Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Kjördagur - tökum það rólega

fanar Jæja þá er runninn upp kjördagur - heldur kaldur og hráslagalegur hérna fyrir vestan. Hiti við frostmark. Spurningin er bara hverjum dagurinn verði kaldastur að þessu sinni.

Mér hefur alltaf fundist kjördagur vera hátíðisdagur. Fólk mætir á kjörstað, fer í bæinn að sýna sig og sjá aðra - fær sér kaffisopa einhversstaðar, kíkir á kosningaskrifstofu. Það er sérstök stemning í loftinu. Á þessum degi vill maður fá frið fyrir frambjóðendum og áróðri - það er að baki.

Sumir flokkar halda áfram að hringja "maður á mann" allan kjördaginn. Mér finnst það leiðinlegt. Á þessum degi er baráttan að baki og menn eiga bara að slaka á eftir slaginn. Foringjarnir eru löngu búnir að undirbúa ríkisstjórnarviðræðurnar og tilbúnir með útspil sín, þannig að þeir ættu að geta tekið þennan dag rólega - hvort sem þeir gera það með stuðningsmönnum eða fjölskyldum.

Jamm - það verður því ekki bloggað meira á þessari síðu fyrr en eftir kosningar. En þá áskil ég mér allan rétt til þess að hafa mikla meiningar um stjórnarmyndunarviðræður og annað tengt úrslitum kosninganna Police

 


Orð og efndir?

Það getur stundum verið lærdómsríkt að skoða söguna. Þegar kjördagur nálgast og menn þurfa að gera upp við sig hvernig þeir verja atkvæði sínu getur t.d. verið gagnlegt að rifja upp orð stjórnmálamanna og efndir.

 Í landsfundar-ályktun Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 segir til dæmis um Íraksstríðið:

"Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að skipa Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja frelsun Íraks".

Þeir stóðu svo sannarlega við það, blessaðir - en voru þeir samstíga þjóðinni?

Tvær vinkonur mínar rifjuðu sömuleiðis upp fyrir mér í morgun annað stefnumál sem hefði e.t.v. staðið flokknum nær að efna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lofaði Vestfirðingum malbikuðu Ísafjarðardjúpi fyrir 2000. Þær leiða líkum að því - svona í ljósi framkvæmdahraðans sem verið hefur - að sennilega hafi hann átt við það, að þegar Vestfirðingum hefði fækkað niður í 2000 yrði komið malbik á Djúpið. Wink


Söngvakeppni (austur) Evrópskra sjónvarpsstöðva

EirikurHauks Þetta var með ólíkindum. Öll lélegustu lögin komust áfram. Meira að segja Tyrkland - sú rauðgljándi, iðandi hörmung. Það vantaði bara ALBANÍU til þess að kóróna ósköpin. Sick 

Og sáuð þið landafræðina í þessu? Balkan og Austur Evrópa!

Nei, þetta er ekki lengur söngvakeppni sem endurspeglar evrópska tónlistarmenningu - ekki fyrir fimm aura. Þetta er að verða hálfgert strip-show með flugeldasýningum og lafmóðu fólki sem heldur sumt ekki einusinni lagi fyrir látum. Við höfum ekkert í þetta að gera - hreint ekki neitt.

Eigum bara að hætta þessu. Devil

En Eiki var góður -  rokkaður reynslubolti, flottur á sviðinu og söng eins og hetja. Hann er eins og Burgundi-vínin, batnar með árunum.  Kissing


mbl.is Ísland komst ekki í úrslit Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur framboðsþáttur á Stöð-2 í gær

Horfði á formannaþáttinn á Stöð-2 í gær. Flottur þáttur og vel skipulagður.

Það var góð hugmynd að taka formennina sérstaklega í beinskeytt viðtal, einn og einn - auk skoðanaskiptanna. Sömuleiðis var vel til fundið að hafa álitsgjafa með í útsendingunni. Maður veit hvernig þetta er á mörgum heimilum eftir svona þætti - þá vill fólk spá og spekúlera, leggja mat á frammistöðu pólitíkusanna. Þá er ekki verra að hafa spekúlanta við sömu iðju á skjánum.

Spyrlar komu vel fyrir - háttvísir í framkomu en beinskeyttir. 

Hafi ég saknað einhvers þá var það kannski að ekki skyldi ákveðnum lykilspurningum beint til þeirra allra í yfirheyrslunum. Til dæmis var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort hún gæti hugsað sér setu í ríkisstjórn án þess að vera forsætisráðherra. Hún svaraði því játandi og það svar var meðal þess sem tekið var út í frétt um efnið. En hvers vegna var Geir Haarde ekki spurður þess sama? Ég hefði gjarnan vilja heyra hans svar.

Ég er sammála álitsgjöfum um að Ingibjörg Sólrún bar af í þessum þætti - ekki aðeins máflutningur hennar heldur líka yfirbragð og framkoma. Enn og aftur gerist það að flokksformennirnir á hægri vængnum mæta dökk- eða svartklæddir til leiks, svo lýsist liturinn eftir því sem lengra dregur í hina áttina. Ingibjörg Sólrún bar seinna nafn sitt með réttu þar sem hún sat á  ljósri pilsdragt innan um kallana -- það var næstum því táknrænt að sjá.

Þá get ég tekið undir með álitsgjöfum að í viðtölunum hefði e.t.v verið nær að spyrja formennina nánar út í önnur mál en þau sem þeir hafa mest fjallað um; spyrja t.d. Ómar út í efnahagsmál og Evrópusambandsaðild, Guðjón Arnar út í umhverfismál og launamun kynjanna, svo dæmi sé tekið.

 Hvað um það - þetta var vel heppnað á heildina litið. Bestu þakkir Stöð-2. 

 


Rífandi gangur - þetta er allt að koma!

Já, nú er þetta allt að koma.

En það er athyglisvert hvað þessi könnun stangast algjörlega á við nýjustu könnun Capacent-Gallups sem sýndi risa fylgisstökk hjá Framsókn og sveiflur í fylgi annarra flokka. Þar hlýtur eitthvað að hafa farið úrskeiðis í sjálfu úrtakinu - sem getur auðvitað gerst af og til, eins og bent hefur verið á.

En þessi könnun Stöðvar-2 sem birt var síðdegis, og sýnir enn minna fylgi við ríkisstjórnina en áður, hún virðist trúverðug. Úrtakið er helmingi stærra en í Capacent-Gallup könnununum og svarhlutfall hærra. Sé hún borin saman við aðrar kannanir (að síðustuu Capacent-Gallup könnuninni undanskilinni) er nokkuð ljóst að Samfylkingin er að sækja á en Sjálfstæðisflokkurinn að dala. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna er nú svipað sameiginlegu fylgi stjórnarflokkanna, samkvæmt þessari könnun.

ERGO: Það er raunverulegur möguleiki að koma á nýrri tveggja flokka ríkisstjórn! Félagshyggju og umhverfisstjórn - sannkallaðri VELFERÐARSTJÓRN með gáfaða og glæsilega konu í forsæti. Ekki amaleg tilhugsun það Grin.


mbl.is Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndaregtistur ríkisstjórnarinnar - lengra en hugðak

Ágúst Ólafur Ágústsson birti á bloggsíðu sinni fyrir skömmu syndaregistur  ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi valdaskeiði hennar. Listinn er langur - á honum eru 40 atriði.

Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík - kjósendur séu fljótir að gleyma. Nú sannaðist það á sjálfri mér, því satt að segja kom mér á óvart hvað margt af því sem þarna er talið var farið að gleymast. 

Minn listi verður rýmisins vegna nokkuð styttri - en hann rúmar tólf mikilvæg atriði.

  1. Íraksstríðið: Samþykki íslenskra ráðamanna við árásarstríði gegn annarri þjóð, gefið í óþökk eigin þjóðar. 
  2. Vaxandi fátækt - 5000 fátæk börn 
  3. Neyðarástand í geðheilbrigðismálum barna og unglinga - 170 börn á biðlista.
  4. Biðlistar eftir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu - þrjúþúsund manns á biðlistum hjá Landspítalanum, á fimmta hundrað aldraðra bíða þjónustu 
  5. Misskipting tekna - ójöfn skattbyrði
  6. Verðlag lyfja og matvæla eitt hið hæsta í heimi 
  7. Landbúnaðarkerfi bundið á klafa miðstýringar, tollaverndar og niðurgeriðslna 
  8. Launaleynd og kynbundinn launamunur 
  9. "Innmúraðir" og "innvígðir" koma sér fyrir í kerfinu - einn er kominn í hæstarétt 
  10. Eftirlaunafrumvarpið
  11. Baugsmálið
  12. Fjölmiðlafrumvarpið

Já - það fennir seint í þessa slóð. Þá eru ótalin ýmsar neyðarlegar uppákomur og ummæli stjórnarliða sem lýsa viðhorfum þeirra og trúnaði við almenning:

  1. "Tæknileg mistök" Árna Johnsen
  2. "Framlag" Ástu Möller til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forseta Íslands
  3. "Kannski ekki sætasta stelpan á ballinu heldur bara einhver sem gerir sama gagn"
  4. "Jafnréttislögin eru barn síns tíma" 
  5. "Þær hefðu kannski orðið óléttar hvort eð er"
  6. Keyptur sendiherrabústaður sem kostaði jafnmikið og ársrekstur meðal framhaldsskóla
  7. Lögvernd vændis
  8. "Ónefndi maðurinn"
  9. Aðhalds- og eftirlitsleysi gagnvart Byrginu 

Línurnar skýrast - stjórnin fallin?

Gallup8mai07  Jæja, þá er ríkisstjórnin fallin samkvæmt Capacent-Gallup. Það hlaut að koma að því.

Um leið og óákveðnum fækkar taka línur að skýrast - væntanlegir kjósendur eru farnir að raða sér á básana og kannanirnar verða marktækari en áður.

Samfylking eykur fylgi sitt um 2% á fáum dögum og hefur þá aukið fylgið um 4% frá þarsíðustu könnun. Hún mælist nú með 18 þingmenn í stað 16 í síðustu könnun. Framsókn og Íslandshreyfingin sækja líka í sig veðrið.

Fylgisaukning Samfylkingarinnar er skiljanleg. Málefnaáherslur flokksins hafa komist vel til skila að undanförnu, frambjóðendur hafa staðið sig vel í umræðuþáttum og blaðaskrifum. Ingibjörg Sólrún hefur sýnt glæsileg tilrif í ræðu og riti. Málflutningur hennar og annarra frambjóðenda er trúverðugur. Allt hefur þetta áhrif.

Sjálfstæðisflokkurinn dalar hratt um þessar mundir - fylgi flokksins minnkar um 3,5% á fáum dögum og þingmönnum fækkar um tvo. Það vekur ekki sérstaka furðu. Annarsvegar vitum við að flokkurinn hefur ævinlega fengið meira í könnunum en kosningum. Hinsvegar hafa frambjóðendur hans ekki verið að koma neitt sérlega vel út fyrir þessar kosningar. Formaður flokksins, sjálfur forsætisráðherrann, hefur verið dauflegur í sjónvarpsumræðum, allt að því áhugalítill. Sjávarútvegsráðherrann hefur hrakist út í tóm vandræði þegar málefni hans eigin heimabyggðar hafa komið til tals. Menntamálaráðherra, varaformaður flokksins, hefur ekki komið vel fyrir í umræðuþáttum, verið ágeng og hávær. Verstur var þó líklega Ástu þáttur Möller nú nýlega - en "framlag" hennar til umræðunnar um stjórnarmyndunarumboð forsetans á sér trúlega engar hliðstæður í íslenskum stjórnmálum.

Jamm, stjórnin gæti verið fallin - guð láti gott á vita. En við spyrjum þó að leikslokum. Kannanir eru ekki kosningar.


mbl.is Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

62% svara könnun - er það marktækt?

Hvað er að marka skoðanakönnun þar sem 38% spurðra gefa ekki upp afstöðu, eins og í síðustu könnun Capacent-Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna? 

Í frétt á mbl.is kemur fram að "nettósvarhlutfall" þessarar könnunar var 62%. 

Ekki nóg með það - þegar spurningarnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós. Spurt var þriggja spurninga: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“ Bíðum við, af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn - einn allra flokka - nefndur í spurningunni? Af hverju ekki Samfylkingin, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn?

Svo er þessu snarað upp sem ótvíræðri vísbendingu um fylgi Sjálfstæðisflokksins. Það útaf fyrir sig er skoðanamyndandi - könnun sem er svona úr garði gerð er líka skoðanamyndandi.

Fyrir vikið er ekkert að marka fylgistölur Sjálfstæðisflokksins í þessum könnunum - og ég held að Sjálfstæðismenn viti það manna best. Fjölmiðlar ættu líka að vita betur.


mbl.is Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúin eftir leitaræfingahelgi

ulfljotsvatn07-hopur    Helginni eyddi ég með Björgunarhundasveit Íslands við námskeið og leitaræfingar á Úlfljótsvatni.  Þar var þessi mynd tekin. Ég er hálf lúin eftir alla útiveruna.

Tíkin var svolítið erfið við mig - virðist ætla að taka seinni gelgjuna með trukki og dýfu. Hún var einbeitingarlaus og upptekin af umhverfinu. Fyrir vikið gengu æfingar ekki eins vel og ég hefði vonað. Verð bara að bíta á jaxlinn - eins og þegar unglingarnir ganga í gegnum sitt skeið - og bíða þess að þetta gangi yfir. Henni finnst hún flottust þessa dagana, og leynir því ekki fyrir neinum, hvorki mönnum né dýrum. Telur sig ekki þurfa að hlýða hverju sem er og iðar öll af lífi og vorgalsa. Auðvitað er hún flott, prímadonnan sú arna, ég tala nú ekki um meðan henni líður svona (þið sjáið hvað hún er sperrt). Hún reynir líka á þolrifin. 

En mikið var nú gaman að hitta alla. Ágætt veður, þátttaka góð eins og venjulega og margir hundarnir tóku ótrúlegum framförum. Þetta er mikil reynsla fyrir þá, samvera með öðrum hundum, sofið úti í búrum, margt fólk, nýtt umhverfi.

Jamm, en ég er semsagt hálf lúin. Það tekur á að keyra 500 km fram og til baka - þó félagsskapurinn sé góður. Það verður því ekki bloggað meira í bili. Kem vonandi "sterk inn" fljótlega - svona þegar ég er búin að lesa blöðin og setja mig aftur inn í málin ...  Cool

ollyogblida


Klíkufundir í stað opinnar umræðu - taktleysi!

Vestfirðir  Fram kom á  fréttavef bb.is í gær að Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefði kynnt skýrslu Vestfjarðanefndarinnar um útbætur í atvinnumálum á fundi með Sjálfstæðismönnum daginn áður. Flokksbróðir hans státar sig af þessari kynningu bæjarstjórans á bloggsíðu  sinni í dag.

Einmitt það. Fyrsta opinbera kynningin sem fram fer á inntaki skýrslunnar fer ekki fram á opnum borgarafundi - ekki á sameiginlegum fundi allra stjórnmálaflokka. Ónei. Fyrsta formlega kynningin þar sem aðstandendur skýrslunnar gefa kost á fyrirspurnum og svörum - hún fer fram á lokuðum fundi Sjálfstæðismanna á Ísafirði. Er hægt að hugsa sér neyðarlegra taktleysi?

 Dagana á undan var furðurlegur farsi í gangi á fréttavef bb.is, þar sem mikið virtist í húfi að koma fólki í skilning um að Vestfjarðanefndin hafi EKKI verið skipuð vegna ákalls til stjórnvalda sem barst frá baráttufundinum Lifi Vestfirðir þann 11. mars. Ó, nei. Ákvörðunin hafi legið fyrir ÁÐUR en sá fundur var haldinn - hún hafi bara ekki verið kynnt fyrr en EFTIR fundinn. Hmmm .... Og ég sem hafði fundið hlýjuna verma hjartað við fréttina af skipun nefndarinnar - var svo barnaleg að halda að forsætisráðherra hefði heyrt neyðarkallið að vestan og vildi bregðast við. Sýna okkur að hér í landinu væru stjórnvöld sem væru þrátt fyrir allt að hlusta.

Það var sem sagt minn misskilningur - og nú hafa verið tekin af öll tvímæli um það.

Þetta er auðvitað ástæða þess að þingmenn sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og Einar Oddur Kristjánsson, sáu hvorugur ástæðu til að mæta á baráttufundinn með vestfirskum borgurum, sendu ekki fulltrúar fyrir sig og boðuðu ekki forföll. Hinsvegar gat sjávarútvegsráðherrann mætt á 30 manna klíkufund sem haldinn var að frumkvæði nokkurra sjálfstæðismanna í "krónni" sem svo er kölluð. Þangað mætti ráðherrann til þess að bera boðin inn að ríkisstjórnarborðinu - eins og einn fundarmannanna bloggaði svo eftirminnilega um.

 Í sama anda er kynning Vestfjarðanefndarinnar á skýrslunni. Þeir eru ekki að tala við fólkið í landinu - það er ástæðulaust. Þeir tala bara við Sjálfstæðismenn.

Menn sem þannig hugsa þekkja ekki erindi sitt í stjórnmálum. Firring þeirra er algjör.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband