Opinber meiðyrði afsökuð í einkasamtali?

matthíasMblIs Matthías Johannessen hefur á opinberum vettvangi borið meiðandi álygar á Guðjón Friðriksson sagnfræðing. Fréttir herma að hann hafi beðist afsökunar í einkasímtali. Á vefsíðu Matthíasar er enga slíka afsökunarbeiðni að finna - en Guðjón hefur staðfest í fréttum að hann hafi beðist munnlega afsökunar og málinu sé lokið af hálfu Guðjóns.

Guðjón Friðriksson sýnir Matthíasi mikið drenglyndi að sætta sig við þessi málalok. GuðjonFriðrikssonÞá á ég við það að sætta sig við einkasímtal sem afgreiðslu á opinberri ávirðingu. Matthías er þó ekki meiri maður fyrir vikið. Maður með sjálfsvirðingu sem gerst hefði sekur um að bera álygar á saklausan mann myndi að sjálfsögðu biðjast afsökunar á sama vettvangi og meiðingarnar hefðu komið fram. Ég hefði búist við því af Matthíasi Johannessen að hann væri maður til að gera slíkt.

Ég hef áður bloggað um dagbækur Matthíasar sem mér finnast á köflum varða við siðareglur blaðamanna, og nú einnig við ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga. Það er illt til þess að vita að ritstjóraskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli heldur "áburðarverksmiðja" - svo ég noti nú gamalt orð í nýjum tilgangi.

Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt.

Fyrir þá sem hafa orðið fyrir slíkum vinnubrögðum - og þekkja hvernig þau svíða á sálartetrinu - er átakanlegt að verða vitni að öðru eins hjá mikilsvirtum ritstjóra og skáldi sem margir hafa hingað til litið upp til og í ýmsu tekið sér til fyrirmyndar.

Sorglegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Heyr, heyr, Ólína. Ég er satt best að segja algjörlega steinhissa á drenglyndi Guðjóns.  Eftir lestur dagbóka Matthíasar er ég hins vegar ekki hissa á því hvernig hann afgreiðir málið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.9.2008 kl. 10:08

2 identicon

Ekki flugufótur fyrir þessari sögu. Kenndi við Ármúla á þessum tíma.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 10:12

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Ólína, er það ekki fullmikið af því góða, að demba þessum gusum yfir allt íslenskt fjölmiðlafólk, að segja að það láti "misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt."

Hefur þú efni á slíkri fullyrðingu?

Og fyrir mér sem blaðamanni á Morgunblaðinu 1976-2005 er þessi klausa þín frétt: "Það er illt til þess að vita að ritstjórnarskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja." Já og "áburðarverksmiðja".  

Þetta er náttúrulega þvílík steypa hjá þér, að engu lagi er líkt. Og þér til lítils sóma.  Þú átt ef til vill við kontór Matthíasar sjálfs, miðað við efnið sem þú tekur að þessu sinni fyrir. Við það hugga ég mig, en þessi skrif þín eru frekar óskiljanlega.

Þú byrjar á því að hamast á Matthíasi fyrir að bera meiðandi álygar á mann en æðir síðan sjálf út í sama fen og sakar ekki bara einn, heldur tugi ef ekki hundruð manna um að hafa það sér til framfæris að bera róg á menn.

Þetta finnst mér vera forkastanlegt hjá þér. Og hvers eigum við að gjalda, eða þá bara ég einn og sér?   

Ekki batnar það er líður á því næst kemur þessi klausa: "Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt."

Bíddu nú við, ert þú ekki gömul fréttakona? Upplifðir þú þig svona í starfinu? Ég hafði mikið álit á þér en verð að segja að nú er ég í það minnsta á báðum áttum. Þú verður að sitja uppi með það, að menn verða dæmdir af verkum sínum.

Af lokasetningunni mætti ætla að þú hafir sjálf þurft að svíða undan „áburðarverksmiðju“. En er einhver bót í því að slá frá sér með þessum hætti sem þú gerir?

Ágúst Ásgeirsson, 1.9.2008 kl. 11:36

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gamlar dagbækur, þar sem birtar eru gamlar hugleiðingar og spjall fyrrverandi ritstjóra Moggans við hina og þessa menn og konur í þjóðfélaginu eru nú ekki það sama og fréttir í Mogganum. Og ekki held ég að Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn hafi þótt virtari eða áreiðanlegri dagblöð en Mogginn, enda var hann seldur í rúmlega fimmtíu þúsund eintökum og lesinn af um tvö hundruð þúsund manns daglega þegar Matti Jó var þar ritstjóri.

Og einmitt vegna þess að Matti Jó spjallaði við marga í öllum flokkum og stéttum þjóðfélagsins frétti hann margt. Blaðamenn Moggans höfðu þá samband við þann sem vissi mest um viðkomandi mál og höfðu þá fréttina eftir honum eða henni en ekki Matta Jó, að sjálfsögðu. Og stundum reyndist einungis um slúður að ræða.

Flestar fréttir eru hafðar eftir öðru fólki, hringt er í heimildarmennina eða talað við þá augliti til auglitis og því treyst að þeir segi rétt frá. Hins vegar er hægt að fá margar útgáfur af sama atburðinum, til dæmis bílslysi. Ég var hins vegar aldrei beðinn um að leiðrétta frétt sem ég hafði skrifað á Mogganum og vandséð hvernig fréttir í því blaði gátu verið "rógsmiðja".

Aftur á móti voru birtir pólitískir leiðarar í Mogganum, álit viðkomandi höfundar á mönnum og málefnum, og algengt er að birta sérstaka slúðurdálka í dagblöðum. Einnig er mikið slúðrað í alls kyns þáttum á útvarpsstöðvunum, þar á meðal Ríkisútvarpinu.

Óli Palli sagði þar til dæmis eftir Innipúkann á Nasa hér í Reykjavík fyrir réttum mánuði að Megas hefði ekki mætt þar vegna þess að geitungur hefði stungið hann í tunguna þegar hann (eða þeir báðir væntanlega) voru að drekka bjór úr krús. Og þegar Megas kom aftur heim af sjúkrahúsinu beit hann hundur í fótinn. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta átti að vera frétt eða slúður, enda var ekki talað við Megas sjálfan um málið. Alla vega ekki í þessu tilviki.

Dagbækur Matta Jó eru líkt og samtalsbækur hans enginn heilagur sannleikur, heldur hugleiðingar og spjall með alls kyns staðreyndavillum. Og engan veginn staðreyndaupptalning eða fréttir, enda væri þá búið að birta þær sem fréttir fyrir margt löngu.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 12:17

5 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég bíð spenntur eftir að Einar Karl og Árni Bergmann leysi frá skjóðunni, einnig Jónas Kristjánsson og Jón Kristjánsson, en þessir sómamenn voru ritstjórar Þjóðviljans, Tímans og Dagblaðsins.

Jón Halldór Guðmundsson, 1.9.2008 kl. 12:26

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Eitthvað hefur Ágúst Ásgeirsson farið í fljótheitum yfir textann í færslunni þegar hann fullyrðir að ég hafi dæmt "allt íslenskt fjölmiðlafólk" fyrir að láta misnota sig.

Það sem ég sagði er orðrétt það að ég hafi fengið "eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig".

Ég bakka ekki með það að það sem gerst hefur á ritstjórnarskrifstofu moggans - þá á ég að sjálfsögðu við skrifstofu ritstjórans/ritstjóranna - og Matthías upplýsir í þessum dagbókum bendir til þess að rógur og illt umtal hafi verið meðal þess sem ritstjórinn byggði á í skrifum sínum.  Þá er ég að sjálfsögðu ekki að dæma alla blaðamenn Morgunblaðsins frá upphafi - það er firra að halda slíku fram.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.9.2008 kl. 12:55

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Og smá viðbót vegna orða Steina Briem.

Enn verð ég að biðja menn að lesa það sem skrifað er hér fyrir ofan. Þar er ekki minnst einu orði á fréttaskrif Morgunblaðsins eða störf almennra blaðamanna þar, heldur skrif ritstjórans. Setningin er svohljóðandi að illt sé til þess að vita ...

"... að ritstjórnarskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli ..."

Allt í lagi að rökræða þetta - en höldum okkur þá við það sem sagt hefur verið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.9.2008 kl. 14:04

8 Smámynd: 365

Það væri gaman Ólína, að fá að vita hvað þú átt við með með orðinu "rógsmiðja"?

365, 1.9.2008 kl. 14:23

9 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Matti var bara að skálda.

Við megum ekki gleyma því að Matti er mikið skáld.

Jens Sigurjónsson, 1.9.2008 kl. 14:28

10 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Á ritstjórnarskrifstofum starfa blaðamenn, bæði á Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og öðrum blöðum fyrr og nú.

Á skrifstofu ritstjóra sitja hins vegar ritstjórar fjölmiðlanna. Ég hélt þú vissir mun á ritstjórn og skrifstofu ritstjóra. Þess vegna tók ég þessi skrif þín óstinnt upp.

Það er til bóta að draga í land, en er hægt að skilja eftirfarandi setninguna, þó ég hafi sleppt hinu svartmerkta, en svo, að íslenskt fjölmiðlafólk láti misnota sig, bara ekki alltaf?:  "eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig".

Eftir 32 ár í blaðamennsku þekki ég engin dæmi um að blaðamenn hafi verið misnotaðir og engan vil saka um það.

Ágúst Ásgeirsson, 1.9.2008 kl. 14:31

11 Smámynd: Landfari

Gísli Baldvinsson, þú segir að það sé ekki flugufótur fyrir þessari sögu. Hvernig færðu það út þegar búið er að staðfesta allt nema nafnið á kennaranum?

Landfari, 1.9.2008 kl. 14:47

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ólína mín. Ég er ágætlega læs og er vanur að lesa fyrst það sem ég kommenta á:

"Það er illt til þess að vita að ritstjórnarskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli heldur "áburðarverksmiðja" - svo ég noti nú gamalt orð í nýjum tilgangi.

Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt."

Leturbreytingar mínar. Er þá ekki eðlilegast að ég álykti sem svo að ég hafi verið eitt af tannhjólunum í þessari mulningsvél, þar sem ég var blaðamaður á Morgunblaðinu, og ætti þar af leiðandi að fara í mál vegna þessara ummæla? Nema þá að þú takir sérstaklega fram hverjir hafi haldið þessari áburðarverksmiðju gangandi, hverjir nákvæmlega á Morgunblaðinu hafi látið misnota sig í annarlegum tilgangi, og ég hafi ekki verið einn af þeim.

Og ég man ekki betur en sagt væri á Mogganum að við blaðamennirnir ynnum á ritstjórn blaðsins, enda þótt við værum ekki ritstjórar blaðsins. Og margir okkar ritstýrðu alls kyns kálfum í blaðinu, íþróttakálfi, Úr Verinu, viðskiptakálfi og svo framvegis.

Það sem ég skrifaði á mína tölvu á Mogganum í Verið var oft ekki lesið af öðrum á Mogganum áður en það birtist þar og ég hannaði oft Verið sjálfur. Fréttir sem ég skrifaði og birtust annars staðar í Morgunblaðinu, oft á baksíðu, voru heldur aldrei ritskoðaðar af ritsjórum Moggans, enda þótt hugmyndin að þeim kæmi frá mér sjálfum.

Annars allt í góðu okkar á milli og ég hef ekki mjög miklar áhyggjur af því að þú sért að meina mig í þessu sambandi. Blink blink! Hér er sólskin og sex stiga hiti, á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann og ég er farinn út til að horfa á hann.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 14:57

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ágúst, ef þú eftir 32 ár í blaðamennsku þekkir "engin dæmi" um að blaðamenn hafi verið misnotaðir í þágu einhverskonar hagsmuna - þá ert þú í alvarlegri afneitun, svo ekki sé meira sagt. Eða þú lifir í öðrum veruleika en ég.

Það er svosem ágætt fyrir Matthías að eiga sér velunnara sem taka upp hanskann fyrir hann. Ég virði það við þig að koma þínum gamla ritstjóra til aðstoðar. En rökfærslan dugir mér ekki - því miður.

Ég hef ekki dregið í land - sé enga ástæðu til þess. Það sem fram er komið í dagbókarfærslum Matthíasar gefur mér fullt tilefni til að draga þær ályktanir sem fram koma í færslunni. Það er hinsvegar óþarfi að oftúlka orð mín - líkt og mér fannst þú gera.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.9.2008 kl. 14:57

14 identicon

Þú skrifar Ólína:

"Guðjón Friðriksson sýnir Matthíasi mikið drenglyndi að sætta sig við þessi málalok. Þá á ég við það að sætta sig við einkasímtal sem afgreiðslu á opinberri ávirðingu. "

Bara af því ég er svo tortrygginn þá segi ég eins og einn ágætur prestur austur á Héraði, spurður um líf eftir dauðann: "það er einhver andskotinn á bak við þetta alltsaman".

Er til slíkt göfuglyndi án þess að eitthvað meira hangi á? eða er til frír löns eftir allt saman?

Grétar (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 15:03

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Steini - ég sá ekki þína athugasemd þegar ég svaraði Ágústi.

En ég vil bara minna á að ég hef sjálf skrifað fyrir Morgunblaðið, bæði ritdóma og innblaðsefni. Þekki þar margt ágætisfólk.

Njóttu góða veðursins.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.9.2008 kl. 15:03

16 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Mér finnst nú bara sjálfsagt að biðja manninn afsökunar beint, verst var að hann hafði ekki dug á að gera það augliti til auglitis, en hvað varðar hina opinberu hlið, þá mætti kallinn koma með einhverskonar yfirlýsingu...

Haraldur Davíðsson, 1.9.2008 kl. 15:53

17 identicon

Flugufótur Landfara breyttist í 20 eðlufætur af því eina að ég gat staðfest að Guðjón kenndi ekki í Ármúlaskóla og sumir höfðu geð í sér að hnýta í kennara vegna þess að hann hafði ákveðnar skoðanir í stjórnmálum....utan kennslustofu. Vonandi er Landfari úti á túni.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 16:25

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft verður fjöður að fimm hænum og ég stórefast um að Matti kallinn hafi sjálfur skáldað þetta um hann Guðjón. Einhverjir hafa að öllum líkindum sagt Matta þessa vitleysu og hann hefur trúað henni eins og nýju neti.

Matti verður að sjálfsögðu að meta það sjálfur hvað hann birtir af þessum dagbókarfærslum sínum en ég hefði nú sleppt þessari í hans sporum. En kallinum leiðist greinilega og hann hefur gaman af að ögra hinum og þessum í þjóðfélaginu.

En blaðamenn Morgunblaðsins hafa nú kosið marga stjórnmálaflokka, til dæmis Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Alþýðuflokkinn. Og þegar ég var ráðinn sem blaðamaður á Moggann var einn af mínum meðmælendum Þröstur Ólafsson, sem var í Alþýðubandalaginu.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 18:16

19 Smámynd: Sævar Helgason

Fróðlegt til lestrar - allar þessar athugasemdir.  Slæmt fyrir Matthías J að vera orðin blaðurskjóða svona á efri árum. Eða mér finnst það

Sævar Helgason, 1.9.2008 kl. 18:59

20 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það var aldrei ætlun mín að standa í einhverju þrasi við þig, Ólína. Og ég þarf ekki að koma Matthíasi til varnar, hann er fullfær um það sjálfur.

Ég veit ekki til þess að ég sé í neinni afneitun. Kannski er það kyrrðin, góðviðrið árið um kring og spennuleysið hér í franskri sveit undanfarin ár sem gerir það að verkum að ég minnist engra dæma um að blaðamenn hafi verið misnotaðir í þágu einhverskonar hagsmuna. Vegna orða þinna hefur verulega reynt á heilakvarnir mínar í dag og niðurstaðan er sú sama. Það skal viðurkennt, að hugsunin hefur að mestu verið bundin við kollega á Mogganum.

Já, ég hlýt að lifa í öðrum veruleika en þú. Minn veruleiki hefur alltaf verið mjög skemmtilegur. Það er þinn vonandi líka. 

Ágúst Ásgeirsson, 1.9.2008 kl. 20:49

21 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Góður pistill Ólína. Skil ekki suma gagnrýnina hér í kommentum þínum öðruvísi en þannig að menn eru að ryðjast inn í pólitískann hasar! Aftur á móti getur alveg eins verið að Matthíasi hafi orðið fótaskortur á tungunni vegna siginnar glapa. 

Edda Agnarsdóttir, 1.9.2008 kl. 21:45

22 identicon

Ólína er greinilega svekkt yfir því að sjá ekki Matta dreginn fyrir dómstóla og svínaður til á opinberum vettvangi.  Hún er mjög svekkt með þessi málalok Guðjóns og Matta.  En voru þetta ekki bara fína málalok?  - Svona "gentlemens agreement"?  Nei, það finnst Ólínu ekki.  Matti er jú pólítískur andstæðingur hennar og sem slíkur á hann meira og verra skilið en að geta beðist Guðjón afsökunar símleiðis.

En bíðum við.  Núna er verið að brugga og slúðra í smiðjum Samfylkingarinnar um pólitíska andstæðinga og án efa verða til margar dagbækur sem verða birtar eftir svona 20-30 ár.  Þá mun ýmislegt svínarí koma í ljós sem Samfylkingarfólk hefur sagt um menn og málefni, og þá munu Ólína og skoðanasystkini hennar bíða í biðröðum við handvaskinn og hvítþvo þessi skrif. 

Bíðum bara, nú er Samfylkingin í valdastöðu og vald spillir á það á ýmislegt eftir að koma í ljós sem Samfylkingarfólk mun þurfa að éta ofan í sig og kyngja niður og það með miklum erfiðismunum.

Björn Ólafur Þorgrímsson (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 09:14

23 Smámynd: Landfari

Gísli Baldvinsson, áttu nokkuð skýringar við athugasemd þína nr. 17 hér. Ég hreinlega skil ekki hvað þú ert að fara. Nema hvað ég er sammála þér að ég vildi að ég væri út á túni núna. Alltaf gaman úti í náttúrunni. Skil samt ekki hvað það kemur þessu máli við.

Það er búið að staðfseta að ritgerðir voru enduryfirfarnar og þessi umrædda einkunn þessarar konu um Matta þótti óeðlilega lág og henni var breytt. Það sem ekki hefur verið staðfest er hver kennarinn var, nema að það virðist meiga útiloka umæddan Guðjón. Fyrir mér er það aukaatrið. Aðalatriðið er að það skuli geta gerst í íslenskum skóla að nemandi sé látinn galda fyrir pólitíska skoðun kennara í einkunn. Þetta setur blett á alla kennarastéttina þar til upplýsist hver umræddur kennari var.

Gagnvart Guðjóni, sem sér væntanlega málið frá öðrum sjónarhól, hefði ég frekar haldið að staðfestingin þín hefði frekar eytt þessum flugufót en magnað hann.

Þú eignar mér flugufótinn sem þú nefndir samt fyrst sjálfur. Síðan breytirðu honum í 20 eðlufætur sem þú væntanlega eignar mér í næstu færslu. Ég er nú ekki betur gefinn en svo að þessi athugasemd varð mér ofviða. Skýringar óskast.

Landfari, 2.9.2008 kl. 10:23

24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hér er fullyrt að Matthías Johannessen sé pólitískur andstæðingur minn.

Ég hef sjálf aldrei litið svo á. Ég hef litið upp til Matthíasar Johannessen - átt góð samskipti við hann í gegnum tíðina - skrifað fyrir hann í Morgunblaðið m.m. og haf á honum mætur sem skáldi. Ég er ekki óvinur Matthíasar Johannessen og vonandi hann ekki minn heldur.

En mér mislíka gjörðir hans að þessu sinni - þær hneyksla mig - vegna þess að þær varða ríka hagsmuni margra sem áttu æru sína og jafnvel afdrif undir valdi Morgunblaðsins. 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2008 kl. 11:30

25 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Um þetta alvarlega mál og dapurlega ætla ég ekki að segja annaðen, að það þykja mér heldur ný tíðindi þegar alröng ásökun er vegur að mannorði einvhers, teljist bara aukaatriði, því einhver annar jú eigi sökina!?

Mikil og djúp hugsun hlýtur að liggja að baki slíkri ályktun, annað getur bara ekki verið!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.9.2008 kl. 19:12

26 Smámynd: Landfari

Magnús Geir, það eru nú ekki flókin vísindi að aðalatriði máls eru ekki alltaf þau sömu sama frá hvaða sjónarhóli horft er.

Ímyndum okkur að þú sért á leið í giftingu dóttur þinnar á Selfossi og orðinn heldur seinn fyrir á leið þinni frá Reykjavík. Kemst svo að því þegar þú ert kominn í Svínahraunið að vegurinn er lokaðu vegna áreksturs tveggja bíla. Í öðrum bílnum slasast fólk en í hinum sluppu allir ómeiddir. Fréttir berast af slysinu og ég veit að fólk nákomið mér er í öðrum bílnum.

Fyrir lögregluna er eitt aðalatriða að loka af slysstað fyrir forvitnu og óþolinmóðu fólki svo þeir og sjúkraflutningamenn geti athafnað sig.

Fyrir mig er aðalatriði í hvorum bílum slasað fólkið er, en það er aukaatriði fyrir þig.

Fyrir þig er aðalatriði hve lengi vegurinn er lokaður. Það er aukaatriði fyrir mig.

Fyrir tryggingafélögin er aðalatriði hvar bílarnir eru tryggðir, en það er aukaatriði fyrir þig.

Fyrir ættingja slösuðu og kanski vegagerðina er aðalatriði hvort það varð banaslys eða ekki.  (Samt horfa þeir frá sitthvorum sjónarhólnum á málið) Vil nú ekki segja að það sé aukaatriði fyrir þig.

Fyrir ökumennina (og lögreglu) er svo kanski aðlatrið hvor varð valdur að slysinu, en það er aukaatriði fyrir þig.

Það er oft sagt að það séu minnst tvær hliðar á öllum málum. Stundum eru þær fleiri.

Þetta er nú ekki voða flókið er það? Ég hef verið nemandi, stundum ósáttur við einkunnir, oftast ekki samt. Ég hef aldrei verið kennari og þekki viðkomandi ekkert. Hef ekki séð þessa dagbókarfærslu Matthíasar en lesið um hana og samkvæmt fréttum er þessi Guðjón sáttur við málalok og því get ég ekki séð neitt tilefni fyrir hvorki mig né þig til neinna æsinga yfir þessar  færslu ritsjórans. Hitt sendur eftir að pólitísk skoðun kennara hafði, að því er virðist, áhrif á einkunnagjöf til nemanda. Það hefur verið staðfest og er óásættanlegt fyrir mig sem nemanda, foreldri nemanda og skattgreiðanda og þar með óbeint launagreiðanda viðkomandi kennara.

Landfari, 2.9.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband