Skilaði gögnum eða fjarlægði þau um miðjan dag í gær? Svo er það bíllinn.

 Eitthvað er nú bogið við þessa tilvísanasetningu. Fjarlægði Guðmundur gögnin af skrifstofu OR um miðjan dag í gær? Var það ekki þá sem hann skilaði þeim?

 Svona klaufaleg notkun tilvísanatenginga stingur stundum upp kollinum í blaðafréttum, og er oft býsna kátleg. Einhverju sinni las ég myndatexta sem var eitthvað á þessa leið: Módelið er með sumarlegan varagloss frá Dior sem herrann leiðir nú um salinn.

Annars er ágætt að þetta dæmalausa gagnamál er afstaðið. Þá tekur sjálfsagt bílamálið við.

toyota_land_cruiser_2_bw Nú skal ég ekki að ætla Guðmundi Þóroddssyni það að hafa tekið bílinn ófrjálsri hendi - hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í því að bíllinn sé hluti af starfskjörum hans, meðan starfslokasamningur er í gildi. Hinsvegar tek ég heilshugar undir með þeim sem telja svona bílasamninga óviðfelldna óráðsíu og flottræfilshátt.

 Laxá Talandi um flottræfilshátt. Í fréttablaðinu í gær las ég lýsingar Ingva Hrafns Jónssonar á því hvernig flottheitin gerast á bökkum laxveiðiáa landsins, þar sem svarthvítir þjónar ganga um með silfurbakka, sérráðnir matreiðslumeistarar ýta matráðskonum veiðihúsanna út fyrir dyr og sérstakur "riverguide" fylgir hverjum veiðimanni.

Ég veit ekki hvað menn sem haga sér svona í íslenskri náttúru halda sig vera - þeir geta varla litið á sig sem hluta af íslensku samfélagi. Sama má kannski segja um þá sem aka um á tugmilljónkróna farartækjum og líta á það sem eðlilegan hluta af starfskjörum. Guðmundur Þóroddsson er ekki einn um það - því miður.


mbl.is Guðmundur skilaði gögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óskýr hugsun -- óskýr  texti. Þetta er  rétt eins og lesið var  tvisvar í hádegisfréttum  RÚV í fyrrdag, þegar  rætt var um að ef til vill þyrfti  Grindavíkurbær að kaupa  hús   fráfarandi bæjarstjóra, ef  húsið  ekki seldist innan tiltekins  tíma. Þá  var sagt :

"Hús fráfárandi bæjarstjóra verður keypt  af bænum....."   

Þetta fannst   fréttastjóra greinilega ekkert  athugavert . En  auðvitað er þetta þolþmyndarþrugl og  klúður.

Eiður (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 12:00

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skrítið hvernig sumir haga sér.  Efast stórlega um að hamingja þeirra sé meir en annarra, en sumum þykir rosalega gaman að berast á.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 13:21

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að þetta tengist þeim sið á Morgunblaðinu að úthýsa kommunni, þar sem það er hægt.  Ég man eftir þessu á þeim tíma, sem ég skrifaði fyrir blaðið, að textarnir mínir voru oft rúnir kommum, þegar þeir komu úr prófarkarlestri.  Líklegast hefði verið betra að segja:

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segist hafa um miðjan dag í gær skilað Hjörleifi Kvaran forstjóra gögnum sem hann fjarlægði af skrifstofum OR.

Marinó G. Njálsson, 14.7.2008 kl. 13:40

4 identicon

Mér finnst skringilegt á hvaða forsendum þú gagnrýnir "flottræfilsháttinn" í laxveiðinni eða ökutæki sem hluta af starfskjörum.

Þegar maður á borð við Guðmund Þóroddsson fær jeppa sem fríðindi þá er það miklu frekar gagnrýnivert á þeim forsendum að Orkuveitan er í eigu Reykjavíkurborgar, en ekki eins og hvert annað einkafyrirtæki. Þegar um mikil fríðindi eða kaupréttarsamninga er að ræða hjá einkafyrirtækjum er að ræða, t.d. bönkum, þá getur það verið gagnrýnivert á þeirri forsendu að stofnunin/fyrirtækið sem slíkt sýslar kannski með almannafé og þar hlýtur sparsemi og varfærni að vera hluti af jöfnunni. Einnig er í mörgum tilfellum illskiljanlegt hvers vegna eigendur slíkra fyrirtækja, hluthafar (í hverra umboði stjórn situr en hún ber ábyrgð á ráðningu stjórnenda) samþykkja slíka blóðmjólkun á eigin starfsemi.

Ég hugsa að þeir sem tekjur hafa eða atvinnu af laxveiði séu því ekkert mótfallnir að þar komi að fjársterkir og eyðslusamir aðilar! Þú segir ennfremur: "Ég veit ekki hvað menn sem haga sér svona í íslenskri náttúru halda sig vera - þeir geta varla litið á sig sem hluta af íslensku samfélagi." Ólína, er það nokkuð atriði í umræðum sem þessum hvort siðlaus eyðslusemi (að þínu mati) fari fram í íslenskri náttúru eða annarsstaðar, t.d. í Kringlunni eða Smáralind. Er analógían sú að vonda ríka liðið spilli náttúrunni (á einhvern óljósan hátt með "eyðslusemi"!) rétt eins og það traðkar á hinni saklausu alþýðu þessa lands. Þú hefur ekki sýnt fram á að náttúran hafi skaðast með af þessu. Ef þetta margnefnda bruðl er jafn mikið mein og þú vilt vera láta þá er það svo aðeins ef verið er að eyða annarra manna fé. Þeirra eigin óráðsía gæti komið niður á þeim sjálfum einhvern tíma og við þurfum engar áhyggjur að hafa af því.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband