Færsluflokkur: Ljóð

Fellur stjórnin líka?

Fellur gengi, fellur náð,
fellur kusk á ríka.
Falla lauf og fimbulráð.
Fellur stjórnin líka?

Orðrómur um yfirvofandi stjórnarslit er ekki til þess fallinn að róa mann eins og á stendur. Nóg er nú samt.

Best að anda núna í gegnum aðra nösina og út um hina - eins og í jóganu.


Smellin vísa um síðustu atburði

Grin

Hárfínt sagan hefur breyst

hún er oss í fersku minni,

en Davíð kanske gekk full geyst

frá Golíat að þessu sinni.

Þessa vísu fékk ég senda í tölvupósti í morgun - höfundur vill ekki láta nafn síns getið,  en hún mun vera ættuð frá Egilsstöðum. Sel það ekki dýrara en ég keypti.


... þá voru flestir hvergi!

Nú þarf að bjarga heimilunum, og það strax - segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasmtakanna í grein sem hann skrifar á heimasíðu samtakanna. En mér kemur í hug vísan góða (og napra) eftir Friðrik Jónsson:

Heimsins brestur hjálparlið,
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Annars kann ég ekki glögg deili á höfundi vísunnar  - held þó að hann að þetta sé Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal. Gaman væri að fá athugasemd frá einhverjum sem veit þetta.


mbl.is „Nú þarf að bjarga heimilunum og það strax“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver orti?

Gráttu ei þótt svíði sár.
Sinntu ráði mínu.
Heimur öll þín hæðir tár
og hlær að böli þínu.

 Þennan beiska húsgang lærði ég fyrir margt löngu - ekki fylgdi þó sögunni eftir hvern hann er. Hljómar svolítið eins og Bólu-Hjálmar, en ég veit þó ekki til þess að hann hafi ort þetta.

Og fyrst ég er byrjuð -  þá væri fróðlegt að vita höfund að tveimur vísum í viðbót, ef einhver getur hjálpað mér:

Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
hann fordæmir allan skóginn.

Taktu'ekki níðróginn nærri þér
það næsta gömul er saga.
Sjaldan lakasta eikin það er
sem ormarnir helst vilja naga.

 Er  einhver þarna úti sem getur frætt mig um þetta?


Silfur-skál!

Allt fór hér í brand og bál
Börðumst við af lífi og sál.
Boltar skullu á Björgvin Pál
í Beijing. Það var silfur - skál!

Íslenskur fáni yfir verðlaunapalli á Ólympíuleikunum - silfur um háls íslenska handboltalandsliðsins - tvímælalaust stoltasta stund okkar Íslendinga! Strákarnir okkar mega vera glaðir af frammistöðu sinni, við erum svo sannarlega glöð hér heima.

Úrslitin í lokaleiknum voru vel viðunandi - sami markamunur og var á okkur og Spánverjum. Röðun þjóða á verðlaunapallinum var því vel makleg miðað við frammistöðuna í þessum leikjum. Frakkarnir eru augljóslega með gríðarlega sterkt lið, og þeir unnu sannarlega fyrir gullinu. Engin skömm að tapa fyrir slíku liði.

Annars mátti sjá ákveðna veikleika í leik íslenska liðsins gegn Spánverjum - þá á ég við hraðasóknirnar sem ekki gengu upp. Ég óttaðist strax að þetta myndi verða okkur dýrkeypt í úrslitaleik gegn sterkara liði, og það kom á daginn. Engu að síður sýndu strákarnir mikinn baráttuvilja og gáfust ekki upp, jafnvel þó markastaðan væri orðin afar óhagstæð um miðbik leiksins.

Til hamingju Ísland: Silfur-skál!

Beijing08


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðir í ljóma dagsins!

 raudasandur Aldrei hefur Rauðisandurinn ljómað skærar í hásumarsól en í dag. Að dýfa tánum í ylvolgan sjóinn á aðfallinu var engu líkt. Í tindrandi tíbrá mókti Snæfellsjökull í fjarska. Já, þetta voru yndislegir endurfundir við gamlar slóðir.

Við Siggi brugðum okkur sumsé í lystireisu með hana móður mína í dag. Dynjandi02Ókum til Patreksfjarðar sem leið liggur um Önundarfjörð og Dýrafjörð, yfir Sandafell og Hrafnseyrarheiði, um Arnarfjörð og Dynjandisheiði. Komum við í Dynjandisvoginum á leiðinni þar sem við viðruðum hundana í veðurblíðunni. Heitur vindur lék í hári og gáraði hafflötinn - kindur lágu magnvana undir moldarbörðum og fólk flatmagaði eða sat í lautum og lægðum. Yndislegur dagur.

Þarna í Arnarfirðinum kom skáldskaparandinn yfir okkur mæðgur og við ortum:

Sól á fjörðum sindrar,
sveipar gullnum ljóma.
Ljóssins tíbrá tindrar.
Tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.

 Eftir svolitla viðdvöl á Patreksfirði var ferðinni heitið út á Rauðasand. Þar hefur orðið mikil og sjáanleg uppbygging á undanförnum árum fyrir tilstilli Kjartans Gunnarssonar og Sigríðar Snævarr sem fyrir nokkrum árum keyptu land í hreppnum og hófust handa. Nú er þar m.a. rekið "franskt" kaffi hús á fögrum útsýnisstað. Þar er gott tjaldstæði og aðstaða öll hin besta.

Við settumst út á verönd í sumarhitanum og fengum okkur vöfflur með rjóma. Hittum þar frú Sigríði með frumburð sinn og tókum tali. Þá hittum við þarna fleira fólk úr hreppnum sem mamma þekkti að sjálfsögðu öll deili á, enda ættuð úr Rauðasandshreppi og á þar enn frændfólk á öðrum hverjum bæ. 

Útsýnið var óumræðilegt og undarlegt að fylgjast með aðfallinu, hve ört féll að á grunnsævinu. Ég stóðst ekki mátið að rífa mig úr skóm og vaða út í volgan sjóinn, draga að mér ilminn af sauðfénu sem var þarna í námunda, kúnum sem lágu jórtrandi og lynginu í hlíðinni.

Á heimleiðinni ókum við Barðaströndina. Komum við í Flókalundi og borðuðum síðbúinn kvöldverð við glugga sem vísar út Vatnsfjörðinn með útsýn yfir hluta Breiðafjarðar. Tíbráin titraði enn í bláum fjarskanum en jökullinn var horfinn í mistrið.

Oohhh - það jafnast ekkert á við Vestfirði í góðu veðri.

*

PS: Því miður gleymdi ég myndavélinni og get ekki sýnt ykkur myndir frá sjálfri mér. Þessar myndir hér fyrir ofan fékk ég á netinu. Því miður kemur þar ekki fram hver tók þær, en þær lýsa býsna vel því sem blasti við augum í dag.


Himnaríki og helvíti, Kórvilla á Vestfjörðum og fleira gott

windownb9 Í sumar hef ég gefið mér tíma til að lesa nokkrar bækur sem ekki vannst tími til að lesa um jólin. Rétt í þessu var ég að leggja frá mér Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta er afar vel skrifuð bók og sterk á köflum - sérstaklega fyrri hlutinn sem er í raun sjálfstæð frásagnarheild. Þarna er lýst lífsbaráttu og lifnaðarháttum verbúðarfólks fyrir hundrað árum eða svo. Líf og dauði, mannúð og grimmd, ást og örvænting kallast þar á og halda lesandanum í heljargreipum. Seinni hluti bókarinn hélt mér ekki eins vel - eins og söguþráðurinn renni svolítið út í sandinn. En Jón Kalman er stílsnillingur - orðfæri hans er svo fallegt á köflum að maður les aftur og aftur. Þetta er afar góð bók og vel þess virði að lesa.

Ég hef líka legið í sakamálasögum. Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur olli mér svolitlum vonbrigðum. Fyrsta bókin hennar, Þriðja táknið, fannst mér grípandi og skemmtileg. Þessi er of langdregin - og ég verð að viðurkenna að ég missti hreinlega áhugann þegar komið var fram á seinni hluta sögunnar. Það er nú ekki beint það sem á að gerast í sakamálasögu.

Arnaldur hinsvegar klikkar ekki. Harðskafann las ég mér til mikillar ánægju. Stílbrögð Arnaldar styrkjast með hverri bók - og þegar saman fara skemmtilegt plott og styrk stíltök - þá er blandan pottþétt.

Ég hef líka verið að rifja upp að gamni mínu smásögur Halldórs Laxness. Dóttir mín gaf mér lítið kver sem Vaka-Helgafell hefur gefið út undir heitinu Kórvilla á Vestfjörðum. Þarna eru nokkrar smásögur eftir Nóbelsskáldið. Ég hafði raunar lesið þær allar nema eina - en las þær nú aftur mér til ánægju. Komst þá að því að Dúfnaveislan er ekki það stórvirki sem stundum hefur verið talað um og mig minnti að mér hefði sjálfri fundist þegar ég las hana fyrir löngu. Ég hef augljóslega breyst - kannski þroskast - sem lesandi. Wink

Maður gefur sér yfirleitt allt of skamman tíma til lestrar - þá á ég við yndislestur. Fátt er meira gefandi en lestur góðrar bókar í kyrrð og næði.

  • Þegar andann þjakar slen
  • og þyngist hugar mók,
  • fátt er lundu ljúfar en
  • að lesa góða bók.        Smile

Til hamingju með daginn allar!

þungun Ég vil óska okkur kvenþjóðinni til hamingju með daginn. Í tilefni af því geri ég eins og Jenný Anna bloggvinkona mín: Letra óskir mínar með bleiku.

Læt svo fljóta með vísukorn sem eitt sinn hraut af vörum mér á vísnakvöldi þar sem ég var spurð um hver væri munur karls og konu:

  • Hraustur ber á herðum sér
  • heljarfargið lóðar.
  • Hún þó undir belti ber
  • bestan auðinn þjóðar.

Og nú er ég farin í bloggfrí Smile


Guð er að bjóða góða nótt - í geislum sólarlagsins

solarlag Var að koma af björgunarhundaæfingu á Geithálsi í kvöld. Það var yndislegt veður, skafheiður himinn og kvöldsólarljómi yfir Heiðmörk og Hellisheiði. Frábært útsýni.

Æfingin gekk vel - gaman að hitta Reykvísku félagana svona af og til þegar maður er staddur í Höfuðborginni.

En veðurdýrðin varð til þess - þar sem ég stóð efst á Geithálsinum og virti fyrir mér sólarlagið við sjóndeildarhringinn - að rifjaðist upp fyrir mér undurfögur vísa eftir Trausta Reykdal:

  • Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
  • þagnar kliður dagsins.
  • Guð er að bjóða góða nótt
  • í geislum sólarlagsins.

Góða nótt gott fólk.


... að leggja frá sér góða bók, og deyja.

windownb9 Það jafnast ekkert á við góða bók. Margar saman geta bækur verið prýðilegt stofustáss og einangrun útveggja. Ein og sér getur bók verið svo margt: Góður félagi, kennari, tilfinningasvölun, skilningsvaki, hugvekja, myndbirting, afþreying,  .... listinn er óendanlegur.

Fyrir bókaunnanda er vart hægt að hugsa sér betri dánarstund en að sofna í friðsæld með bók í hönd, líkt og eiginmaður móðursystur minnar fyrir nokkrum árum (blessuð sé minning hans). En þegar ég frétti andlát hans, varð mér að orði þessi vísa:

 

Þá er sigurs þegið náðarveldið

að þurfa ekki dauðastríð að heyja,

en mega þegar líður lífs á kveldið

leggja frá sér góða bók - og deyja.

 

 


mbl.is 4,6 bækur á hverja þúsund íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband