Færsluflokkur: Vefurinn

Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!

Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.

Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.

Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

 

Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga

 

Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins.

Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.

  • endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan
  • skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.

Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Undirskrift hér.

 

Heit mitt og játning

KubburOddurJonsson Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.

Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum.  Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.  

Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.

Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.

1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.

2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.

Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.

 

----------

Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.


Vonartýran kviknar

bardastrond Efnahagshrun þjóðarinnar er ekki eini vandinn sem við er að eiga í dag. Það sem ég óttast mest um þessar mundir er hið andlega hrun sem fylgt gæti kjölfarið. Og meðan reiðialdan rís sem hæst er hætta á því að lýðskrumarar og eiginhagsmunaseggir sveifli sér upp á ölduna til að láta hana bera sig að ströndum nýrra áhrifa, athygli og valda ... án þess þó að neitt annað breytist.

Sú umræða sem hér hefur orðið á síðunni minni síðustu daga um boðun stjórnlagaþings og stofnun nýs lýðveldis sýnir glöggt að almenningur á Íslandi þráir að sjá vonarljós í þokunni.  Hugmyndin um nýtt lýðveldi felur í sér ákveðna lausn - við getum kallað það geðlausn. En fólk þráir að geta horft fram á nýtt upphaf. 

Vitanlega felst nýtt upphaf í uppgjöri og endurreisn sem tekur sinn tíma. Fjármálakerfið er jú hrunið og það mun taka langan tíma að koma því á lappirnar aftur. Skúrkarnir í sögunni þurfa sín málagjöld. Tíminn sem þetta tekur er sársaukafullur.

En það er fleiri verk að vinna. Og þau verk þurfa ekki að vera svo tímafrek. Það þarf ekki að taka svo langan tíma að smíða nýja stjórnarskrá og semja samfélaginu nýjar leikreglur. Lögspekingar, siðfræðingar, hagspekingar og fleira vel hugsandi fólk gæti unnið slíkt verk á fáum mánuðum. Umræða um endurnýjun stjórnarskrárinnar er jú ekki ný af nálinni, og það er vel vinnandi vegur að koma saman góðum hópi fólks til þess að smíða það helgiskrín sem stjórnarskráin á að vera. 

Hér á síðunni minni hefur verið rætt um þá grunnhugmynd að kjósa til stjórnlagaþings sem sæti í 6-12 mánuði og hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem leggði grunn að nýju lýðveldi. Um hana yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla, síðan alþingiskosningar eftir nýju stjórnarskránni.  Þetta gæti átt sér stað eftir tveimur leiðum.

A) með þáttöku alþingis og núsitjandi ríkisstjórnar sem héldi áfram að stjórna landinu óháð stjórnlagaþingi

B) með myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar (eða einhverskonar útfærslu af hvoru tveggja)

Til að þrýsta á stjórnvöld að hleypa þessu umbótaferli af stað mætti kalla saman hóp málsmetandi Íslendinga. Það fólk gæti lagt málið upp, þ.e. samið góða ályktun eða áskorun á stjórnvöld þar sem sett yrði fram skýr og einföld krafa um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis. Efnt yrði til undirskriftarsöfnunar við þá ályktun á netinu og síðan - þegar komnar væru 20-50 þús undirskriftir - yrði gengið á fund forseta og forsætisráðherra.

Nú eru nokkrir "málsmetandi" aðilar farnir að tala saman. Wink Ekki get ég fullyrt um hvað út úr því kemur, en vonandi verður það eitthvað gott. Hér er ekki verið að tala um stofnun nýs stjórnmálafllokks heldur einfaldlega að mynda þrýsting með undirskriftarsöfnun.

Ég mun halda lesendum upplýstum eftir því sem tilefni gefst til á næstunn.

Íslandi allt!


Flokkunarkerfið á mbl mætti bæta

Á meðan allt logar hér á bloggsíðunni minni í umræðum um stofnun nýs lýðveldis - já, á meðan verið er að kanna hvað raunhæft sé að gera til að koma af stað fjöldahreyfingu um málið -  þá ætla ég að nota tímann til að gera athugasemd við stjórnendur moggabloggsins vegna flokkunarkerfisins. Það mætti nefnilega bæta.

Nú hef ég að undanförnu verið að tjá mig töluvert um ástandið á Gaza. Flokkunarkerfið gerir ekki ráð fyrir því að hér sé bloggað um stríðsátök, utanríkismál, nú eða alþjóðamál almennt, heldur bara Evrópumál eða stjórnmál og samfélag. Margt af því sem ég blogga tengist t.d. heimspeki og hugmyndastefnum (ekki bara trúmálum), fjölmiðlum (ekki bara sjónvarpi), kjarabaráttu, mannréttindum, löggæslu, siðferðismálum o.þ.h. Enginn þessara umræðuefna á sér málaflokk í kerfinu á mbl.is. Woundering

Hér vantar víðtækara flokkunarkerfi.

Þetta er nú svona vinsamleg ábending sett fram til umhugsunar. Smile


Ekki hernaður heldur útrýming

Þeir smöluðu á annað hundrað Palestínumönnum inn í hús - helmingurinn var börn - og létu svo sprengjum rigna á bygginguna.

Þetta er ekki hernaður - þetta er útrýming.

Svo standa málsvarar Hamas keikir (hér) og segjast aldrei muni gefast upp!

Þvílíkt brjálæði - þvílíkur djöfulskapur.

Hvar er fordæming Utanríkismálanefndar Alþingis? Hana skipa:

Fyrir Sjálfstæðisflokk: 
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir

Fyrir Samfylkingu: 
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson

Fyrir stjórnarandstöðu: 
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.

 


mbl.is Sprengdu hús fullt af fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dáðleysi í utanríkismálanefnd

gaza3 Ég er sammála Steingrími J Sigfússyni núna. Ég er sorgmædd yfir dáðleysi utanríkismálanefndar og vona heitt og innilega að meirihluti nefndarinnar skoði betur eigið hugskot og hjarta. Mér finnst við hæfi að rifja upp hér hverjir það eru sem eiga sæti í utanríkismálanefnd. Sjálf ætla ég að taka vel eftir því hvernig atkvæði falla í nefndinni þegar kemur að endanlegri afgreiðslu málsins.  Nefndin er þannig skipuð ...

Fyrir Sjálfstæðisflokk: 
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir

Fyrir Samfylkingu: 
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson

Fyrir stjórnarandstöðu: 
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.

 

--------------------------

PS: Annars finnst mér efnisflokkunin hér á moggablogginu vera orðin úrelt - hér virðist ekki vera hægt að flokka færslur um utanríkismál, stríð og hernað eða neytendamál svo dæmi séu nefnd. Þessi færsla á t.d. enga flokkun í kerfinu - svolítið bagalegt stundum.


mbl.is Deilt um stjórnmálasamband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skömm og sómi ... í sama fréttatíma!

 Ég er heilshugar fegin (já, og stolt af því) að Ingibjörg Sólrún skuli nú hafa tekið af skarið og fordæmt innrás Ísraelshers á varnarlausa borgara á Gaza. Þess meira undrandi (já, og hneyksluð) er ég á því að menntamálaráðherra skyldi í útvarpsfréttum í morgun tjá sig um ástandið á Gaza eins og hún væri þess umkomin að tala um utanríkismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Hvað gekk Þorgerði Katrínu til? Er hún að storka utanríkisráðherra? Er hún að storka stjórnarsamstarfinu? Það var nú ekki eins og menntamálaráðherrann hefði mikið eða viturlegt um málið að segja - það sem hún sagði var bara hugsunarlaus upptugga af ummælum Bush frá í gær. Þarna finnst mér Þorgerður Katrín hafa gengið of langt - hún varð sér einfaldlega til skammar.

Hvenær hefði það gerst að utanríkisráðherra færi í útvarpsviðtal til þess að svara fyrir pólitíska afstöðu ríkisstjórnarinnar í menntamálum? Það er orðið þreytandi að sjá þennan tiltekna ráðherra hlaupa til hvenær sem færi gefst í viðtöl. Nú síðast vegna þess að það náðist ekki strax í forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann - til þess að segja svo ... eiginlega ekki neitt af viti.

Þeir vita það þá hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni - næst þegar ekki næst samband við menntamálaráðherrann í eina eða tvær klukkustundir - að þá er þeirra tækifæri til þess að tala um menntamál í útvarpið. Sérstaklega ef þeir vilja tjá skoðanir sem eru á skjön við afstöðu fagráðherrans.

Er hægt að vinna með fólki sem hagar sér svona?


mbl.is Fordæmir innrás á Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins er mótmælt á Ísafirði!

                                                  

BókhlaðanÞað verða þögul mótmæli á Silfurtorginu á Ísafirði kl. 15:00 í dag - loksins. Ég ætla svo sannarlega að mæta. Það er tími til kominn að þjóðin standi með sjálfri sér. Það er líka brýnt að almenningur í landinu láti þá ekki eina um að mótmæla sem gengið hafa um með eignaspjöllum og offorsi að undanförnu, eins og á Hótel Borg á gamlársdag. Það er óþolandi ef framganga þess fólks verður til þess að koma óorði á friðsamar mótmælastöður almennings.

Ég ætla því að mæta á Silfurtorgið í dag - og ég vona svo sannarlega að sem flestir mæti á Austurvöll til friðsamlegra mótmæla.

Þetta verður þögul mótmælastaða án formlegrar dagskrár.

Já, loksins spratt upp friðsamleg grasrótarhreyfing hér á Ísafirði. Framtakið hefur verið að vinda upp á sig í morgun. Engar opinberar fréttatilkynningar eða auglýsingar, bara sms-skeyti og boð á Facebook og blogginu. Sannkallað grasrótarstarf.

Vonandi verður þetta upphafið að vikulegum mannsæmandi mótmælum hér á Ísafirði framvegis.


Það er nóg komið

gaza3 Hafi einhvern tíma verið í hugskoti mínu snefill af samstöðu með Ísraelsmönnum - einhver  minnsti vottur af skilningi á aðgerðum þeirra og afstöðu gagnvart Palestínumönnum - þá er hann nú fokinn út í veður og vind eftir síðustu atburði á Gaza. Árásir Ísraelsmanna á Palestínumenn um þessi jól eru yfirgengilegt grimmdarverk og ekkert annað.

Það er nóg komið af þögn og meðvirkni heimsins gagnvart yfirgangi Ísraelsmanna og grimmd þeirra í garð Palestínumanna. Það er óþolandi að horfa upp á annað eins og þegja.Palestina

Nokkrir þjóðhöfðingjar hafa nú þegar harmað atburðina á Gaza og sent yfirlýsingar þess efnis til heimspressunnar. En það er bara ekki nóg. Það á að sýna Ísraelsmönnum vanþóknun í verki - slíta öllu sambandi við þá og viðskiptum. Það eigum við Íslendingar líka að gera, þó við séum lítil þjóð og fámenn.

Ég veit vel að það breytir sjálfsagt engu fyrir gang mála hvað okkur finnst. En samvisku okkar og sjálfsvirðingar vegna megum við ekki sitja þegjandi og aðgerðalaus. Það minnsta sem við getum gert er að fordæma þessa framgöngu Ísraelsmanna afdráttarlaust og láta sjást að við viljum engin samskipti við þá sem haga sér svona. 

 

gaza


mbl.is Yfir 1.700 særðir á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum ber að biðjast afsökunar?

orgerur_Katrn_Heia_jpg_550x400_q95"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.

Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.

Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu  (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars? 

Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.

Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt.  Að þurfa ekki að standa skil á einu eða  neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann. Angry

 

----

PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband