Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Hvert örstutt skref - getur verið býsna þungt fyrir suma

wheelchair-series-pw100 Það kom mér á óvart er ég las á heimasíðu Mænuskaðastofnunar Íslands að rannsóknir á mænuskaða eru enn af skornum skammti þó svo að mænuskaði hafi gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir honum verða. Fólk sem verður fyrir mænuskaða á m.ö.o. litla von um bata og að meðhöndlun þeirra byggir fyrst og fremst á því að læra að lifa með skaðanum.

Um þessar mundir er að hefjast fjáröflunarátak Mænuskaðasamtaka Íslands sem lýkur með viðamikilli söfnunardagskrá á Stöð tvö föstudaginn 19. september. Margir munu þar leggja hönd á plóg og ýmsir hafa hvatt til stuðnings við þetta mikilvæga átak. 

Hér á Íslandi hafa málefni mænuskaddaðra átt sér ötulan baráttumann í Auði Guðjónsdóttur sem beitti sér fyrir stofnun Mænuskaðastofnunar Íslands í desember fyrir ári. Auður er móðir Hrafnhildar Thoroddsen sem slasaðist alvarlega í bílslysi fyrir 20 árum og hefur síðan lifað við mænuskaða. Þær mæðgur hafa árum saman barist fyrir úrbótum í málefnum mænuskaddaðra, og meðal annars komið því til leiðar að sett var á stofn Mænuskaðastofnun Íslands. Er fróðlegt að fara inn á heimasíðu stofnunarinnar www.isci.is og kynna sér markmið hennar og áætlanir.

Markmið stofnunarinnar er að vera leiðandi afl á sviði úrræða fyrir mænuskaddaða og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að vekja athygli á málefninu á alþjóðavettvangi og safna fé til handa læknum, vísindamönnum og öðrum sem vinna að framförum til heilla mænusködduðum.

Að ýmsu má ráða að mörg verkefni eru óunnin enn í málefnum mænuskaddaðra og því fyllsta ástæða til þess að leggja þessu átaki lið.


Bænastund vegna ungs Ísfirðings

kertalog Ungur Ísfirðingur liggur nú milli heims og helju á gjörgæsludeild, með alvarlega höfuðáverka. Hann fannst illa á sig kominn í Höfðatúni í Reykjavík aðfararnótt laugardags - hafði farið að skemmta sér með jafnöldrum fyrr um kvöldið. Því lauk með þessum hætti - og enginn veit á þessari stundu hvernig líf hans verður eftir þetta. Hann er 26 ára gamall - fyrrverandi nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði.

Hugur okkar Ísfirðinga er hjá honum og aðstandendum hans núna. Klukkan fimm í dag verður bænastund í Ísafjarðarkirkju.


Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur?

  5041OllySiggi (Small) Þetta hafa verið ógleymanlegir dagar - helgaðir vinum, samverkafólki, ástvinum og félögum, samtals á þriðja hundrað manns sem gerði sér ferð vestur að Núpi í Dýrfirði til þess að vera með okkur Sigga og samfagna fimmtugsafmælum okkar og silfurbrúðkaupi um helgina.

Veislan bar þessu fólki öllu vitni, enda einvalalið sem steig á stokk og skemmti afmælisbörnunum - og einvalalið sem skemmti sér í sætum sínum og tók undir með hlátri og söng. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn Halldórs Jónssonar veislustjóra og blaðamanns m.m. sem með sínum einstaka húmor hélt samkvæminu við efnið af stakri snilld.

                                

nupurEins og við mátti búast var mikið sungið. Tveir kórar - Sunnukórinn og Valkyrjurnar - tróðu upp með miklum bravör og fjöri. Hljómsveitin Melneiophrenia sem kom sérstaklega sunnan úr Reykjavík til að heiðra tilefnið,  vakti verðskuldaða athygli og gladdi okkur mjög. Stefanía Svavarsdóttir - sigurvegari Samfés - geypilega efnileg söngkona, aðeins sextán ára gömul, sló algjörlega í gegn. Magga vinkona færði mér málverk eftir sjálfa sig sem gæti heitið "Sjáðu jökulinn loga" - mjög falleg mynd. Að sjálfsögðu brá hún Óðni Valdimarssyni á fóninn af því tilefni og allur salurinn tók undir með honum: Ég er kominn heim!

Margar góðar ræður voru fluttar - vænst þótti mér um ræðuna hennar Halldóru systur sem var sérlega kærleiksrík (ég tala nú ekki um ljóðið eftir hana sem beið svo falið inni í pakka). Nonni Baddi, systursonur minn, sýndi og sannaði að hann er mikill húmoristi. Síðast en ekki síst vil ég nefna barnahópinn minn sem í lok dagskrár fluttu í sameiningu frumsamið lag til okkar foreldra sinna, sem Saga söng við undirleik bræðra sinna, Hjörvars og Péturs. Hún klykkti svo út með því að dansa fyrir mannskapinn.

StonesAð lokum stigu á stokk þrír fyrrverandi nemendur mínir úr Menntaskólanum undir forystu síns gamla tónlistar-mentors Kristins Nielssonar og trylltu mannskapinn með Stones-syrpu. Síðan var dansinn stiginn til kl. 04.

Margir lögðu á sig langa ferð til að vera með okkur. Saga dóttir mín flaug milli landa og fékk lítinn svefn - þurfti að vera mætt á Keflavíkurflugvöll fáum klst eftir að hún kom akandi suður aftur úr afmælinu. Föðurbróðir minn og hans kona - fólk á níræðisaldri - lét sig ekki muna um að koma akandi frá Reykjavík til að taka þátt. Og það gerðu þau svikalaust, stigu svo dansinn til kl. tvö um nóttina.

5040IngibjSolrun (Small) Önnur kær vinahjón komu sömu leið þrátt fyrir annríki, en urðu svo að rífa sig upp kl fimm um morguninn til að vera komin í flug um miðjan næsta dag vegna opinbera skyldustarfa erlendis. Þau fengu fjögurra tíma svefn hið mesta - en létu sig hafa það til að gera samglaðst okkur.

Systir mín elskuleg lét þetta líka ganga fyrir öðrum skyldum og kom með alla fjölskylduna þó hún þyrfti að fara til baka snemma næsta dag til að taka á móti sláturbílnum heim á bæ síðdegis í gær. 

Og svipaða sögu má segja af ýmsum sem settu þetta í forgang hjá5037KAOogGuðbjartur (Small) sér að koma vestur og vera með okkur.

Við erum öllu þessu fólki af hjarta þakklát. Og mikið lifandis skelfingar ósköp var gaman að skemmta sér með því öllu á laugardagskvöldið.

 

 Og hér sjáið þið svo þann hluta kjarnafjölskyldunnar  sem sá sér fært að mæta í myndatöku s.l. vor. Þarna vantar Sögu og Dodda (sem er kominn með sína eigin fjölskyldu) - þau voru bæði í afmælinu. Það var Maddý hins vegar ekki, en hún er á myndinni. Dæmigert fyrir þennan fjölskylduhóp sem hefur í svo mörgu að snúast. En svona er lífið Smile

fjolskyldan3-08

Hvað ef við hættum að tala um kreppuna?

peningar Hvað myndir gerast ef við hættum að tala um kreppuna? Hættum að tala um verðbólguna? Hækkandi vexti, lækkandi fasteignaverð, hrun hlutabréfa? Ef við tækjum okkur bara mánaðarfrí frá þessari umræðu? Ég held að okkur myndi öllum líða svolítið betur - og kannski myndi markaðurinn bara róast. Wink

Nú veit ég að þetta er óskhyggja. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn eru komnir í heimósómagírinn og þrífast á þessari umræðu. Hún er orðin eins og sjálfstætt veðurkerfi - lægð yfir landinu sem nærist á hitauppstreymi upphrópana. 

Annars ætla ég ekki að fara að tala í myndlíkingum - var bara að velta þessu fyrir mér með mátt orðanna og áhrif. "Kreppa" er huglægt orð. Það tengist upplifun. Sjálf sé ég verðhækkanir í búðunum og á bensíninu - ég hef áhyggjur af þróuninni - en ég er samt ekki að upplifa kreppu - bara verðbólgu.  Og á þessu tvennu er nokkur munur. Verðbólga er nefnilega oft til vitnis um velmegun en ekki kreppu.

En semsagt: Þetta er tvíeggjuð umræða - ég  held að við hefðum gott af því að hvíla okkur á henni.


mbl.is Kreppan kemur fram í fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er lag fyrir ríkisstjórnina ...

nýfædd (Small) Gott hjá læknunum að styðja ljósmæðurnar í sinni kjarabaráttu. Fyrir utan okkur sem höfum upplifað barnsfæðingar eru læknar líklega sá hópur fólks sem skilur hvað best mikilvægi ljósmóðurstarfsins. 

Það er ótrúlegt en satt, að laun ljósmæðra eru með því sem lægst gerist innan Bandalags háskólamanna þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af ríkisstarfsmönnum. Byrjunarlaun ljósmæðra eru til dæmis mun lægri en byrjunarlaun verkfræðinga með meistaragráðu.

Ég vona líka að fólk hafi tekið eftir frétt sjónvarpsins í kvöld um launamun á ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum. Þar kom fram að hjúkrunarfræðingur sem bætir við sig ljósmæðranámi og fer að starfa sem ljósmóðir getur lækkað við það í launum. Í öðrum tilvikum hækkar hann lítillega, en þó aldrei jafn mikið og ef hann hefði bara unnið áfram sem hjúkrunarfræðingur og sleppt því að fara í ljósmóðurnámið - tveggja ára nám. GetLost

Nei, það er löngu tímabært að störf ljósmæðra verði endurmetin miðað við þá miklu ábyrgð sem þær gegna. 

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þá stefnu að jafna óútskýrðan kynbundinn launamun hjá hinu opinbera.  Nú er lag fyrir ríkisstjórnina að stíga mikilsvert skref í þá átt og semja um kjör handa ljósmæðrum sem standast samanburð við sambærilegar karlastéttir.

Slíkt framtak gæfi íslenskum konum a.m.k. von um að jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar næðu einhvern tíma fram að ganga.


mbl.is Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er komið að því ...

Hotel_Nupur Þessa dagana er líf mitt undirlagt af undirbúningi fimmtugsafmælisveislunnar okkar Sigga, sem verður á laugardaginn á Hótel Núpi í Dýrafirði - gamla heimavistarskólanum þar sem ég eyddi fimmtánda aldursárinu mínu, óþekk unglingsstelpa veturinn 1973-74. Nú hefur Núpur fengið nýtt hlutverk. Þar er nú starfrækt myndarlegt hótel sem um næstu helgi verður undirlagt af gestum sem ætla að samfagna okkur hjónunum yfir kvöldverði. 

Það er ekkert smá mál skal ég segja ykkur að raða 250 manns til borðs þannig að allir komist þokkalega fyrir - ég hefði ekki trúað því að óreyndu. En það ætlar að hafast. Kissing

Og nú er eins gott fyrir vegagerðina að standa sig - það eru 100 manns á leiðinni vestur. Woundering

Já, það er í mörg horn að líta. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að einhverjir muni dúkka upp sem ekki hafa látið mig vita af komu sinni. Það vil ég að sjálfsögðu ekki, því ég er Meyja, og meyjur þola ekki óvæntar uppákomur. Ég er altso búin að raða til borðs, og þar við situr. Þeir sem ekki hafa boðað komu sína eiga vinsamlegast ekki að mæta í kvöldmatinn. En þeir eru að sjálfsögðu velkomnir eftir borðhaldið. Þá verður barinn opnaður og slegið upp balli.  Wizard

Það var 8. september fyrir hálfri öld sem þetta fljóð sem hér heldur á penna leit fyrst dagsins ljós á Landspítalanum í Reykjavík. Ég fór fljótlega að brosa framan í heiminn sem yfirleitt hefur brosað á móti - að minnsta kosti stundum alltaf eins og börnin segja. Wink

Margt hefur á mína daga drifið síðan og allt hefur það mótað mig sem manneskju, sorfið mig og slípað. Þess vegna er það nú sem ég ætla að halda upp á þennan æviáfanga með pompi og prakt - og við hjónin saman -  því Siggi varð líka fimmtugur fyrir skömmu. Auk þess eigum við 25 ára hjúskaparafmæli á þessu ári, svo það er eiginlega margfalt tilefni til að slá upp veislu og hitta fólk: Fólkið sem stendur næst okkur; fólkið sem er samverkamenn okkar; vinir og jafnvel fjandvinir. Þetta fólk hefur allt haft áhrif á líf okkar með einhverjum hætti - og þess vegna viljum við vera með því af þessu tilefni. Þakka því í huganum og með samverunni fyrir að hafa orðið á vegi okkar og rölt með okkur um lengri eða skemmri veg.

 

MaddyOlly Það skyggir svolítið á gleðina að Maddý dóttir okkar verður ekki með okkur - hún er í stífu arkitektanámi úti í Danmörku og á þess engan kost að komast heim. Við munum sakna hennar. Hér sjáið þið mynd af okkur mæðgunum saman.

 

En það verður gaman að hitta alla hina. Og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar!

 


Semjið við ljósmæður

barn Íslenskar ljósmæður eru trúlega friðsamasta starfsstétt landsins og langlundargeði þeirra við brugðið. Árum saman hafa þær með friðsemd reynt að fá menntun sína og störf metin að verðleikum í samræmi við aðrar stéttir í þjónustu hins opinbera með svipaða menntun. Viðsemjendur hafa skellt við skollaeyrum.

Menntuð ljósmóðir þarf að ljúka fullgildu hjúkrunarnámi og bæta síðan við sig ljósmóðurfræðum. Þetta er tvöfalt háskólanám - álíka langt og læknisnám. Engu að síður eru hjúkrunarfræðingar í mörgum tilvikum (ef ekki öllum) með hærri laun en ljósmæður. Fyrir því eru engin rök - bara gamall arfur frá því að ljósmóðurmenntun var með öðrum hætti. Það er langt síðan.

Nú er þolinmæði ljósmæðra á þrotum og þær hafa boðað til tímabundinna verkfalla sem hefjast á fimmtudag hafi samningar ekki tekist. Þær eru þó ekki bjartsýnar - viðsemjendurnir eru stífir og enn strandar á kröfunni um að menntun þeirra sé metin til launa.

Auðvitað er óverjandi að landa ekki viðunandi samningi um kaup og kjör þessarar mikilvægu kvennastéttar áður en kemur til verkfalls. Og það er ólíðandi að menntun kvenna skuli ekki metin til jafns við það sem gerist annarsstaðar á vinnumarkaði. Ég tala nú ekki um þegar um er að ræða konur í jafn mikilvægum störfum og  ljósmóðurstörf eru.

Það er heldur ekki ásættanlegt að konur komnar að fæðingu skuli þurfa að vera í  óvissu um aðbúnað sinn og aðstæður þegar kemur að fæðingu. Kvíði og óöryggi eru óholl barnshafandi konum, og ef eitthvað er líklegt til að valda þungaðri konu kvíða, þá hlýtur það að vera yfirvofandi verkfall ljósmæðra. 

Ég skora á ríkisstjórnina - að minnsta kosti Samfylkinguna - að beita sér fyrir því að samningar náist við ljósmæður.


Opinber meiðyrði afsökuð í einkasamtali?

matthíasMblIs Matthías Johannessen hefur á opinberum vettvangi borið meiðandi álygar á Guðjón Friðriksson sagnfræðing. Fréttir herma að hann hafi beðist afsökunar í einkasímtali. Á vefsíðu Matthíasar er enga slíka afsökunarbeiðni að finna - en Guðjón hefur staðfest í fréttum að hann hafi beðist munnlega afsökunar og málinu sé lokið af hálfu Guðjóns.

Guðjón Friðriksson sýnir Matthíasi mikið drenglyndi að sætta sig við þessi málalok. GuðjonFriðrikssonÞá á ég við það að sætta sig við einkasímtal sem afgreiðslu á opinberri ávirðingu. Matthías er þó ekki meiri maður fyrir vikið. Maður með sjálfsvirðingu sem gerst hefði sekur um að bera álygar á saklausan mann myndi að sjálfsögðu biðjast afsökunar á sama vettvangi og meiðingarnar hefðu komið fram. Ég hefði búist við því af Matthíasi Johannessen að hann væri maður til að gera slíkt.

Ég hef áður bloggað um dagbækur Matthíasar sem mér finnast á köflum varða við siðareglur blaðamanna, og nú einnig við ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga. Það er illt til þess að vita að ritstjóraskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli heldur "áburðarverksmiðja" - svo ég noti nú gamalt orð í nýjum tilgangi.

Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt.

Fyrir þá sem hafa orðið fyrir slíkum vinnubrögðum - og þekkja hvernig þau svíða á sálartetrinu - er átakanlegt að verða vitni að öðru eins hjá mikilsvirtum ritstjóra og skáldi sem margir hafa hingað til litið upp til og í ýmsu tekið sér til fyrirmyndar.

Sorglegt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband