Í dag tók lítil stúlka til máls ...

Í dag tók lítil stúlka til máls og mannfjöldinn klappaði henni lof í lófa. Hún var vel máli farin og falleg lítil stúlka - kannski verður hún stjórnmálamaður einn daginn. En þessi litla stúlka með fallega nafnið er afar reið og áhyggjufull. Hún hefur meiningar um frammistöðu stjórnmálamanna, viðveru þeirra í vinnunni, ábyrgð þeirra á kreppunni og margt fleira.

Það tók á mig að sjá þetta reiða barn tala á fjöldasamkomu fyrir fullorðna. 

Nú spyr ég mig hvort ég hefði viljað sjá mitt eigið barn í þessum sporum - átta ára gamalt. Hjarta mitt svarar því neitandi. Höfuðið sömuleiðis. Svar höfuðsins á ég auðveldara með að rökstyðja, það er einfaldlega þetta: Allir sem starfa með börnum og fyrir þau hafa lögbundna skyldu til að sýna þeim "virðingu og umhyggju" og taka ævinlega mið af hag þeirra og þörfum í hvívetna. Það á ekki að leggja meira á barn en aldur þess og þroski leyfir.

Þegar átta ára gamalt barn er sett fyrir framan mikinn  mannfjölda sem fagnar reiðiorðum þess með klappi og fagnaðarlátum - þá má kannski segja að verið sé að sýna sjónarmiðum þess virðingu. En hvað með þroska barnsins og tilfinningar? Hefur átta ára gamalt barn gott af því að vera virkur þáttakandi á mótmælafundi sem haldinn er vegna bágra efnahagsaðstæðna og kreppu?

Dimmblá litla upplýsti að pabbi hennar hefði hjálpað henni með ræðuna. Það þýðir að hann  hefur rætt málið við hana - enda mátti heyra á máli hennar skoðanir og viðhorf sem barn finnur ekki upp hjá sjálfu sér heldur meðtekur frá öðrum. Dimmblá litla er uppfull af erfiðum, neikvæðum tilfinningum vegna stöðunnar í samfélaginu.  Átta ára gamalt barn í þeirri stöðu hefur augljóslega ekki verið verndað fyrir reiði og áhyggjum á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd.

Því miður.

Woundering

PS: Ég sé að ég er ekki ein um þessa skoðun - bendi ykkur á að lesa líka bloggfærslur Jennýjar Önnu og Þorleifs Ágústssonar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Mér finnst þetta hreinlega sorglegur atburður.  Góð færsla hjá þér !

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 3.1.2009 kl. 22:49

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Trúlega býr Dimmblá við góðar aðstæður og er upplýst. Ég hef meiri áhyggjur af börnum sem búa nú á heimilum sem eru að brotna í sundur vegna vægðarleysis stjórnvalda.

Hvaða áhrif hefur það á þroska barna þegar foreldrar þurfa að sækja viðurværið til stofnana vegna þess að þeir geta ekki framfleitt fjölskyldunni. Það er gott að börn skylji að foreldrarnir eru ekki sökudólgar (ábyrgir) í þessum aðstæðum heldur vanmáttugir stjórnmálamenn. Þeir sem standa með sjálfum sér komast best í gegn um raunirnar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 22:54

3 identicon

Þakka þér fyrir þessa færslu Ólína. Sett málefnalega og hlutlaust fram, án allra sleggjudóma til og frá, sem virðist einkenna svolítið umræðuna um þetta mál.  Persónulega finnst mér þetta sorglegt eins og henni Sesselju Fjólu hér á undan.  Ég á 8 ára stelpu sem ég gat engan veginn séð í þessum sporum.  Bara mitt mat.  Hef verið spyrjast og reyna að fá umræðu um hvaða skilaboð var verið að gefa okkur með þessu og hvert var markmiðið?  Eða var ekki nein djúp meining á bak við þetta? 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 22:55

4 identicon

Jakobína það er eiginlega ekki rök í málinu að önnur börn hafi það verra. 

Góð færsla.  Barnið hefur ekki þroska í að skilja hvað er í gangi.  Annars var hún ansi kröftug.

Hafrún (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 23:02

5 Smámynd: Auður Matthíasdóttir

Það er afar hæpið að setja átta ára gamalt barn í þessa aðstöðu.  Eiginlega er ég furðu lostin yfir þessu.  Þvert á móti á að reyna að halda börnunum frá þessum umræðum en reyna samt að skýra fyrir þeim stöðu mála á þann veg, að ekki veki ótta.  Svo þau skilji en verði ekki ofsahrædd eða eins og í þessu tilfelli ofurreið.  Það er engum hollt.

Auður Matthíasdóttir, 3.1.2009 kl. 23:11

6 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég er sammála þér Ólína - það á ekki að setja 8 ára barn í þessar aðstæður - þetta eru "fullorðins" mótmæli - eða ég hélt það.

Sigrún Óskars, 3.1.2009 kl. 23:22

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þetta var greinilega skýr stúlka og er að velta þessu öllu fyrir sér.  Hún á örugglega foreldra sem hafa vegið og metið aðstæður fyrir hönd dóttur sinnar, sem þau þekkja, ekki við hin!

Vil endilega minna á að þetta ástand hefur gífuleg áhrif á börnin okkar og við megum ekki þagga þeirra raddir, heldur hlusta.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:23

8 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Er hægt að vernda börnin fyrir þeim hörmungum sem lögð hafa verið á herðar þeirra? Nema að flytja með þau úr landi? 

Skaðast þetta barn eitthvað meira af því að halda ræðu á fundi, -hún óskaði sjálf eftir því-, en að koma fram í leikriti í Borgarleikhúsinu svo dæmi séu tekin? Skaðast börn af því að taka þátt í einhverju jákvæðu? 

Er þetta sjónarmið ykkar ekki of þröngt? Ég bara spyr? Sjálf í leit að svari. 

María Kristjánsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:23

9 Smámynd: AK-72

Langar kannski að benda á þetta blogg pabba hennar, þar sem hann útskýrir þetta með þessa stúlku.

Aftur á móti verð ég að segja að ákveðinn, landsfrægur aðili, fer yfir strikið á bloggi sínu um stúlkuna og foreldrana.

AK-72, 3.1.2009 kl. 23:27

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

María, ég held einmitt að það sé ekki hægt að vernda börn fullkomlega fyrir þeim erfiðleikum sem nú dynja á. En það skiptir samt máli hvernig unnið er með slíka hluti gagnvart börnum. Erfiðleikarnir eru til staðar - en er á þá bætandi? Barn getur óskað eftir ýmsu - barn hefur ekki alltaf vit fyrir sér. Það er okkar fullorðna fólksins að hafa vit fyrir börnum og ræða málin við þau.

Þú spyrð hvort börn skaðist af því að taka þátt í einhverju jákvæðu? Ég er ekki viss um að þetta hafi verið svo jákvæð uppákoma fyrir barnið. Kannski er þetta sjónarmið mitt of þröng, eins og þú veltir upp. En á ekki barnið að njóta vafans?

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.1.2009 kl. 23:31

11 Smámynd: Sævar Helgason

Mér fellur innihaldið í pistlinum hennar Maríu K. hér að framan.  Það vildi þannig til að ég stóð í nokkurra metra fjarlægð frá þessari knáu litlu stúlku.  Og ég verða að segja það að ég var bara stoltur af henni - auðvitað var þetta þaulæft hlutverk - væntanlega bara heima. Þannig virkaði þetta á mig -- hefði alveg getað verið í góðu leikhúsi.  Fyrir mig og fleiri þarna ,setti þetta - barnabrek- gott krydd í tilveruna og lyfti annars þungbúnu andrúmslofti verulega upp.  Hafi þessi litla stúlka þökk fyrir.

Sævar Helgason, 3.1.2009 kl. 23:44

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hverjir eru erfiðleikar Dimmblár litlu?!

Fær hún ekki að borða? Svar: Alveg örugglega.

Á hún ekki föt til að ganga í? Svar: Alveg örugglega.

Hefur hún ekki húsaskjól? Svar: Alveg örugglega.

Gengur hún ekki í skóla? Svar: Alveg örugglega.

Býr hún ekki hjá foreldrum sínum? Svar: Jú, það virðist hún gera.

Hverjir eru þá erfiðleikar Dimmblár? Svar: Engir.

Þorsteinn Briem, 3.1.2009 kl. 23:47

13 identicon

Þetta barn hefur ekki fundið það upp hjá sjálfu sér að tala um þessi atriði á þessum fundi. Þetta barn hefur ekki fundið það upp hjá sjálfu sér að tala á þessum fundi. Það á að vera í verkahring og á ábyrgð foreldra eða forráðamanna að átta ára barn geri ekki hluti sem hafa slæm áhrif á þroska þess eða líðan. Það hefur brugðist hér. Barnið er notað. Barnið er verkfæri í höndum foreldra með skoðanir sem telur best að koma þeim á framfæri í gegnum stúlkubarnið sitt. Sorglegt.

solla (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 23:48

14 Smámynd: Katrín

Það var þyngra en tárum taki að horfa upp á þetta og heyra.  Enn þyngra er þó að lesa orð allra þeirra fullorðnu sem verja uppátækið og upphefja.

Mér sýnist íslensk þjóð ekkert hafa lært af hörmungum sem yfir okkur dynja.  Börnin í Palestínu, Afganistan og fleiri löndum þar fyrir austan bera vopn.  Skyldu þau hafa beðið um það?   Fólk sem beitir börnum sínum til að upphefja sjálft sig og málstað sinn er ekki við bjargandi.  Ekki frekar en fóstufaðirinn sem misnotaði fósturdóttur sína í mörg ár.  Hann fékk 8 ára fangelsisdóm...hvaða dóm skyldu foreldrar Dimmbláar fá?

Katrín, 3.1.2009 kl. 23:51

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Katrín, hvað ertu eiginlega að tala um?  Þú blandar öllu saman!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:58

16 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hafrún ég er ekki að nota slík rök og þætti ágætt að þú leggir mér ekki orð í munn eða í blogg. Ég er að benda á að þeir erfiðleikar sem eru framundan skella á börnum þessa lands eins og öðrum. Þau verða áskynja um ástandið og ég held að það skaði þau ekki að hugsa gagnrýnið um aðstæður og standa með fjölskyldum sínum.

Ég hef yfirleitt haft efasemdir um að láta börn koma fram opinberlega en ekki meiri í þessu tilviki en öðrum. Finnst umræðan einkennast svolítið af tepruskap sem á kannski eitthvað skilt með meðvirkni með valdhöfum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:59

17 Smámynd: Óttarr Makuch

Ég er hreinlega sjokkeraður eftir að hafa heyrt af þessum atburði í dag.  Átta ára barn á aldrei og ég endurtek aldrei að þurfa koma fram með skoðanir foreldra sinna með þeim hætti sem þessi litla telpa þurfti að gera í dag.

Sama hvað hver segir þá mynda börn sér yfirleitt ef ekki alltaf skoðanir eftir umræðum heimilisins sem endurspeglar væntanlega skoðanir foreldra þeirra.  Þetta þekkjum við öll sem eigum börn í leik- og/eða grunnskólum.

Sama hversu sterkt barnið er þá vona ég að það verði ekki fyrir aðkasti eftir þennan dag frá jafnöldrum sínum sem geta verið ótrúlega beinskeytt í orðum.

Óttarr Makuch, 4.1.2009 kl. 00:02

18 identicon

Sammál þér Ólína.   Æ , þetta er bara pínulítið sorglegt að svona sé komið.  Þessi stúlka er kná og skýr og frábær í alla staði.  En henni er otað fram.   Á því er enginn efi í mínum huga.      Það er bara algjör óþarfi. Ég er þar með ekkert að fara fram á þöggun gagnvart neinum í okkar þjóðfélagi.

Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:07

19 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er alls ekki á að það eigi að pakka börnum inn í bómul en það má ekki gleyma því að vernda þau þannig að þau fái ekki kvíða að óþörfu. 

Ég lít á það sem hlutverk uppalanda að vernda börnin á meðan þau geta það ekki sjálf.

Frumkvæði þessarar stúlku er aðdáunarvert.  Ég held að Ólína sé ekkert að blogga um það.

Takk Ólína.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 00:08

20 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Mér finnst þetta alveg ótrúlegt. Hvers vegna gefur fólk sér að þetta hafa verið vond reynsla fyrir barnið. Það fer eftir hennar karakter og mér finnst þessi umræða sína virðingarleysi við telpuna sem persónu.

Ég er ekki að mæla með því að börn komi fram opinberlega en ég held að þessi umræða geti orðið kveikur að einelti en ekki það að hún skildi koma fram. Ég virði vilja hennar og fjölskyldu hennar. Hún stóð sig vel. Ég stóð skammt frá henni og skynjaði að henni leið vel í hlutverkinu.

Ég segi hlutverkinu því auðvitað var þetta framkoma.

Eigum við ekki bara að óska henni til hamingju með það hvað hún stóð sig vel.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 00:10

21 Smámynd: Katrín

Anna  lestu betur og þá sérðu að rauði þráðurinn er MISNOTKUN Á BÖRNUM...hvort sem það er til að flytja boðskap foreldranna með orðum eða vopnum..hvort sem um er að ræða andlega misnotkun eða líkamlega......

Katrín, 4.1.2009 kl. 00:10

22 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Katrín, hún vildi koma rödd sinni á framfæri!  Það er EKKI HLUSTAÐ Á BÖRNIN!

Þú segir... Mér sýnist íslensk þjóð ekkert hafa lært af hörmungum sem yfir okkur dynja.  Börnin í Palestínu, Afganistan og fleiri löndum þar fyrir austan bera vopn.  Skyldu þau hafa beðið um það?   Fólk sem beitir börnum sínum til að upphefja sjálft sig og málstað sinn er ekki við bjargandi.  Ekki frekar en fóstufaðirinn sem misnotaði fósturdóttur sína í mörg ár.  Hann fékk 8 ára fangelsisdóm...hvaða dóm skyldu foreldrar Dimmbláar fá?

Ég bið þig vinsamlegast að útskýra tengslin?

palestinubörnin og afganistanbörnin eru fædd og alin upp í fangelsi stríðs og ótta!!! Engin foreldri sendir barn sitt með byssu á vígstöðvar, heldur ekki í þessum löndum!

Svo þetta rugl um einhvern fósturföður sem misnotaði barn???  Enn og aftur ??? Viltu útskýra samhengið?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2009 kl. 00:38

23 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eruð þið á móti að rætt sé um samfélagsmál nálægt börnum? Ef svo er ekki, á þá að banna börnum að tjá sig um samfélagsmál? Það er alltaf hætta á að foreldrar beiti börnum sínum fyirsér, það sjáum við oft í íþróttunum og öðrum vettvangi. Eigum við að ganga út frá því að foreldri sé að beita þessu barni fyrir sér? Mér finnst þið of fljót að dæma. Ef stelpan vill tjá sig, finnst mér það vera réttur hennar. Sjónarmið 8 ára barns er jafn mikils virði og hvers annars. Börn eru engir hálfvitar. Það er erfitt að ákveða hvenær á að blanda börnum í málið og hvenær ekki. Sliðast liðið sumar var 10 ára gamallri stelpu hér í Svíþjóð nauðgað og hún drepin. Ég var ekki viss um að ég vildi að stelpan mín fengi að horfa á fréttir þá. Aftur á móti fær hún að horfa á stjórnmálaumræður ef hún vill og ég svara spurninum hennar um það efni eins og önnur af bestu getu. Auðvitað litast svöriin af mínum hugmyndum, en mér finnst það eðlilegt.

Ásta Kristín Norrman, 4.1.2009 kl. 00:47

24 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Mjög góð grein hjá þér. Það sem sumt fólk er að setja fram hér í athugasemdum virðist byggt á þeim misskilningi að þeir sem vilji ekki sjá börnum telft fram í pólitískum mótmælum af þessu tagi vilji ekki að hlustað sé á þau. Auðvitað á að hlusta á börnin og ræða málin við þau. En það á að gera innan fjölskyldunnar, innan skólanna í því verndaða umhverfi sem hentar þeirra þroska.

Hvar stöðvar barnaþulan Dimmblá?

Ástþór Magnússon Wium, 4.1.2009 kl. 00:48

25 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Það er ekki svo langt síðan konur átt ekki að tala opinberlega.

Ásta Kristín Norrman, 4.1.2009 kl. 00:54

26 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Tek undir með Ástu Kr. um umræðu og uppeldi barna. Ég sé ekki heiminn svarthvítann og upplifi ekki að það sé verið að "tefla fram þessari 8 ára telpu í pólitískum tilgangi"?

Finnst fremur tími til kominn að við, fullorðna fólkið förum að gera eitthvað af viti fyrir börnin okkar!  Hún var að minna á það og ég tek undir með henni.  Austuvöllur er verndað umhverfi og engin Palestína eða verra!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2009 kl. 00:55

27 identicon

Svona lagað á ekki að eiga sér stað og er misnotkun á barni, ekki það að barn hafi ekki rétt á þvi að hafa skoðanir, en í þessu tilfelli er greinilegt að barnið hefur fengið skoðanirnar að láni frá einhverjum fullorðnum.

Steinar Immanuel Sörensson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:58

28 identicon

Ég sé þetta þannig, að ef foreldrarnir eru með sterkar skoðanir og eru alltaf að tala um helvítis útrásarvíkingana og Range Roverana osfrv. að þá á barnið eftir að apa það upp. Það sem við heyrðum var ekki fullmótaðar skoðanir einstaklings heldur ómótuð endursögn af skoðunum foreldra hennar.

Ég fékk soldin aulahroll þegar ég sá þessa stelpu hald ræðuna. Þetta minnti mig svolítið á svona propagandauppákomu í óþróuðu ríki, kannski erum við ekkert svo þróuð eftir allt saman og svona uppákomur bara í takt við það.

Bjöggi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 01:01

29 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég vil ekki nota orðið "misnotkun" hér! Það á alls ekki við nema með beinum rökstuðningi!

Hitt er annað mál að mér virðist sem kommentin hér lýsi best þeim sem skrifa þau...ekki því sem gerðist!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:10

30 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Það hefur alltaf tekið mig sárt að sjá lítil börn með mótmælaspjöld. Við foreldrar megum ekki taka skoðanir barna okkar frá þeim. þeirra skoðanir koma vonandi og oftast með unglingsárunum. Það er svo eðlilegt að vera með heitar skoðanir þegar maður er komin í menntó og þá er líka eðlilegt að vera reiður.

Þessi uppákoma í dag olli mér vonbrigðum og sorg í hjarta.

Þóra Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 01:14

31 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Takk, Ólína.

Gestur Guðjónsson, 4.1.2009 kl. 01:14

32 Smámynd: Þorsteinn Briem

Anna. Fröken Dimmblá var ekki að tala fyrir sjálfa sig á Austurvelli. Hún er ekki í neinum erfiðleikum.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 01:16

33 Smámynd: Guðmundur Jónsson

þarna er ég þér sammála Ólína. Það virtist vera á viðtalinu í sjóvarpinu að þetta litla barn lifi í ótta við hluti sem það skilur ekki, hluti sem börn í minni fjölskildu þurfa ekki að óttast. En heimurinn er harður og það eru mörg börn sem eiga illa nothæfa foreldra.

Guðmundur Jónsson, 4.1.2009 kl. 01:21

34 identicon

Ógeðsleg framkoma foreldra að troða barni sínu svona fram. Þau eru bæði í Vinstri grænum, bara svo við vitum það.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 01:22

35 Smámynd: Þóra Sigurðardóttir

Ég vil samt taka það fram að stelpan er efnilegur kvennskörungur og kann að halda ræðu. Kannski eigum við eftir að sjá hana í pólítíkinni í framtíðinni

Þóra Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 01:24

36 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Steini Briem...Guðmundur og Örn!  SKAMMIST YKKAR!

Ef þið komið svona fram við barn og börnin ykkar heyra þennan hroka og sjálfselsku, munu þau leggja litlu hetjuna okkar í einelti!

Börnin endurspegla vissulega foreldrana og það sem er að gerast í kringum þau. Ég hef sérstaklegar áhyggjur af börnum Guðmundar!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:27

37 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég hef sjaldan orðið eins hneiksluð á umræðu á blogginu. Hér verið að ráðast á tiltæki lítillar stúlku með grimmd vegna þess að börn eiga að þegja á samkomum. Réttmæti þess að hún kom fram felst í því hvort að þetta tiltæki samræmist hennar karakter.

Síðan hvenær hafa börn ekki skoðanir. Ég hef alið upp fjögur og þau hafa öll haft skoðanir frá því að þau fóru að tjá sig og oft eiga þeirra skoðanir ekki samleið með mínum.

Við eigum að hvetja börnin okkar til þess að vera þátttakendur en ekki viðtakendur. Hvetja þau til þess að vera sjálfstæð í hugsun en ekki þýlynd. En umfram allt eigum við að virða þeirra karakter.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:34

38 Smámynd: Þorsteinn Briem

Anna.

Hvaða skoðanir hefur átta ára krakki, þótt bráðþroska sé, á Framsóknarflokknum?

Gengi dollars?

Bill Clinton og Monicu undir borðinu?

Geir Haarde?

Ástþóri Magnússyni?

Kynlífi?

Byrgismálinu?

Fimm ára áætlunum Sovétríkjanna sálugu?

Undirmálslánum í Bandaríkjunum?

Starfsemi banka og sparisjóða? ...

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 01:53

39 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Hvað var Geir H. Haarde aftur að skuldsetja þetta barn hátt? og ef henni verður barna auðið! Er ekki bara allt í lagi að setja hlutina í samhengi. Ættum við ekki að byrja á Geir kona góð!

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 4.1.2009 kl. 01:53

40 Smámynd: Anna Sigrún Baldursdóttir

Ólína, ég er hjartanlega sammála. Þetta er falleg lítil telpa, þó munnsöfnuðurinn haffi verið síður fagur. Henni hefur augljóslega verið sagt að á hana hafi verið lagðar byrðar til framtíðar og auðvitað er hún ekki sátt, blessað barnið. Það liggur svo sem ekki fyrir hverjar byrðarnar verða - ekki einu sinni hversu miklar þær verða - en sjálfsagt meiri en þær sem maður sjálfur fæddist með. Dætur mínar eru í sömu sporum og þær. En ég tel þær of ungar til að hafa áhyggjur af þessu og eins og er eru þetta ekki þeirra áhyggjur. Sannarlega má vera að þetta verði þeim þungt í skauti í framtíðinni, en þá er líka nógur tími fyrir þær að hafa áhyggjur. Að íþyngja þeim með þessu þegar heimurinn á að snúast um Pet-shop, skauta, sund og tónó stuðlar einfaldlega að því að ræna börnin sakleysinu. Er æskan ekki nógu stutt þó fullorðnir leggi ekki sínar áhyggjur á börnin? 

Anna Sigrún Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 01:56

41 Smámynd: Óttarr Makuch

Kæri Kreppukarl, þá held ég að þú sért að misskilja það sem fólk er að ræða um.

Fyrst og fremst held ég að þetta snúist um að leyfa börnum að vera börn en eins og ég skil þetta er ekki verið að tala um að hefta skoðunarfrelsi barna, síður en svo.

Hér á mínu heimili þá hvet ég börnin að mynda sér sínar skoðanir og standa á þeim, alveg eins og ég held rökræðum að eldri dóttur minni því þær geta vissulega oft á tíðum verið áhugaverðar eins og alltar samræður við börn. 

Dóttir mín er með miklar skoðanir enda kominn af fólki sem hefur miklar skoðanir, það er því ekkert óeðlilegt við það en ég myndi aldrei setja hana í þau spor sem litla stúlkan stóð í fyrr í dag.  Það er vissulega bara mín skoðun.

Óttarr Makuch, 4.1.2009 kl. 02:09

42 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Megin inntak barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að börn hafi skoðanir, eigi rétt á að koma þeim á framfæri og að á þau sé hlustað.

Ég sá í Sjónvarpi viðtal við afar skarpa unga stúlku og sé ekki að neinn hafi rétt á að taka það af henni að fá að tjá sig um málin. - Og hún gerði það með miklum sóma um leið og nærvera hennar minnti á hverjir eiga að borga axarsköft stjórnvalda.  - Það hefur trúlega farið í taugar sumra.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 02:19

43 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það hefur verið djúpt á það hjá okkur Íslendingum að virða það að born hafi skoðanir og eig rétt á að koma þeim á framfæri - og að á þau sé hlustað. Það sýnir sig afar víða. Það merkir ekki að alltaf eigi að fara eftir vilja þeirra, en þau mega hafa skoðun og eiga RÉTT á að koma henni á framfæri.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 02:22

44 Smámynd: Anna Sigrún Baldursdóttir

Helgi, eins sammála og maður getur verið því að börn hafi skoðanir og eigi rétt á því að koma þeim á framfæri, sýnist mér færsla Ólínu á engan hátt gera lítið úr því eða yfirleitt gera lítið úr þeim rétti. Börn hafa enn sterkari rétt til þess  að vera börn, í friði fyrir áhyggjum fullorðinna. Það er okkar hlutverk að sjá til þess að slíkt umhverfi sé barninu búið. Þetta eru einfaldlega ekki áhyggjur sem leggja á barn, hversu spontant, þroskað og skýrt sem það kann að vera.

Anna Sigrún Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 02:29

45 identicon

Dimmblá var bara dásamleg þarna í dag,

Held bara að ég sé sammála  Astrid Lindgren um að  við fullorna fólkið skiljum ekki alltaf blessuð börnin, því mega þau ekki létta af sér áhyggjum með því að leggja orð í belg sér í lagi ef þau vilja það sjálf, það er nú ekki á hverjum degi sem maður sér börn fara í ræðupúlt og segja það sem liggur á hjarta.

ag (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 02:35

46 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Heldur fólk virkilega að það sé hluti af þróun mannsins sem tegundar á jörðinni að einangra börn frá áhyggjum og daglegum viðfangsefnum fullorðna fólksins?

- Eða getur það skýrt stöðu okkar í dag ef Íslendingar hadlið það og í reynd alið upp kynslóðir án vitneskju og vitundar um veruleikann, hafa vanið sig á að halda börnum utan við dagleg viðfangsefni og áhyggjur þeirra fullorðnu? - Ætli þeir sem þannig alast upp kunni þegar til kemur að greina vandamál og viðfangsefni, hve alvarlega þau eru í reynd og að takast á við veruleikann með reynslu fyrri kynslóða í vegarnesti?

Er það ekki eitt það mikilvægasta í uppvexti allra tegunda að fá að fylgja þeim fullorðnu í gegnum vandamál og viðfangsefni daglegs lífs jafn sem þau sem ríða yfir stundum og sjaldan - verður það ekki í reynd hæfari kynslóð sem hefur séð foreldra sína bæði gera mistök og rétta úr kútnum og fengið að nasasjón af því hvernig það gerðist og fengið að fylgjast með?

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 02:37

47 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar sonur minn var átta ára gamall gagnrýndi hann vikulega hjá Möggu Blöndal í útvarpinu kvikmyndir fyrir bæði börn og fullorðna en hann hefði á þeim aldri engan veginn getað gagnrýnt íslenskt efnahagslíf og var hann þó gríðarlega bráðþroska.

Ég spái Dimmblá hins vegar góðum frama á leiklistarbrautinni og kannski eiga þau eftir að leika saman í einhverjum leikritum og bíómyndum.

Þetta er eldklár stelpa.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 02:37

48 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta bögglaðist eitthvað á leiðinni svo hér er það aftur:

Heldur fólk virkilega að það sé hluti af þróun mannsins sem tegundar á jörðinni að einangra börn frá áhyggjum og  viðfangsefnum fullorðna fólksins - eiga þau bara að læra af bókum og kennurum?

- Eða getur það skýrt stöðu okkar í dag ef Íslendingar hafa haldið það, og í reynd alið upp kynslóðir án vitneskju og vitundar um veruleikann, hafa vanið sig á að halda börnum utan við dagleg viðfangsefni og áhyggjur þeirra fullorðnu? - Ætli þeir sem þannig hafa alast upp kunni þegar til kemur að greina vandamál og viðfangsefni, hve alvarlega þau eru í reynd eða hver sýnast stærri en þau eru og að takast á við veruleikann með reynslu fyrri kynslóða með sér í vegarnesti?

Er það ekki eitt það mikilvægasta í uppvexti allra tegunda að fá að fylgja þeim fullorðnu á vegferð þeirra í gegnum vandamál og viðfangsefni daglegs lífs jafnt sem þau stóru sem ríða yfir stundum og sjaldan, - verður það ekki í reynd hæfari kynslóð sem hefur séð foreldra sína gera bæði mistök og að rétta aftur úr kútnum og fengið nasasjón af því hvernig það gerðist?

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 02:54

49 Smámynd: Þorsteinn Briem

Helgi minn. Um að gera að setja átta ára krakka inn í skortsöluna. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Sigurður Hreiðar átti hins vegar erfitt með að skilja hana.

Og er hann þó að minnsta kosti tíu vetra gamall.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 03:01

50 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þett snýst ekki um þekkingu hvorki þessa ræðumanns né annarra heldur tilfinningu og skoðanir.

- Ef það snérist um þekkingu mætti enginn tala á Austurvelli. Ekkert okkar hefur fengið að vita hvað gerðist í reynd - og almenningur hefur heldur ekki hagfræðipróf, - en jafnvel þeir vita ekki hvað gerðist í reynd.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 03:06

51 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég tek undir það sem Helgi er að koma á framfæri. Börn mótast mikið í uppeldinu. Það er heppilegast að þau séu virkir þátttakendur en það er kannski mikilvægt að ala þau upp í bjartsýni en fyrst og fremst raunsæi. Vel upp alinn krakki er krakki sem getur bjargað sér í því umhverfi sem samfélagið býður upp á.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 03:13

52 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Spámaður vandaðu orðbragðið.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 03:14

53 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 03:14

54 Smámynd: Þorsteinn Briem

Helgi. Og á hverju á skoðun og gagnrýni átta ára gamals barns á efnahagsmálum að byggjast ef ekki þekkingu á viðfangsefninu?!

Órökstuddar skoðanir eru einskis virði.

Margir æða daglega hér um bloggheima og tjá tilfinningar sínar um ólíklegustu málefni en okkur koma þær akkúrat ekkert við, ef þær eru ekki rökstuddar. Öll opinber umræða verður að vera rökstudd.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 03:35

55 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Við höfum öll skoðanir þó þekking okkar sé takmörkuð - og þær skoðanir má samt tjá.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.1.2009 kl. 06:18

56 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hef sjálf sett inn færslu um ræðuhöld þeirrar stuttu. Ég tek það fram að þetta er örugglega skýr stelpa og allt svoleiðis, en......

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.1.2009 kl. 06:35

57 identicon

kveldið,

Ef barn fær þá flugu í höfuðið að detta í það, þá eigum við ekki að stöðva það, eða hvað?

Ef barn fær þá flugu í höfuðið að láta útivistartímann um lönd og leið, þá er það ekki okkar að skipta okkur af því. Þetta er ákvörðun sem barnið tekur og við verðum að bera virðingu fyrir því.

barnið ákveður svo 8 ára gamalt að kaupa sér sígarettur og byrja að reykja og enn stöndum við varla í veginum fyrir barninu sem tekur sínar sjálfstæðu ákvarðanir.

Það er í raun hlægilegt að heyra fólk bera brigður á þetta athæfi. Ræðið við 8 ára barn. Ræðið við 100 átta ára börn, jafnvel þúsund. Og komist að þvi að þessir krakkar hafa ekkert í svona hluti að gera og í raun afar ósmekklegt ef ekki hreinilega siðlaust að henda barni í slíkar aðstæður.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft, hvernig væri að foreldrar þessa barns myndu nú taka sig saman í andlitinu og hætta að bera í barnið bölsýni, hatur og heift. Það er hægt að skýra fyrir börnum ýmsilegt. Þar á meðal má ræða um kreppuna, og skýra út ástandið að hluta. En við erum varla að röfla um kynlíf fyrir framan krakkana....afhverju er það? Að sama meini er þetta runnið. Allt hefur sinn tíma.

Ekkert 8 ára barn í heiminum er komið svo mikið til vits að það tali um þetta málefni frá eigin hjarta. Efist e-h um það, bið ég þann hinn sama að gefa sér sem og 10 mínútur með 8 ára barni á íslandi í dag..

Það skal þó tekið framm að stúlkan virkaði afar skörp og sennilega mikið mannsefni(konur eru jú líka menn :) )

Þórður Einarsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 06:58

58 identicon

Fjöldinn á "mótmæla"fundinum í dag samsvarar því að 1,2 milljónir hefðu safnast saman í miðborg London. Stjórnvöld í Englandi hefðu farið að hugsa sinn gang. En á Íslandi gerist ekki svoleiðis. Þessvegna set ég "mótmæla" innan gæsalappa. Þetta eru SAMKOMUR eins og góður bloggari orðaði það. Það eru fjölmörg dæmi þess að börn komi fram á samkomum. (Ég hef mætt á flesta þessa fundi og mun halda því áfram)

Ég er undrandi á hvað margir hér telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir öðrum. Meginhluti athugasemdanna einkennist af forræðishyggju. Ansi margir telja sig vita betur en foreldrar barnsins hvð því sé fyrir bestu. Ég hef alið upp nokkur börn og tel mig sæmilega hæfann í því hlutverki og frábið mér afskipti þeirra sem "vita betur" í því efni. Skildu sumir hér vera sama sinnis?

Foreldrar stúlkunnar tóku ákvörðun um að hún talaði á þessari samkomu. Þeirra dómgreind er eini mælikvarðinn á það hvort það sé rétt eða rangt. Ólíkt ótrúlega mörgum hérna þá hvarflar ekki að mér að efast um þeirra dómgreind, enda er það ekki mitt að efast um dómgreind annarra frekar en annarra um mína.

sigurvin (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 07:01

59 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Kæra Ólína, gleðilegt ár og megi 2009 reynast þér og þínum hið farsælasta.

Get út af fyrir sig verið sammála HJH um skoðanafrelsi, hjá börnum sem fullorðnum, en eins og útkoman er hjá honum í orðaglímunni við Steina karlinn, þá skiptir litlu þó það séu bara VITLAUSAR skoðanir, þær eigi að koma fram samt!

En Einar Áskelsson hefur spurt góðrar grundvallarspurningar, hvaða tilgangi þjónaði að láta eftir stúlkunni að tala? EF það var einungis vegna þrákeikni hennar,sem Grétar hefur skýrt frá, þá legg ég bara til að sérstakt barnaþing um kreppuástandið verði sett, því hún er alveg örugglega ekki eina barnið sem gæti hugsað sér að segja nokkur orð!

Hef annars ekki sterka skoðun á þessu,fyrst og síðast er það ábyrgð forelra að ákveða hvað börn megi eða eigi að gera eða öfugt. EF þetta hefur einhverjar neikvæðar afleiðingar í för með sér síðar fyrir stúlkuna, skapi til dæmis óæskilegt áreiti frá jafnöldrum, nú þá hljóta foreldrarnir líka að vita hvernig best er að bregðast við um leið og að taka þeim afleiðingum sem áreitið kann hugsanlega að valda!

En, þetta gæti svosem alveg virkað í hina áttina, félagsleg staða stúlkunnar hugsanlega batnað og þessi athygli virki jákvætt á þroskaferli hennar, sem manni virðist nú af þessu að dæma vera í ágætum farvegi nú þegar.

Almennt séð er ég þó á þeirri skoðun, að halda eigi börnum utan við pólitík og áróðursstarfsemi í kringum hana. Þessi atburður orkar því tvímælis vissulega að orð er sérstaklega á gerandi, sem og reyndar flest sem gert er, en kann á hinn bógin ekki að hafa afgerandi áhrif til lengdar litið.

Magnús Geir Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 07:04

60 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

100% sammála Ólínu í þessum pistli

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.1.2009 kl. 07:11

61 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þeim tilmælum hefur verið beint til foreldra og kennara í flestum grunnskólum landsins að hlýfa börnum við því krepputali sem tröllríður þjóðfélaginu. Með því er þó ekki verið að mælast til þess að börnin fái ekkert að vita af umhverfi sínu heldur að forráðamenn barna sýni ábyrgð sem uppalendur þeirra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.1.2009 kl. 07:17

62 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þetta var frábært hjá stelpunni. Bölvuð öfund er þetta. Það sem eyðileggur svona efnileg og skýr börn eru fáráðlingar eins og þú Ólína. Þú ættir að vera stolt af því að samfélagið geti alið af sér svo skýr og vel skrifandi, drífandi og ákveðin börn. Hvað með það þótt pabbi hennar hjálpi til með hreinskriftina, ég trúi varla að þú mundir ekki hjálpa barninu þínu við að orða ræðu og porra hana upp fyrir mikilvægan flutning. Það sem etv. er leiksýning í þriðja bekk fyrir þitt barn er ræða fyrir 4000 manns fyrir þessa stúlku. Alveg er það makalaust að þú skulir leggja þig niður við það, og þið sem hér skrifið að ofan, við að níða krakkann niður fyrir það að þora að koma fram fyrir þvílíkan mannfjölda og stela senunni gjörsamlega. Við nánari umhugsun þá er ég að verða þeirrar skoðunar sífellt sterkar að þið séuð fíflin hérna, að troða ykkar gildum upp á fólk sem er öðruvísi en þið.

Líður þér eitthvað illa að heyra 8 ára barn segja það sem það álítur sannleikann? Átt þú ekki að hvetja til gagnrýninnar hugsunar, og er barnið ekki að læra skyldu sína að gagnrýna jafnvel þótt snemma sé? Tjáningu? Þor og dug.

Ef þú lest þetta, unga ræðukona - Þá var þetta glæsilegt hjá þér og þú hrærðir við þúsundum samlanda þinna á þessum mínútum sem þú talaðir. Gott hjá þér, maður á að segja það sem manni finnst! Þetta fólk sem er að níða þig og foreldra þína niður og læst hafa áhyggjur af því að þú sért heilaþvegin, eru bara ósátt við að þú sért ekki heilaþvegin eftir þeirra höfði og fallir í óvenjulegt mót. Allir hafa skoðanir sínar einhversstaðar að, ekki aðeins frá sjálfum sér.

Rúnar Þór Þórarinsson, 4.1.2009 kl. 07:21

63 identicon

Því skildu börn ekki fá að mótmæla? Það er á margan hátt búið að skerða þeirra lífskjör alvarlega.

Í framtíðinni munu þau klára að borga lánin. Þó hún fái húsaskjól og mat þá tel ég nú að við förum fram á meir hér á landi og eigum að krefjast meir.

Hún stóð sig vel og má vera stolt af framtakinu.

ÞA (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 08:48

64 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er leitað allra ráða til aðð gera lítið úr þeim mótmælum sem nú fara fram, hvert hliðarspor og sérhver ''mistök''eru notuð.Það sést nú vel á því hvernig  bloggað er um þetta mál. Fyrst og fremst er verið að reyna að gera mótmælendur tortryggilega. Þó ég geti ekki að sinni komið með konkret dæmi get ég fullyrt eftir minu eigi minni að það megi finna mörg tilvik þar sem börn hafa haldið ræðu eða ávarp á samkomu fullorðinna sem varða pólitískar og þá ekki síður trúarlegar skoðanir. Börn að tala um Jesú, hvað þauj þroska til þess? Enginn hefur hneykslast á því - fyrr en núna, af því að sumir reyna allt hvað þeir geta til að koma höggi á mótmælendur. (Einn bloggari tengir þetta atvik á Austurvelli umsvifalaust við barnahermenn, frábært dæmi hvernig seilst er of langt til að búa til fordóma gegn ákvðenum hóðu, mótmælendum. Þar fyrir getur vel verið að það sé ekki viðeigandi að nota börn i þessum tilgangi. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.1.2009 kl. 10:13

65 identicon

Þetta  var afar sorglegt.  Í fyrsta skiptið gat ég ekki hugsað mér að fara á þennan mótmælafund og sat heima.

8 ára barn að öskra fúkyrði á stjórnvöld fyrir framan þúsundir manna, virkilega sorglegt.

Sigr.M. (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 10:57

66 Smámynd:

sammála

, 4.1.2009 kl. 11:34

67 identicon

Það væri ágætt að fá álit einhverra sem vit hafa á hvort hér sé um eitthvað neikvætt að ræða fyrir barnið.

Að barnið fái að tjá sig um að það sé skyndilega búið að gera það að greiðanda tuga milljóna króna skuldar, sem hún ber enga ábyrgð á.

Sem sálfræðimenntaður einstaklingur rekur mig ekki minni til að svona nokkuð ætti að hafa varanleg neikvæð áhrif á barnið, gæti reyndar frekar hvatt það til afreka í framtíðinni, ekki er það slæmt.

Það er smörklípa að tala um þetta mál sem eitthvað sem skiptir máli í dag. Þeir sem bera ábyrgð á stórbrunanum í samfélaginu benda allir á barnið sem hrækti á gangstéttina og dreifa umræðunni á dreif.

Baldvin Björgvinsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 11:37

68 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Er ekki viturlegast að leggja málið fyrir Umboðsmann barna, hætta þessu karpi og fara að einhenta sér í það, sem skiftir máli, að koma stjórnvöldum frá!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 4.1.2009 kl. 11:57

69 identicon

Góð grein er svo sammála þér!

Soffía (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 11:58

70 Smámynd: Hallur Magnússon

Sammála þér Ólína.

Lagði ekki í að blogga um þetta sjálfur - hef verið að gagnrýna lambhúshettuliðið og vildi ekki bæta þessu við.

Ég hef gegnum tíðina verið afar sorgmæddur að sjá ungum börnum beitt í pólitískum tilgangi. Palestínumenn hafa til dæmis beitt börnum óspart í mótmælum sínum - og jafnvel látið þau bera vopn fyrir framan myndavélarnar.  Það hefur mér fundist vont.  Tek fram að ég hef fulla samúð með stöðu Palestínumanna sbr. Dráp á palestínskum börnum móðgun við minningu myrtra gyðingabarna En framsetning þeirra með börn í forgrunni er skelfileg.

Ekki gleyma td. Hitlersæskunni og menningarbyltingunni í Kína!

Það er svo auðvelt að misnota börn í pólitískum tilgangi. Það er bara ekki rétt að gera það!

Ég er alls ekki að segja að ræða íslenska  8 ára barnsins sé sambærileg dæmunum sem ég nefni hér að framan. Fjarri því. 

Hins vegar er ákvörðunin að láta 8 ára barn halda ræðu á pólitískum mótmælafundi - þar sem ég styð málstað mótmælanna heilshugar - af sama meiði. 

Hvert verður næsta skrefið?   Barnahópur í pólitískum mótmælum? Hittist einu sinni í viku - eins og skátarnir - og ræða um næstu skref í mótmælum og hlusti á ræður fullorðna fólksins um ranglætið á Íslandi? Lambhúshettum dreift - og það ekki gegn kuldanum?  Veit að forsvarsmenn mótmælanna á Austurvelli dettur ekki slíkt í hug - en hvað með þá hörðustu úr lambhúshettuliðinu?

Ég veit ég er að mála þetta afar svörtum litum - og kannske miklu svartari en ástæða er til - en ég geri það til þess  að vekja fólk til umhugsunar um það sem gæti gerst.

Ég tel þetta hafa verið mistök hjá forsvarsmönnum mótmælanna - en að sumu leiti skiljanleg mistök. En hagur barnsins var ekki í forgrunni. Það er ljóst.

Hallur Magnússon, 4.1.2009 kl. 12:13

71 Smámynd: Sævar Helgason

Heimsfræg er hún sagan eftir hann H.C Andersen og er enn í dag vitnaði - í tíma og ótíma.

Þetta er sagan um " Nýju fötin keisarans " 

Í sögunni segir frá svikurum sem spiluðu á mannlegan hégóma - að sýnast í augum annarra - bæði gáfaður og klár- þó efnin væru enginn. 

Enginn vildi taka afstöðu til þess sem lá þó í augum uppi- af ótta við almenningsálitið- að vera álitinn heimskur. 

Allir lofuðu hin nýju för keisarans- sem þó engin voru. 

Og í skrúðgöngu mikilli þar sem keisarinn fór fremstur í sínum nýju fötum-sem engin voru- þá er það lítið barn í mannfjöldaþvögunni sem segir í sakleysi sínu "

Keisarinn er ekki í neinum fötum - hann er ber" 

Og ísinn var brotinn- hver át nú upp eftir öðrum- Hann er nakinn- hann er ekki í neinum fötum- Auðvitað var það öllum augljóst- en enginn þorði að viðurkenna það af ótta við að verða álitinn heimskur .

 Er þetta ekki ágæt dæmisaga fyrir þjóð sem lét útrásina , viðskiptaráðið og stjórnmálaklíku teyma sig á asnaeyrunum - beina leið á hausinn- Allir vissu innst inni að lántaka árum saman til að búa til góðæri- voru bara "Nýju fötin keisarans"

Og svo stendur barn upp á Austurvelli ,heldur þrumuræðu og bendir okkur á aulaháttinn í okkur.   Heill fyrir henni - hún stendur okkur framar.

Sævar Helgason, 4.1.2009 kl. 12:18

72 Smámynd: Valur Kristinsson

Ég er sammála þér Ólína, þessi litla stúlka er of ung til að standa frammi fyrir reiðum mannfjölda.

Ef hún væri fjórum árum eldri með meiri þroska og hefði þá kannske meiri víðsýni yfir  málin eins og þau eru í dag.

Samt er það álitamál.

Valur Kristinsson, 4.1.2009 kl. 12:23

73 Smámynd: Hallur Magnússon

Sævar.

Litla stúlkan í keisarasögunni sagði þetta í sakleysi sínu og af eigin frumkvæði þegar allir aðrir þögðu.

Það er ekki hægt að segja að almenningur hafi þagað um málið að undanförnu!  Samanburðurinn því ekki réttur.

Hallur Magnússon, 4.1.2009 kl. 12:37

74 Smámynd: Sævar Helgason

Hallur!    takk fyrir athugasemdina.

Sagan gerðist fyrst og fremst á ríkisstjórnartímum Framsóknar og Flokksins-- við eru núna að fást við afleiðingarnar . 

Sævar Helgason, 4.1.2009 kl. 12:49

75 identicon

Finnst að fólk eigi að einbeita sér að því sem skiptir máli núna, að koma spilltum stjórnmálamönnum frá völdum. Þvílíkur tepruskapur að vera að velta sér upp úr því hvort þessi litla stúlka hafi átt að tala á mótmælunum eða ekki. Orðið allt of mikið um pólitískt réttþenkjandi speltbakandi heilagt lið sem þykist hafa rétt fyrir sér um alla mögulega og ómögulega hluti.

Berglind Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 12:51

76 Smámynd: Þorsteinn Briem

Helgi og Magnús.

Skoðanafrelsi í opinberri umræðu er frelsi til að setja fram rökstuddar skoðanir. Ólína myndi tæplega eyða hér rökstuddum skoðunum um viðkomandi málefni en hún er að sjálfsögðu í fullum rétti til að taka hér út órökstuddar upphrópanir um menn og málefni, þar sem þær eru einskis virði í umræðunni og dónalegar órökstuddar upphrópanir geta jafnvel truflað hana.

Börn eiga að læra að rökstyðja sínar skoðanir, og mörg hver gera það jafnvel betur en fullorðið fólk, en átta ára barn getur ekki rökstudd skoðanir sínar á íslenskum efnahagsmálum, þar sem það getur ekki haft næga þekkingu á viðfangsefninu. Og fröken Dimmblá er ekki í neinum erfiðleikum. (Sjá hér að ofan í athugasemd #14.)

Fröken Dimmblá var því eingöngu með órökstuddar upphrópanir og þær voru einskis virði, rétt eins og órökstuddar upphrópanir fullorðins fólks, sem getur hins vegar rökstutt sínar skoðanir á íslenskum efnahagsmálum, enda þótt það sé ekki hagfræðingar.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 13:03

77 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Ja hérna eruð þið búinn að gleyma að þið voruð börn einu sinni og eruð þið orðinn svo gömul að þið mumið ekki hvernig þið voruð þegar þið voruð átta ára ,Ég man eftir því að ég var sjálfstæður og lét engan segja mér hvað ég átti að gera ef ég vildi það ,

nei ég er ekki svo viss að þessi hnáta láti neitt stjórna sér ,hún má vera stolt af því sem hún vildi gera og fékk að gera .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 4.1.2009 kl. 13:10

78 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka þeim sem hér hafa tjáð sig málefnalega, með eða á móti. Ég er ekki jafn þakklát þeim sem nota hér svívirðingar og árásir til að tjá skoðun sína - en það verður auðvitað hver að fljúga eins og hann er fiðraður.

En tvennt vil ég taka skýrt fram. Í fyrsta lagi hefur enginn mér vitanlega - síst af öllu ég - fordæmt sjálft barnið eða beint athugasemdum sínum og gagnrýni að því persónulega. En sumir sem hér hafa sett inn athugasemdir hafa látið liggja að því að við sem gagnrýnum þessa uppákomu séum á einhvern hátt að meiða sjálft barnið með orðum okkar. Það er auðvitað af og frá - hálfpabbi stúlkunnar hefði hinsvegar mátt hugleiða það áður en hann setti hana á ræðupall hvað það gæti þýtt fyrir hana. Og sé það tilfellið að hún sé nú að lesa bloggsíðurnar, eins og einhver talar um hér ofar, þá er það afar misráðið af forráðamönnum hennar hleypa henni með þeim hætti að umræðunni. Þessi bloggsíða hér er ekki skrifuð fyrir börn.

Í öðru lagi vil ég taka skýrt fram - vegna orða Sigurðar Þórs Guðjónssonar - að ég hef sama málstað og mótmælendurnir og hef enga sérstaka löngun til að gera mótmælin tortryggilega á nokkurn hátt - Það er af og frá - enda hef ég tekið þátt í mótmælum vegna ástandsins og ætla að gera það framvegis.  En þeir sem standa að mótmælunum verða auðvitað að geta tekið því að fólk hafi skoðun á framkvæmd þeirra. Þeir eru jú að tala í nafni "þjóðarinnar" og alls "almennings" hafi maður skilið orð þeirra rétt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.1.2009 kl. 13:15

79 identicon

Bara smá pæling um hliðstæður:

Má átta ára barn fara með kröftugan texta í leikhúsi?

Má átta ára barn fara með kröftugan trúartexta í kirkju að boði prestsins?

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 13:16

80 Smámynd: hilmar  jónsson

Fer ekki að verða búið að blóðmjólka þessa umræðu ?

Er ekki tím komin á að ræða frekar um hvernig og í hvaða farvegi viljum við sjá mótmælin ?

A. eru mótmælin á Austurvelli að skila einhverju ?

B. Er hugsanlega að nást meiri árangur í gegnum mótmæli aktivista ?

C, Einhver með hugmyndir um nýtt form á mótmælunum ?

hilmar jónsson, 4.1.2009 kl. 13:38

81 Smámynd: Þorsteinn Briem

Svavar. Barnið samdi væntanlega ekki sjálft þá texta sem þú nefndir og alls óvíst að það skilji innihald þeirra.

Hilmar. Mér sýnist á öllu að kosið verði til Alþingis nú í vor og þá verði einnig þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Og þegar aðildarsamningurinn liggur fyrir verður þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verður mynduð nú í maí.

Ég vona að fröken Dimmblá verði ánægð með það.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 13:54

82 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tólf ára gamall stóð ég fyrir framan smekkfulla Iðnó á frumsýningu á Vesalingunum. Þegar tjaldið var dregið frá eftir hlé stóð ég við götuvígi, sem uppreisnarmenn í París voru að hlaða og hélt einræðu.

Gunnar Hansen og Einar Pálsson voru búnir að leggja mikið á sig að æfa framsögn mína og útskýra fyrir mér mikilvægi þess að götudrengurinn væri svo stórt hlutverk í þessari uppfærslu vegna þess að götubörn veraldar byggju við mestu vesöldina og óréttið. Þess vegna flytti þessi götudrengur einhver mikilvægustu skilaboð stórskáldsins.

Það hefði verið hægt að láta smávaxna leikkonu leika þetta hlutverk. Það vissi leikstjórinn en vildi hafa þetta raunverulegra og trúverðugra. Hann brýndi fyrir mér að ég væri aðeins að leika, rétt eins og ég væri að lesa söguna, sem hann teldi að ég hefði þroska til að lesa.

Samt yrði ég að lifa mig inn í hlutverkið.

Þetta var vandaverk og umdeilanlegt. Þegar einræðu minni lauk og næsti leikari átti að taka við gerðist hið óvænta: Dynjandi lófaklapp leikhúsgesta.

Það var ógleymanleg stund og ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu síðar hve mikils virði hún hafði verið mér um alla ævi.

Enn í dag má deila um ákvörðun Gunnars Hansens. Ég var mjög bráðþroska og tel að þetta hafi ekki gert mér neitt nema gott og að þessvegna hafi ákvörðun hans verið rétt miðað við mikilvægi hlutverksins og sögu Victors Hugo. Nauðsynleg undantekning frá þeirri reglu að ota aldrei fram börnum nema brýna nauðsyn beri til.

En ég viðurkenni að þetta hefði getið brugðið til beggja vona.

Og þá kem ég að megin niðurstöðu minni: Það á að hlífa börnum við pólitík eftir bestu föngum og ég tel ekki hafa verið rétt að láta Dimmblá koma fram á þann hátt sem gert var á Austurvelli.

Ég skal nefna dæmi um það að ég vil hafa þessa reglu í heiðri. Þegar tekin var mynd af telpu og dreng að henda blómsveigum í kveðjuskyni í hið magnaða undrafljót Jöklu áður en henni var fórnað, var þess vandlega gætt að aldrei sæist framan í börnin.

Það eru til myndir af þeim sem verða geymdar þar til þau verða 18 ára og þá verður það á forræði þeirra sjálfra hvort þau vilja upplýsa um þátt sinn í þessum gjörningi.

Ómar Ragnarsson, 4.1.2009 kl. 14:23

83 Smámynd: Kolbrún Sara Ósk Kristinsdóttir

Barnasáttmáli Sameinuðuþjóðanna:

12. grein Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

13. grein Tjáningarfrelsi
Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

14. grein Skoðana- og trúfrelsi
Aðildarríki skulu virða rétt barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Aðildarríkjum ber að virða rétt og skyldur foreldra til að leiðbeina börnum sínum í þeim efnum.

Kolbrún Sara Ósk Kristinsdóttir, 4.1.2009 kl. 15:20

84 Smámynd: Kolbrún Sara Ósk Kristinsdóttir

Ólína mín, getur nokkuð verið að þú hafir kennt mér í mýrarhúsaskóla, forðum daga, ef svo er endilega kvittaðu í gestabókina hjá mér til að láta mig vita 

Kolbrún Sara Ósk Kristinsdóttir, 4.1.2009 kl. 15:30

85 Smámynd: Ásgeir Jóhann Bragason

Sammála Þér Ólina mín.

Ásgeir Jóhann Bragason, 4.1.2009 kl. 15:51

86 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kolbrún.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins
, nr. 18/1992:

12. grein.
1. Aðildarríki skulu tryggja barni, sem myndað getur eigin skoðanir, rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska."

Átta ára gamalt barn, þótt bráðþroska sé, hefur ekki þroska til að taka þátt í opinberum umræðum fullorðins fólks um íslenskt efnahagslíf og þar að auki er fröken Dimmblá ekki í neinum erfiðleikum. (Sjá hér að ofan í athugasemd #14.)

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 15:53

87 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það ryfjaðist upp fyrir mér þegar ég stóð á sviði á aldrinum 9-12 ára og lék í skólaleikritum, þá var maður búinn að æfa sig vel undir stjórn kennarans og vissi að allt var þetta grín, svo var klappað og hlegið, þetta barn var handbendi fullorðinna að mínu mati og lék ágætlega.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.1.2009 kl. 16:03

88 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Ég er algjörlega ósammála þessari gagnrýni sem hefur komið fram á að 8 ára skýr stúlka skuli hafa flutt ræðu. Börn hafa líka rétt á því að hafa skoðanir og hún bað sjálf um að fá að halda ræðuna. Ég efast stórlega um að foreldrar stúlkunar hafi "þvingað" skoðunum upp á hana. Mér fannst þessi uppákoma á mótmælunum bara vera jákvæð og skemmtileg og ekkert út á hana að setja.  Ég á ekki orð yfir fullorðnu vitibornu fólki að bera svo litla virðingu fyrir vitsmunum og sjálfstæði barna.  Ég hefði alls ekki trúað þessu upp á þig Ólína, en ég hef oftast verið sammála þér og fundist þú hafa vitrænar og skynsamar skoðanir.

Egill Rúnar Sigurðsson, 4.1.2009 kl. 16:31

89 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ólína vegna þess sem þú skrifar hér að ofan þá vil ég benda á tvennt. Það er ekki spurning um það hvort hún sjálf lesi færsluna heldur t.d. önnur börn kannski aðeins eldri. Hitt er að þessi skrif hafa áhrif á umræðuna.

Mér finnst margar færslurnar hér að ofan bera vott um forræðishyggju og litla virðingu fyrir einstaklingsmun á börnum. Sá líka einhversstaðar komment frá sálfræðingi sem telur að þetta sé ekki skaðlegt.

Ég tel að sú þöggun sem á sér stað gagnvart ástandinu t.d. í grunnskólum sé hættulegast börnum. Við sem eigum unglinga stöndum mörg hver frammi fyrir því núna að fá þau til þess að endurmeta ýmis gildi. Það er talað um að heimsóknir til skólahjúkrunarfræðinga hafi aukist um helming.

Mörg börn eru að lenda illa í kreppunni og það er spurning hvaða tillitsemi þau mæti í umhverfi þar sem aðstæður þeirra eru TABÚ.

Ég held að opin umræða sé holl núna á öllum sviðum samfélagsins

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 16:45

90 Smámynd: Þorsteinn Briem

Egill. Höfum endilega kappræður barna á Austurvelli á hverjum laugardegi.

Umræðuefni:

1. Kynlíf og barneignir.

2. Ástþór Magnússon.

3. Íslenskt efnahagslíf.

4. Skattprósentan.

5. Nauðganir.

6. Framsóknarflokkurinn.

7. Bill Clinton og vindillinn.

8. Gyðingdómur og Íslam.

9. Ríkisstjórnarsamstarfið.

10. Opinberar flengingar.

Þorsteinn Briem, 4.1.2009 kl. 16:53

91 identicon

Íslendingar eru almennt fremur barnalegt fólk eins og fjölmörg dæmi sanna. Manni detta þó allar dauðar lýs úr höfði þegar farið er að telja það til borgaralegra réttinda að lítil börn fái að flytji pólitískar æsingaræður á opinberum vettvangi - jafnvel vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna því til sönnunar.

caramba (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 00:42

92 identicon

Það er enginn að tala um að stúlkan eigi ekki að fá að tjá sig. En það eru fleiri staðir til að tjá sig en á palli fyrir framan þúsundir mótmælenda.

Það var líka svo greinilegt að ræðan var ekki samin af henni sjálfri. Á maður sem sagt að trúa því að henni hafið dottið það sjálfri í hug að tala um að hún sé látin borga fyrir Range Rovera annara, eða um stjórnmálamenn sem stjórnmálapakk? Je right.

Guðrún (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 00:53

93 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Steini - þér finnst þú væntanlega alveg ofsalega sniðugur "Haha, eins og barn geti eitthvað talað um kreppuna! Hún á ekki við nein vandamál að stríða!" Í fyrsta lagi þekkirðu viðkomandi barn ekki neitt - og jú, hún á við vandamál að stríða; það er búið að steypa henni í margra áratuga skuldir.

Guðrún (og fleiri): stúlkan samdi ræðuna víst sjálf, en pabbi hennar hjálpaði henni að hreinrita. Ég veit þetta vegna þess að ég hef séð bæði eintökin.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 5.1.2009 kl. 13:09

94 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tinna.

Hverjir eru erfiðleikar Dimmblár?!


Fær hún ekki nóg að borða? Svar: Alveg örugglega.

Á hún ekki góð föt til að ganga í? Svar: Alveg örugglega.

Hefur hún ekki gott húsaskjól? Svar: Alveg örugglega.

Á hún ekki góð leikföng? Svar: Alveg örugglega.

Gengur hún ekki í góðan skóla? Svar: Alveg örugglega.

Hverjir eru þá erfiðleikar Dimmblár? Svar: Engir.

"Landsframleiðslan í evrum á mann þessu ári verður meiri en hún var á árinu 2004 og aðeins minni en á árinu 2005. Séu lönd Evrópska efnahagssvæðisins (EES) borin saman fellur Ísland í 9. sæti þeirra úr 3. sæti á árunum 2006 og 2007. Rétt ofan við okkur eru Hollendingar, Finnar og Svíar."



http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/03/island_afram_i_efstu_deild_thjoda/



Árið 1991 voru erlendar skuldir ríkisins um helmingur af landsframleiðslunni. Þær voru greiddar upp.



Árið 1983 var verðbólgan hér 84%. Nú er hún um fimm sinnum minni.



FRÖKEN DIMMBLÁ ÆTTI ÞVÍ AÐ HALDA RÆÐU NIÐRI Á AUSTURVELLI UM HVERSU GOTT HÚN OG HENNAR KYNSLÓÐ HEFUR ÞAÐ MIÐAÐ VIÐ FYRRI KYNSLÓÐIR HÉR OG AÐRAR ÞJÓÐIR Í HEIMINUM.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 14:10

95 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gott línubil hér fyrir ofan er til að auðvelt sé að lesa þar á milli línanna.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 14:17

96 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú verða feitu krakkarnir að ganga í skólann.

Hæstu laun ríkisstarfsmanna lækka, sem þýðir minni útgjöld fyrir ríkið.

Álver verður ekki reist við Húsavík.

Bílainnflutningur hefur nánast lagst af, sem þýðir geysilega mikinn gjaldeyrissparnað.

Nú eru bílar fluttir út í stórum stíl.

Allir stjórnmálamenn hér byrjaðir að segja skrýtlur.

Græðgin í þjóðfélaginu hefur nánast dottið upp fyrir.

Ríka liðið hefur tapað helling af peningum.

Íslenskir stjórnmálamenn byrjaðir að segja af sér.

Bílaumferð hér hefur minnkað mikið, sem þýðir minni loftmengun og fólk er fljótara að komast á milli staða.

Minna er flutt inn af bensíni en áður sem þýðir mikinn gjaldeyrissparnað.

Ríkisútgjöld verða mun minni á þessu ári en í fyrra.

Íslendingar sjá að hamingjan felst ekki í peningum, heldur góðum mannlegum samskiptum. Fólk er að kynnast sínum eigin fjölskyldum í fyrsta skipti.

Spásséritúrum fjölgar mikið, fólk gengur og hjólar í vinnuna, lifir því lengur og mun heilbrigðara lífi en áður, sem þýðir mikinn sparnað í heilbrigðisþjónustunni.

Utanlandsferðum hefur snarfækkað, sem þýðir gríðarlega mikinn gjaldeyrissparnað og mun minna húðkrabbamein en áður.

Íslendingar fara mun meira en áður í ferðalög hér innanlands, sem eykur tekjur ferðaþjónustunnar hér.

Ferðum útlendinga hingað fjölgar einnig mikið og þeir eyða hver og einn mun meira hér en áður vegna mikillar gengislækkunar krónunnar, sem þýðir stórauknar tekjur ferðaþjónustunnar.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 73% frá því í júlí síðastliðnum, úr 147 dollurum tunnan í 40 dollara, sem þýðir gríðarlega mikinn gjaldeyrissparnað.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/12/30/oliutunnan_a_taepa_40_dali/

Vinna hefur dregist mikið saman og fólk getur því varið mun meiri tíma með fjölskyldunni en áður, enda unnu Íslendingar alltof mikið, sem olli veikindum, slysum, ofþreytu og hjónaskilnuðum.

Hér verður sköpuð mikil og góð atvinna í kringum annað en álver og aðra stóriðju.

Mun fleira fólk fer í nám en áður og fær yfirleitt hærri laun þegar það útskrifast en fyrir námið.

Verð á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði snarlækkar og verður mun viðráðanlegra fyrir ungt fólk sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti.

Húsaleiga lækkar einnig mikið, sem er til að mynda mjög gott fyrir fólk sem missir íbúðirnar sem það keypti fyrir alltof hátt verð í platgóðæri Framsóknarflokksins.

Vextir eru mjög háir hér, sem hvetur fólk til sparnaðar og ekki veitir nú af.

Sala á innlendum vörum hefur stóraukist hér undanfarið, sem þýðir meiri atvinnu hér í framleiðslunni en ella.

Íslendingar eyða nú mun minna í alls konar óþarfa og vitleysu en áður. Bruðl hefur því nánast lagst af en sparnaður og nýtni aukist á öllum sviðum.

Verð á útflutningsvörum okkar hefur hækkað gríðarlega í íslenskum krónum talið. Evran hækkaði í fyrra um 86%, Bandaríkjadalur um 96%, japanskt jen 138%, breskt pund 45%, svissneskur franki 106%, dönsk króna 86%, norsk króna 50%, sænsk króna 60% og Kanadadollar um 59%.

http://www.landsbanki.is/markadir/gengigjaldmidla/gengisthroun/

Fólk hefur meiri tíma til að blogga og njóta ásta en í fyrra.

NIÐURSTAÐA: Síðastliðið ár var, þegar á heildina er litið, FRÁBÆRT fyrir okkur Íslendinga sem þjóð. Mótmælendur hér eru því mun fyndnari en íslenskir stjórnmálamenn og er þá mikið sagt.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 14:26

97 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Jahá - það er bara allt í lukkunnar velstandi í Steinalandi. Þá getum við bara hætt þessu krepputali og farið að gera eitthvað skemmtilegt.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 5.1.2009 kl. 15:09

98 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að stelpan sem hélt sína fínu ræðu geri slíkt. Við erum öll með skoðanir sem myndast af umhverfi okkar og þar eru börn ekkert undanskilin, en fullorðnir ekkert heldur. Ég hafði pólitískar skoðanir þegar ég var 8 ára og lét þær í ljós og tel mig ekki hafa hlotið neinn skaða af því þó skoðanir mínar hafi breytst með tíð og tíma. Hvaða skaða er það sem þíð teljið að stelpan hafi hlotið af því að taka þátt í þessum mótmælum?

Héðinn Björnsson, 5.1.2009 kl. 15:39

99 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hér er fólk að hneykslast á því að þessi knáa 8 ára stúlka skyldi hafa haldið þessa ræðu og hafa áhyggjur af því að umræðan og athyglin sem hún fær þess vegna geti haft neikvæð áhrif á sálarlíf barnsins.

Gerið þið ykkur grein fyrir því að þið eruð sjálf að stuðla að þessum neikvæðu áhrifum með því að halda þessari umræðu áfram? Það eru fjórar færslur í heitum umræðum um þetta mál. Er þetta ekki komið gott?

Theódór Norðkvist, 5.1.2009 kl. 16:12

100 identicon

Tinna. Það þarf ekkert að segja mér að hún hafi samið ræðuna sína sjálf. Maður þarf ekki annað en að hlusta á hana til þess að vita það að hún samdi hana ekki sjálf. Þarna eru ekki orð 8 ára stúlku heldur miklu frekar orð foreldra. Eftirfarandi setning er t.d ekki skrifuð af 8 ára stúlku:

"Og ég ætla bara að segja það að ég ætla ekki að borga klósettið, bensínið og Range Róverana sem þetta stjórnmálapakk er á."

8 ára börn geta verið gáfuð og þau geta verið klár en þau eru ekki með þekkingu á Icesave, IMF, bankahruninu, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og ríkisstjórninni. Það þykist þessi stúlka samt hafa, eða réttara sagt láta fullorðnir í kringum þessa stúlku eins og hún sé með alla þessa hluti á hreinu. Að þetta barn sé einhvers konar sérfræðingur og miklu gáfaðri en öll önnur 8 ára börn á landinu.

Held að fullorðna fólkið ætti bara að hætta leikritinu og viðurkenna að það skrifaði ræðuna fyrir stúlkuna og standa svo bara sjálft upp og halda ræðurnar. Ekki láta barnið sitt sjá um það fyrir sig.

Guðrún (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 16:22

101 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í tómu er þar tjóni,
hún Tinna með Jóni,
ræfill, útskitinn róni,
og rykfallinn sá dóni.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 16:41

102 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fæst börn vita hvað IMF er, en þau vita öll þegar mat fer að vanta við borðin heima hjá þeim.

Theódór Norðkvist, 5.1.2009 kl. 17:19

103 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Guðrún - ég þekki þessa stúlku, ég þekki foreldra hennar og ég hef séð bæði uppkastið og hreinrituðu útgáfuna af ræðunni. Hvor okkar er í betri aðstöðu til að dæma hvort hún skrifaði þetta sjálf - þú eða ég?

Steini - hvað á þessi leirburður að fyrirstilla? Hver er róninn, ég eða Jón? Hver er Jón?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 5.1.2009 kl. 17:24

104 identicon

Tinna. Ég bara einfaldlega trúi þér ekki. Þú getur alveg sagt að þú hafir séð ræðuna en ég veit þegar ég heyri ræðu sem fullorðinn einstaklingur hefur skrifað, og þessi ræða var skrifuð af fullorðnum einstaklingi.

Guðrún (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:45

105 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tinna. Þeir eru nú margir Jónarnir. Einn er til dæmis Jón Sigurðsson sem stendur á Austurvelli ásamt mótmælendum og mótmælir þar útskitinn með þeim: "Vér mótmælum allir."

Engu máli skiptir hver skrifaði þessa steypu sem fröken Dimmblá flutti. Hins vegar er hún alveg fyrirtaks leikkona.

Engin kynslóð hefur haft það betra en fröken Dimmblá, hvorki hérlendis né erlendis.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 19:27

106 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sjaldan hef ég séð jafnmikla drullu og hjá Steina og Guðrúnu...jú hjá Villa í Köben og örfáum vinum hans?

Vinsamlegast , ekki draga umræður á þetta plan aftur?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.1.2009 kl. 19:54

107 identicon

 Ólína, ég er sammála þér.   

kerlings (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 20:01

108 Smámynd: Þorsteinn Briem

Anna. Það verður nú gaman að flengja þig á beran bossann niðri á Austurvelli í krúttlegu drulluháleistunum þínum.

Svona illa fer nú fyrir þeim sem verða rökþrota úti um allar koppagrundir á Netinu.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 20:34

109 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Nálæmlega Steini Briem!

(ekki hef ég geð í mér að flengja þinn bossa)

ps: háleistarnir (Svartir nælon?..eru þínir, ekki mínir. það vita allir )

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.1.2009 kl. 20:45

110 Smámynd: Þorsteinn Briem

Anna litla tindilfætt. Það sem mestu máli skiptir er forleikurinn. Ef hann er fullkominn verða samfarirnar óþarfar.

Og fullkominn forleikur getur staðið árum saman.

Þú ert alltof óþolinmóð.

Vilt fá það strax eins og flestir karlar.

Það er ekki gott.

Þorsteinn Briem, 5.1.2009 kl. 21:01

111 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Steini - Anna! Eruð þið alveg að tapa ykkur? Þetta er orðið ágætt - hættið hér.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.1.2009 kl. 21:11

112 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Guðrún: sama hversu oft þú segir það, verður það ekki satt. Svo ég endurtaki: ég þekki stúlkuna og foreldra hennar. Ég veit að hún samdi ræðuna sjálf.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 5.1.2009 kl. 22:41

113 identicon

Alveg er ég hissa á að svona fín og málefnaleg umræða skuli geta dottið ofaní svona fúlan pytt eins og hjá Önnu og Steina. En ég er sammála Ólínu. Það er ekki í lagi að nota börn í pólitíska umræðu. Ég fékk óbragð í munninn við að sjá þetta.

Kristín Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 09:32

114 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kristín. Ég hef rökstutt mínar skoðanir hér fram og aftur, eins og ég er vanur að gera, enda hef ég sagt að órökstuddar skoðanir séu einskis virði. Og hér hefur enginn hrakið mínar rökstuddu skoðanir.

En ég svara svo sannarlega fyrir mig með sambærilegum hætti þegar mínar rökstuddu skoðanir eru kallaðar "drulla" af einhverjum, hvort sem það er karlmaður eða kvenmaður. Það fólk er gjörsamlega rökþrota í umræðunni og byrjar að ausa fúkyrðum yfir fólk, hvort sem það er ég eða einhver annar sem þar á í hlut.

Eina ráðið gegn þessu fólki er að gera stólpagrín að fúkyrðum þess og helst að toppa þau. Þá fyrst sér þetta lið villu síns vegar og fer oftast að hlæja að vitleysunni í sjálfu sér.

Hins vegar eru allar rökstuddar skoðanir jafn réttháar í umræðunni, hvort sem það er mínar skoðanir eða einhverra annarra.

Þorsteinn Briem, 6.1.2009 kl. 13:35

115 identicon

Það er allsendis með ólíkindum að lesa það sem hér hefur verið skrifað og tími kominn til að fólk fari að taka sér tak og skoða hvað eru eðlileg samskipti manna á milli. Því miður virðist nafnleyndin draga það versta fram hjá fólki svo það eys ótrúlegasta óhróðri og dylgjum hvert yfir annað. Þessi samskipti ættu að vera jákvæð og lýðræðisleg leið til skoðanaskipta, ekki eyðileggja hana með svona vitleysu! Komið fram undir nafni, þá vandið þið ykkur kannski svolítið betur og munið eftir mannasiðunum!

Hvað varðar ræðu Dimmblár litlu, þá stóð ég við hlið Harðar þegar hún kom til hans eftir mótmælin laugardeginum áður. Barnið stóð sjálft fyrir máli sínu og faðir hennar virtist á báðum áttum um hvort hann ætti að leyfa henni að bera upp bónina um að fá að halda ræðu, en sú stutta var ákveðin. Ég heyrði ekki meira af tali þeirra, en get vottað að frumkvæðið virtist koma frá barninu, ekki hinum fullorðnu.

Börn þroskast mishratt, þó oftast mun hraðar ef við þau er talað eins og skynsamar verur - sem þau eru - en ef komið er fram við þau eins og hálfgerða fáráðlinga eins og alltof oft er gert. Engum hefði dottið í hug að hneykslast ef lítil stúlka hefði verið látin syngja dægurlag á útiskemmtun, það hefði bara verið voða "kjút". Börn eru notuð til að selja vörur í auglýsingum - er það ekki líka innrás í saklausu barnaveröldina sem sum ykkar trúa á? Börn og fullorðnir búa í sama veruleikanum, þess vegna eigum við að reyna að gera hann betri, ekki bara loka augunum.

Við gerum okkur oft sek um að vanmeta börnin, pakka þeim inn í bómull í þeirri trú að við séum að vernda þau, við ljúgum jafnvel að þeim þótt þau sjái og skilji að þeim sé ekki sagt satt og verði þá hrædd um að eitthvað margfalt verra sé á seyði. - Ég hafði mínar efasemdir þegar ég heyrði barnið segja að hún vildi fá að tala, en fannst hún komast vel frá þessu. Auðvitað voru skoðanir hennar litaðar af því sem hún hefur heyrt heima hjá sér, annað hvort væri nú - erum við ekki öll meira eða minna enn mótuð af skoðunum sem við heyrðum í bernsku? En þessi litla stúlka á án efa eftir að spjara sig - það hefur bersýnilega mikið verið rætt við hana heima, hún veit að á hana er hlustað og að hún á rétt á að tjá sig. Börn hafa yfirleitt sterka og óbrenglaða réttlætistilfinningu sem við eigum að rækta með þeim í stað þess að kæfa hana niður.

Ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:06

116 identicon

Tinna. Og enn og aftur þá segi ég að þú getur sagt að þú vitir að hún hafi skrifað ræðuna, en ég veit að hún gerði það ekki. Orðalagið sem hún notaði var ekki orðalag barns, reiðin var ekki frá barni komið. Þarna var fullorðinn einstaklingur að tjá sig. Finnst að þessi einstaklingur eigi bara að sýna manndóm og tjá sig sjálfur í staðinn fyrir að láta börnin sín gera það.

Guðrún (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:08

117 identicon

Ég er svo hjartanlega sammála þér. Var mikið búin að velta vöngum yfir þessu og var eitthvað ósátt við þetta í hjarta mínu. Mér er búið að líða svo illa sjálfri yfir ástandinu að ég hef ekki vogað mér að tjá mig við krakkana mína um það nema takmarkað þannig að þau fari ekki að hafa áhyggjur - en það er ekki þar með sagt að pabbi Dimmbláar hafi ekki gert það á ábyrgan hátt. Ég var á Austurvelli, held margir hafi klappað af því að hún var svo lítil og yndisleg og talaði svo skýrt. Hún verður kannski skörungur síðar meir. Hver veit?

Eva (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:26

118 identicon

Ég verð nú að gagnrýna skipuleggendur þessara mótmæla fyrst og fremst fyrir svona málaskrá. En að vera að gagnrýna foreldra hennar þykir mér ekki maklegt. Það vill nú svo til að þarna fer fullorðið fólk sem er sjálfráða með hvað barnið gerir eða gerir ekki.

Hér eru ekki forsendur fyrir neinum frekari vangaveltum og með fullri virðingu fyrir áhyggjum fólks af velferð barnsins þá held ég að við ættum bara ekki gefa okkur neitt í því efni. Hvort þetta er smekklegt er annað mál og verður hver og einn að gera það upp við sig, en að gera því í skóna að eitthvað sé athugavert við foreldra telpunnar er komið langt út fyrir efnið.

Þú segir Ólína "Dimmblá litla er uppfull af erfiðum, neikvæðum tilfinningum vegna stöðunnar í samfélaginu".

Er eitthvað skrýtið við það og einhver ástæða til að búast við öðru? Ég held að þrátt fyrir föðurlegar ábendingar ýmissa opinberra aðila þá sé erfitt að vernda börn fullkomlega fyrir því áfalli sem dunið hefur yfir og kannski ekkert sérlega viturlegt heldur að reyna það eða að ganga út frá því að þannig sé í pottinn búið.

Hitt er annað mál að mér þykir dýrmætum tíma sóað af skipuleggjendum þessara mótmæla að vera ekki með bitastæðara og beittara efni á dagskrá.

sandkassi (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 18:18

119 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Kristin og Ólina ...takk fyrir að taka loksins eftir hvert umræðurnar stefndu í!...vil ekki að Steini haldi að ég geti ekki klæmst, það geta flestir, en ekki umræðuni fyrir góðu!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.1.2009 kl. 19:00

120 identicon

Aftur - talið frekar við börnin um ástandið en að láta þau ímynda sér eitthvað miklu verra! Segið þeim að það geti orðið erfitt, að við þurfum að spara, láta eitthvað á móti okkur, en að við munum áfram hafa hvert annað og að tímarnir muni aftur breytast til hins betra. Börnin hafa séð stríð og hörmungar í sjónvarpinu og geta farið að samsama sig slíku ástandi, svöngum, sárum og grátandi börnum. Það sem skiptir þau öllu máli er samveran og samstaðan innan fjölskyldunnar. Ef þau finna að hún er ekki í hættu er mikið unnið. Börn eru ekki vitlaus, þau hafa bara verið skemmri tíma á jörðinni en við sem eldri erum - en við getum mikið lært af þeirra réttsýni og verðmætamati. Hvað varðar Dimmblá litlu eru frasarnir auðvitað lærðir upp úr fjölmiðlum og umræðu, en vel lesið og vel gefið 8 ára barn getur samið ræðu eins og þessa án mikillar aðstoðar. Ekki vanmeta börnin!

Ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 20:26

121 Smámynd: Þorsteinn Briem

Anna. Það verður klæmskur hittingur á Café Paris, þar sem þú færð að klæmast fyrsta hálftímann.

Say no more ...

Þorsteinn Briem, 6.1.2009 kl. 23:25

122 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Guðrún: nú nenni ég ekki að rífast við þig lengur.

 Vil samt segja að mér finnst frábært að kynköld, fráskilin, miðaldra húsmóðir á Kópaskeri, sem þar að auki er örvhent og með herpes og gláku, skuli vera svona dugleg að fylgjast með internetumræðum. Reyndar veit ég að það er bara vegna þess að Ástþór Magnússon og Davíð Oddsson standa yfir þér, hótandi að hella yfir þig heimatilbúinni kotasælu frá 1974 ef þú ekki hlýðir, en það er samt flott að þú getir enn skrifað - þrátt fyrir að hafa misst alla fingur nema þrjá í þessu hörmulega konfektgerðarslysi um árið.

Ísland þarf fólk eins og þig til að standa vörð um sannfæringu - þó hún sé byggð á ranghugmyndum og fordómum!

Steina líf og stafræn mildi

stendur á föstum grunni.

Ef aðeins karlinn vanda vildi

hvað vellur úr hans munni.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 7.1.2009 kl. 03:42

123 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Sjaldan hef ég heyrt jafn marga, opinbera fordóma sína og skinlegi.

Börnin eru líka þjóðin, ekki satt. Heldur fólk að það sé hægt að vernda börn fyrir upplýsingum í upplýsingaþjóðfélagi? Heldur fólk, að börn hafi enga greind og geti ekki myndað sér skoðanir?

Stúlkan, Dagný Dimmblá, er bróðurdóttir mín. Bráðskír, ófeimin og fylgin sér. Hún ákvað sjálf á sínum tíma að búa til sitt mótmælaspjald og tók þátt í nokkrum mótmælafundum á Austurvelli. Á einum fundinum fór hún til Harðar Torfasonar og bað um leyfi til þess að ávarpa næsta fund, því henni fannst vanta upp á að raddir barna heyrðust þarna líka. Pabba hennar leist ekkert á þessa hugmynd, og vildi í fyrstu ekki samþykkja þetta (hann sá fyrir ofstækisfull viðbrögð fordómafulls fólks, það gekk eftir). Hann lét undan henni að lokum, mest vegna þess að börn eiga líka leyfi á því að tjá sig. Hún skrifaði ræðuna sjálf, pabbi hennar hjálpaði henni að hreinskrifa og æfa þetta heima. Það er þvílík fjarstæða að nokkur hafi heilavegið eða att henni út í þetta á neinn hátt. Allir sem þekkja Dagný Dimmblá vita það mæta vel. Henni varð heldur ekkert meint af atburðinum. Hún hefði getað átt góða minningu um þetta: Hún hélt ræðu sem hún skrifaði sjálf og hún stóð sig vel. 

Aftur á móti hefur henni orðið meint af viðbrögðum ykkar bloggara við þessu. Fjölskylda mín er kölluð kommúnistar. Það á að senda barnaverndarnefnd á okkur. Við erum ásökuð um að heilaþvo barnið og etja henni út í ræðuhöld. Þetta er bara lítið brot af svívirðingunum sem velta út úr bloggurum þessa dagana. Þetta hefur valdið því að Dagný litla þorir varla út úr húsi og hefur átt erfitt með svefn síðustu daga.

Þið bloggarar standið ykkur vel í því að brjóta niður unga sál, undir því yfirskini, að þið séuð að vernda barnið og berið hag þess fyrir brjósti. Mig langar að kasta upp. Þjóðin er greinilega ekki bara gjaldþrota í peningum, hún er líka að tapa vitinu að mínu mati, og svona skrif eru ekki greindu fólki sæmandi á neinn hátt. Þau sýna aftur á móti gjaldþrot andans og umburðarlyndisins.

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 7.1.2009 kl. 11:30

124 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Sjaldan hef ég heyrt jafn marga, opinbera fordóma sína og skinhelgi.

Börnin eru líka þjóðin, ekki satt. Heldur fólk að það sé hægt að vernda börn fyrir upplýsingum í upplýsingaþjóðfélagi? Heldur fólk, að börn hafi enga greind og geti ekki myndað sér skoðanir?

Stúlkan, Dagný Dimmblá, er bróðurdóttir mín. Bráðskír, ófeimin og fylgin sér. Hún ákvað sjálf á sínum tíma að búa til sitt mótmælaspjald og tók þátt í nokkrum mótmælafundum á Austurvelli. Á einum fundinum fór hún til Harðar Torfasonar og bað um leyfi til þess að ávarpa næsta fund, því henni fannst vanta upp á að raddir barna heyrðust þarna líka. Pabba hennar leist ekkert á þessa hugmynd, og vildi í fyrstu ekki samþykkja þetta (hann sá fyrir ofstækisfull viðbrögð fordómafulls fólks, það gekk eftir). Hann lét undan henni að lokum, mest vegna þess að börn eiga líka leyfi á því að tjá sig. Hún skrifaði ræðuna sjálf, pabbi hennar hjálpaði henni að hreinskrifa og æfa þetta heima. Það er þvílík fjarstæða að nokkur hafi heilavegið eða att henni út í þetta á neinn hátt. Allir sem þekkja Dagný Dimmblá vita það mæta vel. Henni varð heldur ekkert meint af atburðinum. Hún hefði getað átt góða minningu um þetta: Hún hélt ræðu sem hún skrifaði sjálf og hún stóð sig vel. 

Aftur á móti hefur henni orðið meint af viðbrögðum ykkar bloggara við þessu. Fjölskylda mín er kölluð kommúnistar. Það á að senda barnaverndarnefnd á okkur. Við erum ásökuð um að heilaþvo barnið og etja henni út í ræðuhöld. Þetta er bara lítið brot af svívirðingunum sem velta út úr bloggurum þessa dagana. Þetta hefur valdið því að Dagný litla þorir varla út úr húsi og hefur átt erfitt með svefn síðustu daga.

Þið bloggarar standið ykkur vel í því að brjóta niður unga sál, undir því yfirskini, að þið séuð að vernda barnið og berið hag þess fyrir brjósti. Mig langar að kasta upp. Þjóðin er greinilega ekki bara gjaldþrota í peningum, hún er líka að tapa vitinu að mínu mati, og svona skrif eru ekki greindu fólki sæmandi á neinn hátt. Þau sýna aftur á móti gjaldþrot andans og umburðarlyndisins.

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 7.1.2009 kl. 11:39

125 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sigríður Hulda - getur verið að þú sért sú sem ég þekki undir nafninu Sússí (skólasystir úr MÍ)?

Hvað um það - mér þykir leitt ef sú umræða sem orðin er hefur valdið barninu vanlíðan eða skaða. Sjálf lagði ég mig fram um að segja ekkert í minni færslu sem gæti sært barnið eða aðstandendur þess. Og satt að segja finnst mér svolítið öfugsnúið að kenna "okkur" um vanlíðan stúlkunnar/fjölskyldunnar sem höfum gagnrýnt þetta.  Væri ekki nær fyrir foreldra og aðstandendur að líta í eigin barm?

Ég efast ekkert um að þetta hefur verið gert í bestu meiningu. En mér virðist, í ljósi þess sem þú segir um afleiðingarnar, sem þetta hafi verið vanhugsað. Og að málflutningur þeirra sem eru mótfallin því að láta börn í þessar aðstæður eigi fullan rétt á sér. Því miður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 15:24

126 Smámynd: Þorsteinn Briem

There once was a girl named Deepblue,
and last Saturday she got the damn flu,
and she said shit!
can you believe it?!
But, it is very bloody much fxxxing true!

Þorsteinn Briem, 7.1.2009 kl. 15:31

127 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Það er alls ekki fjölskylda stúlkunnar sem veldur henni vanlíðan, hún býr við afar gott atlæti. Heldur fordómar fólks á blogginu. Það er staðreynd. Og mér finnst afar undarlegt að þið berið öll fyrir ykkur, að þið hugsið um velferð barnsins!! Þvílíkur vandlætingakór er vandfundinn.

Já, Ólína, við vorum einu sinni skólasystur fyrir vestan.

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 7.1.2009 kl. 16:07

128 identicon

"En mér virðist, í ljósi þess sem þú segir um afleiðingarnar, sem þetta hafi verið vanhugsað."

Ólína, er þetta ekki orðið gott? Hverslags málarekstur er þetta eiginlega?

sandkassi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 18:55

129 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gunnar - ég er hér í samtali við gamla skólasystur. Og ég er ekki í neinum málarekstri hér, enda skil ég ekki athugasemd þína.

Hins vegar tek ég undir það að þessi umræða er orðin nógu löng - of mörg orð. Ég held það sé mál að linni núna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 19:45

130 identicon

já ég þekki Richardsfólkið, mikið sómafólk.

bkv.

sandkassi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 20:11

131 identicon

Sigríður. Það er ekki bloggurum hér að kenna að stúlkunni líður illa heldur þeim mistökum foreldra hennar að setja hana í það hlutverk að tala á þessum mótmælum. Stúlkan lék ákveðið hlutverk á þessum mótmælum, það sáu það allir og við því bregst fólk. Ef ættingjar stúlkunnar eru ósáttir við það þá ættu þeir bara að sleppa því að setja börnin sín í forgrunn á mótmælasamkomu.

Guðrún (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband