Ekkert er eins og fyrr

ArnarfjordurAgustAtlason Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil - svo alvarleg - að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem átt hafa sér stað í hitasótt frjálshyggjunnar. Já, ég kalla það hitasótt, því það var eins og þeim sem báru ábyrgð á íslensku fjármálakerfi og stjórnmálaumræðu væri ekki sjálfrátt.

Í heila tvo áratugi smitaði og gegnsýrði frjálshyggjusóttin allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það svo upp fyrir okkur að að ekki einasta hafði fjárhagur þjóðarinnar beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund. 

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.

Það er því sorglegt að fylgjast með því hvernig menn láta sumir hverjir í þinginu þessa dagana - eins og þeim sé ekki sjálfrátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband