Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hverjum ber að biðjast afsökunar?

orgerur_Katrn_Heia_jpg_550x400_q95"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.

Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.

Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu  (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars? 

Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.

Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt.  Að þurfa ekki að standa skil á einu eða  neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann. Angry

 

----

PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).

 


Menntun er meðalið!

skólabarn Þegar atvinnuleysi og atgerfisflótti eru raunveruleg vá fyrir dyrum í litlu samfélagi er aðeins eitt að gera: Láta þekkinguna flæða. Mennta fólkið! Gefa því kost á endurmenntun, framhaldsmenntun, háskólamenntun, nýrri menntun ... já, bara menntun, hvaða nafni sem hún nefnist.

Menntun og þekkingarflæði eru eini raunhæfi kosturinn sem þjóðin á til að rækta mannauð sinn, halda honum við, halda fólkinu "í formi" ef svo má að orði komast. Maður sem verður atvinnulaus getur nýtt þau tímamót til þess að byggja upp nýja hluti í lífi sínu. Til dæmis að klára doktorsritgerðina sem hefur árum saman legið í skúffunni; taka vélastjórnarréttindin sem aldrei voru tekin; meiraprófið; ljósmóðurnámið; frumgreinanámið; skipstjórnarréttindin sem hann/hún hefur lengi látið sig dreyma um ... o. s. frv.

Það er ekkert meðal betra á þeim tímum sem við lifum en menntun.

Á málþingi sem Byggðastofnun hélt um nýja byggðaáætlun s.l. föstudag flutti ég erindi um gildi menntunar fyrir landsbyggðina.  Þetta var svona eldmessa sem ég nefndi "Háskóla í hvert hérað!"  og þið getið lesið í heild sinni HÉR ef ykkur langar (glærurnar eru hér).

Í stuttu máli sagt þá lagði ég út af þeim sjálfsögðu réttindum ungs fólks að geta sótt grunn- og framhaldsskóla í heimahéraði. Þetta þykir öllum eðlilegt nú, þó það hafi ekki alltaf þótt.  En hvenær mun þykja jafn sjálfsagt fyrir ungt fólk að sækja háskólanám á heimaslóðum - þó ekki væri nema grunnháskólanám?

Hugsið um það.

GetLost

Þetta er dulítil undantekning frá annars góðu bloggfríi sem nú hefur staðið í heila fimm daga. Lifið heil, kæru lesendur mínir. Smile


Hispurslaus eineltisumræða

mannud Margir eiga sárar minningar um einelti frá barnæsku. Í Morgunblaðinu hefur ungur maður nú ákveðið að deila með lesendum vanlíðan sinni og erfiðum tilfinningum sem hann mátti kljást við vegna eineltis í skóla. Hann segir hispurslaust frá því hvernig honum leið - hafi hann þökk fyrir.

Þessi ungi maður segir frá því hvernig hugsanir hans á þeim tímasem eineltið gekk næst honum koma heim og saman við það sem lesa má úr játningum og skilaboðum þeirra sem framið hafa ódæðisverk á skólafélögum sínum á borð við fjöldamorðið sem framið var nú síðast í finnskum framhaldsskóla.  

Ég bendi líka á bloggsíðu Róberts Björnssonar sem varð fyrir einelti í æsku, og fjallar hreinskilnislega um þá reynslu sína. Róbert segir einnig frá því hvernig umfjöllun hans varð í reynd til þess að opna augu eins af fyrrum skólafélaga hans sem tók þátt í eineltinu gegn honum. Það er líka athyglisvert að lesa viðbrögð Jens Guðmundssonar á sömu síðu, þar sem hann segir heiðarlega frá því hvernig hann lagði félaga sinn í einelti sem barn fyrir það að sá síðarnefndi skaraði fram úr honum í gítarleik. Viðbrögð Jens stöfuðu af því að hann kunni ekki að bregðast við eigin vanmætti gagnvart öðrum.

Einelti er alvarlegt mál - sama hvernig að því er staðið eða á hvaða aldursskeiði það á sér stað. Þess vegna er heldur ekki sama hvernig menn nota hugtakið "einelti". Það er með þetta hugtak eins og önnur ofbeldishugtök, til dæmi "nauðgun", "pynting", "kúgun" , "kvalari", o.fl. að í ýtrustu merkingu sinni eru þau svo grafalvarleg að það er ekki sama hvernig með þau er farið.

Eitt af því sem gerir einelti flókið er að þeir sem taka þátt í því gera sér oft ekki grein fyrir því sjálfir. Þeir taka óbeinan þátt með þögninni, með því að fylgja kvalaranum að málum og láta sér líðan og afdrif fórnarlambsins í léttu rúmi liggja. Þetta er jafnvel gert í nafni einhvers málstaðar - því vitanlega þarf réttlætingar fyrir illverkum. Það þekkjum við frá tímum Gyðingaofsóknanna, McCarty-ismans í Bandaríkjunum, galdraofsóknanna á 17. öld, og þannig mætti lengi telja. Einelti getur að sjálfsögðu beinst gegn hópi fólks og er oft hagsmunadrifið.

Þess vegna viðgengst einelti víða í samfélaginu - víðar en margan grunar. Við sjáum stjórnmálamenn sem lagðir eru í einelti af flokksfélögum og fjölmiðlum ár eftir ár. Sömuleiðis opinbera embættismenn og poppstjörnur.  Einelti á sér oft flóknar félagslegar orsakir sem full ástæða er til að taka alvarlega og reyna að átta sig á. Það getur verið vafið inn í einhverskonar "ágreining" eða "skoðanamun" sem er oft ekkert annað en fyrirsláttur til þess að geta sótt að einstaklingum.

Sérstaklega er mikilvægt að kennarar og uppalendur séu á varðbergi gagnvart einelti í skólum og grípi inn í það umsvifalaust. Dæmin sanna að ef einelti er látið óátalið nærir það heift og haturstilfinningar í brjósti þolenda um leið og það ýtir undir yfirgang og skeytingarleysi gagnvart mannlegum tilfinningum hjá þeim sem komast upp með það.

Þetta er þörf umræða.


mbl.is Ætlaði að pynta þau og drepa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrræðaleysi í Rimaskóla

barnaleikir Skólabyrjunin virðist hafa komið Reykjavíkurborg og stjórnendum Rimaskóla alveg í opna skjöldu, ef marka má þessa frétt. Að minnsta kosta var frístundahúsnæðið sem ætlað var dagvistun barnanna ekki tilbúið. Móðir sjö ára barns stóð bara á tröppunum og fékk ekki umsamda gæslu. Woundering Helmingi húsnæðisins hefur nefnilega verið lokað vegna tilmæla heilbrigðiseftirlitsins  og endurbæturnar munu taka "fjórar vikur" héðan í frá. Það var þá tíminn til að hefja endurbætur, nú þegar sumarleyfum er lokið og skólahúsnæðið á að vera komið í notkun. 

Umrædd móðir fékk engan fyrirvara.  „Ég hef engan tíma til að gera aðrar ráðstafanir, börn á þessum aldri geta ekki verið ein heima,“ segir hún.

Hverskonar stjórnsýsla er þetta eiginlega? Hvað ætluðust stjórnendur til að yrði um börnin? Hvar er  nú sambandið og samráðið milli heimilis og skóla?

Forstöðumaður æskulýðssviðs ÍTR sem hefur með þetta að gera hjá borginni slær úr og í í samtali við mbl.is. Segir að viðgerðirnar á frístundaheimilinu orsaki ekki plássleysið.  Þó kemur fram að „tvær af fjórum stofum verða teknar til viðgerða í senn og mun þetta taka samtals um fjórar vikur“. Sko, aðalvandinn er nefnilega mannekla - það er sko ekki heldur búið að manna störfin. Shocking

 Á meðan bíða 50 börn eftir að komast í þessa vistun.

 I rest my case.


mbl.is Lyklabörn vegna manneklunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærleiksstjórnun á Litla-Hrauni

margretFrimanns Margrét Frímannsdóttir er að gera góða hluti á Litla-Hrauni. Endurhæfingardeildin sem hún hefur komið upp, þar sem fangar fá tilsögn í húshaldi, matreiðslu og þessháttar til að undirbúa þá fyrir athafnir daglegs lífs, er í mínum huga dæmi um betrunarviðleitni þessarar stofnunar sem svo allt of lengi hefur verið geymslustaður fyrir afbrotamenn. Staður þar sem þeir áttu litla möguleika á að skapa sér tækifæri til endurkomu inn í samfélagið. Vonandi er að verða breyting á núna.

Síðasta tiltækið - að fá Margréti Sigfúsdóttur, hússtjórnarskólaskólastjóra og kennara, til þess að kenna föngunum um almennt húshald - á þann hátt sem henni einni er lagið - er frábært framtak. 

"Kærleiksstjórnun" er hugtakið (eða nýyrðið) sem mér kom til hugar þegar ég las um þessa nýjung á Hrauninu. Þessir stjórnunarhættir Margrétar Frímannsdóttur bera vott um umhyggju og uppbyggingu sem er allt of sjaldséð í opinberri stjórnsýslu.

Kærleikurinn er mikils megnugur þar sem hann fær notið sín. Ég óska Margréti Frímannsdóttur til hamingju með það sem hún er að gera og sendi henni og hennar skjólstæðingum bestu velfarnaðaróskir.

 


Brautargengiskonan útskrifuð

ArnarfjordurAgustAtlason  Í dag útskrifaðist ég af Brautargengisnámskeiði sem Impra - Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur staðið fyrir hér á Ísafirði í vetur.  Ég fékk meira að segja sérstaka viðurkenningu fyrir "bestu viðskiptaáætlunina" - og vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið. Blush Það var óvænt ánægja og heilmikil hvatning.

Ástæða þess að ég skellti mér á þetta námskeið var sú að mig hefur lengi langað til þess að standa fyrir stofnun söguseturs eða -sýningar um Spánverjavígin 1615. Ég sé fyrir mér afþreyingarsafn og sýningu ekki ósvipaða Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt leiðsöguferðum um söguslóð þessara dramatísku atburða þegar héraðshöfðingjar hér vestra - með Ara í Ögri fremstan í flokki - eltu uppi Baskneska hvalveiðimenn, sem hér höfðu lent í skipstrandi, og stráfelldu þá í tveimur aðförum 1615. Þessi atburður á engan sinn líka í Íslandssögunni - og af honum má ýmislegt læra um samfélag 17. aldar, atburða- og atvinnusögu okkar, hugmyndasöguna og margt fleira. Safnið gæti öðrum þræði verið fræðasetur þar sem fræðimenn gætu dvalið til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir sínar. Það gæti verið vettvangur menningarviðburða og menningartengsla auk þess að bjóða upp á margvíslega afþreyingu og fróðleik.

Þegar ég, fyrr í vetur, fékk svo undirbúningsstyrk úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og frá félagsmálaráðuneytinu til að vinna viðskiptaáætlun, þá var að hrökkva eða stökkva.

Þannig að ég fjárfesti einfaldlega í þessu Brautargengisnámskeiði - hugsaði með mér að það gæti verið gaman að skipta aðeins um gír og læra eitthvað nýtt. Brautargengisnámskeiðin eru ætluð konum í frumkvöðlaverkefnum. Og þarna hef ég setið á miðvikudögum, ásamt tíu konum hér úr nágrenninu, og stúderað innstu rök markaðs- og rekstrarfræða, bókhalds- og fjármögnunaráætlanir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Leiðbeinendur okkar hafa verið allir af vilja gerðir að aðstoða okkur og kenna - og satt að segja var þetta ný og áhugaverð reynsla fyrir mig. 

Í dag vorum við svo útskrifaðar allar saman - með ræðum, blómum, skírteinum og viðurkenningum. Halo

Með þá hvatningu í veganesti býst ég við að hóa saman hinum væntanlegu samstarfsaðilum. Og hjóla svo í sveitarstjórnirnar hér í kring, þingmenn kjördæmisins og væntanlega fjárfesta og kynna þeim áætlunina.

Nú sjáum við hvað setur. Wink


Dimmitantar vekja gamla skólameistarann sinn

 dimmisjon08 Ég vaknaði við hávaða í morgun, gaul og trommuslátt. Klukkan ekki nema rétt rúmlega sex. Hundurinn var órólegur og þegar ég nuddaði stírurnar úr augunum rann það upp fyrir mér að vorboðarnir voru komnir fyrir utan húsið mitt. Dimmitantarnir úr Menntaskólanum á Ísafirði að kveðja gamla skólameistarann sinn.

Þegar ég kom út á svalirnar, heldur úfin og argintætuleg í morgunsárið, höfðu þau raðað sér upp. Um það bil fjörtiu sætir, litlir póstmenn - eða voru þau Super Mario ? - ég er ekki viss. En svo mikið er víst að þau brustu þau í söng: 

"Það er sárt að sakna, einhvers - lífið heldur áfram til hvers" sungu þau sterkum rómi, og héldu áfram: "Er ég vakna, Ó - Ólína þú er ekki lengur hér!"

Það var þung áhersla á Ó-ið og svo aukataktinn í Ólína. Augljóslega vel æft. Svo skelltu þau sér beint í "Gaudeamus" sem þau sungu með prýði og virtust kunna ágætlega.

Eins og fyrri daginn hlýnaði mér um hjartaræturnar. Eftir nokkrar kærleikskveðjur héldu þau svo för sinni áfram, og ég stóð eftir með kveðjuþela fyrir brjóstinu, og eitthvað í auganu.

Ennþá finnst mér ég eiga svolítið í þeim - og svo sannarlega eiga þau heilmikið í mér.

Heart

Takk fyrir heimsóknina elskurnar - megi lífið brosa við ykkur eins og sólin gerði í morgun.


Til hvers mannanafnanefnd?

l_gallery46deb374c6ea2 Vinkona mín sendi mér að gamni lista  sem nú gengur eins og logi yfir akur á netinu. Þetta var sagður listi yfir þau nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt. Mér þótti listinn svo sundurgerðarlegur að ég vildi ekki trúa honum. Svo ég lagðist í svolitla rannsókn.

Það tók ekki langa stund með leitarinnslætti í úrskurðum mannanafnanefndar að sjá að fyrrnefndur listi er býsna sannverðugur. Þó að nöfnin Ljósálfur, Dreki og Kaktus finnist ekki í úrskurðum mannanafnanefndar, þá eru þar nöfn eins og Kristall, Kópur, Kveldúlfur, Hraunar, Hnikar, Skefill, Sírnir, Skæringur, Galdur og Grani. Sömuleiðis kvennanöfnin Kapítóla, Kaðlín, Randalín, Venus, Vígdögg, Stjarna, Blíða, Þrá og Ósa.

Í lögum um mannanöfn segir í 5. gr. að nafn megi ekki vera þannig að það sé nafnbera til ama. Við getum auðvitað deilt um fagurfræðina - en ég öfunda ekki dreng sem þarf að bera nafn á borð við Kveldúlfur Kópur eða Skæringur Sírnir. Og ekki vildi ég heita Kaðlín Ósa, Randalín Venus, Blíða Þrá, eða Kapítóla Stjarna.

Þó að nöfn eins og Kristall, Venus, Blíða og Stjarna hafi fallega merkingu þá get ég ekki að því gert að mér finnst þau fara betur á búpeningi en börnum.

Þetta er sjálfsagt smekksatriði - maður getur svosem aldrei deilt um smekk. 

Hinsvegar spyr ég mig að því til hvers við séum með mannanafnanefnd þegar það virðist nokkuð ljóst að hún getur ekki með nokkru móti framfylgt þessari 5. gr. mannanafnalaga - og reynir það ekki. Megintilgangur nefndarinnar virðist vera sá að tryggja að eignarfallsendingar falli að íslensku málkerfi. Um merkingu og áferð nafna hirðir nefndin ekki, enda ægir öllu saman í úrskurðum hennar, íslenskum og erlendum nöfnum innanum nafnskrípi sem enginn skilur.

Mætti ég þá frekar biðja um nefnd sem verndar lítil börn fyrir því að sitja uppi með nafnskrípi sem þau líða fyrir og þeim er strítt á - skítt með eignarfallsendingarnar. Angry


Athyglisvert

Hefði rektor getað áminnt Hannes áður en dómur var fallinn, úr því starfs- og siðareglur innan háskólans voru álitnar ófullnægjandi? Varla.

Var ekki einmitt verið að bíða afdráttarlausrar niðurstöðu dómstóla, svo enginn vafi léki á um brotið - svo hægt yrði að bregðast við því með viðeigandi hætti? Það hélt maður.

Nú er þessi bið - fjögur ár - orðin að ástæðu til þess að aðhafast ekki í málinu.

Athyglisvert.

Samt er felldur efnislegur áfellisdómur. Rektor telur brotið "efnislega verðskulda áminningu" eins og segir í bréfinu. Sú verðskuldaða áminning er þó ekki veitt vegna "þess stranga lagaramma sem skólanum er gert að fylgja."

Sé þetta tilfellið - þá er kannski kominn tími til að endurskoða stjórnsýslulögin. Kannski er það bara hin sára staðreynd, að stjórnsýslulögin geti ekki l lengur verndað opinberar stofnanir fyrir brotum starfsmanna. Kannski eru lögin bara óljós loðmulla sem skilur bæði hið opinbera og starfsmenn þess eftir í réttaróvissu. 

Ég er þó ekki viss um að svo sé. Hið "flókna" í þessu máli er ekki endilega löggjöfin sjálf, heldur hefðirnar sem skapast hafa við beitingu hennar. Eða ætti ég að segja skorti á beitingu hennar. Því yfirstjórnir ríkisstofnana veigra sér við því í lengstu lög að láta reyna á stjórnsýslulögin - og menn eru hreint ekki á einu máli um valdsheimildir þeirra. Það er nú vandinn.  Annar vandi - og kannski enn stærri - er skortur á siðareglum og/eða hefðum fyrir beitingu þeirra innan háskólans.

Þetta vefst þó ekki fyrir þeim við Háskólann í Durham í Bretlandi, ef marka má þessa frétt. Umræddur deildarforseti vék úr starfi um leið og ásakanir komu fram á hendur honum um ritstuld. Hann var svo rekinn meðan rannsókn fór fram og að því loknu sviptur doktorstitli sínum.

Já, ólíkt hafast þeir að háskólarnir í Durham og við Suðurgötu - en ekki skal ég fullyrða um lagaumhverfi þeirra hvors um sig. 


mbl.is Átelur vinnubrögð Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skal með Hannes?

kristin1 Já,  hvað á háskólarektor að gera við Hannes Hólmstein Gissurarson nú þegar hæstiréttur hefur dæmt hann fyrir ritstuld? Vefsíðan kistan.is hefur undanfarinn sólarhring beint nokkrum spurningum til háskólasamfélagsins um þetta mál. Af þeim svörum sem komin eru er ljóst að menn vilja að háskólarektor aðhafist á einhvern hátt og að menn telja dóm hæstaréttar eðlilegan.

HannesHolmstetinn 

Salvör Gissurardóttir bloggar í dag um þetta tiltæki kistunnar.is og telur að þarna sé ómaklega vegið að Hannesi bróður hennar. Hann sé þarna hafður að háði og spotti. Það er full ástæða til þess að hafa það sjónarmið í huga að hugsanlega fari menn offari í þessu máli. Söfnun álita eins og á sér stað á kistunni.is getur orkað tvímælis - því með henni er hætt við að það myndist sveifla eða stemning sem kannski er ekki nægilega yfirveguð. Aðgerðarleysi  og þögn háskólans á þar trúlega nokkra sök.

 

Þó er ég ekki sammála bloggvinkonu minni Salvöru. Þeir fræðimenn sem tjá sig á vefsíðu kistunnar eru (flest)allir að gera það af af einurð sýnist mér. Ég er ein þeirra sem svaraði spurningum vefsíðunnar og gerði það af fullri alvöru, þó ég hefði ekki mörg orð. Fólki finnst að rektor - eða yfirstjórn háskólans - eigi að bregðast við. Fólki líður illa með stöðu málsins eins og hún er. Þetta verður að virða og það er full ástæða líka til þess að þetta komi fram.

Mál Hannesar hefur leitt eitt gott af sér - og það er umræðan og aukin vitund um meðferð ritheimilda í fræðiskrifum.  

Dr. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, kemur inn á það mál í sínu svari  til kistunnar. Þar vekur hann athygli á þeim plagsið fræðimanna að stela verkum og hugmyndum með því að vitna ekki í frumheimildir, heldur milliliði. Höfundur A setur fram hugmynd eða kenningu sem B tekur upp. Síðan kemur C og notar kenninguna með því að vitna í B en ekki A.

Fyrir þessu hafa margir orðið, m.a. Gísli sjálfur, ég og margir fleiri. Þessi umræða er löngu tímabær - og mál til komið að hrista háskólasamfélagið aðeins til varðandi þetta, því þarna eiga margir sök.

Þó að svar Gísla sé yfirvegað og sett fram af sanngirni, get ég þó ekki tekið undir allt sem hann segir. Hann telur til dæmis að háskólayfirvöld geti ekki vikið Hannesi úr starfi vegna þess að hann hafi ekki brotið hegningarlög.

Brot í starfi þarf ekki að snúast um almenn hegningarlög - heldur gildandi starfsreglur. Séu þær brotnar, þá hlýtur viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að bregðast við. Það er svo kaleikur yfirstjórnar stofnunarinnar að bregðast rétt við - en þann kaleik vill sjálfsagt enginn taka af háskólarektor eins og sakir standa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband