Messa er ekki tónleikar

Sudureyrarkirkja Aftur þurfti kirkjukór Suðureyrarkirkju á liðstyrk að halda fyrir Hvítasunnumessuna sem jafnframt var fermingarmessa. Og aftur hringdi Lilja vinkona mín og kórsystir til að biðja mig um að hlaupa í skarðið líkt og fyrir ári síðan. Ég gerði það með gleði og var því mætt hin reffilegasta í messu í dag til að syngja með kórnum.

Að þessu sinni  naut ég góðs af því að hafa verið með í fyrra - kunni bara nánast allt, var meira að segja nokkuð klár á messusvörunum hans Bjarna Thorsteinssonar. Við komumst í gegnum "Heilagan" nokkurnveginn skammlaust held ég, og "Guðslambið" var bara bærilegt, takk fyrir. Wink

Það vakti hins vegar athygli mína að kirkjugestir tóku ekki mikinn þátt í söngnum. Mér finnst það synd satt að segja. Sjálf syng ég alltaf með í messum - nema þess sé beinlínis óskað að kirkjugestir geri það ekki. Að vísu fæ ég stundum augnagotur, en mér er alveg sama. Mér bara finnst að fólk eigi að syngja með. Messa er jú messa, ekki tónleikar.

Fjögur falleg ungmenni unnu fermingarheitið sitt hjá séra Agnesi Sigurðardóttur, prófasti sem þjónaði í Suðureyrarkirkju í dag. Það snart mig að þarna var tekið í notkun nýtt og fallegt altarisklæði sem ein af sóknarkonunum hefur saumað með eigin höndum og gefið kirkjunni í minningu móður sinnar - sem sjálf gaf kirkjunni samskonar klæði fyrir 50 árum. Undurfagurt  klæði - sannkölluð kærleiksgjöf.

Sólin lét ekki sjá sig - en samt fallegur dagur. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Einarsdóttir

Takk fyrir aðstoðina í dag Ólína.  Það er gott að eiga góða að í pokahorninu á stundum sem þessari.  Takk aftur.

Lilja Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 17:56

2 Smámynd: Lilja Einarsdóttir

Já og flott myndin af kirkjunni, hvar fannstu hana ???

Lilja Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 17:57

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er ekki alveg sammála, Ólína. Ég lít svo á að hver messa sé tónleikar og meira að segja með þeim plús að tónleikagestir mega taka undir, ef þeir telja sig þess umkomna.

Þetta er kannski eitt af því sem gerir þátttöku í Kirkjukór svo ánægjulega, að þurfa ekki að bíða heilt misseri eða svo til að skila tónleikum.

Sigurður Hreiðar, 11.5.2008 kl. 18:00

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Súgfirðingar hefðu átt að skikka hann Alexander minn til að syngja þarna með þér í botni, fyrst hann er ættaður frá Botni í Súgandafirði, strákurinn.

En ég er ekki viss um að kallarnir séu að gjóa augunum á þig út af söngnum, Ólína mín. Blink blink!

Þorsteinn Briem, 11.5.2008 kl. 19:13

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sammála Ólína. Ég tók þátt í söng Í Háteigskirkju,messusvörunum, Guðslambinu og Heilögum. Enda söng ég nær alla sunnudaga í 6 ár í Neskirkju og sakna þátttökunnar!

Flott kona Lilja eins og þú reyndar líka.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.5.2008 kl. 19:20

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Inlitskvitt og kær kveðja  Mother's Day Flowers 

Ásdís Sigurðardóttir, 11.5.2008 kl. 22:32

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk, takk öllsömul.

Lilja, þessa mynd gúgglaði ég nú bara og þá kom hún upp með tilvísun á www.kirkjan.net.

Heimir - já, hún er flott kona hún Lilja, ég tala nú ekki um á þessari  mynd sem hún er búin að setja á bloggið sitt.  Hún var nú samt aðeins messulegri í klæðaburði í dag heldur en á myndinni.

Steini - ég sagði ekki að það hefðu verið "kallarnir" sem gjóuðu á mig augum, fyndið að þér skuli hafa dottið það í hug.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.5.2008 kl. 23:34

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir að syngja í gömlu sóknarkirkjunni minni.  Ég sótti þessa kirkju alla sunnudaga þegar ég var barn.  Sat við hliðina á ömmu minni, sem var blind.  Við sátum alltaf á sama stað í kirkjunni, á 2. bekk vinstra megin og við tókum alltaf undir með kórnum og það held ég að flestir kirkjugestir hafi líka gert.  En það var þá

Sigrún Jónsdóttir, 11.5.2008 kl. 23:40

9 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Gleðilega hátíð Ólína!  Þú ert sem ljósgeislí hérna á blogginu. Alltaf gaman að lesa textan þinn, þú er sóma bloggari!  :)

Baldur Gautur Baldursson, 12.5.2008 kl. 06:16

10 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Í mínum söfnuði (kirkjan er á leið upp úr jörðinni) er mikið sungið.  Okkar prestur hvetur söfnuðinn til að taka undir af krafti í öllum messum (sálmum, svörum og öllu saman).  Það er greinilega orðið of langt um liðið síðan hún var prestur á Suðureyri, sem var um það leyti sem Alexander sonur Steina fæddist.  Steini minn, strákurinn þinn er (förlist mér ekki þeim mun meira) af Laugaættinni, barnabarnabarn Sigríðar Pétursdóttur Sveinbjörnssonar á Laugum, og fjórmenningur við fimmta fermingarbarn Súgfirðinga þetta árið, bróðursonur minn Valgeir Skorri Vernharðsson sem fermist í Staðarkirkju þann 16. ágúst n.k.  Hann er barnabarnabarn (í móðurætt) Jófríðar Pétursdóttur, Sveinbjörnssonar (fyrr nefndur).

Sigríður Jósefsdóttir, 12.5.2008 kl. 15:11

11 Smámynd: Yngvi Högnason

Sammála með tónleikahaldið en þegar menn eins og til dæmis ég mæta í kirkju þá er betra að hafa munninn lokaðan. En eitt sinn var ég á þriðja tíma aleinn í kirkjunni á Suðureyri og saknaði ekki kórsins,hann hefði truflað mig við uppsetningu skrautgluggana sem að ég setti saman fyrir kirkjuna.

Yngvi Högnason, 12.5.2008 kl. 15:16

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er gaman að uppgötva það hér hversu margir af þeim sem hafa verið hér inni á síðunni minni tengjast Suðureyrarkirkju með ýmsum hætti.

Þetta er svo sannarlega lítill heimur -  og landið enn minna.

Nú væri Hallvarður Súgandi kátur - væri hann enn við lýði.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.5.2008 kl. 16:05

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæl og blessuð, Sigríður! Jú, Sigga, kvikmyndafræðingur hjá RÚV, er mamma hans Alexanders og hún er dóttir Péturs ljósmyndara á Húsavík, sem er sonur alnöfnu hennar frá Botni í Súgandafirði. Ég heimsótti hana nokkrum sinnum þegar hún bjó á Nönnugötunni hér í Reykjavík og það var mjög gaman að spjalla við hana.

Og Alexander fór með mömmu sinni á gríðarstórt ættarmót fyrir vestan í fyrrasumar. Ég segi þeim frá þessu í kvöld.

Með góðri kveðju,

Þorsteinn Briem, 12.5.2008 kl. 16:38

14 identicon

Skemmtilegur pistill hjá þér og já gaman að sjá hve margir eru tengdir kirkjunni á Suðureyri.  Sjálf er ég Súgfirðingur og tengist því kirkjunni einnig.  Kíki hér við af og til og les pistlana frá þér er nú ekki dugleg við að kvitta en geri það núna. Kveðja af Skaganum

Anna Bja (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband