Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Hvar er hátekjuskatturinn?

Jæja, þá er komið að því að boða skattahækkanir - flata 1% hækkun á línuna. Allt í lagi með það - bjóst svosem við einhverjum skattahækkunum eins og á stendur. En hvar er hátekjuskatturinn

Þegar að herðir og leggja þarf auknar byrðar á samfélagið er ekki til mikils mælst þó þeir sem bera meira úr býtum taki á sig aðeins meiri byrðar en hinir. Það er grundvallarhugsun jafnaðarstefnunnar að hver maður leggi af mörkum í samræmi við það sem hann aflar og að allir menn njóti grundvallar lífsgæða.

Flöt skattahækkun á línuna er ekki í anda jafnaðarstefnunnar - síst af öllu eins og á stendur í samfélaginu. Nógu hefur nú almenningur tapað samt.

 

 ----------------------

PS: Og að lokum - til ykkar sem hafið svínað út athugasemdakerfið hjá mér með ómálefnalegum og rætnum athugasemdum um menn, málefni og stjórnmálaflokka síðustu daga: Nú mun ég ekki hika við að henda athugasemdum ykkar út ef mér ofbjóða þær. Angry


Fjölmiðlar eru fjórða valdið

bréfburðurUm þessar mundir reynir mjög á íslenska fjölmiðla að standa sig sem fjórða valdið. Það gera þeir því aðeis að vera á vaktinni, kafa sjálfstætt ofan í mál og halda opinberum rannsóknaraðilum þar með við efnið.

Mogginn hefur boðað að á morgun muni hann fjalla um kaup Baugs á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fréttin í dag fjallar um sérkennileg kaup og eignatengsl milli Kaldbaks, Burðaráss og eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings þar sem Björgúlfur Thor Björgúlfsson hefur setið beggja vegna borðs sem eigandi Samsons annarsvegar og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Burðaráss hinsvegar.

Ég vona að mogginn láti ekki hér við sitja heldur haldi áfram að fletta ofan af hagsmuna- og hugsanlegum spillingartengslum í íslensku fjármálalífi. Ekki veitir af.

 


mbl.is Sami maður beggja vegna borðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju vissi ráðherra ekki?

Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr.,  6. gr. og 7. gr. 

Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði.

Hvernig það vera að viðskiptaráðherra veit ekki hvernig staðið er að þessari rannsókn og hverjir hafa hana með höndum? Hver ber ábyrgð á því að upplýsingar um þetta fyrirkomulag bárust ekki til ráðherrans? Undirmenn hans? Hann sjálfur? Er ráðuneytið kannski ekkert að sinna framgangi málsins - bara ekkert að fylgjast með? Þekkja þeir kannski ekki 9. gr. laganna um Stjórnarráð Íslands (HÉR)  þar sem segir ,,Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana"?

Það er óviðunandi annað en að skýring verði gefin á þessu vitneskjuleysi.

Þeir Atli Gíslason og Lúðvík Bergvinsson ræddu þetta í Kastljósi í kvöld. Atli rökstuddi mál sitt vel. Lúðvík talaði of mikið, greip of oft fram í og sagði of oft "það verða auðvitað mistök". Það er ekkert auðvitað eða sjálfsagt við hugsanleg mistök - síst af öllu þegar menn eiga að vanda sig. Angry

Ef menn (les: ráðherrar) komast ekki yfir það að fylgjast með því sem er að gerast á þeirra eigin heimavelli, þá verða þeir einfaldlega að fá liðsauka. Það er ekki þeirra sjálfra að standa alla pósta,  og sinna öllum verkum. En þeir bera ábyrgð á því að vaktstöðurnar séu mannaðar og upplýsingar berist.


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glimrandi tónleikar; handleggsbrotinn stjórnandi; börn í yfirliði ... semsagt: Viðburðaríkt kvöld

valkyrjurdes06Tónleikarnir okkar Valkyrjanna og stúlknakórsins tókust glimrandi vel í gærkvöldi. Ég fann röddina aftur. Því fór nú ekki eins og Leirverjinn Björn Ingólfsson hafði spáð mér þegar ég kveinkaði mér undan raddþreytu fyrr um daginn:

Frekar illa er frúin stödd,
frá því okkur segjandi
að hún hafi enga rödd
og ætli að syngja þegjandi. Whistling

 

Tónleikarnir tókust bara vel, held ég. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá og heyra á tónleikagestum. Að vísu leið yfir eina stúlkuna í blálokin á tónleikunum, en það náðist að grípa hana áður en hún skall í gólfið. Daginn áður hneig önnur stúlka í yfirlið á æfingu, þannig að þið sjáið að það getur gengið á ýmsu þegar mikið stendur til.

 Eftir tónleikana komum við saman til þess að halda upp á vel heppnað kvöld. Þá vildi ekki betur til en svo að stjórnandinn okkar rann í hálkunni framan við húsið og handleggsbrotnaði. Frown

Þetta skyggði verulega á gleðina - enda varð uppi fótur og fit með tilheyrandi pilsaþyt og rassaköstum eins og gengur í kvennahópi. Það var hringt á sjúkrahúsið og útvegaður bíll. Aumingja Ingibjörgu var troðið í aftursætið með blessunarorðum og fyrirbænum okkar hinna.  Svo var brunað með hana sárkvalda á slysavarðstofuna þar sem búið var um brotið.

Við hinar þurftum að sjálfsögðu að fá okkur hjartastyrkjandi á meðan við biðum þess að fá fréttir af afdrifum Ingibjargar. Já, við þurftum líka að syngja svolítið til þess að róa okkur. Það tók svolitla stund. Svo þegar ljóst var að kórstjórnandinn var beinbrotin, var ekki annað tekið í mál en að ekið yrði með hana framhjá húsinu, svo við gætum komið að bílnum, kysst hana og knúsað í kveðjuskyni.

Já, það er ekki þrautalaust að halda tónleika. Þetta var svo sannarlega viðburðaríkt kvöld og verður lengi í minnum haft.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------- 
PS: Myndin hér fyrir ofan er tekin 2006, stuttu eftir að kórinn var stofnaður.

Sungið og sungið og sungið og .... börn falla í yfirlið!

kórsöngur Ég hef verið að syngja fullum hálsi í allan dag - nú þarf ég að þegja.  Nú vil ég fá að þegja. Lengi.

Um bylgjur ljóssins berast nú
boð um mikinn fögnuð.
Upp á mína æru og trú:
Ólína er þögnuð.

Já, við æfðum af svo miklu kappi í dag að börnin voru farin að hníga niður í yfirlið. Whistling  Jæja - ég á auðvitað ekki að tala í fleirtölu. Það var ein stúlka sem hneig niður. Steinlá, litla skinnið - og pabbinn sótti hana skömmu síðar.

En það var sumsé kvennakórinn Valkyrjurnar sem þarna þandi raddöndin ásamt undurþýðum barna- og stúlknakór. Tilefnið eru tónleikar sem verða í Ísafjarðarkirkju annað kvöld. Þar munum við, flytja Ceremony of Carols og fleira jólalegt við fagran hörpuslátt og kertaljós.

En, eftir þetta hógværa yfirlið hélt æfingin áfram undir styrkri stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, stjórnanda okkar. Hún átti svo eftir að fara út í Bolungarvík að stjórna aðventukvöldi, þannig að það var enginn tími til að drolla. Wink Svona konur eiga nú eiginlega að fá heiðursmerki.

Við í altinni töldum vissast að halda eina aukaæfingu í heimahúsi nú í kvöld - svona rétt til að styrkja nokkrar innkomur eins og gengur.

Og nú er ég sumsé búin að syngja yfir mig, eins og ég sagði ....


Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


Fyrst komi Flokkurinn - svo fólkið!

 "Ég er þess fullviss að formaður bankastjórnar Seðlabankans muni á endanum velja þá leið sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn"  er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ummælin hafa vakið athygli ýmissa sem vonlegt er - enda er boðskapur þeirra með ólíkindum: Fyrst kemur Flokkurinn, svo kemur fólkið!

Þannig hugsar ráðherra í ríkisstjórn lands sem stendur frammi fyrir mestu erfiðleikum sem gengið hafa yfir þjóðina um aldir: Nú ætti Davíð að gera það sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sick

Ætli þetta hugarfar sé ekki einmitt vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.

I rest my case.


Davíð veit en vill ekki segja

   "Veit en vill ekki segja" gæti verið nafn á nýjum samkvæmisleik - svona orðaleik í anda Davíðs Oddssonar. Þessi leikur gæti verið tilvalin skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af því að hleypa upp jólaboðum.

DavidGeir Leikurinn fer þannig fram að einhver úr fjölskyldunni ákveður að fara með hálfkveðnar vísur um mikilvæg atriði , jafnvel leyndarmál sem sá hinn sami hefur búið yfir all lengi og skipta fjölskylduna miklu máli. Hann gefur í skyn að einhver annar í fjölskyldunni hafi vitneskju um það sem hann veit. En hann segir samt ekki hversu mikið sá hefur fengið að vita. Hinir verða að giska - og geta í eyður - og draga ályktanir - og helst fara í hár saman yfir því sem þeir halda að hafi gerst, af því að sá sem stjórnar leiknum "veit en vill ekki segja". Tilgangurinn með leiknum er auðvitað sá að hleypa upp samkvæminu og rjúfa vina og ættarbönd þannig að sá sem stjórnar leiknum standi að lokum uppi sem sá sem einn vissi allt.

 

Sýnidæmi um þetta höfum við séð að undanförnu í ýmsum ummælum Seðlabankastjórans:

 

  •  Hann veit hvað olli því að Bretar skelltu á okkur hryðjuverkalögum - ó, já. Veit en vill ekki segja.
  • Hann vissi líka að allt var hér að fara til fjandans. Ó, já. Það kannast bara enginn við að hann hafi sagt frá því - að minnsta kosti kom það ekki fram í skýrslu Seðlabankans sem send var viðskiptaráðherranum.
  • Hann veit um fund sem hann sjálfur átti með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" í júní - fund sem enginn kannast við að hafi verið haldinn þá. En Davíð vill ekki segja hvað þar fór fram annað en að þar hafi hann talað um 0% líkur á að bankarnir færu ekki á hausinn - orð sem enginn kannast heldur við. Davíð "veit" við hverja hann sagði þetta og sitt hvað fleira sem fram fór . En hann vill ekki segja.
  • Í útlenskum blöðum gefur Seðlabankastjórinn í skyn að kannski eigi hann endurkomu í stjórnmálin - hann lætur berast að hann eigi kosta völ sem hann vill ekki segja nánar frá að svo stöddu. 
  • Davíð mætir á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun - segist þar vita ýmislegt, en ber fyrir sig bankaleynd og vill ekki segja.

 

Jebb, þannig er leikurinn í sinni (hl)ægilegustu mynd!

Whistling

Og þar með er bloggfríið mitt fokið út í veður og vind.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun er meðalið!

skólabarn Þegar atvinnuleysi og atgerfisflótti eru raunveruleg vá fyrir dyrum í litlu samfélagi er aðeins eitt að gera: Láta þekkinguna flæða. Mennta fólkið! Gefa því kost á endurmenntun, framhaldsmenntun, háskólamenntun, nýrri menntun ... já, bara menntun, hvaða nafni sem hún nefnist.

Menntun og þekkingarflæði eru eini raunhæfi kosturinn sem þjóðin á til að rækta mannauð sinn, halda honum við, halda fólkinu "í formi" ef svo má að orði komast. Maður sem verður atvinnulaus getur nýtt þau tímamót til þess að byggja upp nýja hluti í lífi sínu. Til dæmis að klára doktorsritgerðina sem hefur árum saman legið í skúffunni; taka vélastjórnarréttindin sem aldrei voru tekin; meiraprófið; ljósmóðurnámið; frumgreinanámið; skipstjórnarréttindin sem hann/hún hefur lengi látið sig dreyma um ... o. s. frv.

Það er ekkert meðal betra á þeim tímum sem við lifum en menntun.

Á málþingi sem Byggðastofnun hélt um nýja byggðaáætlun s.l. föstudag flutti ég erindi um gildi menntunar fyrir landsbyggðina.  Þetta var svona eldmessa sem ég nefndi "Háskóla í hvert hérað!"  og þið getið lesið í heild sinni HÉR ef ykkur langar (glærurnar eru hér).

Í stuttu máli sagt þá lagði ég út af þeim sjálfsögðu réttindum ungs fólks að geta sótt grunn- og framhaldsskóla í heimahéraði. Þetta þykir öllum eðlilegt nú, þó það hafi ekki alltaf þótt.  En hvenær mun þykja jafn sjálfsagt fyrir ungt fólk að sækja háskólanám á heimaslóðum - þó ekki væri nema grunnháskólanám?

Hugsið um það.

GetLost

Þetta er dulítil undantekning frá annars góðu bloggfríi sem nú hefur staðið í heila fimm daga. Lifið heil, kæru lesendur mínir. Smile


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband