GAAAS, GAAAS! - Getum við ekki látið einhvern kasta eggjum?

Jeminn eini - það er agalegt að horfa upp á þetta (smellið hér ).

Hvað gerðist eiginlega í dag? Misstu allir glóruna?

GAAAAS - GAAAAS - GAAAS - öskrar ungur lögreglumaður með úðabrúsa sem hann beitir augljóslega sem vopni en ekki varnartæki gegn mannfjöldanum.

"Við getum kannski látið einhvern kasta eggjum rétt á meðan við erum live?" segir ung fréttakona á Stöð-2 svo heyrist skýrt á einu upptökutækinu. Sama fréttakona spyr áköf af hverju lögreglan beiti ekki sömu hörku við flutningabílstjórana og umhverfisverndarsinnana í fyrra. Það er óþægileg ögrun í röddinni.

Lögreglumaðurinn sem verður fyrir svörum segir - líka með ákefðarglampa í augum: "Bíddu bara í  nokkrar mínútur, þá skulum við sýna þér hvernig við látum verkin tala!" Var lögreglan á þeirri stundu búin að ákveða að beita valdi? Þegar maður gerir sig líklegan til þess að fara að fyrirmælum lögreglu og fjarlægja bíl sinn, þá er hann handtekinn með látum.

Það leynist engum sem sér þessi myndskeið sem ganga á netinu núna og sýnd voru á sjónvarpsstöðvunum í dag, að adrenalínið tók stjórnina. Ábyrgir aðilar, lögregla og fjölmiðlar voru farnir að láta sig dreyma um valdbeitingu áður en atburðarásin hófst - með ofbeldi, ryskingum og eggjakasti. 

Það var sárt að sjá þarna ráðalausa unglinga horfa upp á þessar aðfarir. Menn liggja blóðuga og ofurliði borna í götunni - öskrandi lögreglumenn og bílstjóra. Þarna var svo augljóslega farið yfir mörkin - í orðsins fyllstu merkingu: Mörkin sem lögreglan setti sjálf - gula bandið sem strengt hafði verið milli lögreglu og mótmælenda. Svo ruddist lögreglan sjálf yfir þessi mörk í átt að fólkinu.

Er þetta fordæmið sem við viljum hafa fyrir unglingum og óhörðnuðu fólki? Er þetta það sem við viljum?

Svei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, þetta er að minnsta kosti ekki það sem ég vil. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.4.2008 kl. 23:17

2 identicon

Markmið lögreglumannsins með gasbrúsann var ekki að úða gasi á sem flesta heldur að reka fólk út af athafnasvæði lögreglunar. Því er eðlilegt að hann hrópi "gas! gas!" svo að fólk geti forðað sér án þess að fá gasið á sig.

Mundu nú þína frægðarför í Lúkarasmálinu, Ólína. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 23:18

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér óar við þessu.  Lögregluofbeldið (þeir eiga að halda skikki, ekki ráðast til atlögu) og það er hreinn horror að heyra að fréttamenn vilji sviðsetja ólæti.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.4.2008 kl. 23:27

4 Smámynd: Ingólfur

Getur ekki verið að lögreglan hafi sagt bíddu bara því þá hafi verið búið að ákveða að það ætti að rýma svæðið með hörðu?

Þeir voru margoft búnir að byðja fólk um að fara en orðið ljóst að það mundi ekki fara af veginum með góðu. 

Ingólfur, 23.4.2008 kl. 23:28

5 Smámynd: Ingólfur

Jenný, ekki að ráðst til atlögu. Eiga þeir bara að leyfa fólki að komast upp meða að loga aðal samgönguæðum.

Ingólfur, 23.4.2008 kl. 23:34

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hvað ert þú að dylgja um Hans? Ertu að gera mig ábyrga fyrir Lúkasar umræðunni? Ég kannast bara ekki við að hafa byrjað þá umræðu, eða samið neinar fréttir í því máli. Þú ert kannski að tala um þessa færslu sem ég skrifaði? Eða þessa hér í framhaldi af fréttum sem birtar voru í ábyrgum fjölmiðlum, m.a. ríkisútvarpinu.

En svo ég snúí nú talinu aftur að lögreglumanninum, þá hefur hann sjálfsagt haft eitthvert markmið með hrópum sínum - líkt og lögregluliðið allt með aðgerðum sínum. En ekki var hann geðugur meðan á því stóð og enginn af hans félögum.  

Annars segja fréttamyndirnar það sem segja þarf, held ég.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.4.2008 kl. 23:37

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vó - svo  komu auðvitað þrjár athugasemdir á meðan ég var að svara einni. Dæmigert.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.4.2008 kl. 23:41

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Lögreglan var með "varnarúða", en notaði hann til "sóknar" gegn fólkinu.  Það er auðséð að ekki þarf að senda þá til Póllands í nám eins og pólski ræðismaðurinn bauð BB!

Sigrún Jónsdóttir, 23.4.2008 kl. 23:45

9 Smámynd: Tiger

Ég er alfarið á því að sýna lögreglunni hérna meiri samúð og virðingu en trukkakörlum og skrílnum. Ef ALLIR mótmælendur hefðu frá upphafi farið að lögum frá A-Ö þá hefði ekkert af þessu komið upp í dag. Allir eru núna í óðaönn að draga lögregluna í svaðið fyrir sína framgöngu - sem kannski hefði mátt vera öðruvísi - en engin pælir í því hvernig þessi skrílslæti komu öll til - jú - vegna lögbrota. Veistu, ungi lögreglumaðurinn sem hrópaði GASGASGAS kom mér fyrir sjónir sem maður sem var að vara fólk við svo það gæti forðað sér - hræða fólk til að ekki þyrfti að nota gasið - það fannst mér einmitt mjög virðingavert. Ég sá ekki neinn álfahátt við þau hróp.

Eins og ég var að skrifa annars staðar núna áðan:

"Ef Trukkabílstjórar hefðu aldrei brotið lög - bara mótmælt á löglegum nótum og helst á réttum stöðum (að mínu mati sem þarf ekkert að vera réttara en annað) þá hefði lögregla aldrei þurft að ganga fram líkt og í dag. Það hefði þá aldrei komið til þess að skríll færi fram gegn lögreglu með þeim fávitaskap sem raun var í dag. Ef allt hefði verið löglegt þá hefði engin "óþolinmóður" venjulegur borgari verið handtekinn í gær og hugsanlega sektaður - það hefðu engum eggjum verið sóað og engu grjóti verið kastað og engum meisúða verið spreyjað hvað þá að kylfur væru á lofti. Hvað segir þetta okkur?

JÚ AÐ LÖGREGLAN BEITIR SKELFILEGU VALDI OG LÖGREGLAN BEITIR HARÐRÆÐI OG ER EINS OG ÓÐIR TUDDAR Í LÖGGULEIK OG LÖGGAN Á ALLA SÖKINA OG BLABLABLA. ...

Hjálpi mér hvað þetta er allt eitthvað öfugsnúið, ekki satt?

Veistu, það hamast allir við að kenna löggimann um flest sem miður fór í dag - en það pælir engin í því að ef ALLIR hefðu farið að lögum hefði sennilega ekkert af þessu gerst."

En þetta er náttúrulega bara mín skoðun á málunum. Hún þarf alls ekkert að vera neitt réttari eða betri en skoðun allra annarra - en við erum svo sem eins misjöfn í skoðunum eins og við erum mörg. Takk fyrir mig Ólína og gleðilegt sumar, takk líka fyrir frábæra pisla í vetur!

Tiger, 23.4.2008 kl. 23:57

10 identicon

Nei þessi sem ég var með í huga birtist á vísisblogginu þínu en ég finn hana ekki.

Þú ættir að vita betur en að halda því fram að "fréttamyndirnar segi allt sem segja þarf". Menn hljóta að þurfa að hafa einhvern skilning á lögreglustörfum til þess að meta hvað lögreglumennirnir voru að gera.

Ég er engin sérfræðingur um lögreglustörf en mér skilst að þeim sé uppálagt að hrópa "gas! gas!" þegar þeir þurfa að nota gasið, rétt eins og þeim er uppálagt að hrópa "vopnuð lögregla!" þegar þeir eru vopnaðir.

Ég get svo sem fallist á að hann var ekki geðugur á meðan hann hrópaði þetta en mér skilst að markmiðið með hrópunum sé frekar að koma í veg fyrir óþarfa meiðsli en að vera huggulegur.

Hvað varðar það að maðurinn hafi beitt úðanum sem "vopni en ekki varnartæki" þá skilst mér að það sé ekki tilviljunum háð hversu mikið pláss þeir vilja hafa á milli sín og æsts hóps. Það er alvanalegt að þeir búi til svona rými þegar þeir athafana sig í miðbænum. Þá gerist það líka alltaf að einhver gáfnaljós kvarta yfir "fasismanum í lögreglunni".   

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 00:35

11 Smámynd: Ingólfur

Lögbrot hefðu meira að segja verið í lagi í mótmælunum, ef þeir pössuðu upp á að valda ekki hættu og beina mótmælunum að þeim sem geta einhverju breytt. (Og ekki væri verra að vera með skýrar kröfur).

En þegar þeir valda hættu ítrekað auk þess að tefja almenning, að þá verður að taka á því.

Og þarna skilst mér meira að segja að þeir hafi fengið ákveðinn frest til þess að rýma veginn, og ef þeir hefðu haldið hann þá hefði þetta ekki farið svona.

Náttúruverndarmótmælendur hefðu aldrei fengið svona marga sénsa til þess að fara bara sjálfir, eftir að hafa stöðvað byggingarkrana í þennan tíma. 

Ingólfur, 24.4.2008 kl. 00:36

12 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Þó maður hafi stutt málstað vörubílstjóranna þá fordæmi ég allt sem heitir ofbeldi í hvaða byrtingarmynd sem er. Augljóst að menn hreinlega keyrðu sig upp í lætin og tryllinginn.

Bárður Örn Bárðarson, 24.4.2008 kl. 00:41

13 identicon

Þegar almenningur fer að tala um að vopna sig gegn lögreglu er staða lands og þjóðar ekki beysin. Það sem við ættum að vera að fókusera á er ekki hverjum er um að kenna hvað gerðist í dag heldur hvað gerist á morgun? Mun almenningur snúast gegn bílstjórunum eða lögreglunni? Undir öllum kringumstæðum er það algerlega ótækt að ríkisstjórnin sé bara að dandalast í útlöndum meðan efnahagskerfið hrynur og uppþot fara um götur höfuðborgarinnar. Þetta er nú auma Þyrnirósarstjórnin!

Héðinn Björnsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 01:20

14 identicon

Þið sem hafið skrifað hérna athugasemdir voruð ekki á staðnum og getið ekki dæmt þessar aðgerðir útfrá þvi sem þið sáuð í sjónvarpinu. En ég var á þessari bensínstöð kl. 11 í gærmorgun.

Það var allt í rólegheita mótmælum og þeir sem voru staddi á bensínstöðinni voru mest konur úr nærliggjandi húsum með barnavagnana sína, sem höfðu lallað sér út á stöð fyrir forvitnissakir þvi lögreglan hafði lokað hverfinu þeirra við hringtorgið neðan við bensínstöðina. Fólk sem kom að hringtorginu var spurt hvaða erindi þaö ætti inn í Norðlingaholt ! Þegar bílstjórinn ætlaði að færa bílinn sinn sem NB var á hvíldarbílastæðinu og lokaði hvergi veginum hljóp " óeirðarlögreglan" að manninum og meinuðu honum inngöngu og hreinlega þá fyrst varð fjandinn laus. Það fór nettur kjánahrollur um mann að sjá þessa ungu menn með kylfur, eiturefnabrúsa og skildi og ég segi ykkur satt, fólkið á bensínstöðinni skelli hló að aðförum drengjanna í ( eins og einhver sagði) starwars-búningunum. Þessi uppá koma lögreglunar var súrrealisk.

Talandi um lokun vega og almannaheill OMG Í fyrr eða hitteð fyrra var Ártúnsbrekkunni lokað vegan óhapps í 3 klst þegar glerfluttningabíll missti farm sinn og Reykjavík vestan árinnar var stífluð. Hvernig á að bregðast við slysum í miðbænum á menningarnótt? Þar er allt stíflað frá 10-12. Afhverju er alltaf höfðað til almannaheillar þegar verkamenn láta til sín taka? Ég veit ekki betur en umferð hér í Reykjavík gangi ALLAF hægt á morgnanna. Verður þá ekki að að drífa í Sundarbraut svo sjúkrabílar komist áfram í umferð milli 8 og 9

hildur (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 08:55

15 Smámynd: Jónína Benediktsdóttir

Ég sat sem lömuð með dóttur minni og horfði á þessi öskur en svo kom útskýrings laganemans. Þeir verða að gera þetta svona mamma. Þeir meiga ekki gera neitt nema að vara fólk við. Ef þeir þurfa að berja einhvern verða þeir að kalla berja berja eða ýta ýta. Þetta vissi ég ekkert um og dóttir mín sagði að þetta væri hluti af lögfræðilegri nauðsyn lögreglumanna við störf sín.

Ég horfði að vísu á yfirvegun dóttur minna við þessar lögregluaðgerðir og hugsaði. Hún verður góður lögfræðingur þessi stelpa, ekkert verið að bera tilfinningasemi við í svona upplausnar ástandi.

Lögreglumaðurinn var bara að gera það sem honum bar að gera samkvæmt lögum en svo koma kerlingar eins og við og hrópum Gvöð hvaða læti eru í manninum :-))

Jónína Benediktsdóttir, 24.4.2008 kl. 09:22

16 identicon

Já en Jónína, það þurfti ekki að gasa neinn við þessar kringumstæður !!!!!!!

hildur (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 09:45

17 Smámynd: Landfari

Ólína mín, Hvað á lögreglan að gera ef fyrirmælum hennar er ekki sinnt. Okkur ber skylda til að fara að fyrirmælum lögreglu. Við getum verið ósátt og ef okkur finnst á okkur brotið getum við kært. En ef það kemur upp ágreiningur á vettfangi þá bara ræður löggan, það er ekki flókið.

Hvað gerðir þú, sem skólastjór, þegar nemendur þínir fóru ekki að fyrimælum þínum? Sagðir þú bara ok, þið fáið þá að ráða? Mig minnir að svo hafi ekki verið.

Ég sem almenur borgari geri þá kröfu til lögreglunnar að hún haldi hér uppi lögum og reglum. Ég get ekki gert þá kröfu nema skapa henni aðstöðu til þess. Í 99% tilfella dugar hér á landi virðing almenings fyrir lögunum og valdboði lögreglu til þess. En í þeim undantekningartilfellum sem menn þverskallast við verður lögreglan að hafa önnur úrræði.

Það er næsta víst að fólk almennt veit að lögreglan hefur önnur úrræði geri það að verkum ofast er nóg fyrir lögregluna að gefa bein fyrirmæli.

Það þýðir ekkert að koma löngu eftir þann lokaferst sem gefin var til að fæara bílana og segjast ætla að færa þá. Þá var lögreglan búin að taka svæðið yfir og þangað átti enginn erindi.

Mér er alltaf minnstætt hvað lögreglan sagði þegar þeir lentu í einhverjum menntaskólkrökkum í Skeifunni hérna um árið. Það varð einhver múgæsing í kringum hraðbanka að mig minnir og þetta voru krakkar sem enga sögu áttu hjá lögreglunni. Lögreglumaðurinn orðaði það einhvern vegin þannig að þetta væri með því verra sem hann hafði lent í því þessar elskur héldu virkilega að þær réðu við lögregluna og héldu endlaust áfram. Þegar lögreglan væri að eiga við "kunningjana" væri málið miklu einfaldara. Þeir vissu að dæmið var búið þegar lögreglan var komin. 

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé. Það gildir jafnt um lögguna og kennarastéttina. Það er reynt að velja úr því sum störf henta fólki betur en önnur en það er ófært að dæma heila stétt manna útfrá einum eða örfáum einstaklingum innan hennar. Það gerir ekki fólk með heilbrigða skynsemi.

Landfari, 24.4.2008 kl. 09:48

18 identicon

Ég held að þessi truflun við afleggjarann á Bessastöðum í gær hafi orsakað þessa hörku í aðgerðir lögreglunnar í dag. Forystumenn þjóðarinnar hafi fundist þeir vera hafðir af fíflum með svona framkomu að hálfu trukkamanna meðan forseti Palestínu og fylgdarmenn voru í heimsókn. Þeim hefur þótt þetta vera þeim til minnkunar að geta ekki haft hemil á þessum svokölluðum " skríl "

Það sást líka á stöð 2 að ákveðin lögreglumaður bað viðmælanda stöð 2 að bíða um stund og sagði með berum orðum að breyting væri í aðsýgi á ástandinu. Það kom berlega í ljós stuttu síðar að þeir byrjuðu slagsmálin eins og við sáum sannarlega í sjónvarpinu. Skrítið líka að þeir hafi kosið að gera þessa stóru aðgerð með óeirðarlögreglunni með trukkamenn voru sem fæstir og eins og kom fram í viðtali við Sturlu jónsson að þetta hafi ekki verið skipulögð mótmæli og einungis fáir bílar þá finnst mér þessi harka hjá lögreglunni til skammar.

þetta hefur allavega fengið mig til að hugsa minn gang og er akkurat núna fyrst tilbúinn til að sýna trukkamönnum sýnilegan stuðning ásamt flest öllum sem ég hef talað við í dag. Þessi sýn í dag á lögreglu berjandi fólk fékk verulega á mig og vitandi að Björn Bjarnason með sinn einkaher (varalið) sé virkilega í burðaliðnum vekur upp litla vikinginn í mér. Þennan mann þurfum við að stöðva því að svona framkoma í dag mun ekki stilla til friðar heldur mun þetta efla stuðning við trukkamenn. Ég er hræddur um að þetta sé kveikjan á einhverju miklu stærra atburði.

Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 10:05

19 Smámynd: Sævar Helgason

Þessar aðgerðir trukkabílstjóra eru ekki varnaraðgerðir verkalýsðs-launþega.

Þessir trukkabílstjórar eru smáatvinnurekendur-þeir gera út flutningabíla fyrir eigin reikning.  Nú þrengir að í þjóðfélaginu eftir mikla lántökuveislu- það er komið að uppgjöri.

Trukkabílstjórar eru með sín tæki á dýrum lánum-það þarf að standa skil á þeim.  Orkuverðshækkun kemur minna við þá en allan almenning vegna virðisaukaheimildia atvinnurekenda- auk þess em þeir geta hækkað gjaldskrá sina til að mæta auknum orkukostnaði.

Aðalmálið er hvíldartíminn- að fá hann styttann . Þá geta þeir bætt við sig vinnu/sólarhring  og aukið þannig tekjur sínar-þetta er aðalbaráttumálið.

Núna verða þeir að hvílast í 45 min. eftir hverjar 4 klst á keyrslu- alls mega þeir keyra 10 klst/dag.

Þeir gera kröfur til ríkisvaldsins um að frá þessum hvíldarákvæðum verði fallið.

Það er með öllu útilokað að tefla öryggi alls almennings í stórhættu á vegum landsins með úrvinda og jafnvel sofandi risatrukkabílstjóra undir stýri.

Risatrukkabílstjórar eru í séhagsmunabaráttu sem í raun er andstæð öryggi alls almennings.

Risaktrukkabílaútgerðarmenn hætti þessu bulli ykkar - strax 

Sævar Helgason, 24.4.2008 kl. 10:52

20 identicon

Lögregluofbeldi er ólíðandi.

þórður (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 12:02

21 identicon

Þetta er "mannauðsstjórnun" framtíðarinnar sem BB er búinn að vera að stefna á. Hlakkar þér ekki til Ólína þegar BB. kallar á varaliðið? Mætir þú þá ekki með hjálparsveitarhundinn í "mannauðsstjórnun"?

þórður (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 12:42

22 Smámynd: Ingólfur

Þröstur, ef vörubílstjórar herða mótmælin, tala nú ekki um ef þeir gera alvöru úr því að spreyja úr olíubrúsum á móti lögreglu, að þá get ég lofað þér því að Bjössi fær varaliðið sitt og taser byssur.

Það er auðvitað ekki gott ef forvitnir áhorfendur verða fyrir táragasi en þegar lögreglan er kominn í óeirðabúninga og margbúnir að gefa fyrirmæli um að það eigi að rýma svæðið, að þá ættu forvitnir áhorfendur að halda sér í fjarlægð frá mótmælendum. Sérstaklega þeir eru með lítil börn með sér.

Svo bætti unglingaskríllinn ekki ástandið sem vissi varla hverju var verið að mótmæla. Hann var þarna eingöngu til þess að reyna að espa upp lögguna með eggjakasti sínu. Vona bara að foreldrar þeirra skammist sýn vel fyrir þá.

Ingólfur, 24.4.2008 kl. 13:29

23 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gleðilegt sumar Ólína og takk fyrir góð bloggskrif í vetur.

Marta B Helgadóttir, 24.4.2008 kl. 13:37

24 identicon

Ingólfur! Ég sagði: " Ég er hræddur um að þetta sé kveikjan á einhverju miklu stærri atburði " Ég er þá ekki að mæla með því heldur einungis að varpa þeirri sýn miðað við þann atburð sem við urðum vitni á í gær. Ég vil meina að lögreglan kastaði fyrsta steininum og nú er bara spurning hvað mun gerast í framhaldinu. Björn Bjarnason mun aldrei fá þetta varalið ef þeir berja á okkur með kylfum og piparúða. Það myndi allt verað vitlaust í þjóðfélaginu. Á svona stundu  þá held ég að við ALMÚGINN muni þjappast saman og verða eitt.

Þröstur Halldórsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 13:53

25 Smámynd: Ingólfur

Þú gætir verið sannspár um að þetta leiði til stærri atburða, en ég er ekki sammála því að lögreglan hafi kastað fyrsta steininum.

Fólk spyr af hverju lögreglan hafi ekki bara leyst þetta eins og áður. En mér sýnist að þeir hafi reynt það. En þegar það gengur ekki að þá verða þeir að sýna að það er alvara á bak við skipanirnar og þarna ákváðu þeir að rýma svæðið með valdi þegar tímafresturinn sem þeir gáfu var ekki virtur.

Ef það gerist síðan að þessi átök verða miklu verri að þá get ég lofað þér því að stuðningur við bílstjórana hverfur alveg og Bjössi fær varaliðið sitt.

Ef við tökum átökin á Norðurbrú sem dæmi, að þá höfðu flestir samúð með ungmennunum og studdu kröfur þeirra. En þegar allt sauð upp úr að þá var málið tapað fyrir ungmennin. Og þó margir hafi jafmframt gagnrýnt lögregluna fyrir allt of harkalegar aðgerðir að þá var búið að ganga of langt til þess setti sig á móti löggunni.

Ingólfur, 24.4.2008 kl. 14:30

26 identicon

Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart hvað margir réttlæta aðgerðir lögreglunnar. Ég hefði búist við því hérna á Íslandi að almenningur myndi fordæma þessar aðgerðir í aðstæðum sem ekki voru í rauninni að stefna lífi eða limum neinna í hættu. Ef einhver hefði þurft að komast framhjá svæðinu í sjúkrabíl þá er ég þess fullviss að bílstjórarnir hefðu fært sig. En það virðist sem strax í upphafi hafi sérsveitin verið send á staðinn og við það hlýtur andrúmsloftið á staðnum að hafa breyst. Þessi lögreglu maður sem hrópar Gas Gas var ekki að verja sig, heldur spreyjaði hann út í loftið um leið og hann hrópaði. Mikið er ég fegin að hann er ekki minn maður, ég myndi ekki láta sjá mig með honum oftar opinberlega

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 14:37

27 identicon

Það þekkist ekki í vestrænum löndum að nota táragas á mótmælendur nema allt sé farið í háaloft og öryggi borgara, mótmælanda og lögrelgu er verulega ógnað. Lögreglan úti í löndum lætur sér nægja að sprauta smá vatni yfir æstan lýð og dugar það oftast. Ástandið var langt því frá að vera orðið svo slæmt að það þyrfti táragas, held að planið hefði verið fljótt að tæmast ef mótmælendum hefði verið smúlaf út af því og það hefði enginn þurft að leita sér læknishjálpar.

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 15:03

28 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það er aldeilis að þú færð viðbrögð Ólína.

Ég skil ekki hugsun þess fólks sem samþykkir ofbeldi fárra manna gegn almenningi. Lögreglan er til þess að vernda hagsmuni almennings og útilokað að halda því fram að hún gangi erinda stjórnvalda eftir hentisemi hverju sinni.

Þegar fréttamenn fara að hafa áhrif á atburðarrásina með athugasemdum sínum sjáum við að ekki er allt með felldu. Lára Ómarsdóttir og fleiri fréttamenn eiga eftir að fá þetta framan í sig sig þegar rykið fellur og lengi eftir það.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.4.2008 kl. 15:45

29 Smámynd: Ingólfur

Lísa, bílstjórarnir voru farnir úr bílunum og margir pössuðu sig meira að segja að vera búnir að koma lyklunum til félaga sinna sem voru ekki með bíla þarna.

Það hefði því verið hægara sagt en gert að færa bílana í skyndi. 

Ingólfur, 24.4.2008 kl. 17:00

30 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég segi það satt, heldur vil ég að landinu sé stjórnað af löglega kjörninni ríkisstjórn, með tilstyrk lögreglu, þó þar megi finna innanum angurgapa, samanber "gasmanninn" sem virðist hafa horft á of margar hasarmyndir, en af brjáluðum vörubílstórum...

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.4.2008 kl. 17:51

31 identicon

Mér fannst lögreglan algjörlega missa sig þarna - virkaði eins og ungir óreyndir menn að gera sitt besta - kunnu ekki betur - vissu ekki betur - var bara að gera það sem þeim var sagt að gera - ég tel þá sem yfir þeim eru algjörlega ábyrga - og mér finnst alveg hræðileg sú mynd sem núna er komin upp af lögreglunni gagnvart ungu fólki - þetta minnti mann á myndbönd sem maður hefur séð stundum í fréttum af bandarísku löggunni að handtaka fólk með dökkan litarhátt - og þá hefur löggan fengið kærur fyrir.
Þessar aðfarir fóru langt yfir strikið - það er alls ekki hægt að horfa framhjá því.
Og ég tek undir með Heimi L. Fjeldsted í hans færslu hérna á undan.

Ása (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 18:01

32 Smámynd: Yngvi Högnason

Gleðilegt sumar frú Ólína, er ekki fína veðrið fyrir vestan núna?

Yngvi Högnason, 24.4.2008 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband