Nú er ráðskonurass á minni

matvorur Í gær setti ég frystikistuna í samband í fyrsta skipti í fjögur ár. Já, hún hefur blessunin fengið að sofa þyrnirósarsvefni í geymslunni hjá mér allan þann tíma.

Þar sem ég síðar um daginn raðaði í kistuna og skápana hjá mér slátri, súpukjöti, mjölvöru, sykri og fleiru sem möl og ryð fá að vísu grandað seint um síðir, en geymist engu að síður vel við góð skilyrði í frosti og köldum búrgeymslum - þá upplifði ég gamla og næstum gleymda tilfinningu frá því ég var með fullt hús af börnum, efnalítill námsmaður. Það er þessi djúpa, frumstæða þægindatilfinning sem fylgir því að hlaða forðabúrið fyrir veturinn og vita af mat á heimilinu.

Þetta gerði ég árum saman meðan börnin voru lítil. Þá var tekið slátur á hverju hausti og hlaðið niður heilu og hálfu skrokkunum af spaðkjöti, soðinni kæfu, rabarbarasultu og berjasaft. Á haustin keypti maður inn mjölvöru og sykur - bakaði svo og matreiddi til vetrarins. Svo dró maður fram prjónana og prjónaði hosur, vettlinga, húfur, trefla og peysur af hagsýnni vinnugleði.

Aldrei gleymi ég þó blessuðu litla folaldinu sem varð búbjörg fjölskyldunnar eitt haustið á mínum fátækustu námsárum. Frown

Ég hef aldrei getað borðað hrossakjöt að neinu gagni - enda hef ég hingað til átt hross að reiðskjótum og félögum. En þarna  bjuggum við fimm í 36 fermetra íbúð á stúdentagörðum. Við vorum við svo blönk, ungu hjónin, að ég þáði kjöt af nýslátruðu folaldi.

Það barst barst mér í svörtum plastpoka skömmu síðar - svo nýslátrað að það rauk upp úr pokanum þegar ég opnaði hann. Sick Mig sundlaði af velgju - enda ófrísk að fjórða barni og frekar klígjugjörn. Í fyrsta skipti á ævinni féllust mér hendur - og það gerist nú ekki oft.

Grátandi tók ég upp símann og hringdi í mömmu. Hún brást mér ekki. Tók við öllu kjötinu heim til sín, breytti sínu eigin eldhúsi í kjötvinnslu, söng og trallaði fram eftir degi á meðan hún hjó í spað, hakkaði, snyrti og matbjó kjötið. Afhenti mér það svo fallega unnið daginn eftir með bros á vör, og saman komum við því fyrir í frystikistunni.

Þetta blessaða folald varð okkur mikil búbót. Það var matreitt í buff, steikur, gúllas og glás og var vitanlega herramannsmatur að flestra áliti.

En húsmóðirin sagði fátt: Settist að matborði. Hugsaði um litla barnið í móðurkviði sem þyrfti næringuna sína, og leyndi söltum tárum sem þrýstu sér fram í augnkrókana um leið og hún stakk gafflinum í safaríkan bita.

folald

Æ - "það er saurlífi að matreiða hross!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Minna fé - minni gjaldeyriskaup, minna át, minni magi, betri heilsa.

Minni vinna - meiri samvera með fjölskyldunni, heimsóknir og útivist.

Minni akstur - minni mengun, minni bílakaup, minna slit á götunum.

Sparnaður samtals 100 milljarðar króna á ári, með eða án folaldakets.

Sælt er að vera fátækur, elsku Dísa mín.

Þorsteinn Briem, 4.10.2008 kl. 14:26

2 Smámynd: Ragnheiður

Ahh nostalgían maður minn...ég gerði þetta líka hvert haust en var svo ósvífin að hakka í mig hross eins og hvað annað. Ég þekki samt þessa tilfinningu frá systur minni sem aldrei hefur getað borðað hest af neinu viti. Minnisstæðar eru tilraunir foreldranna til að narra ofan í hana hross með ýmsum lygimálum og reiðina sem braust fram að snæðingi loknum

Síðan hef ég það þannig að ég virði við fólk ef það vill ekki borða eitthvað sem ég tel sjálf herramannsmat. Það er bara ekki mitt að dæma smekk annarra.

Kær kveðja

(það er ekki ráðskonurass á mér )

Ragnheiður , 4.10.2008 kl. 14:40

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndisleg færsla.  Rosalega hefur þú verið myndarleg húsmóðir í námi og allt.

Ég hef ekki pláss fyrir kistu annars væri ég búin að versla mér hana inn.

Nú reynir á útsjónarsemina.

Dætur mínar eru móðurbetrungar að flestu leyti. Frumburðurinn hringdi í mig í gærkvöldi og bauðst til að taka mig á kúrs í hvernig maður sparar í matarinnkaupum svo muni um.  Hún segist nefnilega kunna það frá því að hún var í lögfræðinni og þykist geta skafið mat af berum steinum.

Ætli ég slái ekki til.

Hef aldrei borðað hesta.  Held að ég byrji ekki á því núna.

Takk fyrir frábæra færslu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.10.2008 kl. 15:22

4 identicon

Til hamingju með að stinga í samband. ég var að festa kaup á ársgamalli notaðri kistu og ætla að rifja upp gamla takta. Svo getum við sungið komdu og skoðaðu í kistuna mína....  

ein í kæfu

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 15:56

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Já, Kristjáni heitnum þótti það saurlífi...ég verð eiginlega að vera sammála honum, þó ég hafi nú góflað í mig slíku kjöti um ævina, en aldrei þó folaldakjöti eftir því að ég best veit.

Kveðjur og heilsanir.

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.10.2008 kl. 16:03

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Færslan þín kom fram tárum hér í eldhúsinu að Stjörnusteini. 

 Ég kann nokkrar álíka sögur en hrossakjöt var matur sem ég þóttist aldrei hafa sett inn fyrir mínar varir en var sagt síðar á lífsleiðinni að það hefði ég gert mörgum sinnum.  Minn elskulegi hafi bara snúið því yfir í ungnautakjöt þegar heim kom.  En aldrei var ég eins góð húsmóðir og þú, ég tók aldrei slátur en ég sauð sultu og gerði saft og prjónaði og hataði það allt saman út af lífinu.  Listamaðurinn ég var aldrei tilbúin í þessi eldhúsverk. 

 Takk Ólína fyrir þessa færslu hún kemur á réttum tima.   

Ía Jóhannsdóttir, 4.10.2008 kl. 21:41

7 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Eina hrossakjötið, sem ég hef látið inn fyrir mínar varir var í mötuneyti Núpsskóla.  Sunnudagur og hangiket með jafningi í matinn.  Fannst það bragðast aðeins "öðruvísi" og ældi öllu heila klabbinu þegar út kom.  Frétti seinna að um "HESTAKJÖT" hefði verið um að ræða en því var haldið leyndu vegna "gikkjanna" að sunnan.  Ég er að Vestan og er ekki gikkur.

Sigrún Jónsdóttir, 4.10.2008 kl. 22:20

8 identicon

Sæl Ólína,

 skemmtileg færsla  Ég las prófílinn þinn hér að ofan og rak augun í að þú skrifar orðið "réttindakennari".... hvað er það? Er ekki um að ræða annars vegar kennara og hins vegar leiðbeinendur? Æi, ég veit að þetta er mikið notað orð og mér leiðist það óskaplega mikið, verandi kennari sjálf, með réttindi og allt

kveðja, Harpa

Harpa (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 22:32

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég þakka hlýlegar athugasemdir ykkar - og já, ég var alveg svakalega myndarleg húsmóðir hér á árum áður.  Það sé ég núna þegar ég nenni mest engu á heimilinu, en ég hugsaði aldrei um það þá.

 Sigrún - gaman að þú skulir nefna matinn á Núpi. Vera kann að við höfum verið að borða hrossakjöt þar - en ég held líka að við höfum verið að fá hvalkjöt sem fékk að heita ýmislegt annað. Undir vor var komið þráabragð af því.

Harpa - þú spyrð mig hversvegna ég tali ekki um kennara og leiðbeinendur. Svarið er einfalt. Tvær manneskjur starfa hlið við hlið að kenna börnum eða ungmennum. Þær inna sama starf af hendi og sama krafa er gerð til þeirra beggja í starfi. Það er því fráleitt að halda því fram að önnur sé að kenna en hin að leiðbeina. Vitanlega eru þær báðar að kenna - önnur hefur hinsvegar lögvarin réttindi sem kennari, menntunar sinnar vegna - hin ekki. Þess vegna tala ég um réttindakennara og kennara - ekki leiðbeinendur og kennara. Kannski sérviska - það verður þá bara að hafa það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.10.2008 kl. 23:03

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bílstjórinn sem keyrði mig heim í kveld sagðist vera úr Þykkvabænum, sem eru nú ekki beinlínis meðmæli, 23ja ára gamall og taka slátur. Það eru hins vegar meðmæli í lagi og allir ólofaðir, sem komnir eru á þetta mikilvæga þroskastig í lífinu, ættu að vera með si svona spjald í barminum: TEK SLÁTUR.

Þorsteinn Briem, 4.10.2008 kl. 23:14

11 identicon

Sæl aftur,

 jú, jú sérviska eða ekki, ég skal ekki segja.

Hins vegar finnst mér rökin duga skammt. Manneskja sem vinnur sem læknir (er enn kandidat) á bráðamóttöku sjúkrahúss og sinnir þar sjúklingum kallar sig ekki lækni fyrr en hann hefur fengið tilskilið lækningaleyfi, þangað til er hann kandidat jafnvel þó að hann sinni sömu störfum og læknir. Ef ég vinn á leikskóla kalla ég mig ekki leikskólakennara ef ég hef ekki tilskilda menntun og hinn raunverulegi leikskólakennari er ekki réttindaleikskólakennari, það hef ég í það minnsta aldrei heyrt.

Sama má segja um aðrar stéttir, réttindaverkfræðingur eða jafvel réttindaseðalbankastjóri, aldrei heyrt það heldur

orðið réttinda... eitthvað virðist því einungis eiga við um kennara í grunn- og framhaldsskólum. Skrýtið!!

Kveðja,

Harpa

Harpa (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 23:43

12 Smámynd: Líney

Ráðsmennskurass getur fleytt manni langt :)

Líney, 5.10.2008 kl. 00:03

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæl Harpa.

Undarlegt er það vera komin hér í spekúlasjónir um réttindakennara - við færslu um heimilisstörf.

En mér vitanlega fá kandítatar ekki að vinna öll þau læknisverk sem fullmenntaðir læknar vinna, nema þá undir þeirra tilsjón. Sama gildir um kennara sem eru í námi og æfingakennslu.

Það eru hinsvegar engin takmörk á starfssskyldum þeirra kennara sem þú kallar leiðbeinendur. Þeir vinna nákvæmlega sama starf og kennarar sem hafa réttindi og bera fulla ábyrgð á verkum sínum.

Ég hef verið kennari með hléum s.l. þrjátíu ár - síðustu sjö árin með kennsluréttindi. Hef aldrei litið á mig sem leiðbeinanda.

Kveðja.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.10.2008 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband