Færsluflokkur: Vefurinn

Lúsaleit á bloggsíðunni - hvað skyldu þeir finna?

Nú er augljóslega verið að lúsleita bloggsíðuna mína. Venjulega eru flettingarnar helmingi fleiri en innlitin. Þessa dagana eru þær hins vegar tugfalt fleiri. Einn morguninn um níuleytið voru komnar 1500 flettingar þó að innlitin væru innan við 20 - það gera 75 flettingar á hvert innlit. Whistling

Menn hafa auðvitað gott af því að lesa vel það sem ég hef skrifað undanfarin tvö ár. Trúað gæti ég að þeir yrðu bara betri á eftir. Wink

Annars er ég kúguppgefin. Búin að þeytast um allt Snæfellsnesið síðan á miðvikudag. Í dag lá leiðin suður á Akranes þar sem haldið var kjördæmisþing og endanlegur framboðslisti samþykktur með lófataki.  Þessi líka flotti listi (sjáið hér).  Ef marka má síðustu Capacent könnun erum við með þrjá þingmenn í kjördæminu.  

Á morgun  vonast ég til að geta hvílt mig. En á mánudag er stefnan tekin norður í land þar sem ég ætla að kíkja inn í fyrirtæki og hitta fólk, eins og á Snæfellsnesinu.

Þó ég sé lúin í augnablikinu hlakka ég til.


Athyglisverð skrif um "Enron-verðmyndun" í íslenskum sjávarútvegi

fiskveiðarGetur verið  að dularfullar "verðhækkanir" fiskveiðiheimilda hafi átt uppruna sinn ofarlega í bankakerfinu  og viðskiptabankarnir hafi haft mikla og beina hagsmuni af því að lána útgerðarfyrirtækjum sem allra mest - til að styrkja rýrnandi lausafjárstöðu sína?

Þannig spyr Kristinn Pétursson í athyglisverðri bloggfærslu sem ég hvet ykkur til þess að lesa.

Voru útgerðarmenn hugsanlega blekktir til aukinnar lántöku? Sóttust viðskiptabankarnir eftir veði í aflaheimildum - hugsanlega til að skapa  sjálfum viðskiptabönkunum nýtt lausafé? ... 

... spyr hann ennfremur.

Það sem Kristinn gerir hér að umtalsefni er það sem hann nefnir "Enron verðmyndun" í sjávarútveginum.  Enron hafði áhrif á raforkuverð í USA með skipulögðum raforkuskorti. Kristinn leiðir rök að því að sama hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með skipulögðum hætti. Verðmyndunin hafi byggt á samráði þar sem framkallaður hafi verið skortur á veiðiheimildum sem aftur hafi verið nýttur til óraunhæfrar verðhækkunar aflaheimilda.

Hann styður mál sitt vel og með athyglisverðum gögnum. Málið - skoðað í þessu ljósi - er sláandi. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur sé undirlagður sömu  meinsemdum og urðu íslensku fjármálakerfi að falli.

Málið þarfnast rannsóknar.

 


Spennan eykst: Prófkjörinu lýkur í dag og hér eru leiðbeiningar :-)

uppskera Í dag er 8. mars: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Vonandi mun þessi dagur færa okkur konum drjúga uppskeru - það væri vissulega gaman.  Nú er spennan í hámarki í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Rafrænni kosningu lýkur kl. 16 og þá kemur í ljós hverjir hafa haft erindi sem erfiði í baráttuna. Smile

Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir frá kjósendum varðandi rafkosninguna. Þeir sem ekki hafa heimabanka verða að mæta hjá næsta umboðsmanni og fá afhent lykilorð sem þeir kvitta fyrir. Þeir geta svo valið hvort þeir kjósa hjá umboðsmanni eða taka lykilorðið heim og kjósa í eigin tölvu.

Hér er skrá yfir umboðsmenn í kjördæminu ásamt símanúmerum. 6bokasafnÁ Ísafirði er umboðsmaðurinn Benedikt Bjarnason og hann verður til staðar í kosningamiðstöð okkar í Langa Manga, s. 825-7808.

Ég veit að sumir hafa lent í baksi með lykilorðið í heimabankanum og hér eru  leiðbeiningar um það. Athugið að lykilorðið kemur ekki í formi skilaboða í heimabankann heldur þarf að fara í rafræn skjöl (t.d. hjá Kaupþingi) eða netyfirlit (t.d. í Íslandsbanka).

Ég hef að undanförnu bloggað um mín helstu áherslumál, til dæmis hér og hér.

Svo sjáum við hvað setur. Nú er frost og fjúk hérna á Ísafirði, þannig að margir eru sjálfsagt fegnir því að geta bara kosið í rólegheitunum í eigin tölvu.

 


Ungir menn í gamalli klækjapólitík

Nú eru leikfléttur Framsóknarmanna farnar að taka á sig undarlegar myndir. Í gær greiddi Höskuldur Þórhallsson atkvæði með tillögu Sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd Alþingis um að fresta afgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins  þar til í dag. Svo mætir hann ekki á fund nefndarinnar í morgun og málið er fast í nefndinni.

Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Halda menn virkilega að svona klækjapólitík sé að skora eitthvað hjá fólki um þessar mundir? Þetta sé það sem fólk vilji sjá í kreppunni?

Þegar Framsóknarflokkurinn kaus sér nýja forystu á dögunum töldu ýmsir - ég þar á meðal - að nú væri gamla framsóknar-maddaman að ganga í endurnýjun lífdaga með ungt og sprækt fólk í sinni framvarðarsveit. Já - ég trúði því meira að segja að þessum mönnum væri einhver alvara með því að lofa ríkisstjórninni hlutleysi sínu: Að þeir ætluðu virkilega að greiða fyrir því sem gera þyrfti - myndu a.m.k. ekki þvælast fyrir.

Nú lítur út fyrir að þeim hafi ekki verið sú alvara sem ætla mátti. Á bak við andlitslyftinguna og hina unglegu  ásýnd tinar gamli ellihrumi Framsóknarflokkurinn með sína klæki og klíkur, leikfléttur, samsæri og tilheyrandi paranoju sem við höfum þegar séð merki um, m.a. hjá formanninum unga.

Birgir Ármannsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd er sigri hrósandi yfir því að málið muni ekki komast á dagskrá Alþingis í dag þar sem nefndin hefur ekki enn lokið umfjöllun sinni. Já, hann er kátur yfir því að þeim tókst að tefja. Það var víst markmiðið að tefja, tefja, tefja ....

Jahjarna - segi ég nú bara.


mbl.is Ekki rætt um Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaskjálfti í formanni Framsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins heldur því fram í samtali við Fréttablaðið að Samfylkingin hafi lagst í rógsherferð gegn sér. Errm

Samfylkingarmenn líta hver á annan og koma af fjöllum. Hvernig er hægt að halda uppi skipulagðri rógsherferð án þess að nein merki séu um það í tölvupóstum eða öðrum samskiptum milli flokksmanna?

Skráðir félagar í Samfylkingunni fá tölvupósta frá kjördæmisráðum, flokksskrifstofunni og ýmsum málefnahópum innan flokksins - og ég verð bara að segja eins og er, að hvergi í þessum orðsendingum er vikið einu orði að formanni Framsóknarflokksins.

Ummæli formannsins unga eru þess vegna bara paranoja - kosningaskjálfti. Þau eru að mínu mati ekki aðeins óréttmæt heldur líka ósmekkleg. Það litla sem ég hef heyrt rætt um þennan unga mann meðal Samfylkingarfólks er allt á jákvæðum nótum.

Stjórnarflokkarnir hafa  öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa þessa dagana en að elta ólar við persónuhagi Framsóknarmanna - þeir eru nefnilega að sinna endurreisn samfélags. 

Ég efast um almenningur hafi mikinn áhuga eða þolinmæði fyrir umræðu af þessu tagi.


Á leið í framboð?

hissa Ég hef lesið það á netinu - haft eftir DV - að ég sé á leið í framboð fyrir nýtt stjórnmálaafl. Þegar nánar er rýnt í þessar fréttir sem m.a. hafa birst á bb.is og visir.is má sjá að þetta eru getgátur sem hver hefur eftir öðrum. Ég sé ekki betur en fréttin sé sú  mest lesna á bb.is þennan sólarhringinn.

Það er einmitt.

Enginn þessara ágætu fjölmiðla hafa séð ástæðu til að spyrja mig sjálfa um þetta mál. Er ég þó skilmerkilega skráð í símaskrá með bæði heimsíma og gsm númer.

Því er til að svara að ég stend ásamt fleirum að þverpólitískri undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is ásamt fleiri góðum Íslendingum. Sá hópur er ekki stjórnmálaafl og er ótengdur öllum hagsmunaöflum og stjórnmálaframboðum.

Ég er því ekki á leið í þingframboð fyrir nýtt stjórnmálaafl sem stofnað kann að verða um þessa einu kröfu: Nýtt lýðveldi.

Ég sé heldur enga þörf á slíku stjórnmálaafli um þessar mundir þar sem svo virðist sem sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum hafi tekið þetta mál upp á sína arma.


Krafan um nýtt lýðveldi er ennþá brýn!

logo Ég verð þess vör, nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar, að það er eins og spennufall hafi orðið meðal almennings. Samfélagið heldur niðri í sér andanum og bíður þess sem verða vill. Ég sé þetta m.a. á því að nú hefur hægt á hraða undirskriftanna á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is

Ekki veit ég hvort fólk heldur að krafan um boðun stjórnlagaþings og nýja stjórnarskrá standi og falli með nýrri ríkisstjórn. Sannleikurinn er sá að svo er ekki. Áskorun okkar á alþingi og forseta að boða til stjórnlagaþings er jafn brýn eftir sem áður - án tillits til þess hvaða stjórnarmynstur verður ofan á. Hinsvegar virðist sem óskin um utanþingsstjórn sé ósk gærdagsins, ef svo fer sem horfir að ný ríkisstjórn verði mynduð í dag. Gott og vel, þá leggjum við þann lið áskorunarinnar til hliðar verði það niðurstaðan.

En krafan um Nýtt lýðveldi er enn brýnni en nokkru sinni - og betur má ef duga skal við að koma þeirri kröfu almennilega til skila.  Hér er vefsíðan.

 


Nýtt lýðveldi er ekki stjórnmálaframboð

althingi2 Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni um Nýtt lýðveldi á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is erum ekki stjórnmálaframboð. Best að þetta sé alveg á hreinu - því það er einhver misskilningur í gangi núna. Í kvöld fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sem vildi ræða við mig um framboðsmál af því hann taldi að Nýtt lýðveldi og Lýðveldisbyltingin sem rekur vefsíðuna www.lydveldisbyltingin.is væri sami hópur. Svo er ekki. Báðir hópar styðja þó sama málstað að því er virðist og það er ágætt.

Þetta er meðal þess sem bar á góma í þættinum "Í býtið" í  morgun, en þangað mætti ég í spjall við Kollu og Heimi (hlusta hér).

Allmargir hafa spurt mig hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa tvo hópa og sameina þar með kraftana. Um það vil ég segja þetta:

Ein krafa - ólíkir hópar: 

Krafan um utanþingsstjórn (eða einhverskonar þjóðstjórn), stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkunum og meðal fjölda fólks sem stendur utan við alla pólitík. Það er margt sem skilur þetta fólk að, en eitt sem sameinar það: Nefnilega krafan um nýtt lýðveldi.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnmálaafls sé ekki besta leiðin til að ná þessu markmiði. Það segi ég með fullri virðingu fyrir því stjórnmálaafli sem nú er verið að stofna utan um þessa kröfu. Það stjórnmálaafl mun etja kapps við hina flokkana fyrir næstu kosningar, eftir gömlu leikreglunum, og kannski fá atkvæðamagn sem einhverju nemur. En í kosningum er spurt um stjórnmálaskoðanir fólks og afstöðu til ótal margra mála sem varða landshagi. Að fara fram meið eitt mál í kosningar, og láta allt annað liggja á milli hluta - það getur orðið erfitt þegar til kastanna kemur, því vitanlega verða alþingismenn að hafa stefnu í flestum málaflokkum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað framboðin standa í veigamiklum atriðum. Hver er stefnan í umhverfismálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, utanríkismálum, virkjunarmálum o.s. frv.

Horfum á það sem sameinar, ekki það sem sundrar 

Við sem stöndum að vefsíðunni Nýtt lýðveldi, tókum afdráttarlausa afstöðu til þess að við værum óháð öllum stjórnmálaframboðum. Við teljum það fljótvirkari og árangursríkari leið að sameina Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, um þessa einu kröfu. 

Við fögnum því ef stjórnmálaflokkarnir taka undir með okkur, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir. En ef undirskriftasöfnunin tekst vel - segjum að það safnist tugþúsundir undirskrifta - þá gæti hún orðið nokkurskonar þjóðarátak á fáum vikum. Krafa sem stjórnvöld hefðu ekki stöðu til að horfa framhjá við núverandi aðstæður.

Að því sögðu skal upplýst að nú rétt fyrir kl 23:00 höfðu 4.868 skrifað undir kröfuna um utanþingsstjórn, stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Ekki amalegt á aðeins þremur dögum. Smile

logo 

 Nýtt lýðveldi


Gott Hörður!

Hörður Torfason er maður að meiri núna - og sjálfum sér líkur - þegar hann hefur beðist afsökunar á óheppilegum orðum sem féllu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Þetta var gott. Heart

Áfram Hörður!


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftarsöfnun um nýtt lýðveldi byrjar vel. Verra með heilsufar forystumanna.

skjaldamerki Vefsíðan www.nyttlydveldi.is fer vel af stað - og þó með brösum. Umferðin á síðunni var svo mikil í gær að hún lagðist hvað eftir annað á hliðina, og aftur fram eftir degi í dag. En nú er búið að koma þessu í lag, vonandi. Og rétt áðan voru komnar ríflega 1800 undirskriftir frá því kl. 15:00 í gær. 

Það er afar leitt að heyra um heilsubrest Geirs H. Haarde. Ég vona innilega að hann nái sér af þessum veikindum og óska honum langra lífdaga.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að andlegt álag og mikil, langvarandi neikvæðni í umhverfinu, skili sér á endanum inn í líkama okkar með tilheyrandi heilsukvillum. Ég er því ekki beint hissa á þessum fréttum. Satt að segja hefði ég eiginlega orðið meira hissa ef ekkert hefði látið undan.

Nú er svo komið að báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar glíma við alvarlegan heilsubrest. Það segir sitt um það hversu mikil áraunin hefur verið. Hún hefur verið ómennskt á köflum. Og varla er það tilviljun að tveir fyrrverandi forystumenn í íslenskum stjórnmálum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafa einnig mátt kljást við illkynja mein. Ekki eru mörg ár síðan Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra hneig niður í beinni útsendingu þegar allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu vegna ákvarðana í heilbrigðismálum, ef ég man rétt.

Það er augljóslega ekki tekið út með sældinni að komast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband