Hrun eða heilbrigð leiðrétting?

fiskveiðar Útvegsmenn heyja nú hart áróðursstríð gegn breytingum á núverandi kvótakerfi, eins og sjá má á síðum Morgunblaðsins  þessa dagana, þar sem hver opnan af annarri er lögð undir málflutning þeirra. Þar er hrópað „hrun" yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefin 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu „eign" og „þjóðnýta" hana eins og það er orðað.

Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.

Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum. Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.

Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki „umbylting" á þessu kerfi og mun ekki leiða „hrun" yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.

Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.

Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.

Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss.  Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.

Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.

Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.

Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um „hrun" og yfirvofandi „gjaldþrot" í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.

Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.

Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.

Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.

Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslensku samfélagi um þessar mundir.

 

------------

Grein um sama efni birtist eftir mig í Mbl í morgun, undir fyrirsögninni Fyrningarleið: Hrun eða heilbrigð leiðrétting.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Hvernig getur það verið að það sé slæmt að "þjóðnýta" eitthvað.  Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki hundsvit á þessu!  En nógu oft hefur maður verið í gíslingu sem farþegi í bíl með fólki sem hatar KVÓTAKERFIÐ.  Ég held með því...held ég...    Mér finnst ýsa best með kartöflum og smjeri

Garún, 27.5.2009 kl. 23:44

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sammála þér með ýsuna og smérið - enda mun fiskur verða veiddur við Íslands strendur um ókomna tíð hvað sem líðu kvótakerfinu :)

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.5.2009 kl. 01:50

3 Smámynd: Garún

Þá meinti ég að ég held með fólkinu í bílnum...en ekki kvótakerfinu... og ég ætla að borða fisk á morgun, svona til að þjóðnýta hann. ;)

Garún, 28.5.2009 kl. 02:05

4 identicon

í morgunblaðinu þessa dagana er frekar ódýr og einhæfur "fréttaflutningur"mikið litaður og hamrað á að sægreifar vorra daga hafi "keypt" sínar fiskitorfur,en ekki er spurt í mbl, af hverjum var keypt og hve margir misstu vinnuna og sátu uppi með verðlausar eignir við þessi kaup.t.d.

zappa (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 02:36

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvernig er hægt að "þjóðnýta"  sameign þjóðarinnar?

Sigurður Þórðarson, 28.5.2009 kl. 08:20

6 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Kæra Ólína það er gott að eiga jafn góðan málsvara og þig á þingi gegn því óréttláta og handónýta kerfi sem við höfum búið við allt of lengi. Það kemur þó ekki á óvart að LÍÚ grátkórinn skuli nú draga á flot hvern þann sem getur stungið niður penna til að verja ófreskjuna sína, jafnt úr sínum eigin röðum sem og einhverja leigupenna utan úr bæ. Þessir menn hafa alla tíð barist með oddi og egg gegn því að aðrir en þeir sjálfi geti haslað sér völl í greininni og hafa brugðið fæti fyrir menn sem hafa með forsjálni og dugnaði reynt að gera út á ókvótasettar tegundir og viti menn skömmu síðar hefur verði settur kvóti á tegundina. Er nú svo komið að allar arðbærar og veiðanlegar tegundir ofnýttar sem vannýttar eru bókfærðar sem eign í bókhaldi þessara manna. Gleymum því heldur ekki að þessir sömu menn hafa barist hatrammlega gen öllum réttindamálum sjómanna í gegnum tíðina eins og að sjómenn geti verið með fjölskyldum sínum um jól og áramót, að sjómannadagurinn yrði frídagur sjómanna og ýmsum fleiri málum. En Ólína góð haltu endilega baráttunni áfram og komum fjöreggi þjóðarinnar á þann stað sem því ber.

Þorvaldur Guðmundsson, 28.5.2009 kl. 11:10

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Enn er Hannes Hólmsteinn Gissurarson dregin á flot!

 Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að prófessorinn sé nú staddur í Chile til að prédika ágæti kvótakerfisins yfir þarlendum.  Þá er því slegið upp að HHG mæli sérstaklega með því að smábátar séu settir í kvóta. En það var einmitt framkvæmt fyrir  um 5 árum á Íslandi  og var eitt mesta óhappaverk sem íslensk ríkisstjórn hefur gert.

Fyrir fjölda ára skrifaði Hannes fjölda hástemmdra lofgreina um  Pinoche og hina illræmdu herforingjastjórn sem ríkti í Chile. Er HHG nokkuð illa við Chilebúa? 

HHG sagði eitt sinn að hægrimenn vildu þéna á daginn en drekka gott vín á kvöldin.   Hver kostar Hannes í svona för?  

Sigurður Þórðarson, 28.5.2009 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband