Þreytumerki á forsætisráðherra

geirhaarde.jpg Þegar forsætisráðherra missir það út úr sér - þó út um annað munnvikið sé - að fréttamaður sé fífl og dóni ... tja ... þá er hann orðinn þreyttur, svo ekki sé meira sagt.

Ég ætla ekki að afsaka orð forsætisráðherra, en ég þykist sjá að álag undanfarinna daga sé farið að koma fram. Taugakerfið í Geir Haarde er auðvitað ekkert öðruvísi af Guði gert en taugakerfi annarra dauðlegra manna.  Álagið sem sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru undir núna er hins vegar ómælanlegt - það á sérstaklega við um forsætisráðherrann.

Ráðamenn okkar hafa ekki heyrt mörg hvatningarorð í yfirstandandi orrahríð. Menn hafa verið fundvísir á mistökin, en minna hefur verið um uppörvun. Það er svosem skiljanlegt líka, við erum öll í áfalli meira eða minna.

En við megum þó ekki gleyma því ráðherrarnir eru framvarðasveitin sem á að bjarga því sem bjargað verður. Þeir þurfa að halda hretið út. Kallinn í brúnni má ekki bila. Áhöfnin má ekki tapa áttum.

Reiði er eðlilegt viðbragð við áföllum - og hún leitar alltaf útrásar. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þessa dagana beinist reiði margra að nafngreindum mönnum, að útrásarliðinu, ríkisstjórninni, Seðlabankastjóra, Bretum, fjármálaráðherra ...

Ráðamenn eru auðvitað líka reiðir, og eitthvert hlýtur þeirra reiði að beinast. Meðal annars að fjölmiðlafólki sem spyr óþægilegra spurninga og er kannski dónalegt í þokkabót. 

Reynum að hemja bræðina - reynum a.m.k. að beina henni í einhvern farsælan farveg. Hvetjum okkar framvarðasveit til dáða í erfiðum aðstæðum. Við höfum ekki öðru liði á að skipa - stöndum með okkar liði núna.

Að þessu sögðu vil ég þakka Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðssyni fyrir þá yfirvegun og umhyggju sem þeir hafa sýnt þjóðinni síðustu daga.

Áfram svo - þetta kemur! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta hefur líka hvílt mikið á Davíð og Árna M. Mathiesen og engin furða að þeir missi eitt og annað út úr sér.

Við skulum biðja fyrir þeim líka. 

Sigurður Þórðarson, 9.10.2008 kl. 23:06

2 Smámynd: Sævar Helgason

Það má ljóst vera að allir þeir sem standa í fremstu víglínu í þessum gríðarlegu hremmingum sem yfir þjóðina ganga - eru undir miklu álagi sólarhringum saman.

Fregnir berast af hjartaáföllum og fleiri ofþreytumeinum manna úr þessum hópi... Gefum þeim vinnufrið á meðan á hörðustu átökunum stendur.  Þjóðin öll á mikið undir að verk þessara manna skili árangri.

Seinna þegar ofviðrinu hefur slotað og jafnvægi kemst á--- þá getum við farið yfir farinn veg.

Sævar Helgason, 9.10.2008 kl. 23:07

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég get tekið undir þessi orð þín varðandi Geir Haarde.

Björgvin hinsvegar stefnir í að gerast ómerkingur orða sinna. Hann lýsti því yfir á starfsmannafundi í Landsbanka í hádeginu á þriðjudag að starfsfólk bankans myndi halda sínum störfum hér innanlands og sínum lauakjörum. Hvorugt loforðið verður staðið við

Marta B Helgadóttir, 9.10.2008 kl. 23:07

4 identicon

Þetta er reglulega vel sagt.

Geir og Björgvin hafa staðið sig eins og hetjur undanfarna daga, undir alveg yfirgengilegu álagi.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:21

5 identicon

já menn verða að passa sig sérlega vel og alls ekki að lofa því að fólk haldi vinnunni. Það er ekki hægt að lofa því þessa dagana. Ástandið er einfaldlega það alvarlegt að slík loforð standast ekki.

Frelsisson (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:21

6 identicon

Björgvin stendur sem tær stjarna og lætur ekki fjölmiðlamenn slá sig út af laginu. Það er heiðríkja og traust yfir honum enda velur Geir hann til að standa fjölmiðlavaktina með sér.

hann (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:23

7 identicon

Þakka þér Ólína fyrir jákvæð blogg undanfarna dag í garð þeirra sem nú gera allt til að sigla skipinu í var.

Það er méð ólíkindum hvað mér finnst umræðan í bloggheimum almennt neikvæð og dónaleg.
Þessi samstaða sem á að einkenna íslensku þjóðina er lítt áberandi að mínu mati.

Svo virðist sem allir séu að leita af sökudólgi og að allir vilji kaupa sér lausn frá vandanum með því að reka einhvern. Held að það sé ekki það sem við þurfum nú. Hvað svo sem verður þegar við náum landi. 

Geir og Björgvin hafa staðið sig gríðarlega vel og Össur reyndar líka. Loksins, loksins finnst mér ég horfa á ríksistjórn sem vinnur saman.  Björgvin er klárlega að stimpla sig inn sem framtíðarmaður í pólitík og Samfylkingunni.
Svona utanfrá séð get ég ekki betur séð en að það fari í pirrurnar á varaformanninum sem reynir að vekja á sér athygli með heldur ósmekklegum hætti. 

Kristín (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 23:23

8 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sammála þér Ólína. Tölum varlega, það á jafnt við um okkur bloggarana sem fréttamennina. Það er ekki enn kominn tími til að draga menn fyrir dóm eða finna sökudólga. Fyrst þarf að slökkva eldinn fræga sem Davíð skvetti olíunni á í misgripum fyrir vatn. Björgvin og Geir hafa staðið sig vel og þeirra hlutverk er ekki öfundsvert. Varðandi það sem M segir hér að ofan þá fékk ég ekki annað heyrt en Björgvin hafi sagt í viðtali í sjónvarpi í kvöld að hann játi að hann hafi ekki talað nægilega skýrt á fundi með starfsmönnum Landsbankann. Það er því óþarfi að vera með hnútukast út í hann eða Geir á þessu stigi málsins.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 9.10.2008 kl. 23:24

9 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

M=Marta - afsakið!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 9.10.2008 kl. 23:24

10 Smámynd: Líney

sammála

Líney, 10.10.2008 kl. 00:25

11 identicon

Ég held hann sé bara komin á trúnó hjá Urði, svei mér þá. Hvað segir konan hans? Er hann nokkurn tíma heima?

Hermann (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 00:53

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dúllan hún Urður hefur nú alltaf verið meira krútt en Geir. En hann kemst vonandi í gott bað um helgina með ilmsöltum og alles. Gordon Brown getur skrúbbað á honum bakið og hreinsað táslurnar. Þá verður allt gott aftur. Say no more.

Þorsteinn Briem, 10.10.2008 kl. 01:45

13 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Takk fyrir þetta.

Sagt af góðum hug og vestfirskri art.

Vonandi lofa mennirnir ekki meiru en þeir ná að uppfylla.

Það er oft sárara.

Megi Hann vaka yfir landi okkar og þjóð.

Bjarni Kjartansson, 10.10.2008 kl. 08:58

14 Smámynd: Yngvi Högnason

Það hefur verið blítt yfir þessu bloggi upp á síðkastið, takk fyrir það. En hvort sem að Geir hafi verið þreyttur eður ei, þá held ég að hann hafi haft rétt fyrir sér og sagt það sem aðrir hugsa. Held ég að þetta hafi ekki verið í fyrsta sinn sem að Geir hafi haft þennan dreng fyrir framan sig og hefur kannast við hans hegðunarvandamál.

Yngvi Högnason, 10.10.2008 kl. 09:23

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Alveg hárrétt Ólína. Takk fyrir þennan góða pistil

Sumir fréttamenn haga sér eins og leikskólabörn í sandkassaleik

Gunnar Rögnvaldsson, 10.10.2008 kl. 09:24

16 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Halló, til hvers eru fréttamenn? Eiga þeir bara að spenna greipar og fara með faðir vorið? Helgi Seljan var bara að gegna starfi sínu og að reyna að fá svör við sínum spurningum sem brenna á vörum okkar allra. Átti hann að vera þægur og stilltur eins og Sigmar var í drottningarviðtalinu við Davíð? 

Gísli Sigurðsson, 10.10.2008 kl. 10:02

17 identicon

Alveg hárrétt Ólína.   Fjölmiðlafólk má aðeins athuga sitt mál, rétt á meðan á fárviðrinu stendur.. að róta og rífast er ekki til þess gert að auðvelda starf þeirra sem mest á mæðir um þessa daganna.

Sýnum þeim þolimæði í því erfiða stríði sem yfir gengur.

Kári K (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 11:06

18 identicon

Alveg rétt hjá þér. Ólína. Nú þurfum við að standa saman og styðja fólkið okkar í rikisstjórn sem er að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Þetta eru erfiðir dagar og erfið spor sem þeir stíga á hverjum degi. Björvin hefur staðið sig frábærlega og Geir sýnir ótrúlega yfirvegun. Þeir eru ekki öfundsverðir. Vont finnst mér að Ingibjörg Sólrún sé úr leik því hennar er sárt saknað. En vonandi nær hún sér af sínum veikindum og kemur sterk inn í baráttuna síðar í haust.

Áfram Ísland. Áfram ríkisstjórnin.

Kristín Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 11:24

19 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Geir á ekki að láta vaða ofan í sig.  það er í lagi að segja dóni en ekki í lagi að segja fífl. 

Guðmundur Pálsson, 10.10.2008 kl. 12:58

20 identicon

Sæl Ólína og þakka þér fyrir þennan löngu tímabæra pistil.   

Mér finnst það ekki pólitísk afstaða að lýsa stuðningi við ríkisstjórnina á þessum erfiðu tímum, hef sjálf aldrei kosið X-D en ég met það mikils að ríkisstjórnin "yfirgefi ekki sökkvandi skip" og er á fullu "uppi á dekki" í "slorinu".  En menn eru bara mannlegir, við verðum að standa á bakvið "áhöfninni" okkar og tryggja að þeir brotni ekki í þessum mikla "mótvindi" sem blæs á okkur sem þjóð (bara varð að leyfa mér allt þetta sjómannamál á þessum tímapunkti )

Megi allir góðir vættir vaka yfir landinu. 

Ása 

Ps. Mín "áfallahjálp" er að leita í bókaskápinn að góðum bókum eftir okkar íslensku snillinga.  Það minnir mig á úr hvaða umhverfi við komum.  Við höfum í gegnum aldirnarnar glímt við erfitt umhverfi og það hefur gert okkur að þeirri þjóð sem við erum.  Þjóð sem stolt af (þó við höfum látið glepjast um smá tíma).  Þjóð sem getur byggt upp nýtt og betra Ísland. 

Ása (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 13:07

21 identicon

Ég heyrði að Helgi hefði unnið sér þessi orð forsætisráðherra inn. Bæði hringdi síminn hjá honum Helga 2svar á meðan fundinum stóð og Helga fannst allt í lagi að tala í hann á fundinum, þrátt fyrir að fólk hafi sérstaklega verið beið um að slökkva a símum. Svo var forsætisráðherra löngu búin að segja að spurningin á undan myndi vera síðasta spurningin en samt gat Helgi ekki hætt að spyrja, eins og svo oft áður.

Helgi kann ekki að sýna neinum virðingu og virkar mjög hrokafullur á mig. Reyndar er ég sammála forsætisráðherra og finnst hann fífl og dóni, meira að segja þegar ég er vel út hvíldur.

Bjöggi (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 15:55

22 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ólína ég bið þig að afsaka en ég ætla að svara Ingibjörgu hér:

..."að hann hafi ekki talað nægilega skýrt á fundi með starfsmönnum Landsbankans"

Ingibjörg hann endurtók þrisvar þessar yfirlýsingar sínar á fundinum með starfsfólkinu. Það heitir eitthvað annað en að "tala ekki nógu skýrt"  það er bara populismi og óábyrgt bull

Sem betur fer er þetta til á upptökum og hann mun verða látinn standa við loforð sín.

Marta B Helgadóttir, 11.10.2008 kl. 10:53

23 identicon

Ég er alveg sammála þér Ólína, þetta er ekki rétti tíminn til að rakka niður fólkið sem vinnur dag og nótt við að reyna að koma okkur út úr þessum erfiðleikum. Geir og Björgvin hafa báðir staðið sig gífurlega vel að mínu mati. Mér finnst sérstaklega óþolandi að fylgast með bloggheimum tæta Davíð Oddsson í sig. Ástæðan fyrir því að mér finnst það er að flestir sem standa að baki þessu einelti á honum vita ekkert hvað þeir eru að segja. Það skiptir engu máli hversu oft rök þeirra eru hrakin. Fólk bara tekur ekki sönsum! Það er nú alveg skiljanlegt að fólk leiti logandi ljósi að einhverjum til að taka reiði sína út á og þar liggur Davíð vel undir höggi enda lengi verið umdeildur. Myndi ég þá frekjar kjósa að sprengjunum væri varpað á okkar ástkæru útrásarvíkinga sem hafa nánast alveg fengið frið frá bloggurunum. Hvað Helga Seljan varðar þá var hann ótrúlega dónalegur á blaðamannafundinum og miðað við það hvað hegðun hans var allt önnur á síðasta fundinum þá hlýtur hann að hafa skammast sín og séð að sér.

MB (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband