Hvað skal með Hannes?

kristin1 Já,  hvað á háskólarektor að gera við Hannes Hólmstein Gissurarson nú þegar hæstiréttur hefur dæmt hann fyrir ritstuld? Vefsíðan kistan.is hefur undanfarinn sólarhring beint nokkrum spurningum til háskólasamfélagsins um þetta mál. Af þeim svörum sem komin eru er ljóst að menn vilja að háskólarektor aðhafist á einhvern hátt og að menn telja dóm hæstaréttar eðlilegan.

HannesHolmstetinn 

Salvör Gissurardóttir bloggar í dag um þetta tiltæki kistunnar.is og telur að þarna sé ómaklega vegið að Hannesi bróður hennar. Hann sé þarna hafður að háði og spotti. Það er full ástæða til þess að hafa það sjónarmið í huga að hugsanlega fari menn offari í þessu máli. Söfnun álita eins og á sér stað á kistunni.is getur orkað tvímælis - því með henni er hætt við að það myndist sveifla eða stemning sem kannski er ekki nægilega yfirveguð. Aðgerðarleysi  og þögn háskólans á þar trúlega nokkra sök.

 

Þó er ég ekki sammála bloggvinkonu minni Salvöru. Þeir fræðimenn sem tjá sig á vefsíðu kistunnar eru (flest)allir að gera það af af einurð sýnist mér. Ég er ein þeirra sem svaraði spurningum vefsíðunnar og gerði það af fullri alvöru, þó ég hefði ekki mörg orð. Fólki finnst að rektor - eða yfirstjórn háskólans - eigi að bregðast við. Fólki líður illa með stöðu málsins eins og hún er. Þetta verður að virða og það er full ástæða líka til þess að þetta komi fram.

Mál Hannesar hefur leitt eitt gott af sér - og það er umræðan og aukin vitund um meðferð ritheimilda í fræðiskrifum.  

Dr. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, kemur inn á það mál í sínu svari  til kistunnar. Þar vekur hann athygli á þeim plagsið fræðimanna að stela verkum og hugmyndum með því að vitna ekki í frumheimildir, heldur milliliði. Höfundur A setur fram hugmynd eða kenningu sem B tekur upp. Síðan kemur C og notar kenninguna með því að vitna í B en ekki A.

Fyrir þessu hafa margir orðið, m.a. Gísli sjálfur, ég og margir fleiri. Þessi umræða er löngu tímabær - og mál til komið að hrista háskólasamfélagið aðeins til varðandi þetta, því þarna eiga margir sök.

Þó að svar Gísla sé yfirvegað og sett fram af sanngirni, get ég þó ekki tekið undir allt sem hann segir. Hann telur til dæmis að háskólayfirvöld geti ekki vikið Hannesi úr starfi vegna þess að hann hafi ekki brotið hegningarlög.

Brot í starfi þarf ekki að snúast um almenn hegningarlög - heldur gildandi starfsreglur. Séu þær brotnar, þá hlýtur viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að bregðast við. Það er svo kaleikur yfirstjórnar stofnunarinnar að bregðast rétt við - en þann kaleik vill sjálfsagt enginn taka af háskólarektor eins og sakir standa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ólína,

Til að kynna sér málið lítillega ættu menn og konur að lesa ágæta fréttaskýringu eftir Klemens Ólaf Þrastarson í Fréttablaðinu í dag (3. apríl) en þar er farið ofaní nokkur dæmi um það sem málið snýst. Ég hef fylgst með þessu lauslega frá upphafi og mér sýnist að Hannes, blessaður kallinn, þurfi að yfirgefa Háskóla Íslands fyrir þetta enda kominn í skammarkrókinn. Menn með svona menntun og þekkingu eiga að vita betur. Allir geta gert mistök í lífinu og stundum nokkur. En þetta verður seint flokkað undir mistök. Það er spurning hvað Íhalds-skjaldborgin getur varið kallinn lengi í þeim mótbárum sem á undan hafa gengið.

Jón "Vatni" Ólafsson bauð Hannesi sáttarlausn í öðru máli og fá skriflega afsökunarbeiðni varðandi þau ummæli sem hann lét fara frá sér og málið yrði látið niður falla. Hannes þrjóskaðist við og meig í skóinn sinn. Þar klúðraði Hannes viljugur góðu tækifæri til að spara sér milljóna króna fjárútlát í formi skaðabóta. Svona mönnum er varla mikil vorkunn. En alltaf eru tvær hliðar á öllum málum og við skulum sjá hvað gerist að endingu allra þessara mála. Þótt sól hækki nú á lofti með lygnum sjó og fuglasöng, þá sýnist mér ólguský vofa yfir Hólmsteini.

Róbert Schmidt

Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 10:41

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er auðvitað ekki hægt að tala um ranga Hæstaréttadóma, en menn geta hins vegar verið þeim ósammála.

Ég hvet alla til að lesa greinargerð Hannesar hér.

Júlíus Valsson, 3.4.2008 kl. 11:15

3 identicon

Ég skrifaði þetta hjá Salvöru...

-Eitt sinn (sem oftar) áttum við HHG í deilum og var haft eftir mér: "Ég er ósammála honum en tilbúinn að láta lífið fyrir að hann fái að hafa skoðun". Þetta er auðvitað stolið úr frönsku byltingunni en blaðamaður Fréttablaðsins þótti þetta merkilegt og birti sem mína speki. Vonandi fæ ég ekki bágt fyrir. Ég var kominn á sömu hillu og Ólína fyrir löngu og hef í raun ekkert við það að bæta. Svör margra í Kistunni er þeim til minnkunnar bæði sem persónur og fræðifólk. Ég held að þar sé pólitísk gláka á ferðinni. HHG sagði eitt sinn við mig: -Sá sem aldrei lyftir höfði upp úr skotgröfinni kemst aldrei neitt en á jafnframt á hættu að fá í sig skot.- Ég er sannfærður að ef gæsalappir hefðu verið á réttum stöðum væri þessi ritröð um HKL talin það merkasta sem út hafi verið gefið um nóbelskáldið. Sendu drengnum heilsu mína. Hann hefur bein til að bera.  - 

Skoðanavegir okkar Ólína eru oftast samsíða og samátta.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 11:16

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir fróðleikinn Ólína.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.4.2008 kl. 11:28

5 identicon

Ég þykist sjá á hinum ýmsu bloggsíðum að flestum finnist Hannes ekki eiga að halda starfinu við Háskólann.

Það fór hinsvegar ekki mikið fyrir opinberum vandlætingum í aðdraganda þess að Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti lýðveldisins og viðurkenndi aðspurður að hann væri ekki með hreint sakavottorð.  Samt kosinn.

Alþingi götunnar gerir upp á milli manna.

Hinsvegar er það í höndum Háskólarektors að taka á þessu máli Hannesar, og einhverjar reglur munu til fyrir hana að fara eftir. 

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 11:49

6 identicon

Eftir að hafa lesið greinargerð Hannesar, þá ítreka ég þau orð mín að tvær hliðar eru á öllum málum. Hannes hefur nokkuð til síns máls í rökstuðningi sínum og eftir á að hyggja er þetta kannski stormur í vatnsglasi? Mér sýnist að Laxnes sjálfur hafi gert aðra texta að sínum ansi oft og fleiri merkir menn sbr greinargerð Hannesar. En eins og Júlíus bendir á er varla hægt að tala um ranga hæstaréttadóma. Greinargerð Hannesar hefur fengið mig til að endurskoða mína afstöðu í málinu að einhverju leiti. Hvet alla sem hafa tíma að renna yfir hana þó ekki væri nema að skoða báðar hliðar málsins. Já, svona er Ísland í dag.

Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 12:36

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Sammál þér Róbert. Ég hef ekkert vit á bókmenntum en mér sýnist HHG vera að gera nákvæmlega sömu hluti og aðrir hafa gert um árabil, meira að segja sjálft Nóbelsskáldið. Er ekki verið að leggja prófessorinn í einelti af því að hann er kjaftfor? Við meðalmennin myndum vart lenda í svona hremmingum þótt við meðhöndluðum kunna texta á sama hátt.

Júlíus Valsson, 3.4.2008 kl. 13:24

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Í framhaldi af athugasemd Róberts Schmidt: Það er auðvitað vont ef skáld leyfir sér ritstuld. Enn verra er þó ef fræðimaður í prófessorsstöðu gerir það, því hann hefur skuldbundið sig til þess að kenna öðrum og gefa gott fordæmi.

Þá finnst mér athugasemd Ólafs Vignis um forsetann ekki koma þessu máli við.

Böl verður ekki bætt með því að benda á annað - þó það sé oft reynt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.4.2008 kl. 14:00

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Það má ekki gleyma þvi, að HHG er prófessor og sérfræðingur í stjórnmálafræði en ekki lögum, einkarétti eða bókmenntum og kennir ekki þær greinar. Ritstörf hans koma því starfi hans við HÍ ekkert við.

Ætti t.d. að reka frönskukennara sem keyrir of hratt og reykir Gauloises á Mokka?

Ég er bara að reyna að sýna honum þá sanngirni, sem mér finnst skorta í þessari umræðu.

Júlíus Valsson, 3.4.2008 kl. 14:09

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Júlíus, þér getur ekki verið alvara með að ritstörf Hannesar komi starfi hans í HÍ ekkert við.

Ritstörf Hannesar eru hluti af hans rannsóknarframlegð í starfi prófessors - og þú mátt trúa því að hann hefur fengið þessi störf metin til launa hjá Háskólanum.

Það er góðra gjalda vert að sýna sanngirni - en þá verða menn líka að halda sig við staðreyndir og skoða hlutina eins og þeir eru. Meðvirkni og sanngirni eru ekki eitt og hið sama.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.4.2008 kl. 14:12

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Stjórnsýslulögin hafa þó ákvæði um meðalhóf. Varla telst það meðvirkni?

Júlíus Valsson, 3.4.2008 kl. 14:46

12 Smámynd: Júlíus Valsson

ps

Nóbelsskáldin skrifa svo fallega að það dettur engum í hug að lögsækja þau  

Júlíus Valsson, 3.4.2008 kl. 14:48

13 identicon

Gæsaglappa,
gerði skot,
þurs í þrot,
lappabrot,
hólmsins grjóta,
veggja ljóta,
krot,
nú tárin vot,
karli vísa á í kot,
eins og skot.

http://hehau.blog.is/album/Bloggmyndir/image/178072/

Steini Briem (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 17:01

14 identicon

Samkvæmt Mbl skildi ég svo að Hannesi yrði ekki veitt áminning né vikið úr starfi, heldur beðin um að endurtaka ekki leikinn. Skamm, skamm Hannes, svona máttu ekki gera aftur. Þá vitum við það.

Róbert Schmidt (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband