Olíuhreinsistöð - hver er að stjórna?

olíuhreinsistöð Þá hefur hulunni verið svipt af því hverjir standa á bak við hugmyndina um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ég segi hugmyndina - því það vill brenna við í umræðunni að menn tali eins og olíuhreinsistöð sé orðin staðreynd. Hún hljóti að koma úr því allir eru að tala um hana.

 En nú hafa 24 stundir upplýst það sem líka kemur fram á skutull.is í dag, að það eru rússnesku olíurisarnir Gazprom og Lukoil  sem standa þarna að baki. Þessi fyrirtæki ku vera samstarfsaðilar Geostream (móðurfyrirtækis Katamak-NAFTA) ásamt vestrænu olíufyrirtækjunum Shell og Exxon Mobil. Þetta eru sumsé fyrirtækin sem Íslenskur hátækniiðnaður hefur átt í viðræðum við um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þá eru stór bandarísk verktakafyrirtæki, Halliburton og Washington Group, einnig nefnd sem samstarfsaðilar.

Á heimasíðu Katamak-Nafta kemur einnig fram að félagið hafi valið Íslands sem stað fyrir olíuhreinsistöð vegna þess að hér sé orkukostnaður afar lágur og að hér sé hagstætt fjárfestingaumhverfi. Þá er það talið til kosta að flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum og ákvörðunarferlið geti því gengið hratt fyrir sig.

Í máli Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi í síðustu viku kom fram að ráðuneytið hefði ekki vitneskju um hvaða fjárfestar stæðu að baki olíuhreinsistöðinni, sem yrði í heild verkefni upp á rúma 400 milljarða króna, ef af yrði.

Hann áréttaði einnig að losun stöðvarinnar myndi ekki rúmast innan losunarheimilda samkvæmt skuldbindingum Íslands fyrir árin 2008-2012. Því þyrfti annað tveggja að koma til, förgun/nýting koltvísýrings eða aðkeypt losunarheimild erlendis frá af hálfu framkvæmdaraðila.

Hvernig ætla stjórnvöld nú að leysa þennan vanda? Olíurisarnir fagna því að "flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum".

arnarfjordur Ég verð að viðurkenna að nú er vakin hjá mér sá uggur í brjósti að kannski sé málið ekki raunverulega í höndum stjórnvalda - heldur misviturra sveitarstjórna sem líta á þetta sem sitt einkamál. Eins og við sáum til dæmis í Helguvíkurmálinu þar sem umhverfisráðherra virtist ekki geta haft áhrif, þó gefið væri sterklega í skyn að staða málsins væri henni á móti skapi.

Hmmmm .... Kyótó bókunin hvað? Ég er óróleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elskan mín, þetta hefur allt legið fyrir lengi. Óli frændi, President Pútín og ég erum allir góðir vinir. Rússnesk olía og Pútín verða ekki aðskilin og Óli var sendiherra í Moskvu. Olíustöð fyrir vestan: Islandija, net problem!

Þórunn umhverfisráðherra
hefur ekkert um umhverfismál að segja. Alla vega ekki hér á Íslandi. Gleymdu þessu bara. Og nú er að drífa alla Vestfirðinga á námskeið í rússnesku: "Dobryj den', president Putin! Kak dela?"

Látum náttúruna njóta afans.


http://en.wikipedia.org/wiki/Vladimir_Putin

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 16:28

2 identicon

Vögguvísa Vestfirðings:

Illa er henni við olíu,
Ólína fær bara klígju,
og sér nú kaupir síu,
síar burt alla ullabíu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 17:00

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst tilhugsinin um olíuóþverran skelfileg, nánast martraðarkennd.

Takk fyrir þennan fróðleik.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2008 kl. 17:08

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég setti inn færslu um þetta í dag og bíð spennt eftir Kompásþættinum í kvöld. Skoðaðu athugasemdirnar með færslunni líka, þar bætist svolítið við.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 17:29

5 Smámynd: Sævar Helgason

Það virðist sem hver fari sínu fram ,sem áður fyrr var talið heyra til Alþingis.

Ríkisendurskoðun er núna með harða gagnrýni á stofnanir og fyrirtæki í opinberum rekstri.  Þau komast upp með framúrkeyrslu fjárlaga sem um þeirra eigin eign sé að ræða. Alþingi virðist ekkert ráða við óráðsíuna.

Meðlimir sveitafélaga sem kosnir eru á fjögurra ára fresti og ekki alltaf með burðugan bakgrunn margir hverjir- þetta fólk getur ákveðið  að úthluta heimild til erlendra aðila um að planta niður eitt stk risa olíuhreinsunarstöð upp á hundruð milljarða - nokkur hundruð manna byggðalag.

Þetta ráðslag fyrirkomulag er afurð frá síðasta stjórnarsamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. 

Sævar Helgason, 15.4.2008 kl. 18:25

6 identicon

Svar iðnaðarráðherra á Alþingi um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum:

http://www.althingi.is/altext/135/s/0785.html

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband