Færsluflokkur: Menntun og skóli

Rennihurðir, rétt og rangt

einelti Hið góða sem ég vil, það gjöri ég ekki. Hið illa sem ég vil ekki, það gjöri ég, sagði Páll postuli á sínum tíma (Rómv. 7; 19). Allir menn kannast við þá innri baráttu sem þarna er lýst. Hún hefur fylgt mannkyninu frá öndverðu.

Getur þá einhver álasað innhverfri stúlku, sem orðið hefur fyrir einelti og aðkasti skólafélaga sinna, þó hún ráði ekki við tilfinningar sínar á erfiðri stundu? Er hægt að gera hana ábyrga fyrir viðbrögðum sínum jafnvel þó hún "þekki" muninn á réttu og röngu? Hún vildi vera ein - vildi loka að sér og ýtti á rennihurð - en var svo óheppin að kennarinn hennar varð fyrir hurðinni.

Nú hefur móðir stúlkunnar verið dæmd til að greiða 10 mkr. í bætur vegna örorku kennarans. Móðirin er gerð ábyrg fyrir hegðun barnsins vegna atviks sem á sér stað í skólanum.

Hvernig gengur það upp? Er ekki skólaskylda í landinu? Bar móðurinni ekki að hafa þetta barn í umsjá skólans? Og úr því svo er - ber skólinn þá enga ábyrgð? Ef barnið hefði nú sjálft farið sér að voða við það að ýta á rennihurðina? Hefði það klemmt sig illa, misst fingur til dæmis? Hver bar þá ábyrgð? Móðirin?

Sjálfri dettur mér ekki í hug að þessi stúlka hafi ætlað að meiða kennarann sinn. Hefði svo verið, þá hefði hún vafalaust slegið frá sér fremur en að ýta á rennihurðina. Mér sýnist augljóst að stúlkan hafi ætlað að loka að sér. Það var tilfinningaviðbragðið sem hún réði ekki við. Hún vildi vera ein. Margir hafa upplifað þessa tilfinningu og þekkja hana - nema kannski héraðsdómarinn sem dæmdi í málinu.

Það er undarlegt réttarfar að láta ábyrgðina falla á móður sem er víðsfjarri þegar atvik á sér stað.  Það er ómannúðlegt að "hanka" einhverft barn á því að það eigi að þekkja muninn á réttu og röngu.

Fólk gerir margt rangt þó það viti betur - það þekkjum við öll.


Er íslenskan úrelt mál?

hi  Verður íslenska brátt ónothæf í vísindasamfélaginu á Íslandi? Ýmsir eru uggandi um framtíð íslenskunnar, telja jafnvel að hún sé að verða undir sem nothæft tungumál í vísindum og fræðum. Ýmsar blikur eru á lofti:
  • Kennsla í íslenskum háskólum fer sumstaðar fram á ensku.

  • Fræðaskrif á íslensku eru minna metin í vinnumatskerfi Háskóla Íslands en skrif á öðrum tungumálum, einkum ensku.

  • Margar deildir Háskóla Íslands gera kröfu um að doktorsritgerðum sé skilað á ensku.

  • Þess vegna er innan við þriðjungur doktorsritgerða sem lagðar hafa verið fram fram við HÍ á árunum 2000-2007 á íslensku.

  • Háskóli Íslands stefnir að því að komast í hóp 100 bestu háskóla heims á næstu árum og fleiri háskólar setja markið einnig hátt. Ráðstefnuhaldarar spyrja - sem vonlegt er - hvort það að tala og skrifa íslensku samrýmist þá ekki þessum markmiðum?

Tja - svari nú hver fyrir sig.

  • En  Íslensk málnefnd og Vísindanefnd Íslendinga gangast fyrir ráðstefnu á morgun um stöðu og framtíð íslenskrar tungu í vísindum og fræðum þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar kl. 14-17 í hringstofunni á Háskólatorginu.

  • Ég ætla að reyna að mæta af því ég verð í borginni ... svo fremi það verði flogið seinna í dag. Er að fara upp á Snæfellsjökul um helgina - og mun því lítið blogga næstu daga Smile

Háskóli er bara hugtak!

hi Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.

Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt  enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt  að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum “og þegar við á í námseiningum háskóla” segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða. 

Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla

Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni – sem vonlegt er – því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um  framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.

Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins. 

Hvað er háskóli?

Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem “jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla”. Háskóla er ætlað að “veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar” (lög nr. 136/1997, 2. gr.).

Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli – háskóli er auðvitað bara hugtak.

Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana,  einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.

Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)


Er skólakerfið (enn) eins og herþjónusta?

Barn að lesa Félagi minn sendi mér að gamni viðtal sem birtist við Jón Gnarr í blaði um daginn - það hafði farið framhjá mér. Þarna ræðir Jón Gnarr meðal annars reynslu sína af skólakerfinu - og líkir henni við herþjónustu. Sjálfur átti Jón við athyglisbrest og ofvirkni að stríða sem barn og unglingur, og í viðtalinu kemur fram að hann hefur mátt vinna mikið í sjálfum sér. Það er því athyglisvert að lesa um reynslu hans af íslensku skólakerfi - og satt að segja heyrði ég í lýsingum hans enduróm af ýmsu sem ég minnist sjálf frá minni skólagöngu. Nú er spurningin - hafa hlutirnir mikið breyst?

Hér kemur búturinn sem mér fannst áhugaverður. Jón segir um skólakerfið:

„Það kennir þér ákveðin gildi sem þú mátt aldrei efast um. Þú mátt aldrei efast um mikilvægi þess að kunna dönsku. Það er ekki til um­ræðu, þetta eru reglur sem þú hlýðir. Þeir sem stunda vel kjarnafögin sem eru grundvallarstoðir skólakerfis­ins hljóta umbun, beina og óbeina. Velþóknun leiðbeinanda - þeir sýna þér velþóknun, hrós. Þeir sem á einhvern hátt vilja ekki eða geta ekki tileinkað sér námið mæta afgangi. Stuðningskennsla fellur niður vegna veikinda starfsfólks eða tímaleysis. Það segir manni að þetta er bara hlutur sem mætir afgangi.

Grunnfög eins og stærðfræði ganga fyrir og tekst vel að fylla upp í vönt­un á kennurum þar. Mér finnst misk­unnar­laust hvernig farið er að því að  aðgreina þá sem geta tileinkað sér og þá sem geta ekki tileinkað sér. Verið er að búa til einstaklinga sem vert er að veðja á fyrir samfélagið. Mað­ur­inn með dönskuna, stærðfræðina og ísl­ensk­una á og sýnir að hann er „player" hann spilar með og er góður hermaður."

Jón þú munt aldrei verða...

„Ég var í opnum skóla,  Fossvogs­skóla. Auðvitað tekur maður til sín það sem að sagt er við mann í skóla hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Það var sagt við mig mjög snemma að ég ætti að verða leikari og rit­höf­und­ur. Mér fannst það gaman. Mig lang­aði mjög ungur til þess að verða bæði. Ég sá fyrir mér að í framtíðinni væri ég að skapa hugmyndir því að þær sköp­uð­ust sjálfkrafa í hausnum á mér. Ég gat matreitt hugmyndir sem voru ýmist fyndnar og athyglisverðar en ég vissi ekki með hvaða hætti ég gæti notað þær. Kennarar sögðu við mig alla barna­skóla­göngu mína: „Þú kemst aldrei neitt áfram á kjaftavaðli Jón. Jón, þú munt aldrei ná árangri í lífinu með fíflagangi." Þetta var kol­rangt. Ég hef náð árangri í lífinu með þessu tvennu; kjaftavaðli og fíflagangi."

 Í lok viðtalsins kemur Jón Gnarr inn á umhugsunarvert atriði. Hann segir:

„Óeðlileg hegðun er oft eðlileg viðbrögð við eðlilegum aðstæðum. Óeðli­legu aðstæðurnar eru oft duldar þegar hegðunin verður auðsjáanleg. Ég er ekki að segja að það sé alltaf. En oft er vandamálið miklu stærra en einn einstaklingur. Það verður að skoða hann sem hluta af þeirri heild sem hann tilheyrir. Ég í Fossvogs­skóla gekk ekki upp. Ef ég hefði verið í Skemmtilega skóla Reykjavíkur þá hefði ég brillerað. Ég hefði fengið að tala og vera fyndinn og skemmtilegur og fengið að segja sögur allan daginn og læra á hljóðfæri og setja upp leik­rit. Ég hefði verið aðalkrakkinn í þeim skóla. Hvort var rangt skólinn eða ég? Þar sem ég er manneskja en skól­inn ekki þá hallast ég að því að þeir hafi haft rangt fyrir sér."

Umhugsunarvert Woundering

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband