Smjörklípa Davíðs: Þjóðstjórnin!

David60 Nú, þegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri situr undir vaxandi ámæli fyrir yfirsjónir og hagstjórnarmistök Seðlabankans í alvarlegu árferði - skellir hann smjörklípu á nefið á fjölmiðlum til þess að drepa umræðunni á dreif. Sem við var að búast. Smjörklípan að þessu sinni er: Þjóðstjórn!

Takið eftir því að þetta er ekki einu sinni haft eftir honum beint - ó, nei. Hann á að hafa andað þessu út úr sér á lokuðum fundi. Tvisvar! Spunameistararnir hvísla þessu hljóðlega í eyru fjölmiðlamanna og álitsgjafa - og eitt augnablik eru tekin andköf! Tvisvar í sömu vikunni? Þjóðstjórn!

Hægan, hægan. Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Skoðanir hans á þjóðmálum eru okkur óviðkomandi. Við höfum stjórnvöld með styrkan meirihluta til þess að stýra þjóðarskútunni - Davíð á að standa vaktina í Seðlabankanum. Hann á meðal annars að gæta að gjaldeyrisinnstreyminu - súrefni efnahagslífsins. Hefur Davíð verið að gera þetta?

Nei - eins og menn hafa bent á síðustu daga, þá hefur Seðlabankinn ekki hirt um að gera gjaldeyrisskiptasamninga eins og seðlabankar annarra Norðurlanda, hafa gert. Hann missti af þeirri lest, virðist vera, og hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega. Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skýtur föstum skotum á Davíð fyrir þetta í dag.

Hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason er ómyrkur í máli í grein í sama blaði, þar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og uppstoppaðan hund í bandi Seðalbankastjórans.

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins vandar Davíð ekki kveðjurnar á bloggsíðu sinni:  „Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur réttilega.

Ljóst er að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er lítið um þessar meiningar Davíðs gefið. Það var til dæmis auðheyrt á Össuri í hádegisútvarpinu að honum er ekki skemmt, ekkert frekar en menntamálaráðherra sem líka hefur tjáð sig um málið.

Og lái þeim hver sem vill: Nóg er nú samt að Davíð skuli hafa sest undir stýri með forsætisráðherrann í framsætinu hjá sér og fjármálaráðherrann í aftursætinu á sunnudagskvöldið. Sú ógleymanlega sjón er nokkuð sem spunameistararnir munu illa fá við ráðið í bráð.

Þannig, að það mátti reyna að skella fram hugmyndum um þjóðstjórn. Aldrei að vita nema kötturinn myndi gleyma sér við smjörklípuna.

En það mun ekki gerast að þessu sinni. Stjórn landsins er með styrkan meirihluta manna sem eru að gera það sem þeir geta til að halda þjóðarskútunni á floti - í samráði við formenn þingflokka eftir því sem efni eru til hverju sinni. Þeirra hlutverk er að stjórna landinu.

Davíð væri nær að standa vaktina sem Seðlabankastjóri - og halda vöku sinni betur en verið hefur.


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Veistu það Ólína að þessi grímulausu afskipti Davíðs af landstjórninn vekja hjá mér skelfingarhroll niður eftir allri hrygglengju.

Mikið skelfilega er þetta gerræðislegt og úr takti.  Maðurinn hefur gleymt því að hann er hættur í pólitík (eða vill amk. láta líta út fyrir það).

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.10.2008 kl. 17:41

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsókn og Vinstri grænir ættu nú að gleðjast yfir þessari tillögu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um þjóðstjórn, þar sem þeir hafa sjálfir lagt hana til nýlega. En að sjálfsögðu er það ekki á verksviði Davíðs að leggja slíkt til og ríkisstjórnin hefur mikinn meirihluta á bakvið sig á Alþingi.

Þorsteinn Pálsson veit hins vegar allt um efnahagsmál. Hann var fjármálaráðherra á árunum 1985-1987 og forsætisráðherra 1987-1988.

Verðbólgan hérlendis:

Árið 1985: 32%.
Árið 1986: 21%.
Árið 1987: 19%.
Árið 1988: 26%.

Þorsteinn Briem, 2.10.2008 kl. 20:32

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir snjallar athugasemdir, þið öll.

Steini, þú klikkar ekki á tölfræðinni fremur en venjulega.

Benóný, ég held þú hafir allnokkuð til þíns máls.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.10.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband