Færsluflokkur: Ljóð

Nú reynir á grunngildin

Skagafjörður Fyrir hálfri annarri öld flykktust Íslendingar hópum saman til Vesturheims undan harðindum og atvinnuleysi. Bændur flosnuðu frá búi og ungu fólki reyndist erfitt að fá jarðnæði. Sú atvinna sem bauðst við sjósókn eða vinnumennsku var árstíðabundin og stopul. Fjölmargir freistuðu því gæfunnar í Vesturheimi þar sem tækifærin biðu í hillingum og og margir náðu sem betur fer að skapa sér nýja fótfestu og framtíð.

Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:

Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.

Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst og hitasótt frjálshyggjunnar náði að smita og gegnsýra allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk í október síðastliðnum rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Um þessar mundir er dauft yfir íslenskum byggðum og ,,hnípin þjóð í vanda" líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða.

Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.

 

----

Myndin hér fyrir ofan er af sólsetri í Skagafirði - ég fékk hana á heimasíðu Ungmennafélags Skagafjarðar. Höfundar er ekki getið.


Grunngildin - og aðeins meira um Kristinn H.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.

Lítum nánar á nokkur þau helstu:

  • Þegar núverandi kvótakerfi var komið á voru fiskimiðin hrifsuð úr höndum sjávarbyggðanna sem í raun réttri hefðu átt að eiga náttúrulegt tilkall til þess að nýta sér fiskimiðin og lifa af þeim. Margar þeirra hafa ekki borið sitt barr síðan. Við eigum að heimta þessa auðlind til baka.
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi. Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu til dæmis.
  • Uppbygging háskólastarfs og símenntunar um land allt er mikilvægur þáttur í því að minnka aðstöðumun og auka atgerfi byggðanna, að ekki sé minnst á samgöngur og fjarskipti sem eru nauðsynlegir grunnþættir í hverri samfélagseiningu - nokkuð sem ekkert hérað getur verið án.
  • Stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll verða að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa stjórnmálaflokka eða annarra hagsmunaafla.

Jamm.... þetta er meðal þess sem ég er að ræða á þessum fundum okkar prófkjörsframbjóðenda í Norðvesturkjördæmi - en yfirreið okkar um kjördæmið stendur nú sem hæst. Við vorum á Hellissandi og Grundarfirði í dag. Í hádeginu á morgun verður fundur í Narfeyrarstofu í Stykkishólmi og í Félagsheimilinu á Patreksfirði kl 20 um kvöldið.

HolmavikProfkjor09Að lokum ein vísa sem varð til í rútunni hjá okkur þegar endanlega var orðið ljóst að Kristinn H. væri ekki genginn í Samfylkinguna heldur Framsóknarflokkinn:

 Glumdi í flokknum gleði-org,
 gladdist allur skarinn:
 Kristinn veldur kæti og sorg,
 hann kominn er ... og farinn!

 

 

Og hér sjáið þið okkur Örnu Láru framan við Café Riis á Hólmavík um hádegisbil í gær.


Framsókn gamla hressist aðeins

Ég sé ekki betur en Framsóknarflokkurinn sé bærilega staddur með mannval ef marka má þetta formannskjör. Sigmundur og Höskuldur eru báðir afar frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins hefur yfir sér ferskt og trúverðugt yfirbragð. Þó byrjunin hafi verið svolítið brösuleg vil ég óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er ánægjulegt að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs á stjórnmálasviðinu núna.

En ég stenst ekki mátið að skella hér inn tveimur góðum ferskeytlum sem urðu til á Leirvefnum í kvöld. Þessi er eftir Pétur Stefánsson:

Í Framsókn er bæði fjör og drama,
-fremstur var Höski í sigurliði
og stóð í ljósi frægðar og frama
í fimm mínútur uppi á sviði.

Og hér er önnur eftir Davíð Hjámar Haraldsson:

Lokatölur beint úr flokksins bók
baksar við að lesa þegar húmar;
Haukur gaf og Haukur síðan tók
af Höska eftir fimm mínútur rúmar.

Já -  það á ekki af þeim að ganga framsóknarmönnum.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreiður í jólatrénu

Ljosbrigdi-AgustAtlason Það er undarlegt að hugsa um storm í aðsigi þegar horft er á svarblátt lognið á pollinum fyrir utan gluggann minn - en þannig er lífið, ekki allt sem sýnist.

 Tréð er komið nýhöggvið inn á stofugólf - það var nú bara tekið úr garðinum að þessu sinni þar sem því var ofaukið. Fallegasta tré.

En þar sem við vorum að stilla því upp á sínum stað tókum við eftir haganlega gerðu hreiðri inni á milli greinanna, þétt við stofninn. Ég fékk sting í hjartað og hugsaði ósjálfrátt til fuglsins sem hefði lagt á sig erfiði við að útbúa þetta hreiður handa ungum sínum - af natni og dugnaði hefur hann tínt hvert einasta strá með litla gogginum sínum, fléttað og snúið í fallega körfu sem er svo bara orðin að jólaskrauti í stofunni hjá einhverju fólki.

Jæja - en hreiðrið verður látið kyrrt þar sem það er. Ég treysti því að í því leynist ekkert kvikt, flær eða annað álíka, því það hefur verið grimmdarfrost að undanförnu. En þetta er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt jólaskraut - ekki síst í ljósi þess að ég hef alla tíð haft lítinn fugl á jólatrénu okkar. Ástæðan er saga sem fylgdi fallegu kvæði sem mamma söng oft fyrir okkur systurnar þegar við vorum litlar.  Læt það fljóta hér með að gamni:

Hér er bjart og hlýtt í kvöld,
helgi, ró og friður,
en mun þó engum ævin köld?
Ó, jú því er miður. 


Úti flýgur fuglinn minn
sem forðum söng í runni,
ekkert skjól á auminginn
og ekkert sætt í munni.

Frostið hart og hríðin köld
hug og orku lamar.
Æ, ef hann verður úti í kvöld
hann aldrei syngur framar.

Ljúfi Drottinn líttu á hann
og leyfðu að skíni sólin.
Láttu ekki aumingjann
eiga bágt um jólin.

 Þegar þarna var komið sögu sátum við systur tárvotar yfir örlögum litla fuglsins svo mamma bætti við farsælum sögulokum um opinn glugga, lítinn fugl sem flaug inn og settist á tréð þar sem hann gat nartað í nammið úr jólakörfunum (en í minni bernsku voru alltaf settar fallegar jólakörfur og kramarhús á tréð með litlum súkkulaðimolum).

Ég get bætt því við mína útgáfu sögunnar að hann hafi haft lítið hreiður að hlýja sér í - og því til sönnunar hef ég þessa mynd að sýna barnabörnunum.

P1000650 (Medium)

----------------------------- 

PS: Kvæðið mun vera eftir Sigurð J. Jóhannesson en ég hef þó hvergi rekist á fyrstu og síðustu vísurnar á prenti.


mbl.is Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glimrandi tónleikar; handleggsbrotinn stjórnandi; börn í yfirliði ... semsagt: Viðburðaríkt kvöld

valkyrjurdes06Tónleikarnir okkar Valkyrjanna og stúlknakórsins tókust glimrandi vel í gærkvöldi. Ég fann röddina aftur. Því fór nú ekki eins og Leirverjinn Björn Ingólfsson hafði spáð mér þegar ég kveinkaði mér undan raddþreytu fyrr um daginn:

Frekar illa er frúin stödd,
frá því okkur segjandi
að hún hafi enga rödd
og ætli að syngja þegjandi. Whistling

 

Tónleikarnir tókust bara vel, held ég. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá og heyra á tónleikagestum. Að vísu leið yfir eina stúlkuna í blálokin á tónleikunum, en það náðist að grípa hana áður en hún skall í gólfið. Daginn áður hneig önnur stúlka í yfirlið á æfingu, þannig að þið sjáið að það getur gengið á ýmsu þegar mikið stendur til.

 Eftir tónleikana komum við saman til þess að halda upp á vel heppnað kvöld. Þá vildi ekki betur til en svo að stjórnandinn okkar rann í hálkunni framan við húsið og handleggsbrotnaði. Frown

Þetta skyggði verulega á gleðina - enda varð uppi fótur og fit með tilheyrandi pilsaþyt og rassaköstum eins og gengur í kvennahópi. Það var hringt á sjúkrahúsið og útvegaður bíll. Aumingja Ingibjörgu var troðið í aftursætið með blessunarorðum og fyrirbænum okkar hinna.  Svo var brunað með hana sárkvalda á slysavarðstofuna þar sem búið var um brotið.

Við hinar þurftum að sjálfsögðu að fá okkur hjartastyrkjandi á meðan við biðum þess að fá fréttir af afdrifum Ingibjargar. Já, við þurftum líka að syngja svolítið til þess að róa okkur. Það tók svolitla stund. Svo þegar ljóst var að kórstjórnandinn var beinbrotin, var ekki annað tekið í mál en að ekið yrði með hana framhjá húsinu, svo við gætum komið að bílnum, kysst hana og knúsað í kveðjuskyni.

Já, það er ekki þrautalaust að halda tónleika. Þetta var svo sannarlega viðburðaríkt kvöld og verður lengi í minnum haft.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------- 
PS: Myndin hér fyrir ofan er tekin 2006, stuttu eftir að kórinn var stofnaður.

Sungið og sungið og sungið og .... börn falla í yfirlið!

kórsöngur Ég hef verið að syngja fullum hálsi í allan dag - nú þarf ég að þegja.  Nú vil ég fá að þegja. Lengi.

Um bylgjur ljóssins berast nú
boð um mikinn fögnuð.
Upp á mína æru og trú:
Ólína er þögnuð.

Já, við æfðum af svo miklu kappi í dag að börnin voru farin að hníga niður í yfirlið. Whistling  Jæja - ég á auðvitað ekki að tala í fleirtölu. Það var ein stúlka sem hneig niður. Steinlá, litla skinnið - og pabbinn sótti hana skömmu síðar.

En það var sumsé kvennakórinn Valkyrjurnar sem þarna þandi raddöndin ásamt undurþýðum barna- og stúlknakór. Tilefnið eru tónleikar sem verða í Ísafjarðarkirkju annað kvöld. Þar munum við, flytja Ceremony of Carols og fleira jólalegt við fagran hörpuslátt og kertaljós.

En, eftir þetta hógværa yfirlið hélt æfingin áfram undir styrkri stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, stjórnanda okkar. Hún átti svo eftir að fara út í Bolungarvík að stjórna aðventukvöldi, þannig að það var enginn tími til að drolla. Wink Svona konur eiga nú eiginlega að fá heiðursmerki.

Við í altinni töldum vissast að halda eina aukaæfingu í heimahúsi nú í kvöld - svona rétt til að styrkja nokkrar innkomur eins og gengur.

Og nú er ég sumsé búin að syngja yfir mig, eins og ég sagði ....


Nú langar mig ekki að blogga - heldur yrkja

 

Haustfjöll 

Bak við gisnar trjágreinar
stendur fjallið
á móbrúnum
haustklæðum.

Tveir hrafnar leika í lofti.

Dökkur mýrarflákinn
dýgrænn í sumar

þá angaði lyngið.

Hlæjandi börn
gripu handfylli af berjum
með bláma um varir og vanga

rjóð af heitri sól
sæl í þýðum vindi

og veröldin söng

í bláum tindum
hvítu brimi við svartan sand.

Nú bíða fjöllin
rök og þung
blæju vetrar.

Laufið fokið burt.

haustlauf 


,,Ég vakna þennan dag og vel að hann sé góður ... '' Burt með spillingarliðið

ArnarfjordurAgustAtlason Þessar fallegu vísur fékk ég sendar í tölvupósti frá vinkonu minni í morgun. Ljóði er eftir skáldkonuna Unni Sólrúnu sem hefur ort margt fagurt um lífið og tilveruna og birt á heimasíðu sinni. Ég má til að deila þessu með ykkur.

Með boðskapnum birti ég þessa fallegu mynd sem félagi minn Ágúst G. Atlason tók í Önundarfirði í fyrra.

 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

 

Megi dagurinn verða ykkur góður. Smile 

Og burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!


Þeir sem aldrei þekktu ráð ...

Nú er svo komið að það er einhvern veginn ekki um neitt að blogga. Maður er  eins og þurrausinn eftir það sem á undan er gengið  - búinn að tapa smáræðinu sem maður átti í Glitni. Hver veit nema meira tapist síðar. Kannski er þetta bara byrjunin, hvað veit ég?

Eins og stundum þegar syrtir í álinn, seildist ég í ljóðasöfnin mín kvöld í leit að einhverju sem gæti hýrgað andann eins og ástatt er. Nú brá svo við að ég fann ekkert sem mér líkaði.  Ekkert sem gaf mér andagift í eins og eina bloggfærslu - enda hafa ljóðskáld þjóðarinnar varla staðið í þeim sporum sem við Íslendingar stöndum í núna.

Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan eftir Egil Jónasson á Húsavík og Friðrik Jónsson landspóst á Helgastöðum í Reykjadal (sjá PS neðar) sem þeir félagarnir ortu í sameiningu:

Upp er skorið, engu sáð
allt er í varga ginum.
Þeir sem aldrei þekktu ráð
þeir eiga'að bjarga hinum.

Þar með fann ég jarðtengingu á nýjan leik - og mér varð hugsað til fjármálaráðgjafanna sem undanfarin ár hafa í sjálfumgleði sinni sagt mér og fleirum fyrir verkum varðandi ráðstöfun þeirra takmörkuðu umframaura sem við höfum sum hver haft undir höndum, viðbótarlífeyrissparnaðinn og eitthvað fleira. Ekki hafa þeir nú allir reynst heilráðir blessaðir.

Sjálf hef ég svosem ekki verið neinn fjármálasnillingur heldur - enda búin að brenna mig svolítið. Ekki mikið sem betur fer - kemst vonandi hjá frekari brunasárum í framtíðinni.

Jamm ... allt leitar jafnvægis um síðir. Munum það bara.

 

 

---------

PS: Þegar ég setti þessa vísu fyrst hér inn sagði ég að hún væri eftir Sigmund Sigurðsson úrsmið á Akureyri - en hann er skráður fyrir vísunni á vef Skjalasafns Skagfirðinga.

Vinur minn, Baldur Jónasson (sonarsonur Egils) hafði samband við mig og benti mér á að vísan væri ranglega eignuð Sigmundi.  Vísan mun hafa birst í minningargrein um Sigmund og þar ranglega eignuð honum. 


Laufið titrar - loga strá

 haustlaufAsthildurCecil Við Ísfirðingar erum í alveg sérstöku sambandi við sólina - ástæðan er sú að sólskin er meðal þeirra lífsgæða sem okkur eru takmörkuð. Sólin hverfur héðan úr Skutulsfirðinum síðari hluta Nóvembermánaðar og kemur ekki aftur fyrr en 25. Janúar. Þess vegna kunnum við að meta sólina - höldum henni sérstaka sólrisuhátíð þegar hún birtist á nýju ári - vegsömum hana.  

Síðustu daga hefur lítið sést til sólar. En í gær, braust hún skyndilega fram úr skýjum. Það var svo undarlega gott að finna fyrir geislum hennar í haustlogninu - finna nærveru hennar, og minnast þess að hún er alltaf á sínum stað, jafnvel þó maður sjái hana ekki fyrir fjöllum og skýjabólstrum.

Og þar sem ég gekk milli kjarrgreina inni í Tunguskógi í gær, og virti fyrir mér litadýrð haustsins í sólskininu, rifjaðist upp fyrir mér vísukorn sem ég einhverntíma orti við álíka aðstæður:

Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.  

 

Myndina hér fyrir ofan fékk ég á bloggsíðu Ásthildar Cecil Þórðardóttur, bloggvinkonu minnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband