Í klóm álrisans Rio Tinto

 

RioTinto2 RioTinto Yfirtaka Rio Tintos á Alcan fyllir mig óhug. Ég kíkti inn á Wikipedia til  þessa að forvitnast um fyrirtækið, og satt að segja fellur mér nú allur ketill í eld.

 Rio Tinto er eitt stærsta fyrirtæki heims í námavinnslu og orkuiðnaði. Það framleiðir og höndlar með ál, kopar, járn og demanta og er gríðarlega umsvifamikið á heimsvísu. Þetta fyrirtæki hefur sætt ámæli og harðri gagnrýni fyrir að misvirða stéttbundin réttindi fólks auk þess sem það hefur valdið gríðarlegum náttúruspjöllum t.d. í Nýju Gíneu. Þar var fyrirtækið raunar sakað um að eiga þátt í borgarastyrjöld sem braust út í landinu.

Með yfirtöku á Alcan mun Rio Tinto fjórfalda álframleiðslu sína - það mun verða eitt alstærsta (ef ekki bara stærsta) fyrirtæki heims á sviði álframleiðslu.

Gera menn sér grein fyrir því hvaða áhrif það getur haft á íslenskt efnahagslíf að fá slíkan aðila inn í íslenskar aðstæður? Þessi risi verður eftir yfirtökuna allsráðandi - óviðráðanlegur - gagnvart íslenskum ál - og orkuiðnaði. Hann getur hæglega eignast allar fjárfestingar í íslenskum áliðnaði og gengið inn í þá samninga íslenskra orkufyrirtækja sem nú standa yfir.

Hreyfingar og yfirtökutilboð milli álfyrirtækja að undanförnu sýna okkur að nú stendur óvægin og harkaleg samkeppni yfir milli stærstu álfyrirtækja heims: RUSAL, BHP Billington, Alcoa, Alcan, Chalco, og NorskHydro. Þær sviptingar sýna svo ekki verður um villst að viðskipti þessara aðila snúast fyrst ogfremst um hagsmuni fjarmagnseigenda og fyrirtækja en ekki samfélagsleg gildi, bætt mannlíf eða náttúruvernd. Litla Ísland má sín lítils í klóm slíkra aðila - þegar þeir kasta landinu á milli sín í viðskiptum um fjármagn og gróða - eins og þegar tröllin leika sér að fjöreggjum. 

Ég tek undir með Össuri Skarphéðinssyni að þessi tíðindi auki ekki vonir manna um að sátt náist um umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi.

Skelfilegri er þó tilhugsunin um íslenskan þjóðarbúskap í heljargreipum þessa erlenda álrisa. Stjórnvöld ættu að leita allra hugsanlegra leiða til þess að hafa áhrif á það sem nú er að gerast, sé þess nokkur kostur.

Ég óttast hinsvegar að úrræðin séu ekki mörg í stöðunni eins og hún er. Því miður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Yfirtaka Rio Tintos á Alcan, móðurfyrirtæki Fjarðaráls" ???????

Ólína, akademísk vinnubrögð eru m.a. að kynna sér málið áður en maður lætur eitthvað frá sér.

Fjarðarál var í eigu Alcoa síðast þegar ég vissi.

NN (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 16:56

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hárrétt athugað - pennaglöp af minni hálfu. Takk fyrir ábendinguna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2007 kl. 17:39

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Sælog takk fyrir að vera bloggvinur minn.....þar sem þú ert bókvitur penni og með bein í nefinu...þá þætti mér vænt um að þú skoðaðir aðeins það sem er á minni síðu .....lögin við ljóð Hákonar Aðalsteinssonar

Kveðja

frá Seyðisfirði

Einar Bragi Bragason., 13.7.2007 kl. 18:02

4 identicon

"Þær sviptingar sýna svo ekki verður um villst að viðskipti þessara aðila snúast fyrst og fremst um hagsmuni fjarmagnseigenda og fyrirtækja en ekki samfélagsleg gildi, bætt mannlíf eða náttúruvernd".

Og hvað með það? Þetta er fyrirtæki. Hér hafa mörg fyrirtæki umsvif sem hafa verið bendluð við allskyns óþverra hér og þar. Ég nefni sem dæmi The Coca Cola Company. Við höfum samt getað látið þau hegða sér skikkanlega hérna.

Það gengur ekki að ætla að tryggja góða hegðun fyrirtækja með því að velja hér inn aðeins þau fyrirtæki sem hafa gott siðferðisvottorð. Fyrirtæki hafa þann tilgang að skapa fjárfestum arð og flest fyrirtæki sem starfa í spilltum löndum hafa nýtt sér það til að auka á hagnað sinn. Í raun eru þau oft knúin til þess af samkeppnisaðstæðum.

Það má vel vera að einhverstaðar séu til fyrirtæki með samvisku. Efnahagslífið hinsvegar er hlutur ekki manneskja og eins og aðra hluti má nota það sér til gagns eða ógagns. Maður verður bara að nota hann rétt.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 21:55

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Nú finnst mér þú tala í hringi, Hans Haraldsson, þegar þú talar annarsvegar um efnahagslíf og fyrirtæki sem "hluti", en gerir um leið ráð fyrir að hægt sé að "nota" þá. Það þýðir að einhversstaðar kemur viljastýrð hugsun að verki - eða hvað?

Hvað eru fyrirtæki? Eru þau ekki fólkið sem við þau starfar? Hvaðan kemur "samviska" samfélagsins, fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem í hlut á? Er hún ekki samsafnað gildismat þeirra sem taka ákvarðanir fyri hönd viðkomandi samfélags, fyrirtækis eða stofnunar. Öðruvísi getum við ekki "notað" efnahagslífið, svo ég vitni orðrétt í þig. Það eru menn sem skapa efnahagslífið, og ef þeir eiga að "nota það rétt" þá hljótum við að álykta sem svo að fyrirtæki og efnahagskerfi lúti að einhverju leyti lögmálum hugsunar og samvisku (ekki bara blindum markaðslögmálum).

Þetta eru auðvitað heimspekilegar vangaveltur - en á þessu síðustu og verstu tímum eiga þær ekkki aðeins rétt á sér, heldur er þeirra beinlínis þörf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2007 kl. 22:27

6 identicon

Tölvan mín er hlutur. Ég er að nota hana til að skrifa þessa athugasemd. Ég gæti líka notað hana til að brjótast inn í tölvukerfi einhverstaðar og valda skaða. Er ég að tala í hringi?

Það sem ég átti við er að það er ríkisins að framfylgja lögum. Það hefur ekki gengi vel hingað til að notast við einhverskonar heiðurskerfi (honour system).  Í löndum þar sem lögum er illa framfylgt eru líkur á að fyrirtæki nýti sér aðstæður til að græða.

M.ö.o trúi ég ekki á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og sé ekki tilganginn í því að velja hér inn fyrirtæki eftir því hvort þau hafi hegðað sér vel annarstaðar eða ekki.

Alcan hefur ekkert hreðjatak á íslenskum stjórnvöldum. Fyrirtækið er skuldbundið til að kaupa orku. Eins hefur það engan hag af því að leggja niður starfsemina hér eða eitthvað slíkt. Stjórnsýsla hér er gagnsæ og mútugreiðslur ekki vandamál. Hvaða meðulum ætti það þá að beita til  að komast upp með að brjóta umhverfis- eða vinnulöggjöf eða hvað svo sem þú hefur áhyggjur af því að það geri?

Ég er alveg sammála þér um það að það er ekki hægt að láta allt ráðast af markaðslögmálum. Til þess eru sett lög um starfsemi fyrirtækja.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 22:45

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll aftur. Ég hef ekki verið að ásaka hvorki Alcan né Rio Tinto um ólöglegar fyrirætlanir á borð við mútugreiðslur - fjarri því.  Hvað varðar umhverfis og vinnulöggjöf ... tja, þá segi ég bara eins og lambið í ævintýrinu: Sporin hræða.

Það er leitt ef allir eru sammála um að ekki þýði að gera siðferðilegar kröfur til fyrirtækja - því fyrirtæki eru í mínu huga ekki dauð fyrirbæri. Þau eru hluti af samfélögum, hafa mikilvægu hlutverki að gegna yfirleitt og þeim stjórna menn sem nýta sér samfélagsaðstæður á hverjum tíma. Þessir sömu menn eiga val um það hvernig þeir hegða sér á markaði - rétt eins og þú sjálfur hefur val um það þegar þú gengur laugaveginn, hvort þú stjakar við öllum sem þú hittir, stígur ofan á liggjandi menn ... bara af því að þú getur það ... eða sýnir tillitssemi og aðstoðar fólk sem er að reyna að brölta á fætur. Þú kemst á leiðarenda hvora aðferðina sem þú velur - spurningin er bara, hvernig þér líðum sjálfum þegar þangað er komið.

Hin dauðu rök markaðshyggjunnar þurfa ekki að vera ásættanleg, þó svo vissulega geti fyrirtæki beitt afli og fjármunum ef þau kjósa svo. En samfélög og stjórnvöld þeirra eiga að þróa skoðanir á starfsaðferðum fyrirtækja - og láta afstöðu í ljós gagnvart þeim - það heitir viðskiptavild.

Hugtakið "Fair Trade"  byggir t.a.m. á þessari hugmyndafræði - og ég spái því að hún eigi eftir að verða vaxandi í framtíðinni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.7.2007 kl. 22:57

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Vaxtarbrjálæðið hefur rutt öllum iðnaði úr vegi hér nema áliðnaði.  Við erum einfaldlega ekki samkeppnishæf. Í stað þess hefur verið dælt inn 700 millljörðum af skammtímafjárfestingum, þar sem spekúlantar eru að ávaxta pund sitt í ofurvöxtum hér. Hér geta menn fengið milljarði til fjáfestingar í byggingum og tækjabúnaði og uppbyggingu þjónustu og tæknivæðingar.  Þegar vaxtablaðran springur, þá verður þessu fjármagni kippt út og allt klabbið hrynur eins og dómínó.  Það er fínt umhverfi fyrir svona terrorista að koma inn og yfirtaka klabbið og breyta þessu í bananalíðveldi þeim að skapi.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 03:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband