Nú er komið að því ...

Hotel_Nupur Þessa dagana er líf mitt undirlagt af undirbúningi fimmtugsafmælisveislunnar okkar Sigga, sem verður á laugardaginn á Hótel Núpi í Dýrafirði - gamla heimavistarskólanum þar sem ég eyddi fimmtánda aldursárinu mínu, óþekk unglingsstelpa veturinn 1973-74. Nú hefur Núpur fengið nýtt hlutverk. Þar er nú starfrækt myndarlegt hótel sem um næstu helgi verður undirlagt af gestum sem ætla að samfagna okkur hjónunum yfir kvöldverði. 

Það er ekkert smá mál skal ég segja ykkur að raða 250 manns til borðs þannig að allir komist þokkalega fyrir - ég hefði ekki trúað því að óreyndu. En það ætlar að hafast. Kissing

Og nú er eins gott fyrir vegagerðina að standa sig - það eru 100 manns á leiðinni vestur. Woundering

Já, það er í mörg horn að líta. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að einhverjir muni dúkka upp sem ekki hafa látið mig vita af komu sinni. Það vil ég að sjálfsögðu ekki, því ég er Meyja, og meyjur þola ekki óvæntar uppákomur. Ég er altso búin að raða til borðs, og þar við situr. Þeir sem ekki hafa boðað komu sína eiga vinsamlegast ekki að mæta í kvöldmatinn. En þeir eru að sjálfsögðu velkomnir eftir borðhaldið. Þá verður barinn opnaður og slegið upp balli.  Wizard

Það var 8. september fyrir hálfri öld sem þetta fljóð sem hér heldur á penna leit fyrst dagsins ljós á Landspítalanum í Reykjavík. Ég fór fljótlega að brosa framan í heiminn sem yfirleitt hefur brosað á móti - að minnsta kosti stundum alltaf eins og börnin segja. Wink

Margt hefur á mína daga drifið síðan og allt hefur það mótað mig sem manneskju, sorfið mig og slípað. Þess vegna er það nú sem ég ætla að halda upp á þennan æviáfanga með pompi og prakt - og við hjónin saman -  því Siggi varð líka fimmtugur fyrir skömmu. Auk þess eigum við 25 ára hjúskaparafmæli á þessu ári, svo það er eiginlega margfalt tilefni til að slá upp veislu og hitta fólk: Fólkið sem stendur næst okkur; fólkið sem er samverkamenn okkar; vinir og jafnvel fjandvinir. Þetta fólk hefur allt haft áhrif á líf okkar með einhverjum hætti - og þess vegna viljum við vera með því af þessu tilefni. Þakka því í huganum og með samverunni fyrir að hafa orðið á vegi okkar og rölt með okkur um lengri eða skemmri veg.

 

MaddyOlly Það skyggir svolítið á gleðina að Maddý dóttir okkar verður ekki með okkur - hún er í stífu arkitektanámi úti í Danmörku og á þess engan kost að komast heim. Við munum sakna hennar. Hér sjáið þið mynd af okkur mæðgunum saman.

 

En það verður gaman að hitta alla hina. Og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Til hamingju með afmælið og helgina! Þetta verður örugglega stórskemmtilegt hjá ykkur. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.9.2008 kl. 11:03

2 identicon

Hamingjuóskir héðan...

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 11:41

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mínar bestu óskir um hamingjusama framtíð,

(Faðir minn, Lárus Harrý Eggertsson Fjeldsted óslt upp á Klukkulandi sem er steinsnar frá Núpi).

Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.9.2008 kl. 12:01

4 Smámynd: 365

Og ég sem hélt að þú værir yngri!!

365, 3.9.2008 kl. 12:01

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Innilega til hamingju Ólína.  Ég er viss um að það verður skemmtilegt.

Ég lifi enn á mínu fertugs sem í voru 150 manns.

Falleg myndin af ykkur.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.9.2008 kl. 13:22

6 identicon

Fimmtíu árin farin hjá, fyrr en nokkurn grunaði.  Hampi þér gæfan, hringaná, í hamingju, ást og munaði.  

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:50

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Bestu þakkir fyrir kveðjurnar gott fólk.

Og Hörður, takk fyrir vel orta vísu. Verst að uppsetningin á henni skuli hafa runnið út þegar athugasemdin vistaðist. En vísan er góð samt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.9.2008 kl. 13:55

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með þetta allt saman, Ólína mín! Ég treysti því að allt fari siðsamlega fram og ekki komi mörg börn undir á svæðinu, þar sem ekki er búið að leysa ljósmóðurdeiluna.

"A dinner party etiquette: A hostess' guide on how to throw a perfect formal dinner party. What to bring, what to wear, and other etiquette questions on attending a dinner party":

http://www.essortment.com/lifestyle/properdinnerpa_sfzg.htm

Þorsteinn Briem, 3.9.2008 kl. 14:50

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir lífsreglurnar Steini - ég kíkti á mannasiðasíðuna og hún er bara skemmtileg aflestrar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.9.2008 kl. 15:27

10 Smámynd: Sævar Helgason

Hamingjuóskir til ykkar beggja með fimmtugsafmælin. 

Sævar Helgason, 3.9.2008 kl. 18:30

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Til hamingju með fimmtugsafmælið og góða skemmtun um helgina.

Mbk. frá gömlum Núpsverja (6 árum eldri)

Sigrún Jónsdóttir, 3.9.2008 kl. 20:56

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.9.2008 kl. 21:18

13 identicon

Til hamingju með daginn. Undarlegt að sjá að ungt fólk á mínum aldri skuli verða fimmtugt! Gaman að skoða bloggið þitt öðru hvoru og fylgjast með lífinu á Vestfjörðum, þar sem ég á ættir að rekja. Kveðjur frá gömlum skólafélaga úr Hlíðaskóla.

Þröstur

Þröstur Eiríksson (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 08:50

14 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Þetta verður meira fjörið!  Til hamingju og góða skemmtun! Ég lofa að birtast ekki óvænt, er nefnilega sjálf Meyja.

Ekki vissi ég að þú værir jafnaldra Möggu systur upp á dag.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 4.9.2008 kl. 22:23

15 identicon

Til hamingju, það verður fjör hjá þér  kveðja frá gömlum Núpsverja.

Reyk-víkingurinn (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 15:10

16 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Við hjónin erum ein af þeim sem getum ekki þegið afmælisboðið sökum anna og verðum fjarri góðu gamni. Ég óska ykkur Sigga til hamingju með þetta allt saman og vona og reyndar veit að það verður gaman í kvöld.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 6.9.2008 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband