Samstöðustjórnmál?

RadhusRvikur Mér er þungt um hjartarætur eftir að hafa horft á viðtölin við Svandísi Svavarsdóttur og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í Kastljósi í gær. Mér líður eins og ég sé í herkví - er ég þó ekki íbúi í Reykjavík heldur bara kjósandi vestur á fjörðum og venjulegur samfélagsþegn.

 Það lítur út fyrir að skýrsla stýrihópsins svokallaða eigi að verða endahnúturinn á þessu skelfilega OR og REI máli. Svandís talaði um að það hefði ekki verið í verkahring nefndarinnar að sakfella menn. Nú yrðu menn bara að læra af reynslunni og ná samstöðu um betri vinnubrögð  í framtíðinni. Hún talaði um samstöðustjórnmál.

Þeim sem brjótast inn á bensínstöðvar er ekki gefinn kostur á slíku. Hvers vegna ættu þá menn sem reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings að fá aðra meðhöndlun? Þegar fyrrverandi borgarstjóri - sem  vel að merkja var bæði ráðinn og kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning í borginni - bregst því trausti að gæta verðmætanna og verður vís að ósannindum - hvað þá?

Sjálfum finnst honum rétt að stjórnir OR og REI muni nú "fara yfir málið". Halló! Er ekki búið að fara yfir málið? Voru það ekki kjörnir fulltrúar sem fóru yfir málið? Trúa menn því að stjórnir þessara fyrirtækja muni aðhafast eitthvað gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum?

Og ekki hafa stjórnir OR og REI yfir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að segja. Hann er utan þeirrar seilingar. Hver mun sjá til þess að hann axli ábyrgð?

Það eiga kjósendur að gera - segja menn borginmannlega á bloggsíðum.  Vandinn er bara sá að kjósendur eiga ekkert val. Það er engin lagastoð fyrir því að rjúfa borgastjórn og efna til nýrra kosninga - þó vissulega væri þess full þörf nú. Löggjöfin gerir bara ekki ráð fyrir að annað eins og þetta geti gerst í einni sveitarstjórn. Og enn er langt til kosninga. Vilhjálmur ætlar að verða borgarstjóri eftir ár. Lagalega er ekkert sem getur komið í veg fyrir það.

Og hvað er þá til ráða? Kjósendur eiga jú sína fulltrúa í borgarstjórn. Það eru auðvitað þeir sem eiga að tala máli almennings og sjá til þess að einhver axli ábyrgð. Það hlýtur að vera þeirra hlutverk öðrum þræði. Annars hefur ekki verið velt við hverjum steini.

Samstöðustjórnmál? Ég þekki líka annað orð: Það er orðið samtrygging sem löngum hefur loðað við valda- og viðskiptaöflin í þessu litla landi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er með svipaðar pælingar Ólína. Held að ég komist að svipaðri niðurstöðu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 11:00

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Missti ég af einhverju?

Hvernig getur þú komist að þeirri niðurstöðu að Vilhjálmur hafi verið að „reyna að komast yfir milljarðaverðmæti í eigu almennings „?

Var það ekki velgreiddur einstaklingur úr öðrum flokki sem var komin með yfirburðastöðu í REI fyrirtækinu og var á góðri leið með að bæta góða eiginfjárstöðu sína allverulega á kostnað almennings þegar allt sprakk í loft upp.

Grímur Kjartansson, 8.2.2008 kl. 11:42

3 identicon

Skil vel áhyggjurnar.

Held samt að næsta skref sé þegar tekið þó við fáum ekki að vita af því strax.

Bingi fór með hraði ekki bara vegna samræðna og skýrslu heldur vegna þess að hann vissi næstu skref.

Nú má Villi fara að haska sér

Vildi samt sjá að við öll tækjum á köllum eins og BJArna Ármannssyni sem alltaf lítur út eins og stuttbuxnadrengurINN. 

Margrét (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 11:44

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Grímur.

Ég held því ekki fram að persónan Vilhjálmur hafi verið að reyna að komast yfir milljarðaverðmæti - það voru aðrir aðilar sem reyndu að ná til sín þessum verðmætum með aðstoð Vilhjálms og annarra stjórnarmanna. Vilhjálmur brást því trausti að gæta þessara almenningsverðmæta. Svo varð hann margsaga í málinu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.2.2008 kl. 12:18

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Skil hvað þú meinar og deili þessari skoðun með þér.  Málið er allt hið ótrúlegasta klúður þar sem lykilmenn almennings brugðust gjörsamlega trausti.  Þar léku Vilhjálmur og Björn Ingi sér með eldspýtur inni í hlöðunni með fjárplógsmennina Bjarna Ármanns og Hannes Smára að baki.  Björn Ingi er fluggreindur og mat sína stöðu þannig að best væri að hverfa af svæðinu áður áður en kviknaði í hlöðunni.  Villi stendur hins vegar ráðvilltur inni í REI-kjarkófinu og veit ekki sitt rjúkandi ráð orðinn margsaga með eldspýtustokkinn fyrir aftan bak.

Er honum treystandi? 

Svandís var sú sem lá á gægjum í dyragættinn og hljóp til og kjaftaði frá.  Nú sér hún eftir öllu og vill vera allra vinur.  Skýrslan hennar (hin þverpólitíska) er hreinn skandall.  Kjörnir fulltrúar allra flokka rannsaka sjálfa sig og semja síðan eitthvert almesta loðmullubull sem sést hefur lengi.  Hún minnir mig á stóra rakettu sem ég keypti um áramótin.  Flott og gaf fögur fyrirheit, fór upp með hvelli en svo ekkert meir.  Hún hlýtur að teljast vonbrigði ársins.

Sveinn Ingi Lýðsson, 8.2.2008 kl. 12:55

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er nú svo heppinn að vera hjartalaus, annars væri það mölbrotið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.2.2008 kl. 13:00

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

 

Til bráðabirgða má benda á skoðanakönnun á www.visir.is þar sem spurt er:  Á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að segja af sér í kjölfar skýrslu stýrihópsins um REI?  Svarað er einfaldlega já eða nei.

Nú þegar vilja 72,5% svarenda að Vilhjálmur segi af sér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 14:24

8 Smámynd: Atli Hermannsson.

Skýrslan er eins og búast mátti við. Hún er samsuða þar sem nánustu aðstandendur passa sig við jarðarförina að kannast ekki við nema mjög takmarkað við líkið.  Ég var svolítið vonsvikinn með Svandísi í Kastljósinu. En e.t.v. var það vegna þess að maður gerir svo miklar kröfur til hennar eftir að hún var búin að heilla mann. En eftir á að hyggja þá hefur hún eftir stjórnarslitin og vera aftur komin áhrifalausu-megin við borð OR og REI, engin tök á að láta neinn sæta ábyrgð eins og hún kannski vildi. Það er bara ekki í hennar valdi lengur - því miður.

Atli Hermannsson., 8.2.2008 kl. 14:35

9 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Samtrygging er rétta orðið. Völd virðast spilla besta fólki. Líka í VG

Held því miður að þær væntingar sem borgarbúar hafi haft til vinnu stýrihóps Svandísar hafi hrapað í gær. Ekki síður en trú margra á Svandísi.

Anna Kristinsdóttir, 8.2.2008 kl. 14:48

10 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Já það er kannski ekki í valdi Svandísar lengur að láta menn sæta ábyrgð - en það er undarlegur viðsnúningur miðað við hversu skelegg hún var í upphafi að gera ekki allavega kröfuna um það!

Guðrún Helgadóttir, 8.2.2008 kl. 14:49

11 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér finnst það heyra undir innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins hvort Vilhjálmur kemst upp með að segja "Sorrý" og málið sér þar með dautt.

Ef þeir láta hann sitja áfram eftir þetta allt saman, þá held ég að það hafi nokkur áhrif á kjósendum í næstu borgarstjórnarkosningum, eða ætti að minnsta kosti að gera það. Þannig að þá er þetta mál sem kjósendur geta á þeim punkti sagt sitt um.

Að ætlast til að Svandís Svavarsdóttir þurfi að dómfella pólitíska andstæðinga, því að þeirra flokkur geti ekki ráðið fram úr sínum innri málum, er nokkuð sem hugnast mér bara alls ekki.

Svo er annað sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf líka að standa reikningsskil á bæði í næstu kosningabaráttu og við umræðu um reikninga næsta árs, og það er reikningurinn sem Reykvíkingar eiga eftir að borga fyrir Ólaf F Meirihlutamyndara.

En það er ekki umræðuefnið á þessum þræði.

Jón Halldór Guðmundsson, 8.2.2008 kl. 16:30

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla rétt að vona að Vilhjálmur verði ekki neyddur til að segja af sér. Það er afar mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram við að sýna okkur sitt rétta pólitíska andlit. Og haldi áfram við að verja sitt pólitíska siðferði.

Nú er bara eftir að sjáq hvað hann gerir við úrskurð Mannrréttindanefndarinnar. En förum við ekki að gleyma ráðningu dómarans?

Árni Gunnarsson, 8.2.2008 kl. 17:13

13 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Góður pistill - Erum við ekki bara að tala um að það sé sami sitjandinn undir öllu þessu liði þegar á hólminn er komið?- eða vill fólk kannski frekar segja samskonar sitjandi -  spillt lið allt saman! eiginhagsmunaseggir upp til hópa! Svo þegar einhver nýr brýst fram og fær mann til að trúa að þarna sé nú komin persóna sem að maður getur virkilega hugsað sér að klappa á bakið og hvetja áfram þá misstígur hún sig og maður stingur hönd aftur í vasa.

En fólkið í borg ótta og myrkurs er það sem á að láta heyra í sér og það eru til fleiri en leið til þess. En kannski verður bara gamla íslenska leiðin farin! málið flestum gleymt og grafið eftir c.a. 10 daga.

Gísli Foster Hjartarson, 8.2.2008 kl. 17:15

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innlitskvitt í rokinu, best að segja sem minnst um þessa blessuðu borgarstjórn, auðvitað ætti að vera hægt að kjósa uppá nýtt, það sér hver heilvita maður.  Vona að það reyni ekki á starfskrafta þína þessa helgi í vondu veðri.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.2.2008 kl. 17:24

15 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

 Sæl Ólína.

„Ég hef ekki orðið tvísaga í málinu. Ég bar þetta undir borgarlögmann en ekki einhvern lögmann út í bæ“. Segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Nú hefur komið í ljós að núverandi borgarlögmaður var ekki spurður. Þá segir Vilhjálmur „Ég átti við fyrrverandi borgarlögmann“. Án þess að segja hvaða fyrrverandi borgarlögmann hann ætti við.

Áður en núverandi borgarlögmaður hóf störf hafði enginn gegnt stöðunni í tvö ár. Fyrrum borgarlögmenn eru því orðnir lögmenn út í bæ.

Þegar menn byrja að ljúga og leiðrétta sig með ósannindum þá enda menn alltaf í öngstræti.

„Einhver verður að axla ábyrgð“ segir núverandi borgarstjóri. Gaman verður að sjá hver þessi einhver verður , ef þá einhver?

Kveðja, Axel Jóhann.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.2.2008 kl. 18:22

16 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæl Ólína.

Þessi skýrsla er fín byrjun, en fráleitt að þetta sé endirinn á málinu.  Svandís hefur að mínu mati unnið g´riðarlega gott og þarft verk, svona þverpólitísk úttekt hefur aldrei áður verið unnin hér á landi og við skulum ekki gera lítið úr því.  Ég ráðlegg að menn spyrji að leikslokum og er sannfærður um að málið heldur áfram, m.a. á grundvelli skýrslu Svandísarnefndarinnar.

kveðja vestur, 

Árni Þór Sigurðsson, 8.2.2008 kl. 20:07

17 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

 

Ég er búin að senda inn eftirfarandi fyrirspurn hjá tveimur tölvufróðum bloggurum og langar til að vekja athygli á blekkingunni sem er í gangi með Kjörkassa Vísis í dag sem ég benti á í athugasemd við fyrri færslu:

Ég veit að þú ert tölvukarl mikill og hefur atvinnu af þessum tólum. Mig langar að spyrja þig hvernig getur staðið á því að könnunin sem nú er á vefsíðunni http://www.visir.is/ getur breyst eins hratt og raun ber vitni - ég trúi ekki mínum eigin augum.

Spurt er:  Á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að segja af sér í kjölfar skýrslu stýrihópsins um REI? Svarmöguleikar eða Nei að venju.

Fyrir um það bil 2-3 tímum var svarhlutfallið þannig að um 72% höfðu sagt .

Nú hef ég setið fyrir framan tölvuskjáinn og horft á þessa tölu hrapa svo hratt að það er hreint með ólíkindum. Ég geri ráð fyrir að einhver hundruð eða einhver þúsund manns hafi tekið þátt í könnuninni svo prósentutalan hreyfist ekki hratt við hvert atkvæði. Á hálftíma hafa tölurnar hins vegar breyst úr því að vera um 70% - 30% Nei í að vera um 49% - 51% Nei.

Hvernig er þetta hægt? Nú á hver og einn ekki að geta kosið nema einu sinni og þótt allur Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt atkvæði síðasta hálftímann hefðu tölurnar ekki getað breyst svona hratt, svo mikið veit ég. Ekki heldur þótt einhver hægrisinnaður tölvunörd hafi setið við tölvuna sína, eytt smákökunum, "refreshað" og kosið aftur.

Eru þeir hjá Vísi að falsa niðurstöðurnar eða geta kerfisstjórar úti í bæ greitt 100 atkvæði í einu eða eitthvað slíkt?

Það verður augljóslega ekkert að marka niðurstöðu þessa Kjörkassa Vísis, svo mikið er augljóst.

Þessir tveir tölvufróðu menn eru Steingrímur og Elías og verður fróðlegt að sjá svör þeirra.

--------------------------------------------------

 

Rétt í þessu var verið að skipta um spurningu í kjörkassa Vísis...

Þegar svörin voru orðin:  Já = 49,9%  og Nei = 50,1% var komið með nýja spurningu.

Grunsamlegt?

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 21:13

18 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

 

Svar Steingríms:

Auðvelt er fyrir þá sem að kunna að skrifa lítinn JAVAscript bút sem að kýs í sífellu frá sömu IP tölunni & eyðir sjálfkrafa þeirri 'köku' sem að liggur á vafra kjósandans sem að á að koma í veg fyrir að sami aðilinn geti kosið oftar en 2svar.

Þetta grunaði mig.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 21:40

19 Smámynd: Þorsteinn Hauksson

Búinn að vera flokksbundinn frá blautu barnsbeini eðayfir 30 ár, en að öðru.

Foringi okkar í borgini er búinn að gera allveg upp á bak í þessu máli. Ef það er ætlun borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna að bakka Villa upp í þessu máli þá þarf ég verulega að endurskoða mí mál. Ég get ómögulega stutt þessa vitleysu lengur.

Þó verð ég að nefna að að aðkoma allra borgarfulltrúa aðþessari skýrslu er bara brandari. Hvernig ætla þeir að velta upp öllum steinum og koma svo með þessa moðsuðu. Ég hafði trú á Svandísi í þessu í upphafi, en fljótlega fór að halla undan fæti, og steinin tók út er hún samdi við OR um að þeir greiddu reikninginn fyrir hana þá yrði allt bara í góðu lagi. Þá sýndi hún hvernig stjórnmálamenn eru í reynd, blaðr út í og svo skulum við þegnarnir borga og síðan tekur samtryggingin við all fyrir völdin.

Ég sem sjálfstæðismaður frábið mér að okkar fulltrúar verji þennan skrípaleik, og koma síðan fram og segja að Villi njóti fullst traust, menn hafa skammast sín fyrir mynni sakir. Ef þetta verður raunin þá er ég genginn úr flokknum.

Þorsteinn Hauksson, 8.2.2008 kl. 23:30

20 Smámynd: Þorsteinn Hauksson

Búinn að vera flokksbundinn frá blautu barnsbeini eða yfir 30 ár, en að öðru.

Foringi okkar í borgini er búinn að gera allveg upp á bak í þessu máli. Ef það er ætlun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna að bakka Villa upp í þessu máli þá þarf ég verulega að endurskoða mín mál. Ég get ómögulega stutt þessa vitleysu lengur.

Þó verð ég að nefna að að aðkoma allra borgarfulltrúa að þessari skýrslu er bara brandari. Hvernig ætla þeir að velta upp öllum steinum og koma svo með þessa moðsuðu. Ég hafði trú á Svandísi í þessu máli í upphafi, en fljótlega fór að halla undan fæti, og steinin tók út er hún samdi við OR um að þeir greiddu reikninginn fyrir hana, þá yrði allt bara í góðu lagi. Þá sýndi hún hvernig stjórnmálamenn eru í reynd, blaðra út í eitt og svo skulum við þegnarnir borga og síðan tekur samtryggingin við, allt fyrir völdin.

Ég sem sjálfstæðismaður frábið mér að okkar fulltrúar verji þennan skrípaleik, og koma síðan fram og segja að Villi njóti fullst traust, menn hafa skammast sín fyrir mynni sakir. Ef þetta verður raunin þá er ég genginn úr flokknum.

Afsakið að fyrri ath. fóru óyfirfarnar og því þurfti ég að laga stafsetningu og fl.

 Þar sem Ólína er kennari með meiru varð ég að laga þetta annars fengi ég bágt fyrir

Þorsteinn Hauksson, 8.2.2008 kl. 23:39

21 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Völd geta spillt, jafnvel ágætasta fólki. Það þarf að endurreisa traust folks a stjornmalamönnum.  Góð byrjun í þá áttina væri að Vilhj segði af sér. Borgarbúar vilja fá að segja sinn hug með því að kjósa nýja starfhæfa stjorn. 

Marta B Helgadóttir, 9.2.2008 kl. 00:20

22 Smámynd: Þorsteinn Hauksson

Sæl Marta.

Veit ekki hvernig þeir ætla að vinna traust. Þú hefur heyrt í mínum manni, ekkert gert af sér,allt í góðu. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismann samþykkir ruglið. Traust komið ekki bara niður í frostmark heldur í alkulda-273°C

Þorsteinn Hauksson, 9.2.2008 kl. 01:31

23 Smámynd: Theódór Norðkvist

Samráðsstjórnmál hlýtur Svandís að hafa ætlað að segja. Kannski bjóða olíufélögin stjórnmálamönnum upp á svoleiðis námskeið?

En þetta fer að hætta að vera fyndið, ef Ólafur F. ætlar að fara að sparka Villa, taka síðan völdin í eigin hendur. Ekki víst að hann hafi gleymt bakstungunni í eftirmála kosninganna, þegar Villi dró hann á asnaeyrunum.

Þá verður maður með 3-10% fylgi með tögl og hagldir í borginni. Sundurleitur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna  mun tæplega geta stöðvað hann.

Lára Hanna: Sennilega er nóg að kjósa í svona netkosningu, eyða síðan öllum kökum í vafranum (þarf ekki sérstaka tölvukunnáttu eða -menntun til, grúskarar geta þetta) og kjósa aftur. Síðan endurtaka leikinn eins oft og maður vill.

Ég held því að lítið sé að marka þessar netkosningar, ef einbeittur brota- og svindlvilji er fyrir hendi. 

Theódór Norðkvist, 9.2.2008 kl. 01:33

24 Smámynd: Björn Finnbogason

Hefur einhver velt fyrir sér borgarfulltrúnum í heild sinni.  Þarna eru ekki nema 2-3 konur!, af einhverju viti, restin er bara hreint út sagt ónothæf til að stjórna Trékyllisvík, hvað þá Reykjavík. 

Björn Finnbogason, 9.2.2008 kl. 01:54

25 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það gerir stöðuna erfiða, nánast vonlausa, fyrir Svandísi og aðra sem vilja losa um ýldulyktina, að spillingarfurstarnir skyldu hafa troðið sér aftur í meirihluta. Þar með eru þeir í lykilstöðu til að eyðileggja alla viðleitni til að koma á siðmenntuðum stjórnarháttum og nýta sér þá stöðu vel.

Theódór Norðkvist, 9.2.2008 kl. 03:58

26 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Skýrzlan góða hefur eflaust þróazt í vinnslu með öðrum hætti en menn sáu fyrir og hefði trúlega, til lengri tíma litið, misst marks ef hún hefði einkennzt af vígorðum. Ef skýrzlan inniheldur réttar upplýsingar um atburðarrás og samskipti allra sem snertu á málinu þá er hún gott vinnuplagg, en það er fráleitt að hér verði staðar numið. Kannski urðu einhverjir fyrir vonbrigðum með Svandísi í þeim skilningi að henni þætti nú nóg komið, menn hefðu lært og þetta ætti ekki að geta komið fyrir aftur. -Svo einfalt er þetta mál ekki.
Sjálfsvirðingar allra vegna verða þeir sem fóru fyrir sjálfsgróðavagninum að axla ábyrgð. Þeir sem bregðast trúnaði við þessar aðstæður verða að stíga til hliðar. Bæði stjórnmálamenn og embættismenn.

Framganga VÞV er aumkunarverð, tvísaga, margsaga, minnisleysi, sljóleiki og pólitískt dómgreyndarleysi og það er ekki að undra þótt spurt sé út í bæ hversu lengi xD heldur að verið sé að verja heiður hússins með því að pressa þvinga fólk til hlýðni og fylgispektar við meintan foringja flokksins í Reykjavík. -Mikið hlýtur sex-mínus-einn menningunum að líða illa, ég er viss um að þau eru sómakær í eðli sínu, en valdagræðgi xD virðast engin takmörk sett og því eru þessi óráð öll studd úr turnhúsi Valhallar. Það er svo til að ýlda málið enn frekar þegar dusilmenni í umboði eða umboðsleysi flokksins eru farin að ráðast með fölsunum á óformlega skoðanakönnun fyrir almenning.

En, kannast ekki einhver við lögguna sem stöðvaði drukkna manninn áður en hann settist undir stýri og missti af glæpnum -sem betur fer ?!!???????

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 9.2.2008 kl. 08:47

27 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Sæl Ólína,

Mér finnst æði margir gleyma hvernig þetta margumtalaða REI mál var statt í upphafi október 2007. Þá átti fyrirvaralaust að selja eigur borgarinnar á brunaútsölu og sameina REI og GGE. Hver stóð upp og reif í stýrið og rétti af kúrsinn? Aðeins fyrir vasklega framgöngu Svandísar réttist kúrsinn af.

Við þekkjum söguna um meirihlutaskipti. Stýrihópurinn var stofnaður í kjölfar þess. Í stýrihópnum áttu allir flokkar í borgarstjórn aðild. Svandís var formaður og tók að sér það erfiða hlutverk að ná samstöðu um þetta mál. Borgarstjórn fór í rækilega naflaskoðun. Hver var svo niðurstaðan?

Það varð góð niðurstaða í málinu að öllum einkavæðingaráformum OR og REI var sópað út. Undir þá niðurstöðu kvittuðu fulltrúar allra flokka. Þetta er mikilvæg niðurstaða.

Valgeir Bjarnason, 9.2.2008 kl. 10:32

28 Smámynd: Sævar Helgason

Stóramálið er auðvitað það eins og Valgeir B. bendir á hér að framan.

Það tókst að koma í veg fyrir að fjármálamenn  yfirtækju Orkuveituna ásamt Hitaveitu Suðurnesja með öllum auðlindaréttindum . Jeltzin aðferðinni sem er kunn frá upplausn Sovét þegar vildarvinir sölsuðu undir sig mikilvægustu fyrirtæki og auðævi Rússlands -"gefins"var í byrjun október sl, var hrundið varðandi Orkuveituna og i framhandinu liggur nú fyrir frumvarp á Alþingi varðandi eign Íslendinga á orkuauðlindunum og ekka að nauðsynjarlausu

Ennþá er Orkuveitan í 100 % eigu almennings og HS og auðlindum Reykjanesskagans var forðað frá erlendri eign.

Auðitað ber nafn Svandísar Svavarsdóttur hátt í þessari baráttu. 

Sævar Helgason, 9.2.2008 kl. 11:15

29 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Hvernig fara breytingar fram á kosningalögum borgarinnar? Ég spyr oft sjálfan mig afhverju er ekki tekið í taumanna núna og sett bráðabirgðalög svo hægt verði að kjósa á ný?

Edda Agnarsdóttir, 9.2.2008 kl. 11:34

30 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

ÉG vil þakka ykkur öllum fyrir góð innlegg og umhugsunarverð.

Lára Hanna - flott hjá þér að afjhúpa þessa árans skoðanakönnun. Þetta sýnir manni að það er ekkert vit í þessum könnunum. Sennilega hefur verið hárrétt hjá visi.is að taka hana út áður en hlutföllin breyttust enn meira. Þeir hafa líklega gert sér ljóst að þarna var verið að fikta í niðurstöðunum.

Um hlut Svandísar Svavarsdóttur vil ég segja þetta. Hennar framganga í upphafi máls var til fyrirmyndar, og það verður ekki af henni tekið. Ég efast ekki um að hún hefur gengið af góðum ásetningi til verka í stýrihópnum. Það breytir ekki skoðun minni á því að skýrslan má ekki verða endapunktur þessa máls. Pólitísk málamiðlun er ekki það sem almenningur óskar eftir núna, þó svo að póitíkusarnir sjálfir telji það farsælast fyrir sig.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.2.2008 kl. 13:18

31 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Blessuð Ólína.

Góð gein.

Kveðja,

Pjetur Hafstein Lárusson, 9.2.2008 kl. 13:58

32 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Sæl aftur.

Góð grein, vildi ég sagt hafa (ekki má nú gleyma samhengi orðanna eins og í pólitíkinni).

Pjetur Hafstein Lárusson, 9.2.2008 kl. 14:00

33 identicon

Tek undir það sem Árni Þór skrifar. Leiðréttið mig en var það ekki hún sem mótmælti þessum 20 ára sameiningarsamningi?

Í fréttum í útvarpinu í hádeginu er viðtal við Hjörleif Kvaran fyrrverandi borgarlögmann. Með virðingu fyrir fréttamanni Hallgrími Indriðasyni leyfi ég mér að endurskrifa samtal hans við þennan borgarlögmann.

"Vilhjálmur gaf út gaf út yfirlýsingu í gær þar sem að hann sagði að þegar hann talaði um í Kastljósi í fyrrakvöld að hafa leitað álits borgarlögmanns á umboði sínu til að samþykkja sameiningu REI og Geysis Green hafi hann átt við fyrrverandi borgarlögmann.

Hjörleifur Kvaran sem nú er forstjóri Orkuveitunnar gegndi starfi borgarlögmanns í níu ár en hætti störfum árið 2004.

Er hann þessi fyrrverandi borgarlögmaður?

Vilhjálmur verður að svara því sjálfur við hvern hann á en ég er fyrrverandi borgarlögmaður og ég hef komið að þessu máli og ég hef rætt þessi mál við hann.

Gafstu honum þau ráð að hann hefði þetta umboð til þess að samþykkja þessa sameiningu? Það hefur oft komið fram að ég hefið verið þeirrar skoðunar að han hafi haft þetta umboð , hann hafi bæði haft pólítiskt umboð og umboð sem borgarstjóri: stöðuumboð til að taka þessar ákvarðanir. Það hefur komið fram áður.  En það er ekkert nýtt í málinu.En sagðir þú honum það?

Eg held að á þessum tíma var Vilhjálmur bæði  stjórnarmaður í Orkuveitunni og borgarstjóri, og við ræddum þessi mál ágætlega í þessu ferli  Þannig að það má vel  vera að þetta  hafi komið fram í þeim samtölum , ég er alls ekki að draga það í efa.

En er Hjörleifur sem forstjóri Orkuveitunnar ekki vanhæfur til að gefa  slíkt álit í ljósi stöðu hans í málinu?

Þegar þessi mál komu inn á stjórnarfundinn og eigendafundinn þá átti ég enga hagsmuni í þessu máli. Enga.

Þannig að ef að þú hefðir haft einhverjar efasemdir um þetta umboð á þessum fundi hefðir..

Þá hefði ég alveg örugglega komið þessu til skila. Alveg örugglega.

Á fundinum......bara strax þá?

Á fundinum og við þá sem að þurftu að taka þessar ákvarðanir. Ég hefði örugglega komið því tlil skila ef ég hefði efast um umboð manna að þá hefði ég komið því til skila. Nú og Vilhjálmur er nú lögfræðingur líka og fundarstjórinn var lögfræðingur líka og þannig að það voru þrír lögfræðingar á fundinum. Og það var enginn sem gerði neinar athugasemdir við að það væri umboðsskortur  hjá einhverjum. Það kom bara löngu löngu seinna 

Mjög athyglisvert er að Hjörleifur Kvaran hætti sem borgarlögmaður 2004. Þýðir það að borgarbúar eru að borga núverandi lögmanni borgarinnar fyrir að sinna ekki verkefnum sínum í þágu borgarbúa? Mjög allvarlegt mál. Og ef REI var stofnað í júní í ár, hvernig hefur Hjörleifur Kvaran þá getað sinnt þessum spurningum um sameininguna, þar sem að hann hætti 2004?

ee (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:20

34 identicon

Sama hér Ólína, hún hefur staðið sig vel. Það sem að hún sagði í Kastljósi um þessa skýrslu og að þetta væri aðeins byrjunarþáttur í þessari málaheild hefur horfið í umræðunum.

Ath. síðasta stykkið sem byrjar með "Mjög athyglisvert er............         eru mínar spurningar.

Hvernig e

ee (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:33

35 identicon

Sama hér Ólína, hún hefur staðið sig vel. Það sem að hún sagði í Kastljósi
um þessa skýrslu og að þetta væri aðeins byrjunarþáttur í þessari málaheild
hefur horfið í umræðunum.

Ath. síðasta stykkið sem byrjar með "Mjög athyglisvert  er............         eru mínar spurningar.

Hvað er sjávarútvegsmálaráðherra að gera í Danmörku? Var hann að kaupa dýrafeldi? Er það til að geta byrgt sig niður, svo að hann þurfi ekki að huga að niðurstöðu mannréttindanefndar?

Hver er sendiherra í Danmörku? Væri gaman að vita.

ee (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:41

36 identicon

Fólk hefur verið rekið fyrir minni sakir úti í þjóðfélaginu í viðskiptalífinu, tja í raun í allri atvinnustarfsemi. Skil ekki þrjóskuna í Villa af hverju hann segi ekki af sér og í raun allir í Sjálfstæðisflokknum.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 22:06

37 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Þetta mál allt er hætt að vera fyndið

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 9.2.2008 kl. 22:30

38 Smámynd: Jens Guð

  Ég hef alltaf verið jákvæður gagnvart Vilhjálmi.  Hann hefur virkað á mig sem góðlegur krati,  heiðarlegur og hrekklaus.  Þegar REI málið komst í hámæli í haust taldi ég Vilhjálm vera leiksopp fégráðugra fjárfesta sem nýttu sér hrekkleysi Vilhjálms.  Ég er enn á þeirri skoðun.

  En nú hefur Vilhjálmur glatað trúverðugleika.  Hann skrökvaði þegar hann ítrekað hélt því fram að hann hefði notið leiðsagnar borgarlögmanns (sem er Kristbjörg Stephensen). 

  Vilhjálmur fullyrti í Kastljósi:  "Ég ber auðvitað svona mál undir borgarlögmann."  Einnig:  "Ég þarf auðvitað að bera mig saman við borgarlögmann um þetta mál."

  Í ljós hefur komið að Vilhjálmur fór með ósannindi.  Jafnframt er upplýst að Vilhjálmur bað borgarlögmann eftir viðtalið í Kastljósi að hylma yfir ósannindin. 

  Síðar reynir Vilhjálmur að klóra í bakkann með því að segjast hafa átt við forstjóra Orkuveitunnar.  Sá segist ekki muna eftir að Vilhjálmur hafi leitað til sín varðandi umboð Vilhjálms en kannast við að þeir hafi oft rætt saman.  Meðal annars á fundinum sem málið snýst um:  Samning REI og GGE. 

  Svo bítur Vilhjálmur höfuðið af skömminni með því að fara í felur fyrir fjölmiðlum.  Ég sé ekki að Sjálfstæðisflokkurinn geti eða fari að verja blekkingarleik Vilhjálms og ósannindi.  Enda sé ég það hér í bloggheimi að flokkssystkini hans taka ekki þátt í þeim blekkingarleik.  Stjórnmál hljóta að snúast um trúverðugleika forystumanna.  Þann trúverðugleika hefur Vilhjálmur ekki og eina leiðin fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að vinna traust kjósenda/almennings er að taka á málinu af festu.

  Hvort að Vilhjálmur segir af sér í Silfri Egils síðar í dag eða þráast við í einhverja fleiri daga er spurning.  En dagar hans sem leiðtoga D-lista í Reykjavík eru taldir.  Það er ekki spurning. 

Jens Guð, 10.2.2008 kl. 02:33

39 Smámynd: Jens Guð

  Næsta spurning er hvort Hanna Birna eða Gísli Marteinn taki við leiðtogahlutverkinu.  Ég veðja á Hönnu Birnu. 

Jens Guð, 10.2.2008 kl. 02:36

40 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tókuð þið eftir í fréttum að Þorbjörg Helga stakk af til útlanda? Það er stórmannlegt hjá borgarfulltrúa að flýja af landi brott á einni erfiðustu stundu Reykjavíkurborgar. Kallast þetta ekki að yfirgefa sökkvandi skip?

Theódór Norðkvist, 10.2.2008 kl. 02:48

41 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Ég er ekki viss um að tekist hafi að koma í veg fyrir samrunann, sögðu menn ekki í haust "að samningar skulu standa". Standa þessir samningar ekki enn þá?

Það er svo grátlega vitlaust að vera dómari í eigin sök, og bjóða okkur Íslendingum upp á þessa vitleysu er niðurlægjandi. Að sjálfsögðu á óháð rannsóknarnefnd, og gjarnan mættu vera í henni erlendir menn sem hafa ekki hagsmuna að gæta, að fara í gegnum allt málið.

Gunnar Skúli Ármannsson, 10.2.2008 kl. 08:07

42 Smámynd: Ragnheiður

Stórgóð færsla Ólína og ég held að ég sé sammála hverju orði en er jafnlánsöm og þú að búa ekki í borg upplausnarinnar. Bý þó heldur nær henni en þú.

Ragnheiður , 11.2.2008 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband