Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Réttmæt ábending

Það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að nú verða allir að standa saman ef takast á að rétta við ríkishallann og endurreisa efnahagslífið.

Eftir allt lýðskrumið sem vaðið hefur uppi í umræðunni að undanförnu er kærkomin tilbreyting að heyra  forystumann atvinnurekenda og fyrrum alþingismann Sjálfstæðisflokksins tala af stillingu og skynsemi um stöðu mála og lýsa vilja til að leggja hönd á plóg. Þetta er hin ábyrga afstaða og sú nálgun sem þörf er á um þessar mundir. Flokkssystkini Vilhjálms á Alþingi mættu af honum læra í þessu efni.

Það hefst ekkert með sundurlyndi og hrópum - samstaða og stilling er eina leiðin til þess að ná tökum á ástandinu.


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskiptingar umræðunnar

Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).

Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.

Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.

Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán.  Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.

Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.

Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.

Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar. 


Óhemjuskapur og ótímabært upphlaup

Stjórnarandstaðan varð sér til skammar á Alþingi í gær með ótímabæru upphlaupi og ásökunum um landráð. Tilefnið var samkomulag það sem íslensk stjórnvöld hafa nú náð í Ice-save deilunni. Samkomulag sem er liður í því að endurheimta traust Íslands í alþjóðlegum viðskiptum. Samkomulag sem felur í sér lán frá Hollendingum og Bretum til 15 ára með 7 ára greiðslufresti. Lán sem góðar líkur eru á að muni að langmestu leyti greiðast með eignum Landsbankans (75-95%). Samkomulag sem felur í sér að Ísland getur hvenær sem er fengið að greiða upp þetta lán ef svo ólíklega skyldi vilja til að okkur byðist betra lán annarsstaðar á hagstæðari kjörum.

Þetta er besta niðurstaðan sem orðið gat af málinu. Fyrir lá fyrr í vetur að samkomulag af þessu tagi væri forsenda þess að við Íslendingar gætum átt lána von hjá nágrannalönd okkar. Eins og menn muna vafalaust stefndi í að 27 Evrópuþjóðir myndu loka á alla lánafyrirgreiðslu til okkar að öðrum kosti.

Þannig er þetta samkomulag forsenda þess að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga og að við getum notið lánafyrirgreiðslu nágranna og vinaþjóða til að efla gjaldeyrisforðann.

Fyrstu áhrif þessa samkomulags eru þegar að koma í ljós. Bretar hafa ákveðið að aflétta frystingu á eignum Landsbankans þar í landi 15. júní n.k.

Þetta eru m.ö.o. góðar fréttir  miðað við allar aðstæður.

 

 

 

 


mbl.is 50 milljarðar á reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þó fyrr hefði verið

Jæja, loksins sá efnahagsbrotadeildin ástæðu til að fara ofan í saumana hjá fyrrum forstjóra FL-Group. Þó fyrr hefði verið.

 Maður hefur velt því fyrir sér undanfarna mánuði hvers vegna ekki var gerð húsleit hjá forkólfum útrásarinnar strax í fyrstu vikunni eftir hrun.

Hvers vegna stjórnarformennirnir og forstjórar umdeildustu útrásarfyrirtækjanna hafa allir  fengið svo ríflegt svigrúm?

Hvers vegna þeir sem tengdust bönkunum fengu sumir hverjir að athafna sig á vettvangi - eða því sem næst - sitjandi sem fastast í stjórnunarstöðum og skilanefndum vikum og mánuðum saman.

Já - þeir fengu ríflegt svigrúm. Og mér er stórlega til efs að nokkuð handbært muni finnast í fórum þeirra, hvorki í bókhaldi né á bankareikningum, nú, eftir allt sem á undan er gengið.

En ... ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.


mbl.is Efnahagsbrotadeild með húsleitir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt er svo með öllu illt ...

Þær hækkanir sem nú verða á áfengi, tóbaki, bensíni o. fl. eru fáum gleðiefni. Langtímaáhrif þeirra munu þó verða mun jákvæðari en látið er í veðri vaka þessa dagana. Fullyrt hefur verið að með þessu hækki skuldir heimilanna um 8 milljarða. Þá er einungis horft á lítið brot af heildarmyndinni. Ef breytingin færi beint út í verðlagið gæti hún vissulega haft þessi áhrif, en þá gleyma menn því að hækkunin leggst á höfuðstól lána sem greiðast munu löngum tíma, einhverjum áratugum.

bensinÁ hinn bóginn mun þessi breyting skila ríkissjóði  um 17 milljörðum í ríkiskassann út árið 2012.

Hér er verið að bregðast við halla ríkissjóðs. Aðgerðin er liður í því að styrkja gengið, lækka verðbólgu og vexti þar með - sem aftur mun leiða til batnandi stöðu heimilanna langt umfram áhrifin af 0,5% hækkun vísitölunnar sem sumir reikna. 

Þau skref sem nú hafa verið stigin sýna að stjórnvöld stefna að því að ná tökum á ríkisfjármálum og lækka halla ríkissjóðs. Minni halli leiðir til sterkara gengis. Það dregur úr skuldabyrði þeirra sem eru með erlend lán. Ef erlend erlend húsnæðislán eru um 300 milljarðar mun 4% styrking krónunnar lækka skuldir heimilanna um 12 milljarða. Sterkara gengi dregur einnig úr verðbólgu. Sterkara gengi og lægri verðbólga til framtíðar styrkir einnig kaupmátt launa.

Því má skjóta hér inn að á mánudaginn lýsti forsætisráðherra því yfir að framundan væru erfiðustu aðhaldsaðgerðir sem hún hefði nokkurn tíma staðið frammi fyrir á sínum pólitíska ferli. Frá því að forsætisráðherra gaf þessa yfirlýsingu hefur gengið styrkst um ríflega 4%. Ekki er ólíklegt að aukinn trúverðugleiki efnahagsstefnunnar eigi þar hlut að máli.  Jákvæð tilsvör sendinefndar AGS þegar hún fór af landi brott um daginn, hafa varla skaðað heldur. 

En aftur að áhrifum skattahækkunarinnar: Þrátt fyrir neikvæð skammtímaáhrif hennar á verðtrygginguna munu sterkari ríkisfjármál og áræðni í efnahagsstjórnunni vinna það tap upp mjög fljótt.  Þannig munu langtímaáhrifin verða efnahagslífinu til góðs. 


Hrun eða heilbrigð leiðrétting?

fiskveiðar Útvegsmenn heyja nú hart áróðursstríð gegn breytingum á núverandi kvótakerfi, eins og sjá má á síðum Morgunblaðsins  þessa dagana, þar sem hver opnan af annarri er lögð undir málflutning þeirra. Þar er hrópað „hrun" yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefin 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu „eign" og „þjóðnýta" hana eins og það er orðað.

Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.

Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum. Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.

Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki „umbylting" á þessu kerfi og mun ekki leiða „hrun" yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.

Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.

Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.

Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss.  Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.

Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.

Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.

Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um „hrun" og yfirvofandi „gjaldþrot" í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.

Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.

Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.

Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.

Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslensku samfélagi um þessar mundir.

 

------------

Grein um sama efni birtist eftir mig í Mbl í morgun, undir fyrirsögninni Fyrningarleið: Hrun eða heilbrigð leiðrétting.


Söguleg umskipti

 Í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins tekur félagshyggjuríkisstjórn tveggja flokka til valda með skýrt og óskorað umboð meirihluta þjóðarinnar - og undir forsæti konu, í þokkabót. Þetta er sögulegur viðburður.  Tímamót sem vert er að minnast í framtíðinni.

Velferðarstjórnin er orðin til.

Áratugum saman hafa íslenskir vinstrimenn átt undir högg að sækja andspænis harðneskju og skeytingarleysi hægri aflanna. Þeim hefur kerfisbundið verið haldið frá áhrifum og opinberum ítökum, ekki aðeins á vettvangi stjórnmála heldur á öllum sviðum samfélagsins. Á sama tíma hefur áherslan legið á forréttindi fárra á kostnað velferðar fjöldans. Fyrir þá hugmyndafræði hefur almenningur liðið .... og greitt dýru verði.

En ... (eins og skáldið sagði, og megi það nú rætast) ...

... í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans.

Það er maísólin okkar
okkar einingabands.
Fyrir þér dreg ég fána
þessa framtíðarlands!

 Wizard

Megi farsæld fylgja störfum þessarar nýju ríkisstjórnar, landi og þjóð til heilla.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo slæmt

húsnæði Fréttablaðið segir frá því í dag að leiguverð sé að lækka mikið á húsnæðismarkaði, um þriðjung eða þar um bil.

Það var tími til kominn, segi ég. Verð á leiguhúsnæði var komið upp úr öllu valdi. Nú er þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu leigð á 80 til 120 þúsund á mánuði, en var í mesta góðærinu á bilinu 110 til 160 þúsund. Hver hefur efni á slíku - jafnvel í góðæri?

Nú veit ég að þetta helst í hendur við fasteignaverð - en þið fyrirgefið - fasteignaverðið var líka orðið of hátt. Það mátti lækka.

Neibb - þetta eru ekki svo slæmar fréttir. Og vonandi skapast nú forsendur fyrir því að hér geti orðið til stöðugur og heilbrigður leigumarkaður fyrir húsnæði. Það hefur skort lengi. 


Heimsendaspár og hræðsuáróður LÍÚ

fiskveiðar Það er auðséð á þeim ályktunum og yfirlýsingum sem nú dynja á fjölmiðlum um yfirvofandi hrun sjávarútvegsins, gjaldþrot útgerðanna og ... þið vitið, allan pakkann ... að LÍÚ ætlar ekki að vinna með stjórnvöldum að því að leiðrétta hið óréttláta kvótakerfi sem hefur kallað  hrun yfir svo margar sjávarbyggðir á undanförnum 20 árum. 

Nei - njet. Þeir ætla í stríð og eru komnir í skotgrafirnar.

Hræðsluáróður og heimsendaspár - það eru einu orðin sem ég á yfir máflutning þessara manna. Sá málflutningur er grímulaus sérhagsmunagæsla sem á fátt skylt við rökræðu.

Þeir tala eins og það standi til að "umbylta" kerfinu - þegar staðreyndin er sú að menn eru að tala um að endurheimta auðlind þjóðarinnar úr höndum einstaklinga á tuttugu árum. Ná aftur því sem frá byggðunum var tekið á nánast jafnmörgum árum og aldur kerfisins segir til um. Auk þess er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um útfærsluna - já kalla þá að borðinu og gefa þeim kost á að vera með í ráðum.

Samt halda menn áfram í skotgrafahernaðinum - eins fjarri rökræðunni og hugsast getur.

Og þetta skal á sig lagt í vörn fyrir kerfi sem hefur með tímanum þróast í yfirveðsett og ofurskuldsett leiguliðakerfi. Kerfi  þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni. Kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun. Kerfi sem hefur innbyggða samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Innköllun aflaheimilda á áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband