Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Sól slær silfri á voga ...

snaefellsjokull "... sjáðu jökulinn loga" syngur nú Óðinn Valdimarsson í tölvunni minni. Ég sá nefnilega á símanum mínum að Magga vinkona hafði sent mér SMS þann 28. maí um að lagið væri í útvarpinu, en ég var þá bundin í þingsalnum og slökkt á símanum. Kannski eins gott - því ekki veit ég hvernig þingheimur hefði brugðist við því ef ég hefði farið að syngja hástöfum í símann, eins og við vinkonurnar erum vanar að gera þegar þetta lag kemur í útvarpinu.  

(Reyndar hefur mér alltaf tekist að halda kúlinu og syngja bara, hvernig sem á stendur - en nú gæti málið farið að vandast ef þingfundur er yfirstandandi þegar hún hringir) Blush

En semsagt: Til að bæta fyrir þá synd mína að hafa ekki svarað samstundis og sungið þetta með henni - eins og venjan er - þá settist ég nú við tölvuna til að hlusta á þáttinn hennar Lönu Kolbrúnar frá því á fimmtudag. Og hér er sumsé þátturinn sem mér heyrist að hafi verið helgaður Óðni Valdimarssyni og hans samtímamönnum í tónlistinni.

Lagið góða er um miðbik þáttarins - þið færið bara stikuna rétt framan við miðju, og þá ómar þetta dásamlega lag, sem enginn hefur hingað til getað sungið betur.

"Sól slær silfri á voga" hér fyrir vestan í dag - blíðskaparveður og ég er á leið með vinkonu minni vestur á Patreksfjörð í fermingarveislu.

Njótið helgarinnar.

 PS: þessa fallegu mynd fékk á á Wikipediu, veit því miður ekki hver tók hana.


Fátt er svo með öllu illt ...

Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.

bensinÁ hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði  um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.

Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna. 

Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.

Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli.  Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur. 

En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt.  Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs. 


Bensínhækkun og ESB

Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.

Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.

Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið  nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.

Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.


Erfiður dagur í þinginu

vín Gærdagurinn var býsna viðburðaríkur í þinginu. Fram undir kvöld stóðu linnulausar ræður um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að þingið samþykkti aðildarumsókn að ESB sem síðan yrði að loknum aðildarviðræðum borin undir þjóðaratkvæði. Fjölmargir voru á mælendaskrá, og komust færri að en vildu.  Umræðan heldur áfram á morgun svo málið er ekki fjarri því að vera fullrætt.  

Ég komst ekki að með ræðu í dag, en fór upp í einu andsvari (sjá hér).

Um kvöldmat var gert hlé á umræðunni, en að því loknu voru tekin fyrir öllu erfiðari mál. Þar á meðal hækkun á áfengi, tóbaki, olíu og bensín. Um þetta spunnust miklar umræður sem vonlegt er.

Þetta er því miður aðeins byrjunin - því fleira mun á næstunni fylgja í kjölsogið.


Fyrirspurn um meðferð aflaheimilda

Fróðlegt væri að vita hversu mikið magn aflaheimilda hefur verið leigt milli útgerða á liðnum árum. Sömuleiðis hversu mikið af ónýttum aflaheimildum hefur verið fært milli ára og/eða yfirfært í aðrar tegundir. Upplýsingar af þessu tagi varpa ljósi á það hvað um er að ræða þegar talað er um leiguliðakerfi  - þær varpa ljósi á það hvort réttlætanlegt er að tala um  "kvótabrask".

 Þess vegna ég nú lagt fram fyrirspurn í þinginu um þetta efni, og vonast ég til að svör fáist innan skamms.


Hrun eða heilbrigð leiðrétting?

fiskveiðar Útvegsmenn heyja nú hart áróðursstríð gegn breytingum á núverandi kvótakerfi, eins og sjá má á síðum Morgunblaðsins  þessa dagana, þar sem hver opnan af annarri er lögð undir málflutning þeirra. Þar er hrópað „hrun" yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefin 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu „eign" og „þjóðnýta" hana eins og það er orðað.

Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.

Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum. Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.

Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki „umbylting" á þessu kerfi og mun ekki leiða „hrun" yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.

Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.

Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.

Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss.  Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.

Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.

Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.

Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um „hrun" og yfirvofandi „gjaldþrot" í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.

Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.

Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.

Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.

Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslensku samfélagi um þessar mundir.

 

------------

Grein um sama efni birtist eftir mig í Mbl í morgun, undir fyrirsögninni Fyrningarleið: Hrun eða heilbrigð leiðrétting.


Afnám bindisskyldunnar, herbergjaskipan o.fl.

Umtalsverð umræða hefur að undanförnu orðið um klæðaburð þingmanna og herbergjaskipan í þinghúsinu. Um leið hefur borið á hneykslun meðal almennings yfir því að þetta skuli yfirleitt vera umræðuefni - löggjafarsamkundan ætti að hafa annað og þarfara að sýsla en pexa um þessa hluti.

Ég er sammála því, enda hefur þetta mál ekki verið til umræðu í þingsölum, svo það sé alveg skýrt. Bæði þessi mál hafa komið upp sem hvert annað úrlausnarefni fyrir skrifstofu og forsætisnefnd þingsins, og þau væru hreint ekki í umræðunni nema vegna þess hve fjölmiðlar og bloggarar sýna þeim mikinn áhuga. Sem er umhugsunarefni.

Herbergjaskipan í þinghúsinu er praktíst mál sem á ekkert erindi í fjölmiðla. Ákvörðun um klæðaburð þingmanna skiptir engu máli, nema hvað það er auðvitað sjálfsögð krafa að þeir sýni þessu elsta þjóðþingi veraldar tilhlýðilega virðingu með því að vera snyrtilega klæddir. 

Þar með hef ég lagt mitt lóð á vogarskál þessarar fánýtu umræðu ... og get þá snúið mér að öðrum og merkari viðfangsefnum. Wink


Eins og steiktur tómatur

 Ég er sólbrennd eins og steiktur tómatur eftir daginn. Það er ekki sjón að sjá mig.

En þessi fyrsti dagur björgunarhunda-námskeiðsins gekk vel. Skutull stóð undir nafni. Hann þeyttist um móana á ógnarhraða, svo mér komu í hug orð Gríms Thomsen í Skúlaskeiði:

Rann hann yfir urðir eins og örin
eða skjótur hvirfilbylur þjóti ...

Hann var léttur á sér og leysti sín verkefni vel; gelti eins og herforingi úti hjá þeim týnda (fígúrantinum) og þurfti ekki hvatningu til.  Ég er ekki enn farin að taka hann til mín í vísun - en mig grunar að þess verði ekki langt að bíða.

En ... á morgun ætla ég að muna eftir sólarvörninni - þó hann rigni.

skutull08


Farin í hundana

skutull-nyr Nú er ég á leiðinni austur á Úlfljótsvatni með Skutul minn. Björgunarhundasveit Íslands verður þar með æfinganámskeið um helgina eins og oft áður um þetta leyti árs. Ég mun því taka frí frá bloggi og pólitík meðan á þessu stendur og einbeita mér að þjálfun hundsins.

Hann stendur sig annars vel litla skinnið - er vinnusamur, áhugasamur og hlýðinn eins og hann á kyn til. Border-Collie er alveg einstök hundategund, og hann sver sig vel í ættina, blessaður.

Góða helgi öllsömul.


Þeim væri nær að koma að borðinu

ísafj.höfnin08.kári jó Jómfrúarræðan mín við utandagskrárumræðurnar í gær fjallað um fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu. Mál sem er eitt veigamesta réttlætismál í íslensku samfélagi um langa hríð. Það varðar ekki einungis eignarétt þjóðarinnar á auðlind okkar í hafinu - heldur einnig afkomu þeirra byggðarlaga sem frá upphafi Íslandsbyggðar hafa nýtt sér fiskimiðin við landið.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

Málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um  kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun, þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur - og eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ranglátt kerfi sem felur í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Þetta frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kvótakerfið - er eins og hver önnur mannasetning: Það var illa ígrundað í upphafi, og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.

Nú loksins, stendur til að leiðrétta þetta ranglæti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í þessu efni: Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til þess að gera nauðsynlegar, og löngu tímabærar breytingar á kvótakerfinu. Nú er lag - og nú er nauðsyn, því að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlíndir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga. Svo vel hefur útgerðinni tekist til - eða hitt þó heldur - við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir tæpum aldarfjórðungi.

Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma, í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og að hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.

Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í litlu samræmi við tilefnið og á meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.

Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensku stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi. Þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina  (ekki bara útgerðina) um þetta mál.

--------------

Utandagskrárumræðuna í heild sinni má sjá hér á vef Alþingis (fyrst er hálftíma umræða um störf þingsins (það má hraðspóla yfir hana) - svo taka sjávarútvegsmálin við ).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband