilfinning að sjá þarna nöfn starfsmanna sem hafa fylgt Mogganum í áratugi, verið málsvarar blaðsins og einhvern veginn órjúfanlegur hluti þess: Hér erum við að tala um kanónur á borð við Freystein Jóhannesson, Björn Vigni, Árna Jörgensen o.fl. Morgunblaðsegg sem stundum hafa verið nefnd svo.

Það hefur hingað til ekki vafist fyrir væntanlegum ritstjóra Morgunblaðsins að skilja hafra frá sauðum í sínum liðsveitum - eins og sannast núna. Trúlega leggur hann þó eitthvað annað til grundvallar við skilgreiningu á því hvað séu hafrar og hvað sauðir, en fjölmiðlareynslu og gæði blaðamennsku einvörðungu. 


Sameiginlegur þingflokksfundur öðru sinni

Já, það verður sameiginlegur þingflokksfundur með þingmönnum Samfylkingar og VG nú á eftir. Þing verður sett að nýju eftir örfáa daga og tímabært að þingmenn stjórnarflokkanna beri saman bækur sínar og stilli saman strengi fyrir veturinn.

Þetta er í annað sinn sem þingflokkarnir funda sameiginlega - síðast hittumst við öll í Þjóðminjasafninu fyrri hluta sumars.  Sá fundur var afar gagnlegur.

Það er mikilvægt að þingmenn flokkanna eigi þess kost að ræða saman og skiptast á skoðunum um þau mál sem framundan eru.

Sameinaðir stöndum vér - segir máltækið.

 


mbl.is Stilla saman strengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil eru geð guma

Pirringurinn skín af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Orðbragðið og samskiptahættirnir eru eftir því. Enginn trúnaður um nokkurn skapaðan hlut.

Eilíf neikvæðni ef álit er gefið í fjölmiðlum.

Þessi höfuðlausi her veit ekkert hvernig hann á að vera. Skilar auðu í stærstu málum, slær um sig sleggjudómum, hleypst undan ábyrgð .... ussususssussu.

Og nú hóta þau stríði við forsætisráðherra, þegar hún með réttu gagnrýnir það hvernig iðulega er hlaupið í fjölmiðla, jafnvel áður en ráðrúm gefst til þess að koma upplýsingum með viðeigandi hætti til réttra aðila. Þessa gagnrýni kalla þau hótanir og "svara" - ja, hvernig? Jú, með hótunum um "átök" - en ekki hvað?

Lítilla sanda,
lítilla sæva,
lítil eru geð guma.


mbl.is Hafna því að hafa rofið trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband