Tónlistarupplifun í Ísafjarðarkirkju

Ég er að koma af aldeilis hreint frábærum tónleikum í Ísafjarðarkirkju þar sem franski fiðlusnillingurinn Gilles Apap fór beinlínis á kostum. Og ekki aðeins hann, heldur allir sem að þessum tónleikum komu.

Þarna komu fram Íslenska kammersveitin og Balzamersveitin Bardukha - báðar undir forystu Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, sem lék við "hvern sinn fingur" ef svo má segja. Hann heillaði mannskapinn gjörsamlega upp úr skónum - og virtist (a.m.k. í augum hins óbreytta leikmanns)standast nokkurnveginn samanburð við franska snillinginn.

Íslenska kammersveitin var fyrir hlé - skipuð frábæru mannvali. Eftir hlé lék Balzamersveitin undir með þeim Hjörleifi og Apap. Þar voru Ástvaldur Traustason á harmonikku, Birgir Bragason á kontrabassa - alveg ótrúlega góður - og svo senuþjófur kvöldsins, Steingrímur Guðmundsson á slagverkið. Ég kolféll fyrir honum - þvílík fingrafimi, taktvísi og hraði.  Magnaður galdur framinn þar.

Gilles Apap er sérstakur  tónlistarmaður. Hann hefur náð ótrúlegri tækni á fiðluna - svo mikilli að hann er farinn að brjóta niður helgidóma. Þá á ég við það hvernig hann brýtur upp þekkt tónverk, færir þau í nýjan búning, leikur sér að þeim, ummyndar þau beinlínis. Hljóðfærið leikur í höndunum á honum, að því er virðist algjörlega áreynslulaust.

Ef þið eigi þess nokkurn kost að hlusta á þennan mann leika á tónleikum - grípið þá tækifærið. Hann er sannkölluð upplifun.

Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta voru stórkostlegir tónleikar og unun að sjá og hlýða á.Hjörleifur Valsson og Gille Apap eru greinilega andlegir bræður. Báðir jafnflínkir á hljóðfærin og færir um að leika hvaða tónlist sem er af virðingu, hlýju, gleði og húmor. Hin sammannlega tilfinning streymir frá þeim og hittir áheyrendur beint í hjartastað. Bardukha var alveg hreint frábær og Kammersveitin líka og greinlegt að þau skemmtu sér, þvílíkt var andríkið í þeim franska. Ég er viss um að hver einasti maður fór glaður og sæll heim eftir þetta andlega sturtubað tóna og tilfinninga. ÞAð verður enginn svikinn af tónleikum þeirra á Akureyri í kvöld og í Grafarvogskirkju á sunnudag. Farið og njótið.

Ingunn Ósk Sturludóttir (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband