Var það þá drengurinn sem var pyntaður - ekki hundurinn?

Athyglisvert þykir mér ef hundurinn Lúkas er svo á lífi eftir allt saman. Þá sýnist mér miskunnarleysið hafa tekið á sig sorglega mynd, þ.e. gagnvart ungum manni sem var ofsóttur hér í bloggheimum.

Auðvitað er hugsanlegt að hundurinn hafi lifað hinn margumtalaða fótboltaleik af og sloppið frá kvölurum sínum. Væntanlega verður dýralæknir látinn ganga úr skugga um það hvort hann ber einhver merki misþyrminga (náist hundurinn á annað borð). Maður veit samt vart hvað réttast er að vona í þessu máli - því niðurstaðan er í báðum tilfellum sú að hér hafi skelfilegum pyntingum verið beitt: Annaðhvort gegn hundi, eða ungum manni, sem varð fyrir miskunnarlausu einelti, sakaður um skelfilegan glæp gagnvart dýri.

Sé hann saklaus eftir allt saman er ljóst að sakargiftirnar hljóta að hafa valdið honum sáru hugarangri og vanvirðu - að ég tali svo ekki um hótanirnar og illskuna sem hann varð fyrir í kjölfarið. Það má segja að sálarlífi hans hafi í þeim atgangi verið sparkað milli manna, líkt og varnarlausum smáhundi sem er innilokaður í tösku.

Rangar sakargiftir varða við lög. Mér finnst ekki til mikils ætlast að nú beinist rannsóknin að því hvort rangar sakargiftir hafi verið bornar á menn, og þeir sem það gerðu - sé það tilfellið - verði látnir standa fyrir máli sínu. Menn verða að læra að axla ábyrgð orða sinna - orð geta verið vopn sem bíta.


mbl.is Hundurinn Lúkas á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki einnig rétt að fjölmiðlar fari smá sjálfskoðun líka í kjölfar þessa?  Þetta var fariði út yfir allan þjófabálk fyrir en nú er þetta orðinn allsherjar farsi....eða jafnvel harmleikur.  Frammistaða fjölmiðla var allavega sorgleg og vitnar um að hér er ekki krafist menntunar né þokkalegrar greindar til að starfa á fjölmiðli.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.7.2007 kl. 01:54

2 identicon

Heyr heyr

árni (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 02:24

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Fjölmiðlar æða um allt óbundnir af siðferði eða lögum. Þeir eru eins og óþekkur krakki sem er skilinn einn eftir í postulínsbúð. það á eitthvað eftir að brottna. fjölmiðlar landsins hafa nú þegar á samviskunni eitt dauðsfall.

Fjölmiðlar landsins hafa frá því að fjölmiðlalöginn voru dreginn til baka, leikið lausum hala og elt upp mál af blóðþorsta og aldrei spáð um alla þær hörmungar skaða sem þeir valda. allt fyrir áhorfið, sama hversu miklu blóði þarf að spilla á leiðinni. 

Fannar frá Rifi, 17.7.2007 kl. 09:48

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Við vitum ekki hvað hefur gerst en hundurinn er orðinn rosalega mannfælinn.      Tamin dýr verða það ekki upp úr engu. Hvað gerðist?

Sigurður Þórðarson, 17.7.2007 kl. 10:56

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er þér svo hjartanlega sammála Ólína og þessi pistill orð í tíma töluð.  Vissulega geta fjölmiðlar spilað ákveðinn þátt í þeirri fjöldahysteríu sem fór í gang, t.d. í þessu máli, en fjárinn hafi það, fullorðið fólk hlýtur að geta tekið ábyrgð á hegðun sinni án þess að benda á fjölmiðla sem afsökun fyrir hegðun sinni.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.7.2007 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband