Söknuður

P1000281 (Small) Það var undarlega hljótt í húsinu þegar dyrabjallan glumdi við nú síðdegis. Ég fór til dyra og tengdamóðir mín stóð á tröppunum. Hún var líka hálf undrandi á svip. Ekkert gelt. Bara ómur af þagnaðri dyrabjöllu - við heyrðum hver í annarri.

Blíða mín er farin af heimilinu og það munar um minna. Við Siggi ókum með hana norður á Hólmavík í dag, til móts við nýja eigendur sem búa á Sauðárkróki. Þar fær hún nýtt heimili hjá þessum góðu hjónum sem mér líst afar vel á. Þau eiga fjögur börn á unglingsaldri og annan hund að auki. Þau hafa áður átt Dalmatíuhund sem þau misstu í slysi fyrir nokkru - raunar var það bróðir Blíðu. Þannig að þetta fólk þekkir tegundina og veit að hverju það gengur varðandi hana. Ég held því að Blíða blessunin sé heppin að fá þetta heimili, úr því hún þurfti að hafa vistaskipti á annað borð.

Hún var svolítið feimin við nýju húsbændurna og hálf umkomulaus auðvitaðBlidaogHjorvar (Medium) þegar hún var komin inn í nýtt búr sem hún þekkti ekki. Ég kvaddi hana ekki - hefði bara beygt af ef ég hefði farið að faðma hana á þessari kveðjustund. Nei, ég harkaði af mér og skipaði henni upp í búrið, beygði mig niður að henni og bað hana vera rólega og stillta hjá nýju húsmóðurinni, lokaði svo skottinu og tók í hönd á fólkinu, með sviðasting fyrir brjóstinu.

Það féllu auðvitað nokkur tár á heimleiðinni - eins og við var að búast. En svona er lífið. Öllu er afmörkuð stund.

Heima beið mín hinn hundurinn minn hann Skutull sem er 8 mánaða. Ég  tók hann í langan göngutúr í náttmyrkrinu og gaf honum svo vænt bein þegar heim var komið. Hann var alsæll - svo sæll að hann bar ekki við að gelta þegar dyrabjallan hrindi.

Öðruvísi mér áður brá ... Frown

Blida07P1000530 (Medium)Bilferd (Medium)blida3 (Medium)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

æj ...knús

Ragnheiður , 27.12.2008 kl. 19:56

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Æ, þetta hefur verið sárt. En er Blíða ekki björgunarhundurinn þinn?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 27.12.2008 kl. 20:26

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Huggun harmi gegn að hafa Skutulinn.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.12.2008 kl. 20:41

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þau hjónin bæði á Hólmavík,
í hundana fóru með sína tík,
búin var að brjóta og týna,
og Blíðu þar gáfu þau sína.

Þorsteinn Briem, 27.12.2008 kl. 20:44

5 Smámynd: Auður Matthíasdóttir

Af hverju?

Auður Matthíasdóttir, 27.12.2008 kl. 21:08

6 Smámynd: Erna

Ég skil hvað þetta hefur verið erfitt

Erna, 27.12.2008 kl. 23:34

7 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hvers vegna þurftir þú að losa þig við Blíðu ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 28.12.2008 kl. 03:05

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er svo mikil sorg í heiminum.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 04:19

9 Smámynd: Svanfríður Guðrún Gísladóttir

  Já sorgin og söknuðurinn er mikill,þetta er eins og að láta frá  sér barn!

                     samúðar-kveðjur til fjölskyldunnar.

Svanfríður Guðrún Gísladóttir, 28.12.2008 kl. 08:01

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Úff hvað ég skil þig.  Hefði heldur ekki getað knúsað hundinn bless

Ía Jóhannsdóttir, 28.12.2008 kl. 08:57

11 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Úff þetta getur ekki verið auðvelt. En þið og hún heppin að hafa góða fjölskyldu til að taka við henni.

Ólína. Kærar þakkir fyrir að verða við beiðni minni og lána mér ljóðið þitt.

Hátíðarkveðjur til þín og þinna.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.12.2008 kl. 12:22

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir hlýjar kveðjur.

Af hverju? spyr "Lady in blue". Svarið er að Blíða var ekki nógu sterkbyggð til að standa undir álaginu í björgunarþjálfuninni - hún var farin að taka æfingarnar nærri sér og var stundum lengi að jafna sig á eftir. Þess vegna fékk ég mér annan hund sem er mjög efnilegur björgunarhundur, tekur vel við þjálfun og virðist sterkbyggðari á allan hátt. Hann er nú kominn á það stig að ég þarf að einbeita mér að honum og það er erfitt fyrir Blíðu að vera komin í aukahlutverk. Líka erfitt fyrir mig að vera með tvo hunda og sinna báðum svo vel sé.

Þannig er nú það - og Blíða er heppin að hafa fengið gott heimili.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.12.2008 kl. 14:39

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Leitt að heyra Ólína mín.  Það var alltaf heimilislegt að sjá ykkur blíðurnar ganga Seljalandsveginn, báðar jafn tignarlegar.  En það er sárt að skiljast.  Huggun þó að hún fer á gott heimili, þar sem þú veist að henni líður vel. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.12.2008 kl. 14:58

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Ísafirði sá tignarlega tík,
og tíkin sú var nú Ólínu lík,
á Seljalands voru þær vegi,
og verulegur nú minn tregi.

Þorsteinn Briem, 28.12.2008 kl. 18:06

15 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hún stendur undir nafni blessunin!

Hrönn Sigurðardóttir, 28.12.2008 kl. 18:59

16 identicon

Ólína seldir þú Blíðu þína?

Pétur (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 19:54

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Seldi ég blíðu mína ?? He he - góður.

Nei, ég seldi hvorki blíðuna né hundinn.

Annars er það að frétta af vistaskiptum Blíðu að þau ganga ljómandi vel að sögn nýju eigendanna. Við höfum verið í sambandi síðan í gær. Blíða bæði étur og drekkur, hefur samþykkt nýja búrið sitt, hlýðir innkalli og er farin að athuga hinn hundinn á heimilinu aðeins nánar. Sumsé, allt gott.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.12.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband