Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Heimsendaspár og hræðsuáróður LÍÚ

fiskveiðar Það er auðséð á þeim ályktunum og yfirlýsingum sem nú dynja á fjölmiðlum um yfirvofandi hrun sjávarútvegsins, gjaldþrot útgerðanna og ... þið vitið, allan pakkann ... að LÍÚ ætlar ekki að vinna með stjórnvöldum að því að leiðrétta hið óréttláta kvótakerfi sem hefur kallað  hrun yfir svo margar sjávarbyggðir á undanförnum 20 árum. 

Nei - njet. Þeir ætla í stríð og eru komnir í skotgrafirnar.

Hræðsluáróður og heimsendaspár - það eru einu orðin sem ég á yfir máflutning þessara manna. Sá málflutningur er grímulaus sérhagsmunagæsla sem á fátt skylt við rökræðu.

Þeir tala eins og það standi til að "umbylta" kerfinu - þegar staðreyndin er sú að menn eru að tala um að endurheimta auðlind þjóðarinnar úr höndum einstaklinga á tuttugu árum. Ná aftur því sem frá byggðunum var tekið á nánast jafnmörgum árum og aldur kerfisins segir til um. Auk þess er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um útfærsluna - já kalla þá að borðinu og gefa þeim kost á að vera með í ráðum.

Samt halda menn áfram í skotgrafahernaðinum - eins fjarri rökræðunni og hugsast getur.

Og þetta skal á sig lagt í vörn fyrir kerfi sem hefur með tímanum þróast í yfirveðsett og ofurskuldsett leiguliðakerfi. Kerfi  þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni. Kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun. Kerfi sem hefur innbyggða samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Innköllun aflaheimilda á áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.


mbl.is Mun setja bankana aftur í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi

fúlgurfjár Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.

 Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.

Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.

Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.

Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á  grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.

Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.


mbl.is Íslendingar falla í fjármálalæsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarvilji - þingvilji

ESBÞessi könnun tekur af öll tvímæli um það að aðildarumsókn í ESB er ekki bara eitthvert gæluverkefni og draumsýn Samfylkingarfólks heldur vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Auðvitað hafa stjórnmálamenn skynjað þetta, hvort sem þeir eru sjálfir hlynntir eða andvígir sjálfri aðildinni. Þess vegna er ástæða til að vona að VG muni samþykkja það að farið verði í þessar viðræður - þau finna vilja fólksins. Og þar sem meira er - þau virðast ætla að virða þann vilja.

Formenn íhaldsflokkanna í stjórnarandstöðu, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hafa farið mikinn að undanförnu með hneykslunarhrópum yfir þeim möguleika sem orðaður hefur verið að þingið fái að ákveða hvort farið verði í aðildarviðræður. Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafa fussað og sveiað og báðir sagt það fjarri þeim að ætla að "hjálpa" Samfylkingunni að fara í aðildarviðræður. Já, þeir tala eins og forystumenn Samfylkingarinnar en ekki fulltrúar þjóðarinnar verði sendir til þessar viðræðna - sem er auðvitað fráleitt. Þeir tala af fyrilitningu til þingsins - virðast telja það veikleikamerki að fela þjóðþinginu aðra eins ákvörðun.

En þegar þingmenn taka til starfa vinna þeir drengskaparheit um að hlýða samvisku sinni. Nú vitum við að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru fylgjandi aðildarviðræðum.  Þá liggur fyrir flokkssamþykkt Framsóknarflokksins um aðildarviðræður. Hvernig ætla þá formenn þessara flokka að múlbinda þingmenn sinna flokka gegn málinu? Halda þeir að það sé rétta svarið við kalli tímans um ný stjórnmál og aukið lýðræði? Halda þeir að það skori hjá almenningi - þessum almenningi sem hefur kosið þingið til starfa fyrir sig (ekki fyrir flokkana).

Já - það verður fróðlegt að sjá hvað gerist ef svo fer að ákvörðun um aðildarumsókn verði vísað til þingsins. Þá mun væntanlega koma í ljós hversu mikils stjórnarandstaðan metur sjálft Alþingi Íslendinga og raunverulegan vilja þess.


mbl.is 61,2% vilja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu er þörf

Stundum er talað um það að sama hugmyndin skjóti rótum á mörgum stöðum samtímis. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessarar kenningar þegar ég las meðfylgjandi frétt um afstöðu ASÍ til þess sem gera þarf fyrir heimilin í landinu. Eitt af því sem samtökin leggja áherslu á er að ráðnir verði "a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar strax til að aðstoða fólk í greiðsluvanda". Síðast í gær sett ég inn þessa bloggfærslu, en þar var ég m.a. að hvetja til þess að gert yrði stórátak í því að veita almenningi fjármálaráðgjöf. Ekki er vanþörf á.

Þar fyrir utan þarf að koma upplýsingum mun betur á framfæri en verið hefur um þau úrræði sem fólki standa til boða í greiðsluvanda. Fjölmiðlar bera þar ríka ábyrgð - sömuleiðis stjórnvöld og fjármálastofnanir.

Vandi skuldsettra heimila eykst dag frá degi. Annars vegar er brýn þörf á björgunaraðgerðum vegna bráðavanda - hinsvegar er aðkallandi að grípa til almennra aðgerða sem létt geta byrðunum af fólki. Þessi úrlausnarefni geta ekki beðið.

Verkalýðshreyfingin hefur nú komið fram með tillögur sem stjórnvöld hljóta að hlusta eftir. Í þeim vanda sem við er að eiga verða allir að hjálpast að. Vinnumarkaðurinn, félagasamtök, menntastofnanir, fjölmiðlarnir og stjórnkerfið.

Þjóðin á heimtingu á því að við núverandi aðstæður leggi menn léttvæg ágreiningsefni til hliðar og sameinist um mikilvægustu aðgerðir og ... hlusti eftir raunhæfum tillögum og góðum ráðum.

 


mbl.is ASÍ vill bráðaaðgerðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hveitibrauðsdagar þingmanna

5mai09Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.

Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér. Cool 

Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.

Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.  

Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því. Wink

-----------

Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.


Fjölmiðlar hafa brugðist

Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í því að upplýsa fólk og útskýra fyrir því þau úrræði sem skuldurum bjóðast sem aðstoð í greiðsluvanda. Það er furðulegt að fjölmiðlar skuli eyða meira púðri í að ýta undir þá falsvon hjá örvingluðu fólki að það geti bara hætt að borga skuldir sínar - að greiðsluverkfall sé valkostur - heldur en að greina frá þeirri aðstoð sem fólki stendur til boða.

Greiðsluverkfall gagnast engum nema kannski innheimtulögfræðingunum, eins og Gylfi Magnússon bendir á. Það gæti hinsvegar leitt af sér annað hrun. Hver er bættari með því?

Nú þegar stendur fólki til boða margvísleg aðstoð í greiðsluvanda, eins og sjá má á listanum hér neðar. Margt mætti auðvitað gera betur og meira af. Til dæmis mætti stórauka frá því sem nú er ráðgjöf til fólks í skuldavanda. Er ekki landið fullt af atvinnulausum bankastarfsmönnum sem  ráða mætti til þeirra starfa að hlusta á fólk í greiðsluvanda, setja sig inn í stöðu þess og aðstoða það við að ráða fram úr honum? Ég veit að það er verið að vinna að heilmikilli ráðgjöf nú þegar - en  slíka ráðgjöf tel ég að mætti margfalda að umfangi. (Þetta er nú svona vinsamleg ábending).

Já, svo mætti auðvitað laga löggjöfina þannig að lántakandinn sitji ekki einn uppi (ásamt ábyrgðarmönnum úr hópi fjölskyldu eða vina) með alla áhættu og ábyrgð af því að hafa þegið lán - heldur beri lánveitendur líka einhvern hluta ábyrgðarinnar og áhættunnar.

Margt fleira mætti auðvitað betur fara. En lítum nánar á þau úrræði sem í boði eru nú þegar:

  1. Skuldajöfnun verðtryggðra lána sem þýða 10-20% lægri greiðslubyrði en ella.
  2. Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána sem þýðir 40-50% lægri greiðslubyrði.
  3. 66% hækkun vaxtabóta.
  4. Útgreiðsla séreignasparnaðar sem nemur 1 mkr á einstakling og 2 mkr á hjón.
  5. Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs hafa verið stórefld og samið við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig, þ.e: a)Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður. b)Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár. c) Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.  d) Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir.
  6. Greiðsluaðlögun samningskrafna - skuldir aðlagaðar greiðslugetu, jafnvel felldar niður ef þarf.
  7. Lögum breytt um ábyrgðarmenn þannig að ekki má lengur ganga að húseign ábyrgðarmanns.
  8. Ekki má lengur skuldfæra barnabætur upp í skattaskuldir
  9. Ekki má lengur skuldfæra hvers konar inneignir hjá ríkinu upp í afborganir Íbúðalánasjóðs.
  10. Frestun nauðungaruppboða fram í ágúst, sé þess óskað.
  11. Aðfararfrestur lengdur úr 15 dögum í 40.
  12. Aukinn stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota.
  13. Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.
  14. Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum.

Nú er mér ljóst að þessi úrræði eru engin töfralausn sem leysir hvers manns vanda. En þau létta álagið mjög og skapa skuldaranum svigrúm til þess að láta enda ná saman og komast af í kreppunni, þar til eðlilegri forsendur skapast í efnahagslífinu.

Fjölmiðlum væri nær að kynna þessi úrræði betur en gert hefur verið heldur en að ýta undir að örvinglað fólk hætti að borga. Þeim væri nær að skýra fyrir fólki hvaða lög gilda í landinu um afleiðingar slíkra aðgerða, heldur en að elta hasarinn og skemmta skrattanum.

Nóg er nú samt í  okkar hrjáða landi. Angry


mbl.is Varar við örþrifaráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maísólin okkar skein í dag

1.maí07.gangan.gústi 1. maí gangan á Ísafirði í dag var sú fjölmennasta frá því ég flutti hingað vestur. Það var frábært að sjá hversu margir fylktu sér á bak við fána verkalýðsfélaganna við undirleik Lúðrasveitar Vestfjarða sem leiddi gönguna. Dagskráin var létt og skemmtileg og ræður góðar.

Ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku er vafalaust efnahags- og atvinnuástandið í landinu. Það er líka vert að vekja á því athygli - eins og einn ræðumanna dagsins benti á - að baráttusöngur verkalýðsins sem ortur var á frönsku árið 1870 á við enn þann dag í dag. Kannski hefur hann aldrei verið betur viðeigandi en einmitt nú - sérstaklega niðurlag fyrsta erindis, sem ég letra hér með rauðu í tilefni dagsins (þýð. Sveinbjörn Egilsson).

Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök
nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burt vér brjótum!
Bræður, fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt vér hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

:/  Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd./:

skutull08Annars var þetta frábær dagur. Við,  félagar Björgunarhundasveitinni, notuðum góða veðrið til þess að taka æfingu með hundana nú síðdegis. Við fórum inn í Álftafjörð þar sem sólin skein á lognværan og sindrandi sjóinn. Það var maísólin okkar. Smile

Við heyrðum í fugli og fundum lykt af rekju og vaknandi gróðri í vorblíðunni. Hundarnir réðu sér ekki af kæti og vinnugleði. Yndislegt.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband