Hvernig úthafsrækja verður að þorski

sjomadur Framkvæmdastjóri LÍÚ sakar mig um þekkingarskort þegar ég held því fram að braskað sé með úthafsrækju þannig að hún geti orðið að þorski.

Málið hefur verið til umræðu á Morgunvaktinni á Rás-2 tvo undanfarna morgna, þar sem ég og Friðrik J. Arngrímsson höfum verið viðmælendur sitt hvorn daginn. Framkvæmdastjóri útvegsmanna reyndi að snúa sig út úr  gagnrýni á braskið í kvótakerfinu með því að veitast að þeim sem bera hana á borð, gera lítið úr þekkingu þeirra, saka þá um annarleg sjónarmið o.s.frv. Hann um það.

Nú ætla ég að útskýra hvernig úthafsrækja getur orðið að þorski.

Útgerðir hafa leyfi til þess að leigja til sín og frá sér kvóta. Þær geta einnig geymt kvóta og fært hann milli tegunda í vissum mæli. Í þessu tilviki snýst málið um að leigja til sín ódýra tegund og skapa sér þannig rétt til þess að leigja frá sér aðra dýrari tegund og hagnast á mismuninum.

Fisktegundirnar eru nefnilega misverðmætar þegar þær koma upp úr sjónum. Þorskur er t.d. helmingi þyngri á metum en rækja, og því er tonn af rækju ríflega hálft þorskígildistonn (stuðullinn er reyndar 0,57 en við skulum miða við 0,50 til að einfalda dæmið hér á eftir).

Útgerðir geta leigt frá sér allt að helming þess kvóta sem þær hafa til ráðstöfunar. Þorskurinn er verðmætastur og því borgar sig að leigja sem mest út af honum.

Nú er útgerð með 100 tonn af þorski til ráðstöfunar. Hún hefur veitt 75 tonn og ákveður að leigja frá sér 25 tonn. Vegna helmingsreglunnar þarf hún að sýna fram á að hún eigi 50 þorskígildistonn umfram það sem veitt hefur verið - þ.e. helmingi meira en það sem ætlunin er að leigja út. Þessi 50 þosrskígildistonn gætu t.d. verið 100 tonn af einhverri tegund sem er metin hálfgildi þorsks.

Við skulum segja að það sé úthafsrækja. Útgerðarmaðurinn leigir því til sín 100 tonn af úthafsrækju.

Nú man ég ekki leiguverðið á úthafsrækju, en 2-3 kr/kg eru nærri lagi. Úgerðin borgar því allt að 300 þús fyrir þessi 100 tonn. Þau gera útgerðinni kleift að leigja frá sér 25 tonn af þorski fyrir 200 kr/kg. Það gerir 4 milljónir króna í innkomu. Hagnaðurinn í þessu upphugsaða dæmi er þá 3,7 mkr, sem er auðvitað ekki nákvæm tala, en gefur þó nokkuð góða hugmynd.

Það er því vel skiljanlegt að menn vilji frekar nota úthafsrækjukvótann með þessum hætti heldur en að veiða hann - þetta borgar sig fyrir útgerðina.

Þannig kallar kerfið sjálft á braskið!

Annað form á kvótabraski eru tegundatilfærslurnar, þegar ein tegund er veidd í nafni annarrar, af því að útgerðin hefur heimild til þess að færa tegundir á milli upp að vissu marki. Slíkar tilfærslur geta því leitt til umframveiða í ákveðnum tegundum, eins og t.d. á ufsa.

Þriðja form brasksins er svo geymslurétturinn sem felst í því að menn geta geymt allt að 30% óveidds kvóta milli ára (nokkuð sem Einar K. Guðfinnsson  fv. sjávarútvegsráðherra jók úr 20% í tæpan þriðjung um síðustu áramót). Þetta er sögð skýringin á því að kvóti fæst ekki leigður eins og sakir standa því að útgerðirnar "halda að sér höndum" eins og það heitir. Grunur hefur vaknað um að það sé vísvitandi gert til að skapa þrýsting á stjórnvöld vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar. En það er önnur umræða.

Niðurstaðan: Kerfið er farið að vinna gegn tilgangi sínum, þ.e, verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna.

Kerfinu verður að breyta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er sannarlega þörf umræða og ungu mennirnir,  sem hafa verið að velta við steinum undanfarið eiga þakkir skyldar. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort tilgangur ýmissa reglna sem sagðar eru eiga að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu séu í raun settar til að auka veðhæfni fiska sem synda í  hafi.  Þessi atriði sem þú nefnir benda öll til þess en fleira mætti nefna s.s. kvótasetning á vanveiddum tegundum eins og skötusel, fiskur sem aldrei er í torfu. Af hverju var hann settur í kvóta?

 Þetta fyrirhyggjuleysi  mun nú bíta okkur (þjóðina) í rassinn verði ekki við brugðist af röggsemi og áræðni.

 Gangi þér vel.

Sigurður Þórðarson, 3.7.2009 kl. 07:26

2 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Flott hjá þér Ólína mín,haltu áfram á þessari braut góð rök og tími til komin að taka á þessu,þú lætur ekki kaffæra þig,gott mál,er innilega sammál þér,ég á bara eitt orð fyrir þig,sýndu þeim í tvo heimana,það eru ekki rök,að segja hún hefur ekkert vit á þessu??,þetta er rökleysa og sýnir bara að viðkomandi er komin í strand,Ólína það væri gott ef maður gæti kosið persónur,þá mundi ég kjósa þig strax,en því miður er ég ekki sáttur við samfylkinguna í dag,þótt ég sé ánægur með marga þar um borð,þá er ég mjög ósáttur með hennar aðgerðir,en þú stendur þig samt,eins og vona var vís. kær kveðja. konungur þjóðveganna.

Jóhannes Guðnason, 3.7.2009 kl. 09:00

3 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Því meira sem kvótakerfið er skoðað því betur kemur í ljós að það þjónar hagsmunum  LÍÚ manna en ekki þjóðarinnar. Persónulegar árásir breyta ekki þeirri staðreynd.

Þeir sem tala um IceSave samninginn og segja að við getum ekki staðið undir honum gleyma því að auðlindarenta af íslenskum fiskveiðum síðustu 10-15 ár slagar hátt upp í IceSave samninginn. Því miður fór auðlindarentan í einkaneyslu kvótagreifa og misheppnuð útrásaræfintýri þeirra.

Nú er hins vegar tækifæri, fyrnum kvótann hratt og notum auðlindarentu sem fæst með kvótauppboðum til að bjarga okkur í gegnum IceSave dæmið.

Hvernig sem dæmið er reiknað liggur fyrir að auðlindarentan er nálægt 30 miljörðum á hverju ári, sem á 10-15 árum skilar 300-450 miljörðum sem ætti að fara langt með að greiða IceSave. Með auðlindarentu á ég við umframhagnað af fiskveiðum eftir að útgerðin hefur skilað eðlilegum hagnaði eins og önnur fyrirtæki.

Sjá má tillögu að kvótauppboðskerfi sem gæti skilað þessum markmiðum hér:
http://www.uppbod.net

og nánar um 30 miljarða arðinn hérna: http://www.uppbod.net/30-miljarda-audlindarenta.aspx

Finnur Hrafn Jónsson, 3.7.2009 kl. 19:49

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já það er mörg matarholan hjá hinum grátandi útgerðarmönnum og svo hefur verið um áraraðir. Það er gott að vekja athygli á þessu braski öllu. Það er líka nauðsynlegt að útskýra þetta vel fyrir okkur sem ekki erum með þetta flókna kerfi á hreinu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.7.2009 kl. 02:41

5 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Sæl.

Það er löngu orðið tímabært að taka fiskveiðimál á Íslandi til gagngerar endurskoðunar.  Málflutningur LÍÚ á þá leið að þetta séu mál greinarinnar og að þeir eigi að fá að ráða þessu sjálfir eru álíka heimskulegt og það að flutningafyrirtækjum komi einum við í hvaða vegaframkvæmdir er ráðist í.

Hinsvegar er mér það hulin ráðgáta hvers vegna menn vilja breita úr einu kvótakerfi í annað kvótakerfi.  Gallar kvótakerfisins verða áfram að verulegu leiti til staðar og hvatinn að ná í eða hirða aðeins verðmætasta fiskinn verður áfram ríkjandi.  Og eftir að sjá "árangur" kvótakerfisins við uppbyggingu fiskistofna eiga menn ekki að vera feimnir við að gera breitingar í þeim efnum.

Eina skinsemin að mínu mati er að breita úr kvótakerfi yfir í sóknarmark, þó ekki væri nema í tilraunaskyni í nokkur ár.  Þá væri allt sem heitir brask liðin tíð.  Þau skip sem ekki róa, hafa ekkert peningastreymi.  Engin réttindi væru af neinum tekin, heldur væri eðli þeirra breytt.  Og þá gætu menn virkilega séð veiðiþol og stærðir fiskistofna.

Sigurður Jón Hreinsson, 4.7.2009 kl. 09:58

6 identicon

Óréttlæti kvótakerfisins er borðleggjandi. Kvótagreifarnir eru vellauðugir og hafa her lögfræðinga og annara áróðursmeistara í vinnu við að verja hagsmuni sína. Þeim hefur tekist vel upp þar sem stór hluti landsmanna heldur að aflaheimildirnar skuli vera í eigu örfárra útgerðarmanna og braskara en ekki Íslenska ríkissins.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 21:34

7 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þú getur nú verið hreykin af því Ólína, að verða fyrir svona tali frá Friðrik Jóni, það segir okkur að þú ert að koma við hann. Þetta litla dæmi sem þú tekur er alveg laukrétt og er þannig framsett, að allir eiga að geta skilið. Ekki láta deigan síga.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.7.2009 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband