Umskipti á Alþingi

thingsalur Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennt á þeirri miklu endurnýjun sem orðin er á Alþingi Íslendinga. Þessir átta sem fluttu jómfrúarræður sínar í eldhúsdagsumræðunum í kvöld eru aðeins um þriðjungur nýrra þingmanna. 

Aldrei nokkurn tíma hafa fleiri nýir þingmenn  (27) tekið sæti á Alþingi Íslendinga.  Ekki einu sinni á fyrsta fundi endurreists Alþingis árið 1845, því þá voru þeir 25.

Ef með eru taldir þeir þingmenn sem komu nýir inn fyrir tveimur árum, þá hafa 42 þingmenn af 63 setið skemur en 2 ár.  Það eru ansi mikil umskipti.

Jóhanna flutti stefnuræðu sína í kvöld af einurð og alvöru. Hún gerði grein fyrir stöðu mála, því sem gert hefur verið og því sem framundan er. Var að venju laus við skrúðmælgi. Hógvær - trúverðug.

Steingrímur J. var mælskur og rökfastur eins og oftast.  Hann talaði fyrir endurreisn efnahagslífsins, endurskipulagningu í sjávarútvegi og atvinnulífi, og stakk vel upp í þá talsmenn kvótaeigenda sem talað hafa um fyrningarleiðina sem "þjóðnýtingu". Hann spurði: Hvernig er hægt að þjóðnýta það sem þjóðin á nú þegar - eða hver á eiginlega fiskimiðin? 

Bjarni Benediktsson var ekki hógvær. Hann hafði þarna gullið tækifæri til að gangast við ábyrgð síns flokks íá efnahagshruninu. Það hefði hann getað gert í fáum setningum - gerði það ekki. Hann horfði heldur ekki til framtíðar, virtist fastur í einhverju karpi. Talaði óljóst í Evrópumálum. Bauð sjálfur engar lausnir.

Sigmundur Davíð talaði með tilþrifum - mest um það hvað Framsókn hefði fengið litlu ráðið í fyrri ríkisstjórn (sem þeir voru ekki hluti af, en vörðu falli með svokölluðu "hlutleysi" sem þeir virtust þó aldrei skilja hvað þýddi). Hann var kaldhæðinn í tali, en ekki alveg málefnalegur að sama skapi.  Framsókn lagði sínar áherslur í dóm kjósenda. Kjósendur kváðu upp sinn dóm. Það þýðir lítið að deila við þann dómara.

Ræðurnar í kvöld voru sumsé misgóðar. Sumar voru vel fluttar, en rýrar að innihaldi - minntu meira á málfundaæfingar hjá Morfís þar sem meira er lagt upp úr fasi og fyndni en alvarlegri rökræðu. Öðrum mæltist betur, og sumir fluttu framúrskarandi ræður, þar á meðal voru nokkrar jómfrúarræður (mér fannst góður tónn í máli Margrétar Tryggvadóttur, Ólafar Nordal, Ásmundar Einars, Sigmundar Ernis o.fl.). 

Hvað um það. Nú er alvaran að byrja: Fyrir þessu sumarþini liggja eitthvað um hundrað þingmál frá tíu ráðuneytum.  Og svo ég nefni nú bara nokkur mál sem hafa verið heit í umræðunni að undanförnu, þá eru þarna m.a. frumvörp um

  • þjóðaratkvæðagreiðslur, 
  • stjórnlagaþing,
  • persónukjör,
  • hlutafélag til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja
  • að fallið sé frá kröfum um ábyrgðamenn á lánum námsmanna
  • frjálsar handfæraveiðar
  • breytingu á búvörulögum
  • breytingar á ýmsum hegðunar- og hæfnisreglum í ljósi fjármálaáfallsins
  •  breytingar á lögum um hlutafélög til að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra

Auk þess eru ýmis merk mál til umfjöllunar og afgreiðslu - ég nefni bara þingsályktunartillög um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Á morgun er hefðbundinn þingfundur - á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnartími og frumvarp um hlutafélag um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja með meiru.


mbl.is Átta jómfrúrræður í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Þú gleymdir heimilunum í upptalningunni þinni, en þú ert ekki ein um það.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 19.5.2009 kl. 00:02

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Nei Þorsteinn, ég "gleymdi" ekki heimilunum í landinu. Það eru nú þegar komnar af stað heilmiklar aðgerðir í þágu heimilanna í landinu eins og ég hef bloggað um áður og þeim verður haldið áfram og aukið við þær eftir því sem þörf krefur í ljósi reynslunnar.

Það sem þegar hefur verið gert þarf ekki að árétta á þessu sumarþingi, nema ákveðið verði að fara út í aðrar og enn frekari aðgerðir en orðið er.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.5.2009 kl. 00:32

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Líst vel á nýju andlitin á þingi.  Farnist ykkur öllum vel.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 19.5.2009 kl. 01:57

4 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Heilög Jóhanna hefur talað og trúin hennar er ESB bjargar öllu,en er það ekki málið það bjargar öllu hjá SF að fara í ESB þar sem SF hefur enga stefnu að fara eftir og enn svelta heimilin í landinu og munu gera í ókomna tíð ef SF fær sínu fram.Það er svo auðvelt fyrir SF að benda á ESB og segja við þjóðina við verðum að hlíða ESB þetta er ekki okkar vilji en reglur ESB eru svona,þetta yrðu svörin hjá SF eftir að inn er komið því ekki hefur SF neina stefnu í málum nema aðild að ESB.Hel að ef við ætlum að vinna okkur uppúr þessari kreppu þá eigum við að gera það sjálf verður sennilega erfitt í 2-3 á en svo kæmu bjartari tímar hjá okkur,besta væri að skila láni AGS og senda ESB fingurinn það er eina leið okkar uppúr þessari kreppu.Ef farið verður að vilja SF verður kreppa hér í mörg mörg ár eða áratugi ef við förum í ESB.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 19.5.2009 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband