Flottur framboðsþáttur á Stöð-2 í gær

Horfði á formannaþáttinn á Stöð-2 í gær. Flottur þáttur og vel skipulagður.

Það var góð hugmynd að taka formennina sérstaklega í beinskeytt viðtal, einn og einn - auk skoðanaskiptanna. Sömuleiðis var vel til fundið að hafa álitsgjafa með í útsendingunni. Maður veit hvernig þetta er á mörgum heimilum eftir svona þætti - þá vill fólk spá og spekúlera, leggja mat á frammistöðu pólitíkusanna. Þá er ekki verra að hafa spekúlanta við sömu iðju á skjánum.

Spyrlar komu vel fyrir - háttvísir í framkomu en beinskeyttir. 

Hafi ég saknað einhvers þá var það kannski að ekki skyldi ákveðnum lykilspurningum beint til þeirra allra í yfirheyrslunum. Til dæmis var Ingibjörg Sólrún spurð að því hvort hún gæti hugsað sér setu í ríkisstjórn án þess að vera forsætisráðherra. Hún svaraði því játandi og það svar var meðal þess sem tekið var út í frétt um efnið. En hvers vegna var Geir Haarde ekki spurður þess sama? Ég hefði gjarnan vilja heyra hans svar.

Ég er sammála álitsgjöfum um að Ingibjörg Sólrún bar af í þessum þætti - ekki aðeins máflutningur hennar heldur líka yfirbragð og framkoma. Enn og aftur gerist það að flokksformennirnir á hægri vængnum mæta dökk- eða svartklæddir til leiks, svo lýsist liturinn eftir því sem lengra dregur í hina áttina. Ingibjörg Sólrún bar seinna nafn sitt með réttu þar sem hún sat á  ljósri pilsdragt innan um kallana -- það var næstum því táknrænt að sjá.

Þá get ég tekið undir með álitsgjöfum að í viðtölunum hefði e.t.v verið nær að spyrja formennina nánar út í önnur mál en þau sem þeir hafa mest fjallað um; spyrja t.d. Ómar út í efnahagsmál og Evrópusambandsaðild, Guðjón Arnar út í umhverfismál og launamun kynjanna, svo dæmi sé tekið.

 Hvað um það - þetta var vel heppnað á heildina litið. Bestu þakkir Stöð-2. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég er svo hjartanlega sammála þér hvað varðar frammistöðu formannanna. Þar bar Ingibjörg Sólrún af. Einhver sagði að formaður Framsóknarflokksins hefði talað "ritmál í frösum" og það eru orð að sönnu.  Ég og mitt fólk ætluðum að kjósa VG á tímabili en nú hefur mínu fólki snúist hugur og ætlar flest, ef ekki allt, að kjósa Samfylkinguna.  Hinir, sem þjóskast við, ætla að kjósa VG. Til allrar guðslukku finnst ekkert íhald í minni fjölskyldu, svo vitað sé - hvað þá framsóknarmaður - því af tvennu illi er íhaldið skárra.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 10.5.2007 kl. 14:56

2 identicon

Ohhhhh, hvernig þú mærir hana Ingibjörgu Sólrún.  Þetta er svo væmið hjá þér að mig langar mest til að æla!

Að sjálfsögðu kom ISG best út hjá álitsgjöfunum, enda eru þessir svokallaðir álitsgjafar miklir vinstrimenn.

Auðvitað fékk Jón Sig. verstu útreiðina hjá þessum svokölluðu álitsgjöfum, enda leynir sér ekki persónuleg andúð þeirra á Jóni og Framsóknarflokknum og er hluti af eineltisstefnum vinstrihyskisins gegn þessum flokki til að fella stjórnina.

Þáttur þessi var eins og sniðinn fyrir Samfylkinguna og ISG enda eru stuðningsfólk hennar náttúrulega ánægt með þenna þátt.

Örninn (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 15:43

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einmitt það. Ég skrifa þó mína dóma undir nafni (og mynd) .

Ég sé að þú ert með skráða IP-tölu sem þýðir að þú ert með bloggsíðu hér á mbl.is. Samkvæmt því ætti athugasemd þín að birtast með nafni og mynd. En þú kýst að fela þig á bak við eitthvað aulalegt dulnefni. Issssss.

"Örninn flýgur fugla hæst" segir í gömlu kvæði . Mér þykir þessi nafnlausi örn vera orðinn ansi lágfleygur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.5.2007 kl. 16:36

4 identicon

Sæl.

Ég skrifaði mínar athugasemdir eitt sinn undir nafni, en fékk ansi bágt fyrir frá ýmsa vinstrafólki sem ekki þoldi að heyra sannleikann.  Ég fékk dónaleg símtöl á nóttunni, börnin mín voru áreitt og bíllinn minn skemmdu.  Ég fékk meira að segja sendan ógeðfeldan póst.  Þetta tel ég að hafi komið frá vinstra-fólki sem ekki þoldi að heyra sannleikann eða þoldi ekki að fá mótathugasemdir sem kom því illa.

Skoðanir fólks eru jafn réttar, hvort sem að þær eru settar fram undir réttu nafni eða dulnefni.  En það er undarlegt þegar maður sendir skoðanir sínar til vinstra fólks hversu gjarnt það er snúa útúr eða vill ekki svara.  Auðvitað, því sannleikurinn er versti óvinur vinstra fólks. 

Þess vegna tók ég örninn til fyrirmyndar.  Ákvað að verða nafnlaus, fljúga hátt og gera árásir í formi beinskeyttra athugsemda og þá leiftursnöggt, og samtímis ekki gefa færi á mér eins og örninn gerir.   Þetta virðist vinstra-fólki mjög erfitt og það er því varnarlaust þegar ég slæ til með mínu beinskeyttu athugasemdum, og því getur vinstri-fólk ekki svarað málefnalega.

Ég flý hátt þegar ég skima yfir skoðanir á netheimum, en flýg lágflug þegar ég þarf að ná til fólks!

Örninn (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband