Háskóli er bara hugtak!

hi Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.

Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt  enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt  að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum “og þegar við á í námseiningum háskóla” segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða. 

Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla

Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni – sem vonlegt er – því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um  framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.

Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins. 

Hvað er háskóli?

Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem “jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla”. Háskóla er ætlað að “veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar” (lög nr. 136/1997, 2. gr.).

Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli – háskóli er auðvitað bara hugtak.

Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana,  einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.

Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábærar pælingar hjá þér Ólína.

Kristín Helga (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband